Færsluflokkur: Bloggar
25.1.2008 | 08:37
Nú er úti veður vont
Það er aldeilis að veðrið geri vart við sig. Bara eins og í ,,den" þegar allt var ófært og enginn komst eitt eða neitt. Man þá tíma úr Garðabænum þegar bílar sátu fastir í fleiri klukkutíma á Arnaneshæðinni. Oftar en ekki sat faðir minn fastur þar á leið heim frá vinnu og við krakkarnir lögðum á okkur að færa honum kaffi á brúsa með því að arka af stað frá flötunum. Í öllu falli ekkert ferðaveður enn sem komið er, sit hér og bíð af mér versta hretið líkt og margur þennan morguninn. Mér var snúið við í morgun, áttaði mig ekkert á stöðunni. Eitthvað eru menn farnir að hreyfa sig hér í Reykjavíkinni en víða ófærð um götur. Virðist í lagi hér í Seljahverfinu miðað við umferðina.
Katan veðurteppt í Keflavíkinni, brautin lokuð. Ekkert annað að gera en að vera róleg og kúra sig aftur. Það ætla ég einnig að gera í stutta stund. Líst ekki nógu vel á þorrablótsáform vestur í Dölum þessa helgina, hætt við að einhverjir verði veðurtepptir, alla vega að því loknu. Brattabrekka kolófær í dag í það minnsta og spáin ekki góð fyrir sunnudaginn. Gef ekki upp alla von enn
Ekki laust við að undanfarnir dagar hafi verið eftirminnilegir. Það er kannski við hæfi að veðrið sé í samræmi við átökin Nú er viðeigandi að kveikja á kertum og hafa það ,,kósý"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2008 | 23:58
Bloggið
Það er rúmt ár síðan ég fór að blogga. Var búin að íhuga að opna síðu í nokkurn tíma, fannst ég þurfa að tjá mig óhindrað um pólitískar skoðanir mínar. Reyndin varð önnur, ég fór að blogga í skömmu eftir að ég greindist og fór í lungnaaðgerðina. Umræðuefni mitt var fyrst og fremst veikindin, síðar sorgin en inn á milli pólitíkin. Sat heima löngum stundum, vakti gjarnan þegar aðrir sváfu, svaf á meðan aðrir vöktu, ekki síst á meðan lyfjameðferðinni stóð.
Fór inn á margar síður en þær sem ég heimsótti mest voru síðurnar hjá Ástu Lovísu, Þórdísi Tinnu, Lóu, Hildi Sif og síðar Gíslínu og Sigríðar í Lindarbæ. Fylgdist með baráttu þeirra og átti oft ekki orð yfir því hversu hreinskilnar og jákvæðar þær voru gagnvart veikindum sínum. Allar voru þær hetjur í mínum augum og daglega lærði ég eitthvað nýtt. Það eru engar ýkjur þegar ég segi það að þessar konur hvöttu mig oftar en ekki áfram í minni baráttu. Sumum þeirra kynntist ég betur en öðrum eins og gengur og stóðu Gillí og Þórdís mér einhvern veginn næst þar sem ég kynntist þeim best.
Allar þessar hetjur hafa nú kvatt jarneskt líf, sú fyrsta af þeim 30. maí og sú síðasta í gær, 21. jan. Ég get ekki neitað því að mér er þungt fyrir brjósti og brugðið. Allar yngri en ég, Lóa yngst, var innan við tvítugt. Allar börðst þessar hetjur af ærðuleysi, deildu með okkur sínum hugsunum, líðan, sigrum og sorgum. Maður getur ekki annað en spurt sig; hvar er réttlætið? Hjá sumum þeirra leit allt vel út um tíma og svo virtist sem þær myndu hafa betur en síðan tók líf þeirra óvænta stefnu.
Ég veit að það liggur fyrir okkur öllum að kveðja þetta jarðneska líf einhvern tíman og fæst okkar vita hve langan tíma við fáum hér. Það breytir því ekki að flestir vilja vera hér sem lengst, getað fylgt sínum börnum eftir á þroskabrautinni og ,,lifa lífinu" til fulls fram á gamals aldur. Enginn getur svarað því af hverju sumir þurfa að fara fyrr en aðrir, af hverju sumir veikjast en aðrir ekki og af hverju áföllin virðast skella oftar á suma en aðra. Til eru þeir sem trúa því að þau svör fáum við þegar okkar vist lýkur hér, vonandi er það rétt.
Það að greinast með krabbamein og aðra illvíga sjúkdóma er þungur dómur, bæði fyrir einstaklinginn og ekki síst aðstandendur. Lífið verður aldrei eins aftur. Fólk er alltaf á verðinum og bregst við öllum einkennum og teiknum á lofti. Eilíf óvissa; hvenær.........., ef........... En slíkur dómur er ekki bara neikvæður, maður lærir að meta lífið með öðrum hætti og fer að hugsa öðruvísi. Áherslurnar breytast, forgangsröðunin tekur nýja stefnu og tíminn verður dýrmætur. Maður kann betur að meta það sem maður hefur og hættir að hugsa um það hvað maður vildi hafa.
Sem betur fer læknast margir af krabbameini í dag. Auðvitað fer það eftir tegundinni, hversu langt sjúkdómurinn er genginn við greiningu o.fl. en horfurnar betri en voru fyrir áratug í mörgum tilfellum. Vonandi er ég sloppin, þannig lítur það út í dag og það liggur við að mér finnist það ósanngjarnt. Af hverju slepp ég en ekki hetjurnar mínar?
Ég veit hins vegar að ekkert er tryggt í þessum málum fremur en öðrum og við það þarf ég að lifa og ekki síst börnin mín. Sjúkdómurinn hangir yfir manni en það er ekkert vit í því að láta hann stjórna sér og sínum og leyfa honum að ráða för. Við sjálf verðum að halda um stjórnartaumana í okkar lífi á meðan við getum.
Eitt er þó víst að þær hetjur sem nú eru fallnar frá, ruddu brautina í umræðunni um krabbamein og þá baráttu sem því fylgir. Brautina ruddu þær á blogginu og höfðu víðtæk áhrif á samferðamenn sína. Þær höfðu mjög jákvæð áhrif á mig og mína líðan og fyrir það er ég þakklát. En mikið sakna ég þeirra. Bloggheimar hafa einhvern veginn orðið fátæklegri með ótímabærri brottför þeirra
Bloggar | Breytt 23.1.2008 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.1.2008 | 16:41
Ein hetjan enn
Þórdís Tinna Aðalsteinsdóttir
Enn önnur hetjan, Þórdís Tinna lést í gær, 21. janúar eftir ótrúlega hetjulega baráttu við lungnakrabbamein. Sýndi okkur að vissulega er hægt að berjast við þennan illvíga vágest og var sigurvegari á margan hátt. Við höfum verið samferða í bloggheimum í rúmt ár og áttum ómetanleg samskipti á þeim tíma. Hún kenndi mér margt á þeirri vegferð. Hef sjaldan verið vitni af eins mikilli jákvæðni og bjartsýni og hún sýndi og var okkur hinum til eftirbreytni.
Ég votta aðstandendum og vinum hennar mína dýpstu samúð.
Bloggar | Breytt 23.1.2008 kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2008 | 23:30
Stóri dagur á morgun
Katan komin heim í heiðardalinn, flaug að austan í dag. Skrítið að sækja hana út á völl, það voru ófáar ferðirnar á flugvöllinn að sækja hana þegar hún var lítil. Í dag tók ég á mótir ungri konu. Það var sérstök tilfinning, hafði ekki áttað mig á því fyrr, hún er orðin fullorðin. Ef marka má planið hennar þá verður brjálað að gera hjá henni til 3. feb.,snertir ekki jörðinna þangað til. Það er komið líf í húsið
Stóri dagur hjá Haffanum á morgun. Próf kl. 07.15 á staðartíma og er í 5 hlutum. Ef hann nær fyrsta hlutanum er haldið áfram í þann næsta og svo koll af kolli, ef ekki fer hann heim og byrjar að lesa aftur. Ef allt gengur upp hins vegar ættu fréttir að berast um kl.14.00 þannig að ég vona að ég fái engin skilaboð fyrr en eftir þann tíma. Trúi ekki öðru en að þetta gangi vel, þetta snýst hins vegar mikið um heppni hjá krökkunum. Vonandi er drengurinn á heimleið fyrir helgi í stutt frí.
Við mægður áttum ,,quality" time í sófanum seinni partinn, auðvitað sofnuðum við báðar undir Dr. Phil. Býsna erfitt að rífa sig upp aftur, var alveg til í að sofa áfram en þá hefði ég snúið sólahringnum við, enn og aftur. Er búin að þurfa að taka nokkuð á til að koma mér í gang eftir jólafríið.
Er eiginlega orðlaus eftir viðtalið við Árna Matt, erfðaprins Sjálfstæðismanna í Kastljósi kvöldsins. Þar sannaðist það sem ég hef löngum haldið fram; Sjálfstæðismenn eru búnir að sitja of lengi í valdastólum. Þeir semja eigin lög og leikreglur og hafa gert lengi. Það er hins vegar orðið meira áberandi að þeir telja sinn raunveruleika vera hinn eina og sanna. Á fagmáli kallast þetta raunveruleikafirring og ranghugmyndir. Ekki er hinn stjórnarflokkurinn skárri. Mér sýnist báðir þurfa á acut handleiðslu að halda. Sjúkdómsinnsæið ekkert.
Í öllu falli er ég farin að forðast, ómeðvitað, fjölmiðlana. Mér sýnist þjóðinni ekki veita af áfallahjálp á þessum síðustu og verstu tímum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.1.2008 | 22:31
Lengi getur vont versnað
Loksins er þessi helgi á enda. Þvílíkt og annað eins! Rosalega var hún leiðinleg, alveg drep. Er heimakær í eðli mínu en fyrr má nú rota en dauðrota.
Fann fátt eitt í sjónvarpinu í gærkvöldi, var búin með öll verkefni þannig að ég hreinlega beið eftir því að kvöldið liði og ég gæti farið að sofa. Þýðir ekkert of snemma, ligg þá með tærnar upp í loft frá kl. 5 eða 6 og bíð eftir blöðunum. Ekkert skárra.
Þessi dagur silaðist svo áfram, gat auðvitað fundið mér nóg að gera en finnst of dimmt til að standa í stórhreingerningum strax. Sé ekki nógu vel skítinn, til hvers að eyða orku í það strax?? Ekki nógu hress í þokkabót, verkirnir mig lifandi að drepa og óþægindin frá maganum. Urr, hvað ég nenni þessu ekki.
Finn greinilega fyrir því að verkefnum hefur fækkað og vinnuálagið minnkað. Algjört must að finna sér eitthvert hobbý og það strax. Ég enda annars með því að festa mig á kvöldvaktir á laugardagskvöldum. Allt betra en að hanga. Nenni eiginlega ekki á skemmtistaðina, yrði eins og afdalamanneskja ef ég kíkti á þá. Hef ekki stundað þá í fleiri ár. Veit ekki einu sinni hvað er ,,in" þessa dagana.
Katan fyrir austan hjá pabba sínum og Haffi á kafi í próflestrinum ennþá. Stóri dagur hjá honum á miðvikudag og vonandi heim á fimmtudag. Efnt verður til veislu af því tilefni. Ansi mörg verkefni bíða hans hér á heimilinu er ég hrædd um
En svona í alvöru talað, rosalega er leiðinlegt að búa í Reykjavíkinni. Það mál krefst endurskoðunar og það fljótt. Það sem meira er, ég er greinilega að verða gömul. Var að átta mig á því að sl. föstudag ætlaði ég að heimsækja systur mína eftir vinnu, keypti forláta bananatertu í því tilefni. Áttaði mig á ósköpunum áðan þegar ég skrapp í búðina. Kakan aftur í bíl, frosin og engin heimsókn. Þetta er ekki í lagi
Ekki seinna vænna en að gera eitthvað í málum
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.1.2008 | 16:02
Erfiðir einstaklingar
Öll þekkjum við það að umgangast erfiða einstaklinga, bæði í vinnu, vinahópnum, pólitíkinni og jafnvel heima. Stundum ná þeir að gera okkur lífið leitt, draga okkur niður og jafnvel kippa undan okkur fótunum í tilverunni.
Fræðin eru skýr og afdráttarlaus þegar kemur að því að greina og lýsa erfiðum einstaklingum sem flokka má niður eftir ,,hegðunareinkennum"
Fyrst ber að nefna leynimorðingjan eða leyniskyttuna sem eru erfiðustu einstaklingarnir. Þeirra aðalsmerki er að ráðast á fólk aftan frá, jafnvel að því fjarstöddu en eru sakleysið uppmálað þegar málin eru rædd og koma ofan af fjöllum. Þessir kafbátar hæða nánungann og gera lítið úr honum, eru stöðugt með gagnrýni og spinna upp gróusögur eins og þeim sé borgað fyrir það. Þeir eru duglegir að afla sér fylgis og safna klíku í kringum sig þar sem sannleikanum er hagrætt eins og hentar hverju sinni. Sá sannleikur verður ,,hinn eini sanni" og óskráð lög. Ná oft miklum völdum og komast til æðstu metorða enda með sterkan stuðningsmannahóp í kringum sig. Mestu skaðræði af augljósum ástæðum, ekki síst í pólitíkinni enda erfitt að standa þá að verki og afhjúpa þá
Næstir koma einræðisherrarnir sem fara hátt og ná völdum með því að gera lítið úr öðrum. Eins og gefur að skilja, eru orð þeirra lög. Þeir taka ekki þeim hugmyndum vel sem stangast á við þeirra eigin og verð fljótt reiðir. Eru auk þess oft algjörlega óútreiknanlegir og fara oft yfir strikið í samskiptum. Hafa náttúrlega litla sjálfsstjórn enda stjórnast þeir af eigin reiði og pirringi. Kurteisi er ekki hugtak í þeirra kokkabókum, takmarkast af því að biðjast afsökunar á yfirgangi sínum þegar þeir telja það nauðsynlegt. Eins og gefur að skilja er sjaldnast rými fyrir fleiri en einn einræðisherra í hópnum. Þessir einstaklingar eiga það til að kúga aðra og misbeita valdi sínu til að koma eigin hagsmunum í gegn. Margur einræðisherran í pólitíkinni hef ég trú á eða hvað
Þriðji hópurinn eru skoðanaleysingjarnir. Þeir eru eftirlátssamir og hafa mjög ríka þörf fyrir að láta öðrum líka við sig, eiga erfitt meða að taka ákvarðanir og slá öllu á frest. Eru fljótir að samþykkja hluti en ekki jafn tilbúnir til að standa við þá síðar og því erfitt að treysta á þá. Auðvelt að hafa áhrif á þá og móta eins og leir.
Hinir þöglu fylgja fast á eftir. Segja aldrei neitt af fyrra bragði, svara gjarnan með eins atkvæðis orðum. Þeir hafa yfirleitt einhverjar skoðanir en láta hana ekki uppi þannig að við vitum sjaldnast hvar við höfum þessa einstaklinga. Eru oft ansi litllausir í samskiptum og ,,leiðinlegir". Erfitt að vita t.d. hvar maður hefur þá.
Fimmta hópinn skipa vitringarnir eða ,,besserwisserarnir". Sjálfstraustið ætlar þá lifandi að drepa enda vita þeir allt og eru sérfróðir í öllu. Þeir hafa einnig lag á því að tjá sig með þeim hætti að svo virðist sem kunnátta þeirrra og ,,sérþekking" sé gríðaleg og auðvitað einstök. Þeir geta verið mjög sannfærandi þó innihaldið sé rýrt. Þeir reyna að selja öðrum allt. Allt snýst um þeirra eigin skoðanir, aðrar koma ekki til álita enda ekkert pláss fyrir þær. Komi það hins vegar í ljós að þeir hafi rangt fyrir sér, eru þeir með það algjörlega á hreinu af hverju það er og hverjum það er að kenna. Auðvitað ekki þeim sjálfum.
Sjötta hópinn skipa nöldrararnir sem hafa allt á hornum sér. Líf þeirra gengur út á að gagnýrna allt og alla í kringum sig. Alltaf finna þeir einhvern sem ekki er að gera hlutina eins vel og skyldi og alltaf vantar sökudólg fyrir vandamálunum. Nöldrararnir eru síkvartandi undan okkur við aðra og undan öðrum við okkur. Oftar en ekki heyrum við yfirlýsingar frá nöldraranum eins og ,, aldrei er neitt gert fyrir okkur" ,,ég hef aldrei verið spurður álits", ,,djö... drasl er í kringum þig". Nöldrarin tekur aldrei ábyrgð á sinni óánægju, hún er alltaf öðrum að kenna. Hafa mjög eyðileggjandi áhrif á móralinn eins og gefur að skilja.
Fáir hópar eru án fýlupúka. Þeir eru kannski ekki endilega að láta uppi óánægju sína í orðum heldur fremur með þögulli tjáningu sem allir verða þó varir við. Fýlupúkarnir eru sjaldnast kaldrifjaðir og ætla sér etv. ekki að stjórna öðrum með fýlunni, eru yfirleitt ekki meðvitaðir um hana. Þeir vita hins vegar ekki hvernig þeir eiga að koma óánægju sinni á framfæri öðru vísi en með skeifu og vanþóknunarsvip og eru því öðruvísi en nöldrarinn að því leytinu til. Það er ekki auðvelt að fá eitthvað upp úr fýlupúkanum þegar hann er spurður að því hvað sé eiginlega að. Ósköp drungalegur og vansæll einstaklingur í samskiptum og dregur aðra niður.
En hvað er til ráða? Erfiðir einstaklingar eru til alls staðar í kringum okkur og í sumum tilfellum er einn af öllum ,,tegundunum" í hópnum okkar eða vinnustaðnum. Ég held að besta ráðið er að horfa á þessa einstaklinga út frá þeim veikleikum sem stjórnar þeim. Í öllu falli er lífið stutt og við eigum ekki að láta erfiða einstaklinga skyggja á lífsgleðina, hamingjuna og lífsgæðin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.1.2008 | 23:40
Alvara lífsins tekur við
Allt komið í gang, vinnan og heila klabbið. Setti mér nýtt markmið um áramótin; ætla mér að leyfa mér þann lúxus að horfa á fréttirnar á kvöldin. Fylgjast betur með og fá mér kríu í leiðinni að sjálfsögðu. Fór eftir settu marki í kvöld eins og vera ber.
Sinnti ýmsum málum varðandi kennsluna í dag, eftir það drifum við mægður okkur í klippingu, litun og skveringu. Sýp hveljur þegar ég hugsa um kostnaðinn; rúmar 26.000 kr fyrir okkur báðar. Er þetta í lagi? Hélt ég yrði ekki eldri. Það margborgar sig að láta hárið vaxa og hafa ,,náttúrulegan" lit. Get eiginlega ekki réttlætt það að eyða 13.000 kr. á 5-6 vikna fresti í hausinn á mér. Á líka þessa fínu hárkollu; Lafði Jósefínu, ef ég þarf að vera fín. Ekki það að ég er þrælánægð með hausinn á okkur báðum, ekki vantar það en dýrt er það.
Fleiri markmið á leiðinni; ætla mér að ljúka uppgjöri erfiðra mála áður en ársfjórðungurinn er liðinn. Kominn tími til að ljúka þeim málum til að geta hafið hið nýja, ljúfa líf. Mun ekkert gefa eftir í heiðarlegu uppgjöri. Það verður tekið til í sjálfri mér og heimilinu. Öllu snúið við, hrist úr vösum, breytt og hent eftir þörfum.
Gaman verður að sjá hvaða markmiðum ég næ að framfylgja, heillavænlegast að hafa markmiðin svolítið víð, bæði í orðalagi og tímasetningum
Sýnist vinnuálagið ætli að vera eilítið minna næstu mánuði en þá undangengnu, kannski ég eignist ,,líf" og fari að stunda eitthvert félagslíf og mína fyrri iðju; símann. Hef þó nokkrar áhyggjur af tekjuhliðinni en það verður einfaldlega að koma í ljós hvernig þau mál þróast. Mun gefa mér tíma til að hitta ættingja og vini. OMG hvað það verður mikið að gera! Listinn langur enda ótæmandi.
Viðurkenni að ég er spennt eins og alltaf um áramót. Finnst alltaf felast í þeim nýtt upphaf, og ný tækifæri. Fegin að liðið ár er að baki, endalaus vonbrigði, mótlæti og sorg. Vissulega góðar stundir inn á milli og sætur sigur en erfiðleikarnir skyggja svolítið á þá minningu. Ætla mér hins vegar ekki að velta mér upp úr því. Læt verkin tala og klára málin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2008 | 23:31
Heima er best
Rosalega er gott að vera komin heim. Þrátt fyrir yndislegan tíma úti með krökkunum þá er heima alltaf best. Er þeytt eftir ferðina, klikkaði ekki á því að sofa frameftir frekar en fyrri daginn. Hef eiginlega ekkert gert af viti í allan dag. Vona að ég hafi náð að bjarga þeim blómum sem voru enn á lífi við heimkomuna
Katan hefur ekki snert jörðina síðan hún kom heim og síminn ekki þagnað. Verið eins og fiðrildi um allt enda vinirnir margir. Hún bókstaflega blómstrar. Ekki laust við að ég hafi áhyggjur af Haffanum einum úti, veit þó að hann tekur því með jafnaðargeði að þurfa að vera lengur. Stefnir á heimferð þann 17. janúar. Er farin að leita að verðugu lambalæri fyrir drenginn.
Opnaði jólakortin mín í dag, varð auðvitað viðkvæm og aum. Þakklát þeim sem mundu eftir okkur. Fyrir mér eru jólakort mikilvæg, ég get ekki skrifað þau á einhverju handavaði. Nei, takk það eru serimóníur í kringum þá athöfn. Rétt stemning, lengi að finna orðin, hvað passar nú hverjum o.s.frv. Okkar kort fóru frá Debrecen en allsendis óvíst hvenær og hvort þau berist. Það verður að koma í ljós en óneitanlega leiðist mér sú óvissa.
Er aðeins að ná mér niður eftir dópleitina á Keflavíkurflugvelli í gær. Tel það með öllu útilokað að um hefðbundna tollskoðun hafi verið að ræða. Maður á kannski að fagna þessu ,,góða" eftirliti sem haft er með farþegum til landsins. Trúlega er ólíklegasta fólk sem flytur eiturlyf til landsins þó mér finnist erfitt að ímynda mér að miðaldra kerling falli undir þann hóp, enda var uppskera manna rýr. Mér finnst ég hafa verið aðalhlutverki í hörku bíómynd og stórmerkileg persóna. Ekki þykir það amalegt.
Þótti fróðlegt að fara út í búð með dótturinni í dag. Allt tómt í kofanum auðvitað eða útrunnið þannig að nú varð að fylla á. Þvílíkur verðmunur á nauðsynjavörum hér og úti, maður minn! Sá munur er meiri en þrefaldur í flestum vöruflokkum og svei mér ef mér finnst verðlagið ekki hafa hækkað síðan ég fór síðast út í búð hér. Hef ekki verið dugleg við innkaup eftir að krakkarnir fóru út. Vissulega eru sumar vörur dýrar úti í Ungverjalandi, einkum og sér í lagi svonefndar munaðarvörur en verðlagið hér er ótrúlegt. Vikubirgðir af mat og hreinlætisvörum þar sem ekkert var til sparað fóru aldrei yfir 10.000 kr. úti og við Kata greiddum 25.000 forentur eða rúmar 8.000 kr. samanlagt fyrir hótelgistingu, kvöldverð og ýmsilegt annað (lúxus) í Búdapest sem þykir dýr borg miðað við aðrar borgir í Ungverjalandi. Nauðsynlegustu matvörur sem endast fram á morgundaginn og hreinlætisvörur kostuðu rúmar 8.000 kr. í Krónunni í dag. Þarf að leggja höfuðið í bleyti og finna góða viðskiptahugmynd.
Framundan nýtt ár og breyttar áherslur. Er býsna spennt og hlakka til enda nýtt ár og ný tækifæri. Þarf auðvitað að ljúka ákveðnu uppgjöri og finn að dvölin úti, næðið og breytt umhverfi gerðu mér gott. Finnst ég betur í stakk búin til ýmissa ákvarðana og hef að einhveru leyti aðra sýn á sum mál. Alvara lífsins tekur við á morgun, er spennt að takast á við ný verkefni. Allt tekur að enda og í öllu mótlæti felast tækifæri. Á það verður einblínt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2007 | 00:33
Leti
Verið með eindæmum löt í dag, fátt eitt gert annað en að glugga í fræðin áfram og dúllað mér. Komin með enn aðra pestaskömmina, flensulík einkenni og skítkalt. Eitthvað hefur þó þokast í lestrinum þó afraksturinn sé rýr ennþá.
Dagurinn þó gleðilegur; Kata fékk fullt stig húsa í sínu prófi í morgun, fékk 5 af 5 mögulegum. Haffi þrælast í gegnum sitt námsefni frá morgni til kvölds, ekkert gefið eftir, enginn tími fer til spillis. Hann hefur ekki farið út fyrir dyr síðan 22. des nema til að bera inn poka fyrir mig þegar ég kem úr matarinnkaupum. Orðinn ansi ,,prófleslegur" en engan bilbug á honum að finna, seiglan ótrúleg. Er ekki lítið stolt af ungunum.
Er eiginlega búin að vera í hálfgerðu sjokki, eftir því sem ég þrælast meira í gegnum fræðin sé ég hvert stefnir í ríkismálum, sérstaklega heilbrigðisþjónustunni. Þar á bæ er greinilega stefnt að einkavæðingu eins og ég hef áður sagt með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Einkennilegt hvað við Íslendingar erum duglegir að taka upp stefnur sem aðrar þjóðir hafa hent þar sem þær hafa ekki virkað. Jafnvel gert illt verra. Mér sýnist einu kostirnir í stöðunni fyrir heilbrigðisstarfsmenn vera þá að annað hvort að taka þátt í þeim breytingum sem framundan eru eða snúa sér að öðrum málum.
Sjálfstæðismenn náðu ekki að hrófla við starfsmannalögunum á síðasta kjörtímabili, nú á að fara aðra leið; fækka opinberum starfsmönnum og kaupa þjónustuna af einkaaðilum. Kannski má greina vísi að þeirri leið í nýútgefinni stefnu LSH þar sem fram kemur að ekki verði ráðið í stöður sem losna. Nú þegar er talið að vanti fleiri hundruð hjúkrunarfræðinga við spítalann. Hvernig er hægt að fækka þeim frekar? Þjónustan þegar skert?? Úff, pólitík og embættismannakerfið! Kannski menn eigi einungis við skrifræðið innan spítalans og fækkun starfsmanna á þeim vettvangi?? Einhvern veginn efast ég um það. Það verður fróðlegt að fylgjast með þróuninni.
Vonandi verður heilsan skárri á morgun, ætla mér að skreppa aðeins í ,,sightseeing". Krakkarnir á fullu í lestrinum áfram og ég á góðri leið með að mygla hér innan dyra. Hef gott af því að hreyfa mig aðeins svo ekki sé minnst á að skreppa á kaffihús. Við Kata létum ekki verða af því í dag enda var skynsamlegt að halda sér innandyra. Ofboðslega kalt úti. Fróðlegt að sjá hvaða dýri ég líki eftir við kjötborðið á morgun, fiskurinn ekki kaupandi hér
Er hæstánægð með bloggið hans SIgurjóns Þórðarsonar, fyrrum alþingismanns, um málefni Sláturhúss Dalabyggðar. Það eru fleiri en ég sem skilja ekki hvað menn eru að hugsa. Hvernig ætla menn að réttlæta slíka ákvörðun og hvernig mun þeim ganga að sæta ábyrgð??? Ég held að þetta mál sé langt frá því að vera búið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2007 | 23:08
Margt skrítið í Ungverjalandi
Er orðin býsna frökk og fer ein í búðirnar, reyndar í taxa sem kostar á bilinu 350 - 750 kr. eftir vegalengdum. Of langt að ganga fyrir prinsessuna og kann ekki á ,,tramman" hér. Gerði heiðarlega tilraun til að elda nautakjöt í kvöld, þurfti reyndar að baula úti í búð til að tjá mig um það sem mig vantaði. Fékk ansi vænt og flott stykki og hóf eldamennskuna spennt. Nú átti að brillera. Ungverskur rjómi í sósuna gerði hana að algjöru sælgæti, allt meðlæti klárt. Steikti af einstakri fimi hverja steikina af fætur annarri. Í stuttu máli hefði þurft mulningsvél til að mylja kjötbitana, svo seigt var það að venjulegar tennur höfðu vart undan. Kjötið smakkaðist ágætlega en það tók tíma að koma því niður.
Verðlagið hér er svolítið sérstakt og ég ekki búin að átta mig á því hvað liggur að baki. Sá flotta, nítísku eldavél með blástursofni fyrir um 33.000 kr. Cappucino kaffivél kostar um það bil það sama. Kílóverð af humri var um 4,500 kr, 3.000 kr. fyrir torkennilegan fiskrétt en nautakjöt og lambakjöt á um 300-450 kr./kg. Svínakjöt ódýrara svo ekki sé minnst á fiðurféð. Fékk flottan ,,ballkjól" á Kötu fyrir 1200 kr. (reyndar á útsölu). Ein húfa kostar það sama og peysa og það sama gildir um trefla og vettlinga, eru á peysuverði. GSM símarnir eru nokkuð dýrari en heima. Barnafatnaður er fokdýr og það sama gidir um skartgripi sem eru trúlega aðeins dýrari en heima, ekki síst gullið. Er ekki búin að finna stragetiuna á bak við verðlagið hér ennþá.
Katan fer í sitt próf kl.08 í fyrramálið. Stefnan tekin á kaffihús einhvern tíman dags ef vel gengur. Ég hlakka ekki lítið til að fá félagsskap með mér, hef farið á 2 kaffihús hér í mínu búðarápi og setið þar ein. Ekki mjög fjörugt í kringum mig. Kaffið reyndar rótsterkt, þarf að prófa mig betur áfram og finna rétta ,,touchið" fyrir mig. Hér kostar kaffi með alls konar krúsindúllum á bilinu 60 - 100 kr. ísl, lítil kók í kringum 100 kr. sem og lítill bjór. Hef reyndar ekki smakkað bjórinn hér en krakkarnir segja hann góðan. Í öllu falli tekur Kata sér smá hlé frá lestri eftir prófið á morgun svo fremi sem hún nær því í fyrsu lotu. Það er ekki sjálfgefið, margir þurfa að endurtaka leikinn x 2-3 áður en þeir ná.
Hér er áfram kalt og sama veðrinu spáð næstu dagana. Frostið fer í -6°C sem er svo sem ekki neitt neitt en einhvern veginn finnst okkur öllum við finna meira fyrir frostinu hér en heima. Það ,,bítur" meira, hver svo sem skýringin er.
Er annars búin að vera hálfdottandi síðan í morgun, reynt að þræla mig í gegnum fræðin en hefði þurft vökustaura ef vel hefði átt að vera. Skil ekkert í þessu, það er ekki svo að álagið sé að fara með mig þessa dagana. Er eins og prinsessan á bauninni hér. Ekkert annað að gera en að koma sér í koju og freista þess að vakna hress í fyrramálið. Verð að fara að sjá einhver afköst,takk fyrir. Núverandi árangur er skelfilegur, vægt til orða tekið Ég hlýt að verða hrukkulaus með þessu áframhaldi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)