Færsluflokkur: Bloggar

Rólegheit

Ekkert nema rólegheitin hérna á mér. Svaf að sjálfsögðu vel og lengi. Búin að eyða seinni partinum og öllu kvöldinu í lestur í fræðunum, enn að vasast í stefnu og stefnuframkvæmd í opinberri stjórnsýslu.  Sækist lesturinn hægt, finn mér alltaf tylliástæðu til að standa upp og gera eitthvað.

Allir komnir í ró enda klukkan 01.30 hér og ræs snemma í fyrramálið. Kata á einn dag eftir í próf í eðlisfræði (Biophysics) og síðan tekur efnafræðin við ef allt gengur að óskum. Haffi á kafi í sinni meinafræði, búinn að vera í nokkra daga að lesa um hvítblæði og eitlakrabbamein en hvorutveggja eru með ótal undirflokka. Þessi hluti efnisins þó einungis um 20% af heildarefninu þannig að mikið er eftir.

Tíminn æðir áfram og styttist óðum í heimferð. Þyrfti að vera duglegri í verkefnavinnunni, þarf eiginlega að klára hana ef vel á að vera. Langar ekki að sitja með þessa pakka fram í ágúst á næsta ári. Þarf einnig að setja upp áætlanir fyrir næstu önn þannig að það er engin hætta á að mér leiðist þó ég sjái krakkana varla nema í mýflugumynd. Þarf að koma mér út í búð, allir búnir að fá upp í kok af hangikjöti og reyktum mat.  Það þarf hins vegar nokkuð mikinn kjark til að gera sig skiljanlegan við kjötborðin hér í Debrecen þegar kemur að innkaupum, menn skilja ekki ensku hér þannig að það er annað hvort að nota alþjóðlega táknmálið eða sleppa innkaupunum. Ekki mín sterka hlið að leika eftir dýrum og alls ekki tilbúin að fara að baula fyrir framan kjötiðnaðarmennina hér en ýmislegt hef ég nú látið mig hafa engu að síðurWhistling

Tel mig lengi hafa vitað hversu erfitt námið er hér úti en maður minn, það er mun meira krefjandi en ég hafði ímyndað mér!  Hér er kafað ofan í hverja frumeind eins og hún kemur fyrir, ekkert undanskilið. Það sem flokkast sem 3 ein. áfangar hér eru samsvarandi 5-7 ein. áföngum heima, grínlaust! Það er ekki af ástæðulausu sem Háskólinn í Debrecen er talin með þeim 10 bestu í heimi. Þeir sem komast í gegnum námið hér, hljóta að standa vel að vígi að loknu námi. Ég er ekki lítið stolt af ungunum mínum; þvílík þrautseigja og harka segi ég nú bara. Afföllin hafa verið nokkur í hópnum hennar Kötu, allmargir gefist upp og farið heim. Mín þraukar enn og er að standa sig mjög vel. Haffinn á þvílíkri siglingu að móðirin er að rifna af stolti. Nokkuð hefur verið um fall og aföll í hans hóp líka. Hann þraukar enn þó erfitt sé að vera í öðru landi.  Hvað getur maður óskað sér frekar? 

 


Pælingar

Miklar pælingar síðustu daga, nægur tími til hugsana. Styttist í áramótin, uppgjör á hinu liðna ári/árum og upphaf á nýju lífi. Hef heitið mér því. Þýðir ekkert að halda fortíðina og hjakka í sama farinu. 

Ef hlutirnir væru í eðlilegum farvegi værum við að hleypa til í fjárhúsunum, nú er þeim kafla lokið. Þau kaflaskil eru ekki sársaukalaus. Á ekki að kvarta, er með krökkunum mínum sem er meira en margur getur sagt. Í raun á ekki að skipta máli hvar maður er á þessum tíma, svo fremi sem maður er með sína nánustu í kringum sig. Er samt hálf fegin að aðfanga- og jóladagur séu liðnir. Erfiðasti hjallinn að baki, fram að gamlárskvöldi....

Krakkarnir farnir inn eftir 12 tíma lestur, ræs kl.08 í fyrramálið, sama prógrammið. Reyni að passa upp á að þau borði reglulega, eitthvað sem þau virðast ekki lengur þekkja. Kalt úti, nýfallinn snjór og stillt veður. Mér sýnist ekki það sama uppi á teningnum heima á Fróni, enn önnur rokan. 

Hef ekki verið dugleg að fara í göngutúra hér í kring, hálf hrædd við útigagnsmennina sem leita sér af einhverju matarkyns  hér um slóðir, ekki síst Sígaunar, skilst mér. Ætti samt að vera í lagi að degi til. Ekki laust við einhver flensueinkenni í dag, kuldahrollur og beinverkir. Haldið mér inni við með þá afsökun að það sé of kalt úti.  Reyktur matur ætlar að fara illa í mína sem ekki bætir úr skák, uppáhaldið mitt. Nóg hafði ég fyrir því að koma steikinni og hangikjötinu út í töskunni góðu.   Svei mér ef maður er ekki orðinn eins og postulínsbrúða, vafin inn í bómullarhnoðra. Það má ekki blása á mig. Tek á þessu á nýju ári, engin spurning. 

Stunda ,,innhverfa íhugun" og rækilega naflaskoðun þessa dagana, leita af farvegi fyrir nýja lífið mitt.  Enn að leita af áttavitanum en farin að sjá til sólar.  Er það ekki byrjunin af einhverju jákvæðu, eða hvað? Fylgir maður ekki sólarganginum Whistling  Ekki laust við ákveðna tilhlökkun að vera fær um að ljúka ákveðnum kafla og hefja nýjan.

Hef notið þess að vaka fram eftir og sofa út. Ekkert sem rekur á eftir mér, búðarápið og gjafainnkaupin búin, ekkert nema rólegheit og tóm sæla. Glugga í fræðin á milli pælinga, verð auðvitað að ljúka við hvorutveggja; verkefnin og ákvörðunartöku um framhaldið.  Er ekkert að flýta mér samt, vafra um á netinu eða á ungversku og þýsku sjónvarpsstöðvunum þegar mér dettur í hug, skutla í eina og eina vél og sé til þess að hafa mat á borðum. Punkta niður í bókina mína góðu inn á milli.

Búin að hafa það fínt þessa daga, krakkarnir yndislegir og allt lukkast vel. Hef samt einhvern veginn ekki komist í hið eina og sanna ,,jólaskap".  Finnst jólin ekki komin ennþá. Er ekkert að ergja mig á því, finnst það sérstök tilfinning engu að síður.

Kvöldinu ætla ég að ljúka með góðri mynd af DVD disk (The Band of Brothers) og fullri poppskál.  Sef klárlega út í fyrramálið. Ég á ótrúlega gottInLove

 systkinin hjá arnold


Afmæli

Til hamingju með afmælið Haffi minn!Wizard

Deginum eytt í próflestur en ég fæ klukkutíma lánaðan til að hafa smá afmæliskaffiSmile


Mætt á svæðið

Jæja, mín komin til Debrecen, þvílíkur léttir! Auðvitað gekk það ekki hnökralaust fyrir sig frekar en fyrri daginn hjá mér. Bras fylgir mér, í bókstaflegri merkingu þess orðs enda hef ég gjarnan kallað mig Brazelíu.

Ferðin tók 22 klst frá því ég lagði af stað að heiman kl.04. eftir 40 mín. lúr.  Að sjálfsögðu var kílómeters löng biðröð í tékkið, einungis 3 fulltrúar að tékka farþega inn framan af en síðan fjölgaði þeim um aðara 3 og hjólin farin að snúast. Loks kom að mér, en úps! Taskan of þung  tjáði mér ungur og hrokafullur maður á hraðri uppleið, að honum finnst greinilega. Í stuttu máli varð framvindan sú að hann sá sér ekki fært um að leiðbeina mér en töskuna skyldi ég létta um 13 kg. með einhverjum hætti  og ég aðeins með agnarsmáa töksu fyrir handfarangur. Eftir 3 tilraunir varð hann sáttur og tók töskuna á bandið en með semingi þó, það munaði 900 gr. á þeirri þyngd sem hann setti upp. Í 80 mín mátti ég sitja á fjörum fótum, umpakka, umraða og grisja út þá hluti sem máttu missa sín og síðan einfaldlega henda þeim. Um 60-70 manns stóðu fyrir aftan mig og fylgdust grannt með. Á meðan þessum hörmungum stóð sá ég hverja töskuna á fætur annarra fara á bandið sem voru 5 kg. léttari en mín í upphafi en 5 - 6 kg. þyngri en endanleg þyngd varð á minni. Hrokinn í drengnum eftirminnilegur, kannski er það ,,uniformið" sem stígur honum upp til höfuðs. Í öllu falli hefði hann mátt vera ögn meira upplýsandi, sýna faglegri framkomu og vera hjálplegri. Ég mun láta í mér heyra á réttum stöðum. Þegar upp var staðið mátti ég henda eigum fyrir tugi þúsunda til að komast með, þrátt fyrir þá staðreynd að þyngd farangursins var undir hámarksþyngd skv. upplýsingum á bandinu. Ég greiddi að sjálfsögðu fyrir mína yfirvigt þannig að flugfélagið tapaði ekki á minni yfirvigt. En með Iceland Express mun ég aldrei ferðast með, a.m.k. ekki nema í agjörri neyð.

Næsta ævintýrir var öryggshliðið. Fimm sinnum vældi og pípti, átti ekki langt í það að standa á nærfötum einum saman þegar loks fannst tyggjópakki sem virtist sökudólgurinn. Ég rétt náði að komast í vélina áður en henni var lokað, töskuvesenið tók vel á annan tíma þannig að enginn tími var til að skoða sig um í fríhöfninni, né til að borða. Svaf alla leiðina út til Köben. 

Þegar þangað var komið tók við 9 kls. biðtími. Of syfjuð til að fara niður í bæ þannig að ég taldi það skásta kostinn að vera kyrr á vellinum og freista þess að getað lagt mig einhvers staðar. Nei, ekki hægt að tékka sig inn þar, engir stólar til að sitja á né bekkir. Mín varð að þramma um, stoppa á hinum ýmsu teríum og þamba kaffi til að halda sér vakandi. Fékk lokst að tékka mig inn um kl.16 og var allt annað líf að bíða þar fram að brottför kl.20.20. Ekki mikið hægt að versla í þessari riasafríhöfn, verðlagið svakalega hátt.

Klukkutímaseinkun á vélinni frá Köben til Búdapest, einthvert öryggistékk á henni á brautinni. Lent um kl.23. í Búdapest, eilífðarbið eftir farangri. Var orðin svo örmagna að ég vissi ekki hvernig ég ætti að taka töskurnar af bandinu en allt hafðist þetta. Ein ekki lítið glöð að fara í gegnum dyrnar þegar töskurnar voru komnar. Hver beið svo þegar út var komið? Enginn önnur en Katrín Björg! Búin að leggja á sig 3 klst. akstur í leigubíl, bíða í rúman klukkutíma á vellinum og síðan tók við tæpl. 3 tíma akstur heim. Ótrúleg stelpan og það í próflestrinum. Haffinn varð að vera heima enda próf í dag.

Það voru þreyttar mæðgur sem fóru að sofa kl. 04 í nótt og sofið frameftir í dag. Við létum okkur hafa það að drífa okkur í 2 ,,moll" þar sem hún sýndi mér hvert helst væri hægt að fara til að versla. Gerðum skurk í jólainnkaupum og fórum heim með þrælflott jólatré, akkúrat í mínum stíl; þétt og bústið og ekki of stórt.  Næstu dagar fara eingöngu í lestur hjá krökkunum þannig að nú verð ég að bjarga mér sjálf og ganga hægt um hér til að trufla þau ekki. 

Ótrúlega gott að vera komin til þeirra. Örmagna en ofboðslega ánægð. Ég náði engan veginn að útrétta það sem ég þurfti áður en ég fór að heiman, það verður bara að hafa það, ég verð bara að gera betur næst og reyna að bæta skaðann með einhverjum hætti. 

Hef miklar áhyggjur af bloggvinkonu minni henni Þórdísi Tinnu, hvet alla til að kveikja á kerti fyrir hana og dóttur hennar. Hún er algjör hetja sem hefur, líkt og Gillý, haft mikil áhrif á mig og samferðafólk sitt. Baráttujaxl fram í fingurgóma og hef ég alla trú á því að hún komist yfir núverandi erfiðleika. Góðar fyrirbænir og hlýjar hugsanir geta aldrei annað gert en gott.   

Í kvöld verður farið snemma að sofa, ótrúlega syfjuð og mikil lufsa. Verð hressari á morgun. 


Bara alls ekki hægt!

Þetta er nú meiri rússibaninn síðustu vikurnar. Ég sofnaði ekki fyrr en undir morgun síðustu nótt, reif mig upp eftir 2ja tíma svefn í morgun og upp á Skaga. Sjúkrapróf biðu þar og tafarlaus yfirferð enda átti allt að verða klárt fyrir hádegi. Mikil stemning og fjör. Ótrúlega gaman þegar allt fer vel. 

Af augljósum ástæðum eyðilagði ég seinni  part dagsins. Var með ótal plön á prjónunum enda af nógu að taka. Náði nokkrum útréttingum eftir hádegi, skrapp síðan heim um kl. 17.00 svona rétt til að viðra tíkurnar og leggja mig smá. Sá ,,stutti" lúr varði til kl. 22.30 í kvöld!  Geri nú aðrir betur. Ég á mér fáa líka. Kvöldið farið, öll áform út um þúfur. Of seint að hringja í nokkurn mann og var listinn nokkur. Og það sem meira er, hef ekki krafta til að gera neitt af viti. Hef lufsast þetta í hálfgerðri angist, svo rosalega margt eftir að gera og tíminn naumur. Vá, hvað ég er svekkt út í sjálfa mig. 

Morgundagurinn pakkaður, Skaginn fram að hádegi, á eftir að koma tíkunum og kettinum fyrir á hinum og þessum stöðunum, þ.á.m. í Keflavík, skreppa í heimsókn til Tóta, fara í búðir og útrétta, gera klárt, fá Securitas heim;  listinn endalaus. Á eftir að koma sendingu af mér vestur og ég veit ekki hvað og hvað.  Þarf að vera komin upp kl. 03 í síðasta lagi, sennilega verður svefni sleppt þá nóttina. Fæ svo sem tækifæri til að leggja mig í Köben, stopp þar í 6-8 klst. Skilst að það sé hægt að leigja sér svefnaðstöðu á vellinum og það tækifæri örugglega nýtt. Eins gott að muna eftir spartsli og sólarpúðri!  Verð komin til Debrecen upp úr kl.01 á miðvikudagskvöld. Tek trúlega bíl frá Búdapest sem tekur tæpa 3 klst. en besti kosturinn á þessum tíma sólahrings og ekki sá dýrasti, um 5000 kr. íslenskar. Það verður trúlega tuskuleg móðir sem mætir á svæðið sem lúrir fram eftir degi á fimmtudag. Það kemur sér vel að framundan eru rólegheit og EKKERT jólastress. Ætla nú samt að gera smá jólalegt þarna útiWhistling

Á eftir að kaupa allar jólagjafir. Eins gott að vöruúrvalið sé gott í Debrecen, næ kannski 1-2 fyrir brottför.... Hálf geggjað að fara í verslunarmiðstöðvarnar hér heima og tekur tíma. Sá traffíkina í dag; hvernig er hún þá á kvöldin og um helgar......??

Kosturinn við að hafa sofið af sér kvöldið er náttúrlega fyrst og fremst að þurfa ekki að hlusta á þetta bév... veður, enn og aftur lægð og aftur lægð.  Þetta veðurfar fer óstjórnlega í taugarnar á mér!  Einfaldlega þoli ekki þetta endalausa rok og rigningu. Ætti einnig að hafa náð að hlaða batteríin fyrir morgundaginn og vera arfahress í samræmi við það. Sé það hins vegar núna að trúlega hefði verið skynsamlegra að fara einum degi síðar út en það var svo sem ekki hægt að sjá þetta allt fyrir.

Ekki það að svona stress er ekki ný bóla hjá mér, man eiginlega ekki eftir neinum áformum og plönum öðru vísi en að vera á elleftu stundu.  Engum að kenna nema sjálfri mér. Vanmet aðstæður allt of oft.  Tel mig afkastameiri en ég er eða sólahringinn lengri, nema hvorutveggja sé. 

Þýðir svo sem ekkert að svekkja sig á kvöldinu, það er liðið og ég get ekki breytt því.  Reyni að bretta upp ermar á morgun, skipuleggja mig vel og reyna að gleyma engu.

Ætla að nota tíman vel úti í verkefnavinnu og ritstörf. Krakkarnir verða á kafi í próflestri þannig að ég þarf að tipla á tánum en ætla nú samt að dekra við þau. Gæti alveg hugsað mér að vera í Debrecen að vori, hugsa um ungana og skrifa. Fjarlægur draumur en allt í lagi að láta sig dreyma. Mér liggur á að koma bókinni frá mér, búin að læra það loksins að tíminn er ekki endalaus og góð heilsa ekki sjálfsögð. Þarf að nýta tíman vel. Ég hlakka ekki lítið til næstu dagaSmile


Dagsverki lokið

Þá er dagsverkinu lokið, borðið tæmt. Búin að koma gögnum frá mér, nýskriðin og allt í lukkunnar standi. Nú er eins gott að vakna í fyrramálið, síðasta lotan á önninni. Er nokkuð sátt við árangur dagsins sem og annarinnar.  Ótrúlegt hvað frágangurinn er tímafrekur.

Næsta skref að klára allar útréttingar, finna vegabréfið og pakka niður í tösku. Náði hvorki að þiggja matarboð hjá Systu og Tóta, né heyra í krökkunum í kvöld. Varð að skila af mér í kvöld í síðasta lagi, enginn frestur í þeim efnum.  Reyni að bæta það upp á morgun. Styttist í frí á öllum vígstöðvum, mun nota tíman vel úti til endurmats á mörgum þáttum og tengslum. 

Það er þetta með systurnar; gleðina og sorgina eins og mér var réttilega bent á, þær haldast í hendur. Stndum ræður önnur meira ferðinni, það þekkja allir sem kynnst hafa sorginni og erfiðleikum. Engin ástæða til að örvænta, eðlileg viðbrögð á erfiðum tímum. En það er eins og með allt; sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

 

 


Lífsmark

Er bókstaflega að drukkna, mikil vinnutörn. Eiginlega meiri en ég gerði mér grein fyrir. En þó lífsmark með mér. Allt tekur þetta á enda og ég sé fram á að ljúka mínum skilum fyrir lok frests. Allt annað situr á hakanum og þannig verður það einfaldlega að vera. Aðalatriðið að klára sína pligt.

Sé ekki fram á klippingu og dekur fyrir brottför, verð með allt niður um mig í þeim efnum sem og  mörgum öðrum. Í raun skiptir það engu máli hvort einhver grá hár séu farin að gægjast. Hárið er á sínum stað og ekki áberandi ,,kaflaskipt". Sé ekki annað en að ég megi þakka fyrir að komast um borð í vélina á miðvikudagsmorgun. Jólagjafkaup  og annað veraldlegt stúss verður að bíða betri tíma.

Náði að drösla garðhúsgögnunum inn fyrir, voru fokin hingað og þangað í morgun enda skal engan undra. Heppin að þau skuli ekki vera í frumeindum. Verð að viðurkenna eins og er að þessi stormar og fárviðri fara í taugarnar á mér. Sef illa í þessum hamagang, bíð eftir að rúðurnar gangi inn í öllum hamaganginum.  Var hins vegar býsna stolt að ná að koma dótinu inn í hús, hjálparlaust!

Ekki spennandi spáin  fyrir morgundaginn og ég með próf í fyrramálið. Það má eiginlega ekki klikka að ég komist í tæka tíð. Ekki enn komin á nagla en drifið virkar ágætlega og ekkert annað að gera en að fara rólega, verði fært yfir höfuð. Hvenær linnir þessum umhleypingum? Vonandi áður en febrúar rennur upp en einhver spáði því að svona yrði þetta í 3 mán frá nóv að telja. JakkSick

Hlakka mikið til helgarinnar, skal takast það að setjast niður með kertaljós, geisladisk og jólakort! Nú dugar enginn Þyrnirósasvefn. Þarf að nýta hverja einustu mínútu. Er orðin lúin og tætt, verð að hlaða batteríin næstu daga. Ætla mér ekki að gera það með tómum svefni og leiðinlegum draumförum.

Úff hvað mér kvíðir fyrir veðrinu í fyrramálið, allar björgunarsveitir í viðbragðsstöðu var ég að lesa á skessuhorn.is. Ekki lítur þetta björgulega út. Best að koma sér í koju til að hafa þrek í verkefni morgundagsins. Þetta er allt að hafast.  Hvað skyldi ég fá í skóinn?Whistling


Andvaka

Gjörsamlega búin að snúa við sólarhringnum og næ ekki að sofna. Eins gott að það sé ekki ræs kl. 06.30 eins og oftast. Dagurinn byrjar aðeins seinna. Ætti að ná að snúadæminu við, framundan nokkuð strembin vika.

Hef setið við og verið í yfirferð á verkefnum síðan um miðjan dag, var rétt að klára dagskammtinn. Enn nokkur bunki eftir en smátt og smátt að saxast á hann. Er óttalega lengi að þessu öllu. Hef lítið gert þessa helgina annað en að þrífa og vinna, rétt kíkti út með tíkurnar sem voru auðvitað hæstánægðar og hlupu í loftköstulum, aðallega sú yngri. Sú gamla er  farin að lýjast sýnist mér og ég er ekki frá því að hún sé orðin kulsækin, blessunin. Þarf að komast með hana í tékk, annað gengur ekki. Hef verið svolítið kærulaus þessa helgina.

Tíminn flýgur áfram, kominn 10 des og ég er ekkert farin að hugsa um jólin. Ekki einu sinni búin að kaupa jólakort, hvað þá meira. Trúlega einhver raunveruleikaflótti þar á ferð, alla vega svona í bland.  Ekki nema 9 dagar í brottför hjá mér, ef allt gengur upp. Er þó farin að sanka að mér kjöti af ýmsu tagi.

Prófatörn framundan hjá krökkunum, nú verður setið við og djöflast í gegnum námsefnið. Eru að klára síðustu hlutaprófin fram undir jól og síðan hefst alvaran. Það verður svolítið skrítið að vera þarna úti, engin hátíðarmessa kl. 18 á aðfangadagskvöld í útvarpinu né fréttaannáll á gamlársdag. Engar rakettur eða blys. Krakkarnir í próflestri þannig að fátt annað kemst að.

Ég hlakka þó til að snudda í kringum þau og þykjast ómissandi. Fæ næði til að vinna í bókinni, veit ekki alveg hvort það verði ,,Oddvitinn" eða ,, Dalalíf 2" ,,Sturlungaöld hin síðari", ,,Hjúkkan" eða eitthvað annað.  Allt kemur það í ljós, liggur ekkert endilega á, er ekki á förum strax. Þigg allar góðar tillögur.

Satt best að segja held ég að það sé langbesta lausnin að vera fjarri amstri og minningum þó þær vissulega sæki á mann, hvar sem maður er staddur. Í öllu falli ekki skynsamlegt að vera ein á þessum tíma. Hugsanirnar sækja á og sorgin nístir enn. Ég á langt í land ennþá, það finn ég. Það er hins vegar eðlilegt, ekki liðnir nema 10 mánuðir. 

Verið með skásta móti af þessum blessuðu magaóþægindum sem eru greinilega álagstengd.  Fer að verða fær í flestan sjó svo fremi sem ég gæti þess hvað fer ofan í mig. Þoli ekki allan mat en ég græt það ekkert. Matarlystin er hvort eð er ekkert til að hrópa húrra fyrir. 

Nú er ekkert sem heitir! Næsta skref að slökkva á tölvunni og fara að telja rollur. Þær verðu örugglega margar þessa nóttinaBlush

 

 


Styttist í vikulok

Loks farið að síga á seinni hluta vinnuvikunnar, hlakka mikið til helgarinnar. Reyndar eitt heimapróf á sunnudag en það verður bara að koma í ljós hvernig það fer. Í öllu falli vakna ég kl. 07 og slekk á öllum símum kl. 08 og þar til prófi lýkur seinni partinn. Viðfangsefnið eru sveitarstjórnarmál.

Er enn að synda í stefnuleysinu í víðum skilningi þess orðs. Búin að finna heimildir er lúta að verkefnavinnunni frægu en ekki komist í að hefja þá vinnu að ráði, of mikið að gera á öðrum vettvangi. Er með hugan engu að síður við þessi mál, ekki síst ástandið í minni fyrrum heimabyggð. Er enn kjaftstopp og miður mín. Ég einfaldlega skil ekki hvernig opinber málaflokkur sem sveitarstjórnamál og stjórnun þeirra geta þróast eins og raun ber vitni. Hentugleikastjórnun, stefnuleysi og algjört ábyrgðarleysi meirihlutans. Þetta ástand er í raun grátlegtCrying

Næstu 2 vikur verða áfram strembnar og verkefnaskil tæp. Er fegin að þurfa ekki að standa í jólastressinu hérna heima, gæti hvort eð er ekki byrjað á neinu að viti fyrr en eftir 18. des. og þá er ekki langur tími til stefnu. Við höfum þetta rólegt og nice þarna úti!

Allt gengur vel hjá krökkunum, Kata þarf ekki að taka eins mörg hlutapróf og flestir, búin að ávinna sér rétt til að sleppa sumum þeirra og stytta einnig lokaprófin. Haffinn heldur áfram að verma efstu sætin í sínum árgangi, fékk frábæra niðurstöðu í dag. Vantaði 0,1 til að ná hæstu, mögulegu einkunn. Honum fannst þetta náttúrlega fáranlega nálægt og því svekktur en vá, hann er að brillera drengurinn. Ekki það að einkunnir og próf eru ekki allt en gott ef hvorutveggja er í samræmi við vinnuframlag og væntingar. Katan kemur heim um leið og ég þann 5. janúar en Haffi verður lengur í prófunum þar sem þau standa lengur yfir. 

Ætla rétt að vona að það snjói ekki meira í bráð þó mér finnst yndislegt að hafa snjóinn. Er ekki komin á naglana ennþá, á eftir að finna dekkjaverkstæði sem tekur að sér að geyma dekkin, hef ekkert pláss fyrir þauFootinMouth

Verð með próf í fyrramálið og gott ef ég er ekki með yfirsetu á sama tíma, svei mér þá! Það verður sjón að sjá mig hlaupa endanna á milli....Ekki veitir minni af hreyfingunni Shocking 

Það verður hins vegar yndislega ljúft að komast í helgarfrí þó nóg verði að gera, maginn ennþá að stríða mér. Finn að einkennin aukast þegar álagið eykst. Allt helst þetta í hendur. Er ákveðin í að hægja á mér eftir áramót, hvernig sem ég fer að því. Mér leggst eitthvað til. Sé fyrir mér janúar mánuð í sæluvímu, krakkarnir heima, a.m.k. hluta mánaðarins og þá verður tekið á ýmsu sem setið hefur á hakanumWhistling


Kolfallin

Ekkert varð úr draumórum mínum um þennan daginn. Lét mig dreyma um að fara hér um eins og hvítur stormsveipur um íbúðina og ég í jólaskapi. Ekki það að það hefur ekkert verið að skapinu mínu, ég komst bara ekki í jólaskap. Hvernig má það vera þegar maður drattast varla fram úr og nýtir hverja smugu til að ,,aðeins að leggja sig"?

Sem sagt, vaknaði reyndar og ,,stand by" fyrir útkall en fékk frið. Ekki lengi að henda frá mér blöðunum og skríða upp í. Það var ekkert lítið notalegt með rokið standandi upp á gluggann svo hvein í. Mín hafði sig með herkjum fram úr um hádegi (eða rúmlega það) og nú var tekið á því. Blöðin lesin og krossgáturnar ráðnar. Sá tími passar akkúrat á meðan ég er að komast í gang, losna við verkina og fá almennilega hreyfigetu, fyrst í fæturna og síðan fingurnar.  Allt hafðist þetta.

Næsta skref var að setja á sig andlit og drífa sig út í búð, þurfti að leysa út lyf þannig að Mjöddin varð fyrir valinu. Krögt af fólki, aðallega eldri borgurum á bílum og hvergi hægt að fá stæði.  Slabb og skemmtilegt úti og ég þurfti að ganga spölkorn til að komast inn í þetta fróma ,,moll". Á leiðinni keyrðu margir bílar fram hjá mér á nokkurri ferð þannig að þegar inn var komið voru fínu skórnir mínir gegnsósa og gallabuxurnar líka, upp að hnjám.  Fíni, svarti rúskinsjakkinn minn ekki svipur hjá sjón. 

Við tók örtröð í apótekinu, ákvað að prófa Bónus apótekið eða hvað það nú heitir. Ein afgreiðslustúlka og einn lyfjafræðingur að störfum.  Sú fyrrnefnda eyddi rúmum 20 mín í að fræða eldri borgara um vítamín og steinefni. Litla rými apóteksins stútfylltist auðvitað á þessum tíma og nú dugði frumskógalögmálið þegar kom að biðröðinni. Gaf mig ekki, rétti skvísunni lyfseðillinn og sagðist koma aftur eftir smá. Nennti ekki mitt litla líf að hanga þarna inni enda búin að þræða allar hillurnar.
Ekki tók betra við inni í Nettó, var fljót að hætta við fyrirhuguð innkaup, henti einhverju smotteríi í körfuna og nánast hljóp í röðina. Vá, þvílík röð. Sýndist afgreiðslufólkið ýmist á fermingaaldri eða á svipuðu reki og flestir kúnnarnir, sem sé á sjötugs aldri og þar yfir. Viðbrögðin  auðvitað eftir því. 

Í apótekinu tók sama biðin við og þegar ég slapp út sá ég að ég hafði verið um 1 klst. og 40 mín. í þessari búðarferð! Kom heim með lyfjapoka, og nokkra hluti í poka úr Nettó.  Ég hreinlega skil ekki í mér að fara aftur og aftur í Mjóddina. Veit að Katan glottir núna. Ég hreinlega þoli ekki þetta moll, hvað þá Nettó!  Hvað var ég að hugsa????Ég hefði verið fljótari ofan í miðbæ eða Smáralindinna. W00t Aldrei aftur og nú stend ég við það. Minnir mig rækilega á það að þó vöruverð sé hærra úti á landi þá hentar landsbyggðin mér mun betur. Reykjavík er einfaldlega ekki fyrir mig. 

Dröslaðist með moppuna á brýnustu svæðin og settist svo við að halda áfram að leysa gátuna um stefnu stjórnvalda og stefnuframkvæmdir. Loks varð ljós!  Vá, þvílíkur léttir en bíddu nú við hugsaði ég með mér. Hvert eru íslensk stjórnvöld að stefna núna, ekki síst í heilbrigðisþjónustunni??  Mér er svo brugðið eftir að hafa lesið tilteknar greinar að ég næ varla andanum. Í öllu falli má ljóst vera að þróunin er og hefur verið sú að markvisst er verið að færa valdið frá stjórnmálamönnum yfir til hagsmunahópa í þjóðfélaginu. Ætla að skoða þessi mál gaumgæfilega og mun pottþétt úttala mig meira um þessi mál.  Ef fram fer sem horfir, þurfum við hvorki sveitarstjórnarmenn né þingmenn!  Meira um það síðar.

Er svipuð af álagstollunum, lítil breyting ennþá. Tekur auðvitað tíma að snúa ofan af sér þegar vinnan er minnkuð.  Ekki hægt að ætlast til þess að áhrifanna gæti strax. Fékk nýtt galdralyf frá Sigga Bö sem ég bind miklar vonir við. Fékk reyndar að velja á milli erlendrar framleiðslu og íslenskrar, tók það síðarnefnda og vona að það virki ekki síður eins og margir halda fram. Ætti að vera byrjuð að skauta upp um alla veggi á næstu dögum ef lyfið virkar sem skyldi.  Hlít að vera orðin eins og jarðýta þegar kemur að brottförinni til Debrecen.  Þangað til verður H.Í að sýna mínum aðstæðum skiling. Er ekki tilbúin að gefa mig varðandi námið en hef ákveðið að sleppa einu námskeiði. Nú er að sjá hvað forsvarsmenn háskólans segja. Wink

Hvað varðar markmið dagsins verður að segjast eins og er, ég kolféll í markmiðssetingunni. Ekkert annað að gera í stöðunni en að setja ný og raunhæfari á morgun. Upp snemma, umsjón með yfirsetu þannig að nú má mín ekki klikka né sofa yfir sig! Ég er náttúrlega hvergi nógu syfjuð núnaShocking

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband