Færsluflokkur: Bloggar

Vorverkin

Gafst upp á ástandinu bæði innan hús og utan og réðst í tiltektir. Tók mig 3 klst. að skúra stofugólfið í gær og mín steinlá á eftir. Hefur ugglaust verið skondin sjón að horfa til mín en ég skyldi hafa þetta. Ekki var árangurinn beisinn en ég er alla vega búin að fara fyrstu umferð og þjálfa mig í að hoppa með moppuna. Um þrifin sem slík læt ég ósagt en ég þarf augljóslega að endurtaka þau.

Reyndi við garðinn í kvöld enda allt fullt af drasli og þvíumlíku. Grasið sprottið upp úr öll valdi. Útilokað að fá slátt fyrr en eftir 3-4 vikur, virðist brjálað að gera í þessum bransa. Því var ekkert annað að gera en að prófa sig áfram og sjá hvað ég kæmist langt. Hef ekki lítið skammast mín fyrir ástandið sem hefur verið eins og hjá niðursetningum. Hef reynt að leiða ástandið hjá mér en svo kom að því að það var ekki lengur hægt.

Í stuttu máli fór kvöldið í að taka til í garðinum fyrir framan húsið og slá örlítinn blett sem er á stærð við frímerki. Það bærðust alla vega ansi margar eldhúsgardínur í nágrenninu enda hlýtur það að hafa verið óborganlegt að sjá miðaldra kerlingu slá á tveim hækjum. Það kom sér vel að slátturvélin er létt. Ekki síður spaugilegt að sjá hina sömu raka saman grasinu og troða í poka.

Þetta hafðist, bletturinn illa sleginn en skárri en hann var, búin að hreinsa mesta draslið úr garðinum en lagði ekki í beðin.  Svitnaði sem aldrei fyrr, ekki þurr þráður á mér þegar inn var komið en fegin að hafa drifið mig. Það er nefnilega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og nægan hef ég tíman. Neita því ekki að það var ljúft að skríða inn fyrir stuttu, kvöldinu var vel varið finnst mér. Veðrið yndislegt.

Reynslan hefur kennt mér það að maður verður að treysta á sjálfan sig, væri löngu dauð ef ég gerði það ekki.  Hef löngum átt erfitt með að biðja aðra um aðstoð. Auk þess hafa allir nóg með sig, það hef ég fullreynt síðustu vikurnar. Það kemur sér því vel að vera svolítið klikkaður og með einhverja sjálfsbjargarviðleitni.  Ef maður gerir hlutina ekki sjálfur, eru þeir ekki gerðir, er mín reynsla.

Það vantar fjandi mikið upp á úthaldið sem er ekki neitt, neitt en vonandi kemur það smátt og  smátt. Styttist í að ég megi tylla í fótinn og þá verð ég enn meira sjálfbjarga. Hitti sérfræðinginn eftir rúma viku og fæ þá vonandi skýrar línur um það hvenær ég megi byrja að vinna. Þangað til veitir ekki af því að fara að auka úthaldið og þrekið. Garðurinn er tilvalinn til þess. Ég skal finna leið til að vinna í honum. Veðrið bókstaflega æpir á útiveru þessa dagana.

garðvinnan

 

 

 

 

 

 

 

 

Styttist í heimkomu Kötunnar, ef allt gengur upp í fyrramálið hjá henni í síðasta prófinu, lendir hún hér aðfaranótt laugardags. Þarf að bíða öllu lengur eftir Hafsteini sem er ekki væntanlegur fyrr en eftir mánuð. Mikið hlakkar mig til að fá líf í húsið. Þarf að komast vestur með einhverju móti til að sækja Lafðina sem er búin að vera í sveitinni síðan ég brotnaði en þar eru vinir í raun. Skömm af því hvað Lafðin er búin að vera lengi í fóstri. Enn sem komið er, hef ég ekki náð að upphugsa hvernig ég gæti farið í göngutúr með hana á hækjunum nema þá örstuttan spöl. Það myndi hún ekki sætta sig við, blessunin. Hún þarf að geta hreyft sig almennilega.  En allt er þetta að koma, hægt og bítandi.


Stór dagur

Nóg um að vera í dag. Mætti upp á Skaga og fylgdist með útskrift frá skólanum. Fylgdi þar 14 væntanlegum sjúkraliðum ,,mínum" úr hlaði og verð að viðurkenna að alltaf er ég jafn stolt af því að koma að menntun nemenda, ekki síst fullorðinna nemenda. 

Námið var ekki dans á rósum fyrir hópinn enda með vinnu. Byggðist upp á fjarnámi og staðlotum. Þvílíkar hetjur þessar konur mínar, flestar að drífa sig í nám eftir nokkurt hlé þannig að átakið var mikið enda hörkunám. Fyrir nítján mánuðum hvarflaði ekki að mér að mér tækist að sjá hópinn útskrifast. Fannst það reyndar erfið tilhugsun, vil klára það sem ég byrja á auk þess sem mér fannst ég ,,eiga" mitt í þeirra námi. Það hafðist þrátt fyrir skakkaföll á leiðinni.  Enn eiga 4 eftir að útskrifast, þær munu gera það fyrir næstu jól og engin spurning að ég fylgi þeim úr hlaði einnig.

Ég hef ekki lagt það í vana minn að blogga um starfið mitt en nú er mín svo rígmontin að ég get ekki stillt mig.  Hópurinn er föngulegur eins og sést á myndinni en ég fékk hana ,,lánaða" af heimasíðu skólans. Þær leystu mig út með gjöfum þessar elskur, fékk yndisleg blóm, hlýjar kveðjur  og ofboðslega fallegt gullhálsmen frá þeim. Ég átti eiginlega bágt með mig, svo mikið var mér um. 

 

Sjúkraliðarnir mínir

 

 

 

 

 

 

Fleiri útskrifuðust í dag, bróðursonur minn hann Egill lauk stúdentsprófi frá Versló í dag. Stórkostlegur strákur og frábært að hitta ættingjana. Þurfti frá að hverfa allt of fljótt, stalst til að taka af mér spelkuna í dag svo ég kæmist í föt með tilheyrandi afleiðingum. Ég verð að súpa seyðið af því en það var fyllilega þess virði.

 

Egill

Þau klikkuðu ekki á höfðingsskapnum, Tóti og Systa, frekar en fyrr daginn. Ekki veit ég hvar bróðir fær alla sína orku og jákvæðni. Ég væri alsæl ef ég hefði brot af því sem  hann býr yfir. 

Takk fyrir mig öllHeart

 

 

 

 

 

 

Það er stolt en lúin kona sem skríður í koju. Hvað í ósköpunum á ég nú að gera við allan tíman? Búin með kennsluna, lauk síðasta prófinu mínu fyrir helgi og búin að senda öll verkefni frá mér. Það verður einkennilegt að þurfa ekki að keppa við tíman og sitja löngum stundum fyrir framan tölvuna. Hef svo sem af nógu að taka, garðurinn, allar gardínurnar sem á eftir að sauma, sjúkraþjálfunin og svo auðvitað reyna að komast sem fyrst í vinnu. Vonandi styttist í það. Aumt að geta ekki skriðið eftir moldarbeðunum ennþá en þetta fer að koma. 

En enn og aftur eru komin kaflaskil hjá minni. Nú er að horfa vel í kringum mig og rata réttu áttina. Hvernig skyldi takast næst?

 

áttaviti

 


Lífið í Selinu

Fátt eitt drífur á mína daga, grúfi mig yfir próf og verkefni, önnin búin og styttist í útskrift. Er á hraða snigilsins en þetta gengur og mun hafast í tæka tíð. Alltaf svolítill söknuður þegar maður kveður hópinn sinn en minn er að klára. Full ástæða samt til að gleðjast enda finnst mér forréttindi að fá að taka þátt í menntun þeirra. 

Hef auk þess sjálf verið í verkefnavinnu.  Draumarnir snúast um forystu og leiðtoga, stjórntæki hins opinbera enda hundruði blaðsíðna lesnar yfir. Búin með alþjóðavæðingu og  fyrirtækjagreingar en þarf að taka eitt sjúkrapróf í upplýsingatækni. Náði ekki að ljúka öllum verkefnum fyrir annarlok í desember, átti örfá eftir þannig að sumarið fer í það hjá mér. Er þá langt komin með diploma í opinberri stjórnsýslu. Á eftir að ákveða framhaldið. Mér finnst stjórnsýslan feiki skemmtileg en það er alltaf spurning hvort maður leggur á sig erfitt nám eingöngu vegna áhuga. Hingað til hefur aukin menntun ekki skilað mér bættum kjörum.

Það hefur gengið vel hjá krökkunum úti, bæði búin að vera í stífri törn og hlutaprófum. Skólanum lauk í dag, Kata tók 4 hlutapróf, Haffi eitt í gær og annað í dag, fullt stig húsa. Framundan er 10 vikna prófatörn hjá honum en Katan verður búin mikið fyrr, sennilega í byrjun júní. Sleppur við öll lokapróf sem hægt er að fá undanþágu í, fékk nógu hátt í öllum hlutaprófum. Þarf að taka tvö lokapróf sem ekki var hægt að fá undanþágu í. Haffi þarf að taka samtals 9 próf þetta vorið. Ekki veit ég hvernig hann verður að þeim tíma loknum annað en að hann verður þreyttur.

Ég hafði sett mér það markmið að fara út til þeirra í lok maí, sú ferð verður að bíða betri tíma. Fæ ekki fararleyfi út af fætinum. Hann hefst þó vonandi vel við. Enn rúmar 2 vikur þangað til ég má stíga í fótinn. Er farin að beygja hnéð nokkuð vel, á tíma hjá sjúkraþjálfara á mánudag. Þá kemur í ljós hvort ég sé á réttri leið. En ljótur er fóturinn. 

Er orðin viðþolslaus og langar að vera úti í garði enda full þörf á. Hefði viljað þiggja gott boð um að dvelja í sveitinni, hefði ekki slegið hendinni á móti sauðburði sem ég beinlínis dýrka. En ég verð að játa mig sigraða í þeim efnum. Harla ólíklegt að ég geti hökt um úti í fjárhúsum nema að slasa mig,  hvað þá að ég geri  eitthvert gagn.

Er farin að telja niður dagana þangað til ég get mætt til vinnu, er harðákveðin að láta á það reyna um leið og ég má stíga í fótinn. Geri ekki mikið gagn eins og er, en ansi er ég hrædd um að ég þurfi að byggja upp þrek á sem skemmstum tíma. Hef algjörlega tapað því niður.

Framundan er því nóg að gera á öllum vígstöðvum, þannig á það líka að vera. Er virkilega farin að sakna lafði Di, hún hefur aldrei verið svona lengi fjarverandi frá mér þau 10 ár sem hún hefur lifað, blessunin.  Vonandi hitti ég á einhvern sem er á leið vestur sem gæti kippt henni með sér á suðurleið. Ekki endalaust hægt að biðja aðra fyrir hana. Hún er hins vegar í góðum höndum og unir sér örugglega vel í sveitinni, það er ekki málið en fyrir eru all margir hundar og lafðin er ansi dyntótt í umgengni sinni við aðra hunda, hún ræður. 

Las á vef Vísis að stjórnvöld hyggðust breyta Íbúðalánasjóði. Ingibjörg Sólrún og Jóhanna leggja áherslu á félagslegt hlutverk hans. Ætli grunur minn sé á rökum reistur um að bankarnir fái annað hlutverk hans? Nógu bera þeir sig illa, þrátt fyrir milljarða veltu. Það verður spennandi að fylgjast meðWhistling

 

 

 


Upp, upp....!

Fékk nóg af eingangrun, hjálparleysi og leiðindum eftir þessa helgi. Búin að vera upp á aðra komin í sex vikur með allar bjargir í bú, ekki komist í búðina eða sjoppuna þegar mig langar skyndilega í eitthvað. Séð framan í fólk x1 í viku að meðaltali. Sem sé fékk nóg og greip til minna ráða.

Eftir að hafa velt möguleikum fyrir mér fram og til baka í gær, fór ég upp í minn fjallajeppa, færði sætið eins langt og ég gat og setti bílinn í gang. Var búin að reyna svo sem áður í einhverju kastinu á meðan ég var í gipsinu en varð að játa mig sigraða þá. Var stórhættuleg sjálfri mér og öðrum enda stöðugt að festa fótinn í bensíngjöfinni. En  nú  skyldi það ganga, get beygt hnéð þannig að allt var auðveldara. Brunaði upp á Skaga að sækja þangað gögn sem mig vantaði, prísaði mínu sæla fyrir litla umferð og kom mér heim hið snarasta. Steinlá náttúrlega á eftir enda yfirmáta ,,erfitt" verkefni en sannarlega þess virði. Ég hafði endurheimt frelsi mitt. Mæli kannski ekki með svona langferð í spelkunni en ég varð að prófa þetta.

Gerðist djarfari í dag, fór í mína ,,uppáhalds" verslunarkeðju í Mjóddinni, var farið að vanta lyf og nauðsynjar. Lét mig hafa það að hoppa á öðrum fæti eftir húsnæðinu þveru og endilöngu til þess eins að verða send til baka úr því apóteki sem var lengst frá bílastæðinu. Var másandi eins og flóðhestur við þetta sprikl mitt og skemmti ófáum með tilburðum. Skakklappaðist í næsta apótek og stóð þar upp á endan þar til ég fékk afgreiðslu eftir u.þ.b. 20 mín. fékk hluta af lyfjunum, þarf að fara aftur á morgun til að sækja rest, rýr lagerinn hjá Lyf og heilsu og það hjá báðum útíbúunum.

Lét aldeilis ekki þar við sitja, hoppaði fimlega í Pennan og keypti mér krossgátublað enda búin að krota í hverja einustu sem til var á heimilinu. Þaðan lá leiðin í ,,eftirlætis" verslun mína;  NETTÓ. Hafði vit á því að kaupa lítið inn enda takmarkað hægt að hengja á hækjurnar en skoppaði sæl með mína körfu um alla búðina og týndi í körfuna. Var reyndar farin að vera eilítið framlág á þeim tímapunkti en allt hafðist þetta.  

Þegar út var komið voru málin farin að vandast eilítið, ég krítarföl  með svima og ógleði átti eftir að koma körfunni að bílnum sem var spölkorn frá.  Þrekið búið og máttlítil í handleggjum enda ekki í góðri þjálfun, hm, hm. En viti menn, ætli riddari á skjóttum hesti hafi ekki birst og boðið mér aðstoð sína. Í fyrsta sinn sem slíkt gerist frá því ég varð hreyfihömluð. Fannst nú ekki auðvelt að þiggja aðstoð en sá mér ekki annað fært. Þessi elska skutlaði kerrunni að bílnum þannig að ég gat einbeitt mér að því að halda jafnvægi og koma mér á leiðarenda. Það hafðist. Ferðin tók tæpa 2 klst. í stað 30 mín venjulega en það var allt í lagi, ég hafði nægan tíma.

Það var lúin kona sem fór upp í bílinn sinn og ók heim á leið. Svo lúin að ég hef verið að fara eina og eina ferð til að sækja einn og einn poka út í bílinn í kvöld. Það er líka allt í lagi, það er ýmislegt á sig lagt fyrir frelsið og sjálfstæðið.

Get ekki sagt að ég hafi verið afkastamikil síðan en það sem mestu máli skiptir er að ég er sjálfbjarga og kemst minna ferða sjálf, a.m.k. að einhverju leyti. Þarf ekki að hringja og væla eftir aðstoð, takmarka mig við eina búðaferð í viku eins og ég sé í afdölum. Ég get farið þegar og eins oft mig langar. Skiptir þá engu máli þó innkaupin sú snautleg í hvert skiptið, ég get alltaf farið afturTounge

Það kom mér á óvart hversu mikið ég upplifði áreiti í kringum mig, bæði utan- og innandyra. Hef náttúrlega ekki haft neitt slíkt í kringum mig hér, hlusta einungis á sjálfa mig, köttinn og sjónvarpið. Heyri einstaka sinnum í einhverjum í síma en þó mjög sjaldgæft.  Skil nú betur hvað gamla fólkið er að tala um þegar því finnst erfitt að vera innan um margt fólk, það er mikið áreiti og tekur á ef maður er dottinn út úr slíkum aðstæðum.

Er sem sé búin að skipta um gír, segi stopp á hjálparleysi, einangrun og leiða. Nýliðin helgi eins sú lengsta og leiðinlegasta sem ég hef upplifað í lengri tíma. Afleiðingarnar allt of mikill tími til hugsana og auðvelt að detta niður í söknuð og minningar. Kemst kannski ekki langar vegalengdir með góðu móti ennþá en ég kemst alla vega minna nauðsynlegra ferða, það er það sem skiptir máli. Þó afleiðingarnar séu fjórfaldur fótur og þreyta, þá er það bara allt í lagi. Ég hef nægan tíma til að hvíla mig. 

 

swollen_foot Minn fótur er í líkingu við þennan eftir daginn en ekki geng í ég stuttbuxum þessa dagana þannig að það er í lagi

 


Gat verið verra

Þá liggja næstu 4 vikur fyrir, fæ að tylla í fótinn eftir 3 vikur, alla vega styttra eftir en búið er. Á að byrja í sjúkraþjálfun til að hreyfa hnéð, ekki talin geta ráðið við það sjálf. Leita með rauðum ljósum að sjúkraþjálafara á lausu. Fréttir dagsins gátu verið verri. Ný beinmyndun hafin við liðfletina sem er mjög jákvætt.  Fékk að sjá myndir í fyrsta skiptið. Úff, beinið mölbrotið frá liðhaus, reyndar bæði og niður eftir sköflungsbeininu, hafi ég skilið þetta rétt. Brá dálítið að sjá þetta á myndinni. Lítið rætt um framhald umfram næstu 4 vikurnar, þetta verður bara að fá að gróa, einhvern veginn. Það hefst með tíð og tímaWink

Losnaði við gipsið og fékk þessa líka forlátu spelku með fjöldan allan af frönsku rennilásum og ,,liðamótun", aldrei séð slíka fyrr. Nær eins hátt og gipsið en mikið mýkri, léttari og eftirgefanlegri. Seljandinn kom brunandi alla leið úr Hafnafirði til að færa mér hana til að ég þyrfti ekki að taka leigubíl þangað. Lá eins og prímadonna á bekk með kaffi og með því á meðan ég beið.  Yndislegt að  koma á endurkomuna, þar ganga hlutirnir, fumlaust og áreynslulaust eins og smurð vél. Engir flöskuhálsar. Öllum virðist líða vel í sínu starfi og viðmótið framúrskarandi. Það væri lærdómsríkt fyrir einhverja stjórnendurna að eyða þar einum eða tveim dögum og læra hvernig hlutirnir eiga og geta gengið fyrir sig. Ég bókstaflega dáist af kollegum mínum og öðru starfsfólki á deildinni. InLove

Þurfti að koma við í Orkuhúsinu á heimleið í eina rannsókn, klöngraðist þar upp tröppur og brekkur.  Hönnun andyris og húsnæðis einungis með gangandi fólk og hjólastóla í huga og þá með fylgdarmanni því fáir ná að keyra sig sjálfir upp allan hallan þarna.  Hef reyndar rekist á ótrúlegustu hindranir síðustu vikur, bæði í verslunum og á ýmsum stöðum sem gera fötluðum mjög erfitt fyrir. Hef þakkað fyrir að vera ,,fötluð" tímabundið og mun örugglega sýna þeim hóp meiri skilning en áður. Hef sjálf lent í því að krakki klifraði yfir fótinn á mér í ákafa sínum til að nálgast pulsupakka, verið beðin um að víkja og jafnvel ýtt til hliðar í verslunum og þar fram eftir götunum. Jafnvel lent í því að þurfa að hökta langar leiðir úr stæði þar sem frískir einstaklingar taka frá stæði fatlaðra til að spara sér sporin. Í öllu falli athyglisverð reynsla. 

Mér hefur verið tíðrætt um það hversu hratt tíminn líður. Fékk póst í dag sem minnti mig enn frekar á þá staðreynd.  Boðsbréf frá Háskóla Íslands og hamingjuóskir með 25 ára útskriftarafmæli. Finnst ótrúlegt að það séu 25 ár síðan ég fékk mitt prófskírteini sem hjúkrunarfræðingur. Á næsta ári eru 30 ár síðan ég lauk stúdentsprófi. Mér finnst þessir atburðir ekki svo íkja langt síðan.

Hef yfirleitt notið þess að starfa sem hjúkrunarfræðingur, verið mín hugsjón en einnig haft gaman af kennslu. Hef bætt við meiri menntun í kennslufræðum og á meistarastigi til að auka færni mína og starfsmöguleika.  Þegar ég lít í launasumslagið blasir sú sorglega staðreynd við að öll sú menntun sem ég hef bætt við mig, skilar sér ekki í hærri launum. Það gerir 25 ára starfsreynsla ekki heldur Í raun grátlegt að sjá hver staðan er en fleiri áhrifaþættir koma þar að málum veit ég. 

Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvað hefur farið úrskeiðis í launaþróun minna stétta. Ugglaust eru þar margir samverkandi þættir að verki. Ég hef ekki tekið mér sumarfrí þessi 25 ár frá því ég útskrifaðist nema til þess eins að starfa annars staðar. Hef alltaf þurft að gera það enda alið upp mín börn að stórum hluta ein. Hef unnið allt að 180% vinnu á 2-3 stöðum til að ná endum saman, ekki síst eftir að ég gafst upp á að vinna eingöngu vaktavinnu. Var orði þreytt á því að senda börnin frá mér önnur hver jól og áramót, geta ekki sofið á daginn eftir næturvaktir o.s.frv. 

Mér finnst þó eins og síðustu 6-8 árin hafi verið þyngri í þessum efnum, launaskrið í mörgum stéttum en ekki meðal hjúkrunarfræðinga og framhaldsskólakennara þannig að við erum komin langt aftur úr. Kaupmáttur launa minnkað og efnahagsástandið fer versnandi. Forysta þessara stétta er ekki öfundsverð að semja við þessa aðstæður. Stéttirnar búnar að fá nóg, krefjast leiðréttingar og lítil von til að ríkið sé reiðubúið til að ljá máls á þeim kröfum. Það blæs ekki byrlega og ljóst að það tekur tíma að fá leiðréttingu á þeim launamismun sem hefur myndast á milli sambærilegra stétta. En við getum líka kennt sjálfum okkur um, það hefur vantað samstöðu og slagkraft í okkur til að berjast gegn þessum launamismun. Það er ekki nóg að forystan berjist, við verðum að gera það líka og vera samstíga. 

Í fyrsta skipti á ævi minni hef ég alvarlega íhugað það að flytja úr landi og starfa erlendis. Ég held nefnilega að grasið sé raunverulega grænna hinum megin, að sú hugsun sé ekki einungis hyllingar. Ég hugsa að margur sé sammála mér í því að sennilega hafa tímar ekki verið jafn dökkir hér á landi síðan á 7. áratugnum þegar kemur að efnahagslegri stöðu okkar. Það er hins vegar feikinóg af peningum í þjóðfélaginu, þeir eru á fárra manna höndum. Þeir sem slysast í að mennta sig á öðrum sviðum en viðskiptum og fjármálum, verða að sætta sig við það að sitja eftir. Fæstir fá  sneið af velmegunarkökunni.

Það er hins vegar von fyrir suma í einkavæðingastefnu stjórnvalda. Þar liggja fjármunir, fjárfestingar og gróði. Einkareknar lækna- og rannsóknarstofur hafa sprottið upp eins og gorkúlur um allt höfuðborgarsvæðið, aðgerðir framkvæmdar víða þannig að sá geiri blómstrar. Mér þætti fróðlegt að sjá tölur um það hversu hátt hlutfall aðgerða fer fram á einkareknum skurðstofum úti í bæ, miðað við aðgerðir inni á sjúkrahúsunum. Hversu hátt hlutfall skyldi það vera í raun? 40% eða 70%??

Eins og ég hef stundum sagt; ,,if you can´t beat them, join them" þannig að ef fólk ætlar sér að starfa innan heilbrigðisgeirans þarf það að hugsa sinn gang í auknum mæli. Það kæmi mér ekki á óvart ef LSH verði einkavæddur, Pétur Blöndal mun leggja ýmislegt á sig til að komast hjá starfsmannalögunum úr því honum tókst ekki að afnema þau. Of mikil andstaða meðal fagstéttanna en Pétur mun ásamt fulltrúum atvinnulífsins finna einhverjar leiðir. Hefur auðvitað stuðning allrar ríkisstjórnarinnar til þess. Það er fátt sem getur stöðvað Sjálfstæðismenn í sinni stefnu núna. Þannig er það einfaldlega. Einungis spurning hvað þeir verða snöggir að afgreiða mál og frumvörp úr þingi

 

 

 


Næsta skref

Tímamót framundan á morgun. Fæ úr því skorið hvort brotin séu að gróa eðlilega og óhætt verið að fjarlægja gipsið og fara hreyfa hnéð hjá sjúkraþjálfara. Ekki laust við tilhlökkun á bænum sem þó er kvíðablandin. Er ekki vön að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig. Hvað skyldi koma upp næst  LoL

Geri mér ekki grein fyrir stöðunni, safna gríðalegum bjúg á fótinn þegar ég sit við tölvuna og vinn mína vinnu sem rennur ekki af fætinum yfir nóttina þannig að ég hef þurft að stytta viðveruna við viðhaldið mitt upp á síðkastið. Bjúgurinn tefur allt ferli gróanda þannig að ég verð að reyna að draga úr honum. Er ekkert óskaplega verkjuð í fætinum, veit aðeins af hnénu, sérstaklega á næturnar þannig að það er ekkert nein ákveðin vísbending um að ferlið sé ekki eðlilegt.  

Ákvað það strax eftir brotið að ég skyldi halda mínu striki eins og ég gæti varðandi mína vinnu, hausinn í lagi og hendurnar þannig að mér fannst eðilegt að gera eins mikið og ég gæti. Hef þó ekki verið á fullum dampi, eiginlega langt frá því. Sem betur fer hef ég mætt miklum skilning vegna þessa frá flestum en þó ekki öllum. Sumir eru frekar pirraðir út í mig, finnst hlutirnir ekki í nógu góðum farvegi og að ég standa mig illa.  Tek það svolíitið nærri mér, ég verð að viðurkenna það. Kannski hefði verið hreinlegra að fá afleysingu fyrir mig. Það hefði engu að síður þýtt tafir á ýmsu þannig að ég mat stöðuna þannig að betra væri að ég kláraði. En það er aldrei hægt að gera öllum til hæfis, það vita allir. Meira að segja ég og verð að sætta mig við það.W00t

Ég er harðákveðin í því að fara að vinna um leið og ég get tyllt í fót og keyrt bílinn. Þvílíkur lúxus sem það verður, ég fæ vængi við tilhugsunina. Hef vissar  áhyggjur af úthaldinu sem er nákvæmlega ekkert síðustu 5 vikurnar. Komin þó á hraða skjaldbökunnar eftir að hafa skriðið eins og snigill um hríð.  Verð örugglega einhvern tíma að ná upp fyrra þreki, finnst eiginlega stórmerkilegt hversu mikið svona óhapp getur sett strik í reikninginn varðandi líkamlegt heilsufar. Hefði seint trúað því að óreyndu. Mér er þó sagt að óhapp sem þetta sé mikið áfall fyrir skrokkinn og því meira eftir því sem maður eldist. Ég yngist ekki fremur en aðrir þannig að ég verð að kyngja því að svona eru hlutirnir. 

Þó ég losni við gipsið á morgun er ég ekki laus úr prísundinni, það mun örugglega taka tíma að aðlagast nýjum þyngdar- og jafvægispunkti og framundan mikil vinna að þjálfa upp vöðva og liði. Vöðvarýrnunin er ótrúleg eftir 5-6 vikna gipsmeðferð hjá öllum þannig að þetta tekur einhvern tíma. Ekki mjög langan þó, fái ég einhverju um það ráðið.Whistling

Það verður eitt mitt fyrsta verk að endurheimta mína ástkæru lafði Díönu sem blómstar reyndar í sveitinni og vill örugglega ekki koma heim en ég ætla að ráða því. Get hreinlega ekki beðið eftir að fá hana heim.  En ég tek eitt skref í einu, best að fagna ekki sigri of snemma og sjá hvað morgundagurinn ber í skauti sér áður en ég plana meira

 

 

 

 


Helgi enn og aftur

Þá er helgi komin enn og aftur, sú síðasta nýbúin. Er undrandi á því hversu fljótt tíminn líður þrátt fyrir félagslega einangrun og einhæft líf síðustu 4 1/2 vikuna. Ætla varla að trúa því að ég sé búin að kúldrast hérna innandyra í bráðum 5 vikur. Hefði ekki trúað því að ég myndi þrauka þetta fyrir 5 vikum síðan.

Þessi tími hefur verið lærdómsríkur í meira lagi.  Hann hefur einnig verið ansi bragðdaufur, hef farið að meðaltali einu sinni í viku út í búð. Þarf að kvabba í fólki í hvert sinn sem ég þarf að fara eitthvert. Náði að ljúka kennslunni með aðstoð systurdóttur minnar sem kom mér upp eftir. Það skipti mig miklu máli og var mér mikils virði. Verð með 2 próf, þ.a. annað í dag og var ósköp fegin að komast til að vera viðstödd það en þurfti að væla í Sigrúnu systur og fá hana sem fylgdarmann minn og bílstjóra. Hún og  Sara hafa verið helstu fórnarlömbin allar þessar vikur. 

Þó ég sé orðin rosalegar leið á þessu hangsi innandyra og finnist lífið með eindæmum einhæft er mesta furða hvað mér hefur sjaldan leiðst. Hef reyndar fengið ,,köst" og fundist allt ómögulegt en þau hafa verið fá og staðið stutt yfir. Það hefur bjargað mér að halda í fjarkennsluna, held ég og svo er nóg að gera í náminu. Álagið á þeim vettvangi hefur verið ærið. 

Þó að ég þyki heimakær með eindæmum og sjálfri mér nóg, verð ég að viðurkenna að ég hef ekki trú á því að ég þrauki öllu lengur í eigin félagsskap 24/7 mikið lengur. Ég verð því örugglega eins og belja sem hleypt er út að vori þegar ég losna við gipsið og fæ að beygja hné smátt og smátt í næstu viku. Veit ekki hversu langt það er í að ég megi tylla í fótinn en það hlýtur að fara styttast í það. Krossa bara fingur og vona að brotin séu að gróa rétt og að ég hefi verið ,,afkukluð" af æðri máttarvöldum.W00t

Það er öruggt mál að enginn veit fyrr en misst hefur, það skil ég alltaf betur og betur. Rosalega verður það góð tilfinning að endurheimta hreyfigetuna, frelsið svo ekki sé minnst á sjálfstæðið. Þangað til þakka ég fyrir alla þá hjálp sem ég hef fengið. Heart


Blessaður þroskinn

Fjórða  geðorðinu boðar að einn mikilvægasti lærdómurinn í lífi okkar sé að læra af mistökunum. Við erum ekki fullkominn og enginn getur ætlast til þess.  Enginn getur lofað okkur því að lífið sé alltaf sanngjarnt og dans á rósum. Geðorðið boðar því að skynsamlegt sé að reikna alltaf með erfiðleikum og vinna sér þannig inn forskot. Með þeim hætti er hægt að koma í veg fyrir katastróf þegar á móti blæs og erfiðleikar steðja að.  Þegar kemur að mistökun, er rétt að vera með jákvætt hugarfar og finna út þann lærdóm sem við getum dregið af mistökum okkar. 
Þeir sem eru hvað hamingjusamastir eru ekki endilega þeir sem lenda í hvað minnstu erfiðleikum og mótlæti heldur þeir sem takast á við erfiðleikana og vandamálin með jákvæðu hugarfari 

Mikill sannleikur fólginn í þessu geðboðorði  sem og öðrum.  Allt okkar líf erum við að læra og þroskast, mismikið, sumir meira en aðrir. Mistígum okkur, hrösum, rísum upp aftur og lærum að mistökunum, a.m.k. flest okkar. Af hverju meira er lagt á suma veit engin, svör við þeirri spurningu fær maður sennilega aldrei.

Ástæður andstreymis og erfiðleika eru jafn misjafnar og þær eru margar. Sumar má rekja til sjálfskaparvíta, aðrar ófyrirsjáanlegar og enn aðrar af annarra völdum. Þær síðast nefndu eru í mínum huga erfiðust að sætta sig við. Aðstæður sem einstaklingurinn hefur enga stjórn á og ræður ekki við. Sá sem lendir í slíkum aðstæðum hefur val, annað hvort að láta slíkar aðstæður buga sig og stjórna lífi sínu eða rísa upp og halda áfram. Það síðarnefnda skynsamlegra á meðan einstaklingurinn hefur þrek til þess. Þetta á reynda við um alla erfiðleika. Sálarþrek manna er hins vegar mismikið, sumir búa yfir meiru en aðrir. En valið er alltaf okkar of sjálsmynd okkar hefur mikið að segja þegar kemur að því að því að höndla erfiðar aðstæður.

Flest okkar eiga drauma, bæði í einkalífi og starfi, sumir raunhæfir aðrir ekki.  Mörg okkar leggjum mikið á okkur til að uppfylla draumana og markmiðin sem við setjum okkur. Því er nefnilega þannig farið með mannskepnuna að henni dugar yfirleitt ekki að uppfylla einungis grunnþarfir sínar eins og næringu, húsaskjól, öryggi o.s.frv.  Hún sækist eftir félagskap, virðingu annarra, vill tilheyra einhverjum og vera viðurkennd. Metin að verðleikum sem er kannski ekki sjálfgefið. Flestir vilja vera góðir í einhverju, ná langt á sínu sviði og finna að þeir eru að gera hlutina vel. Bæta sig stöðugt, finna nýjar leiðir að settum markmiðum og hafa jákvæð áhrif á aðra og umhverfi sitt. Í þessari viðleitni leggja menn mismikið á sig og vissulega á þessi lýsing ekki við alla. Sumum dugar að sinna grunnþörfum sínum, hafa ekki þörf fyrir að afreka neitt umfram það og það er bara allt í lagi.

Staðreyndin er hins vegar sú að í sumum tilvikum dugar ekki að gera sitt besta, læra af mistökunum,  þroskast, læra af reynslunni, verða sterkari einstaklingur o.s.frv. því við fáum ekki við allt ráðið. Við getum ekki stjórnað öðrum, ekki nema upp að vissu marki og við getum aldrei haft stjórn á öllum aðstæðum. Í sumum tilvikum eru aðrir við stjórnvölinn og ráða för. Við erum þá háð þeim, áherslum þeirra, valdi og vilja. Ekki raðast alltaf réttir einstaklingar við stjórnvölinn, það brennur við að einhverjir misbeiti valdi sínu, fari í manngreiningarálit, hyglir sínum o.s.frv. Við slíkar aðstæður er fátt eitt til ráða, maður verður að láta ýmislegt yfir sig ganga og gerir það. Það er hins vegar ekki þar með sagt að maður sé kátur með það eða sáttur. Kemur þá æðruleysisbænin sér vel, hef kyrjað hana oftar en einu sinni í huganum síðustu árin og kem til með að gera það áfram.

Okkur þarf sem sé ekki að líka sumt af því sem að okkur er ætlað né allar þær aðstæður sem við lendum í.  Það er hins vegar okkar val hvernig við bregðumst við og spilum úr þeim spilum sem að okkur er rétt. Það er líka allt í lagi að viðurkenna það þegar maður er ekki sáttur,Pollýönu leikurinn á ekki alltaf við þó vissulega sé hann af hinu góða. Ef sanngirni er víðs fjarri, einstaklingurinn ekki metinn af eigin verðleikum eða virðingu ábótavant er eðlilegt og heilbrigt að hann íhugi sín viðbrögð og láti í ljós vonbrigði og óánægju - eða hvað?  


Blákaldur veruleikinn

Ekki er hægt að baða sig í frægðaljóma alla daga, maður verður að horfast í augu við staðreyndir lífins líka. Ekki eru hlutirnir alveg að ganga eins og ég hafði vonað, það er svo sem ekkert nýtt. Vonbrigðin rista misdjúpt, eins og gengur.

Mundi  eftir frábærum heilræðum sem ég fékk í fyrra frá konu sem ég met mikils, þegar mest gekk á í mínu lífi:

Gerðu ráð fyrir erfiðleikum
sem óhjákvæmilegum þætti lífsins.
Berðu höfuðið hátt þegar þeir
bresta á og segðu:
„Þið hafið ekki roð við mér”
(Ann Landers)

Maður getur ekki reiknað með því að allt gangi upp, þannig er  lífið. Oft ósanngjarnt finnst mér en það þýðir ekkert að væla yfir því, slíkt gerir illt verra. Finn einhvera leið út úr mínum vonbrigðum eins og áður og rís upp aftur með einhverjum ráðum.


Fræg einn dag

Ég hef örugglega þótt nokkuð spaugileg í dag. Dreif mig upp á Skaga, síðasta staðlota annarinnar. Fikraði mig varlega niður 13 tröppurnar í stiganum hér heima, skautaði með hækjurnar utan dyra og neyddist til að skríða á hægri rasskinn niður útidyratröppurnar. Skjögraði út í bíl, skelfingu lostin og á inniskónum. Sara, systurdóttir mín, tók að sér að ferja gripinn upp á Skaga og verða honum innan handar.

Mín beið þessi líka forláti, fallega blái hjólastóll þegar að skólanum mínum var komið. Einn  nemenda minna bauð mér stólinn sem gjörsamlega bjargaði mér. Var rúllað eins og kvikmyndastjörnu inn í skólan þar sem móttökunefnd  beið mín til að kenna mér á lyftu hússins. Dagurinn byrjaði með prófi sem var byrjað þar sem við vorum aðeins í seinni kantinum. Allir á kafi við úrlausn prófsins þegar ég birtist eins og hver önnur stjarna í þessum fína, bláa hjólastól, klyfjuð hækjum, veski, tölvutösku og náttúrlega með fylgdarmann. Reisti mig tígulega úr stólnum, sýndi afburðahæfni á hækjunum og hlammaði mér á stól við kennsluborðið. Tókst auðvitað að vera með smá ,,senu" og rak mig utan í borðið með tilheyrandi. Ég get sagt með vissu að koma mín vakti athygli  en skal ekki fullyrða um aðdáun.

Mér tókst að komast í gegnum daginn stórslysalaust, svona framan af degi, enda á fína, blá hjólastólnum og nánast útilokað að gera einhver óskunda. Brunað í bæinn á kagganum hennar Söru rétt fyrir kl.13. og beint í búð. Ískápurinn tómlegur og illa lyktandi þannig að nú var lag. Náði að klöngrast á hækjunum inn í búð, hoppaði þar og hökti, benti Söru með hækjunni á það sem ég vildi láta tína í körfuna fyrir mig, eins og hver önnur stjórstjarna og stóð mig bara býsna vel. Keypti vel inn og fílaði mig í botn, eins og börnin segja. Var í draumahlutverki mínu

cinderella

 

 

 

 

 

 

Heldur vandaðist málið þegar heim var komið, fljúgandi hálka að útidyratröppunum, ég á inniskónum og engir mannbroddar á hækjunum. Var ekki alveg á því að skríða upp tröppurnar á rassinum líkt og fyrr um daginn, var harðákveðin í því að á hækjunum færi ég, með fullri reisn. Uppskar eftir því, steig óvart í brotna fótinn. ÁÁÁÁiiiiiiiiiii  heyrðist um allt hverfið. Hundur hefði ekki ýlfrað hærra.

Skakklappaðist upp mínar tröppur, úti sem inni og lauk ferðinni uppistandandi. En hvernig datt mér í hug að mér tækist að fara í gegnum daginn, stórslysalaust! Sumir stinga hausnum dýpra í sandinn en aðrir. Hef ákveðið að halda mér inni við næstu daga í ljósi þessarar reynslu. Ferðast hér eftir einungis á sópnum mínum í skjóli nætur.

FlyWitch1

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband