Færsluflokkur: Bloggar
6.4.2008 | 23:01
Nýtt hlutverk
Nú er ég að máta nýja hlutverkið mitt sem felst í að gera nákvæmlega ekkert. Einstaka pallapúl á milli hæða og hopp í minn hjartfólgna sófa. Eins gott að ég var búin að skipta þeim hvíta út, hann var búinn eftir veikindin í fyrra. Djúp dæld í honum og hið svokallaða ekta leður búið á slitflötum eftir botninn minn. Núverandi sófi er svartur sem er mikill kostur og mér sýnist slitfletir ætla að þola skrokkinn minn, ennþá.
Sigrún systir kom eins og hvítur stormsveipur í dag, í orðsins fyllstu merkingu. Á þessa líka forlátu vél; ,,Rainbow" og djöflaðist um á öllum þremur hæðum í leit af ryki, skít og hundahárum. Fékk nóg að gera, margfyllti vélina og aldrei séð annað eins. Aðallega hár og ló. Blessunin mín hún Perla og læðan hún Ísafold Katrínardætur, fara óstjórnlega úr hárum með skelfilegum afleiðingum. Nema hvað að nú get ég dregið mig upp á rassinum upp stigan án þess að verða kafloðin á botninum. Á takmarkað magn af pokabuxum til að klæðast í og þvottavélin uppi á 3. hæð þannig að ég sé fram á bjartari tíma í þeim efnum og betra loft. Pokabuxurnar allar svartar þannig að ekki þarf að spyrja að útlitinu á þeim eftir pallapúlið mitt. En Sigga mín, ástarþakkir fyrir mig
Ég varð náttúrlega svo dauðþreytt við að gera ekkert nema að fylgjast með systur að ég varð að leggja mig smá eftir að þrekvirkinu var lokið. Bara búin á því. Hef í raun nákvæmlega ekkert úthald, sit við tölvuna örstutta stund og verð síðan að skakklappast af stað þar sem mér tekst að safna ógrynni af bjúg á fótinn og þreytuverki. Endalaust þreytt, þreytt og þreytt. Er farin að halda að ég hafi lækkað meira í blóði en þegar mældist um daginn þegar magasárið var að angra mig. Ekki ólíklegt. Spurning hvort maður ætti að voga sér að hringja á blessaða deildina til að fá niðurstöður, forvitnast og leita skýringa. Var orðin lág í járnbúskap o.fl. fyrir.
Senn liðin vika frá óhappinu, rúmar 2 vikur þangað til ég fer í saumatöku og tékk. Hefði átt að mæta eftir 2 vikur en ekki 3 en sérfræðingurinn í fríi og best að hann fylgi mér eftir. Eiturklár nánungi er mér sagt, ég sá hann aldrei. Reyni að taka einn dag í einu núna, finnst skelfileg tilhugsun að hanga hér innandyra næstu vikurnar og geta ekki unnið almennilega. Hef næg verkefni en þarf að finna leið til að sitja lengur við. Gipsumbúirnar örugglega mörg kíló.
Viðurkenni að þetta nýja hlutverk er með því leiðinlegra sem ég hef tekist á hendur um ævina. Þarf heldur betur að passa mig á því að pompa ekki niður andlega. Finnst svakaleg reynsla að vera háð öðrum, fékk reyndar smjörþefinn af því þegar ég barðist við veikindin í fyrra og þurfti að stóla á Kötuna mína. Sem betur fer er ástandið ekki eins slæmt núna og allt annars eðlis. Tíminn á eftir að fljúga áfram og fyrr en varir fæ ég að stíga smá í fótinn og verð þá meira sjálfbjarga. Þangað til verð ég að sætta mig við skert úthald, sófan, sjónvarpsgláp og poppát. Setja upp sólgleraugu þegar sólin skín og muna að það kemur vor eftir þetta vor. Ég lifi þetta af eins og annað.
Mér sýnist af nægu að taka þegar kemur að pólitíkinni. Einset mér það að vera vakandi yfir fréttunum á næstunni. Mér sýnist fjör vera að færast í leikinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.4.2008 | 00:34
,,Aldrei að segja aldrei"
Var illþyrmilega minnt á þessi orð í gær. Hef lýst því fjálglega að á slysa- og bráðamóttköku LSH færi ég ekki nema meðvitundarlítil og á börum. Neyddist sem sé til að éta þau orð ofan í mig í gær.
Ég fékk nefnilega þá ranghugmynd að nú væri komið vor og að gluggar skyldu þrifnir enda ekki vanþörf á. Var auk þess með gardínur fyirr annan eldhúsgluggan tilbúnar sem átti eftir að hengja upp þannig að ég réðst í hörkuframkvæmdir um kaffileytið í gær. Ég er náttúrlega ekki þekkt fyrir annað en brussuskap og ótrúlega lífseiga óheillastjörnu og klikkaði ekkert á því fremur en endranær.
Flaug á hausinn, mölbraut á mér hægri fótlegg og hnjáliðurinn í mask.Öll liðbönd slitin. Neyddist þ.a.l. að skríða niður stigan hjá mér og koma mér upp á slysó með taxa þar sem við tók maraþon bið, að vanda, frá kl. 17.30. Reyndist auðvitað ekki í forgangi, verkjastillt kl. 23.30 þegar mér var trillað upp á skurðstofu. Hímdi eins og hver annar aumingji á biðstofunni til kl. 20.30, tókst að næla mér í hjólastól sem bókstaflega bjargaði lífi mínu. Gekk illa að hoppa á öðrum fæti. Hálsbólgur og eyrnarbólgur í forgangi á því heimilinu en eitthvað slæddist sjúkrabíll af og til á móttökuna.
Brotið neglt í nótt sem sé, og því tjaslað saman sem hægt var að tjasla. Var rækilega minnt á að ég er ekki tvítug lengur. Ekki þýddi að svæfa þá gömlu, fór í mænudeyfingu og fékk í alla staði frábæra þjónustu og ummönnun á skurðstofunni. Og það sem meira var, ég var verkjastillt enda ekki nokkur lífisins leið að hreyfa bév löppina til eins eða neins.
Reynsla mín og upplifun á slysó og legudeild efni í heila bók. ,,Mátti vera í sólahring" ef ég vildi en fljót að pilla mér heim hið snarasta um leið og ástand leyfði. Meira um það síðar.
Hoppa sem sé á hækjum, stíg ekki í fótinn næstu vikurnar og í gipsi upp í nára. Háð öðrum með allar bjargir,hef notið þvílíkrar aðstoðar Söru, systurdóttur minnar og Gunnars Brynjólfs. Næ að koma mér niður stigana á hækjunum en rög við að hoppa upp þannig að mín skríður á rassinum eins og lítið barn. Er haldin þeirri þráhyggju að ég muni detta.
Bölva mikið að búa á 3 hæðum en þetta kemur til með að blessast. Tíkurnar keyrðar akút vestur í Borganes þar sem Lóa tók á móti þeim og fór með vestur. Þar verðar þær um stundarsakir, alla vega. Ekki veit ég hvar ég væri ef þeirra nyti ekki við. Ég er enn og aftur minnt á hvað ég á góða að.
Erfitt fyrir krakkana að halda sér við námið, vildu auðvitað koma beint heim en þetta er nú ekki hundrað í hættunni, brot er ekki alvarlegur sjúkdómur og grær. Verð komin með massíva upphandleggsvöðva áður en langt um líður, löngu orðið tímabært að fara í einhverja líkamsrækt. Get ekki hugsað mér að krakkarnir fari að missa úr skóla til þess eins að þjóna mér. Námið of strembið til að þau geti leyft sér að missa úr. Þetta gæti verið verra, eins gott að aðsvif var ekki ástæðan fyrir fallinu, þá hefði maður verið að kljást við allt annað.
Maður á sem sé ,,aldrei að segja aldrei" og ég neyðist til að éta fyrri orð mín ofan í mig. Var reynda bent á að ég hefði fengið skjótari þjónustu ef ég hefði hringt í 112. Sjálfsbjargarviðleitnin borgar sig alla vega ekki í þessum efnum. En satt best að segja þá held að ég muni láta fyrri orð standa og fari ekki með öðrum hætti í gegnum slysa- og bráðamóttöku LSH en á börum, jafnvel þó ég verði einungis með litla skrámu. Það er eitthvað stórkostlegt að kerfinu á þeim bænum, svo mikið að að starfsólk virðist vera búið að fá nóg og gefast upp. Það hefur hins vegar lítið upp á sig að skjóta sendiboðan, vandinn er djúpstæðari en svo. Meira um það síðar en réttur fótur var alla vega negldur.
Eldhúsgardínurnar fóru upp, mitt fyrsta verk að ljúka því þegar heim var komið. Rosalega gott að vera komin heim í heiðardalinn. Búin að uppgötva áður óþekkta vöðva, nú verður tekið á því
Þigg það hins vegar að losna undan eilífðaróheillastjörnunni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.3.2008 | 00:32
Fátt og smátt
Allt við það sama í þessum herbúðum. Fékk þó þær gleðilegu fréttir að ekki greinast nein merki um krabbmein hjá mér, hvorki í lunga, lifur né annars staðar. Brenglaðar blóðprufur enn og merki um sýkingu einhvers staðar. Hún er hins vegar ekki fundin ennþá. Smámál miðað við það sem það gæti hafa verið, þannig að nú er bara að bíta á jaxlinn og sjá hvort ástandið haldi ekki áfram að skána. Tilraunir til fæðuinntektar enn afdrífaríkar þannig að ég mun hægjia á mér í þeim efnum í bili. Er ekki á fullri orku, svaf í 4 tíma seinni partinn og fram og kvöld. Rétt náði að klóra mig í gegnum dagsverkið. Geri aðrir betur
Hef hætt mér áfram út í umræður á blogginu um innflytjendamálin en verð að viðurkenna að það er ekki þess virði. Sumir eru einfaldlega liðamótalausir tréhestar og sjá einungis hlutina í svörtu og hvítu. Þýðir ekkert að rökræða við þá. Slíkir menn eru þó hættulegir, komist þeir til valda og það er áhyggjuefni. Ekki hægt að skrifa allt á unggæðishátt og sterkar hugsjónir. Menn geta blindast og gleymt sér í offorsinu sem kann ekki góðri lukku að stýra. Ekki vænleg leið til árangurs að vaða yfir fólk á skítugum skónum og ,,æla yfir það", eins og unga fólkið orðar það.
Hins vegar vona ég að ráðamenn þjóðarinnar vakni til lífsins og fari að viðurkenna þann vanda sem upp er kominn í þjóðfélaginu varðandi glæpi. Hann er þó ekki einungis bundinn við innflytjendur en vissulega hafa sumir hverjir breytt áherslum og litað ástandið hressilega síðustu misserin.
Ekki blæs byrlega fyrir okkur þjóðinni þessa dagana. Núverandi ríkisstjórn segist þó sátt og hlutirnir í lagi. Engin ástæða til að örvænta. Einhvern veginn tekst ráðamönnum ekki að sannfæra mig í þessum efnum. Framundan áframhaldandi hækkanir. Fæ ekki séð að kaupmáttur launa haldist óbreyttur. Var það ekki eitt af skilyrðum fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru í vetur?
Lengi getur vont versnað, svo mikið er víst. Við erum rétt að þreifa á toppi ísjakans, grunar mig. Þó eru allar kistur ríkissjóðs fullar. Einhverjir sitja eins og Jóakim frændi á þeim en hver skyldi hagnast mest?
Nýskipuð lyfjanefnd undir forystu Pétur Blöndals hlýtur að fara að skila áliti og tillögum um breytta hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Var að taka sama lauslega kostnað minn vegna gigtarlyfja en ég hef leyst út ógrynni af fjölmörgum tegundum undanfarnar vikur, í því skyni að finna ,,rétta" lyfið. Sá kostnaður slagar upp í 70 þús krónur. Pakkningarnar rofnar en meiri hluti af skammtinum enn í pakkningunum uppi í skáp þannig að úrvalið er mikið. Get sem sé ekki notað lyfin. Verð að viðurkenna að mér finnst ansi hart að fara með lagerinn í næsta apótek til að láta eyða honum. En hver skyldi kostnaðurinn verða af sömu lyfjum og skömmtum eftir fyrirhugaða breytingu? Það verður fróðlegt að sjá.
Meira um lyf, gerði litla könnun á verði á algengu verkjalyfi um daginn. 20 stk í töfluformi, kosta 460 kr. í apóteki utan höfuðborgarsvæðisins en 280 kr. í sömu lyfjakeðju í höfuðborginni. Sama lyf, magn og skammtur en í formi stíla, kostar 2.400 kr. rúmar. Hverfandi munur var á verði gigtarlyfs á milli þessara apóteka og enginn munur á lyfjaformum, þ.e. sama verð á töflum og stílum. Ótrúlegt en dagsatt. Meira um það síðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.3.2008 | 00:59
Páskafrí
Sú var tíðin að mér þótti páskafríið vera langt og sumir dagar ætluðu aldrei að líða. Hver man ekki eftir föstudeginum langa sem var óendanlega langur? Ekkert við að vera enda allt bannað nema að borða og fara í messu. Verslanir og veitingastaðir lokaðuð.
Sá tími er greinilega liðinn. Nú líða þessir dagar með ógnarhraða, páskafríið að verða búið. Einungis tveir dagar eftir. Hef setið sveitt við verkefnagerð síðustu daga, ýmist yfir einstaklings- eða hópverkefnum og hvergi nærri því búin. Var svo bjartsýn að ég taldi mig geta rumpað þeim af í síðasta lagi í dag. Ætlaði heldur betur að dúlla mér hér innandyra, fara í göngur og ég veit ekki hvað og hvað. Hef ekkert gert af því sem ég ætlaði í þeim efnum. Hef hins vegar verið yfirmáta iðin við svefninn, finn mér endalausar ástæður til að leggja mig á milli stríða. Get því ekki sagt annað en að ég hafi haft það gott.
Katan er ein að dúlla sér úti núna, Hafsteinn í ferðalagi fram á miðvikudag. Veit að hún er með heimþrá en stendur sig vel. Þessir páskar öðruvísi en hún á að venjast, var í prófi í gær, á föstudaginn langa og hafði ekki tök á því að mæta í fermingu systur sinnar. Fer í páskadinner annað kvöld með vinum sínum þannig að það væsir ekki um hana. Er flúin úr herbergi sínu vegna innrásar maurana sem láta ekki á sig bilbug finna og blómstra sem aldrei fyrr. Enn nokkuð kalt í veðri í Debrecen þó vissulega sé farið að hlýna.
Set stefnuna á að ljúka verkefnum á morgun svo ég geti notað a.m.k. einn dag í tiltektir og annað sem hefur safnast upp. Heilsufarið í áttina á meðan ég gæti þess hvað fer ofan í mig en finn að úthaldið er minna en oft áður. Vonandi verða einhverjar línur lagðar eftir páska. Það er ekki nóg að greina vandan, það þarf að meðhöndla hann.
Læt það pirra mig svolítið að fá ekki Moggan minn á morgnana í heila 5 daga. Finnst það með ólíkindum, ekki lækkar áskriftargjaldið sem því nemur. Hef ráðið krossgátur í staðinn sem kemur ekki í staðinn fyrir þá hefð að fletta blöðunum á morgnana. Maður er ekkert annað en vaninn og frekjan í þeim efnum.
Heyrist ekki boffs í stjórnmálamönnum, allir í fríi og vandamálin hrannast upp án umræðu. Einu fréttirnar sem berast eru ýmist um rán, ofbeldi eða það sem verra er; banaslys. Síðast ungur maður fæddur ´84. Ég fæ hroll við tilhugsunina, það er erfitt hjá mörgum þessa dagana.
Þrátt fyrir strembna verkefnavinnu, verður ekki hægt að segja annað en að ég sé búin að hafa það gott. Svolítið ein á báti og skrítið að hafa ekki fjölskylduna í kringum sig en svona er lífið. Sumt er ekki við ráðið. Ekkert annað en að aðlagast breytingum taka þeim með bros á vör. Í öllu mótlæti felast tækifæri.
Verð í góðum félagskap annað kvöld hjá bróður og hlakka mikið til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2008 | 22:57
Leitin mikla
Smátt og smátt að detta inn rannsóknir og einhverjar niðustöður. Ómun af gallvegi, brisi og lifur í dag. Öll líffærin búin að húrra sig upp og planta sér þar sem lungað var áður. Gekk fremur seint að ómskoða vegna þessa og rifbeinin fyrir í þokkabót. Ekki komin með formlegar niðurstöður enn, reyndi að pumpa doktorinn sem ómaði sem sagðist hvorki sjá grjót í gallblöðru né einhver kvikindi í lifrinni. Gæti ekki hafa fengið betri fréttir þó óformlegar séu. Ekkert grín að þurfa að svæfa þá gömlu og ekki spennt fyrir kvikindum.
Út af borðum standa sem sé verkir og brengluð lifrarpróf, járnskortur og eitthvað fleira. Beðið eftir frekari niðurstöðum, t.d. um lifrarbólgu, sjálfsónæmissjúkdóma og sitthvað fleira. Tími hjá Sigga Bö á morgun og svo heldur leitin mikla áfram. Verkjaköstin lítt skárri og páskar framundan. Vil gjarnan fá að bragða á páskalambi. Gatið í maganaum hlýtur að vera að lokast, hætt að taka gigtarlyfin, læt mig hafa þá verkina. Get lengi við mig blómum bætt.
Dagurinn með þeim skrautlegri, verð fegin að skríða í koju. Hef ekki sama úthald og þrek og áður, svo mikið er víst. Er ákveðin í að eyða páskunum í hvíld og ,,dúllerí" inn á milli. Sauma einhverjar gardínulufsur og fínisera í kringum mig. Kannski kíkja í eina heimsókn eða tvær, farin að skulda þær margar. Hver veit nema að ég verði dugleg að hreyfa tíkurnar sem er löngu orðið tímabært og ljúka einhverjum verkefnum. Í öllu falli verður dúll á minni miðað við daglegt líf.
Geymi heimsókn til krakkanna til betri tíma, er ekki í formi til að endurþeytast út fyrir nokkra daga. Hvor ferð fyrir sig tekur um sólahring þannig að ég vil stoppa lengur í einu. Skelli mér í maí eða júní. Hlakka mikið til að hitta krakkana sem eru að gera góða hluti og gengur vel
En núna er mín búin á því
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.3.2008 | 12:38
Tipl
Hjartans þakkir fyrir kveðjurnar öll sömul.
Nú er bara tiplað á tánum, stigið varlega til jarðar og fingur krossaðir til að rífa ekki upp plásturinn. Engu má muna og lítið þarf til. Apótekið átti einungis útrunnin lyf á föstudaginn og fékk ég því aðeins lágmarksskammt yfir helgina. Dugir varla til en það kemur sér vel að mér þykir undurgott að sofa. Ástandi tæpt en sleppur til, í öllu falli allt annað líf en í síðustu viku. Vill maður ekki alltaf meira....
Þetta ástand kennir manni að njóta lífsins á meðan vel gengur og minnir mann á að góð heilsa er ekki sjálfgefin og sjálfsögð. Bíð spennt eftir varanlegum breytingum á þessu ástandi, mér finnst vorið vera komið í loftið og daginn aldeilis farið að lengja. Ætla mér að vera komin í fanta form í maí
Enn og aftur komið að kaflaskilum eða straumhvörfum í mínu lífi, svo ég gerist nú skáldleg. Ekki endilega á þeim tíma sem ég hafði vænst eða valið sjálf en sumt ræður maður ekki við. Ekkert annað að gera en að vinna úr þeirri staðreynd. Kannski gott að eitthvað utanaðkomandi hafi orðið til þess að ýta við mér að taka ákvarðanir en er ekki svo að maður vill ráða förinni sjálfur??? Er búin að vera ansi lengi á bremsunni á grænu ljósi. Nú dugar ekkert annað til en að bretta upp ermar og ákveða hver stefnan verður inn í framtíðina. Ekki laust við smá titring engu að síður, óvissa aldrei góð og framtíðin óljós. Ekki nýtt svo sem, aldrei lognmolla í kringum mig, á ekki von á því að það breytist.
Nú er að sjá hvað örlaganorninar ætla sér með mig
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.3.2008 | 01:58
Að loknu dagsverki
Var að ljúka dagsverkinu, búin að vera býsna afkastamikil. Er í réttum takti og í skilum, bæði með vinnu og eigin verkefni. Nóg af þeim síðarnefndu þessar vikurnar en aldrei slíku vant þá er ég að ná því að vera á réttum tíma með skil. Ótrúlega notaleg tilfinning.
Hef verið með skásta móti í dag, nóttin ferleg hins vegar. Virðist verri þegar ég ligg út af. Ætla mér hins vegar ekki að fara að sofa í stól, dettur það ekki í hug. Læt mig frekar hafa það. Bæti mér yfirleitt upp svefninn þannig að þetta gengur.
Lét mig hafa það að prófa spaghetti uppskrift Stýra í gærkvöldi og hélt henni niðri. Engin ósköp sem ég gat látið ofan í mig en munaði um. Hef oft fengið verri verki eftir hinar ýmsu tilraunir mínar. Hellti í mig eggja- og rjóma glundrinu í dag sem Gunnar Skúli ráðlagði mér. Sú viðleitni tók á, er með afbrigðum klígjugjörn en svei mér, glundrið svínvirkaði. Mér leið strax betur í maganum og hef ekki fengið verkjasting síðan, 7, 9, 13! Takk fyrir mig strákar
Læt veðrið fara svolítið í pirrurnar á mér. Langar að vera úti, fara í göngutúr með tíkurnar og yfir höfuð hreyfa mig þegar sólin skín. Færðin býður ekki upp á að ég láti þær draga mig á eftir sér. Miðað við mína happastjörnu þýðir það fall og beinbrot þannig að ég legg einfaldlega ekki í það. Lundin léttist óneitanlega þegar sólarinnar nýtur við en vá hvað allt er skítugt hjá manni. OMG! Ástandið er svagalegt, hundahár út um allt. Öllu heldur flókar eins og ég hef áður nöldrað yfir. Er eiginlega ráðþrota með Perluna og köttinn
Hef lítið fylgst með fréttum að undanförnu, fæ stundum leið á pólitíkinni og hef einnig haft nóg að gera. Yfirstandandi bændaþing hefur þó ekki farið fram hjá mér. Mig skal ekki undra þó bændur kvarti yfir sínum kjörum. Hvernig má annað vera? Sauðfjárbændur eru trúlega tekjulægsti hópurinn í landinu og öll aðföng og rekstrarvörur hafa hækkað um tugi prósenta. Hvernig má annað vera en að þeir krefjist hækkunnar á sínum afurðun?
Mér fannst klént að heyra til ráðamanna; ef bændur hækka afurðir mun verðbólgan aukast, neysluverð hækka og lífskjör versnað. Það er alveg rétt en hvað eiga bændur að gera? Þeir hafa setið eftir árum saman. Það eru eingöngu bændur á stærstu búunum sem skila einhverri framlegð, aðrir þurfa að vinna utan bús til að hafa ofan í sig og á.
Þessi staða bænda er ekki góð, hvorki fyrir þá né almenning í landinu. Hvað skyldu ráðamenn gera nú? Það verður fróðlegt að fylgjast með
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.3.2008 | 23:53
Rólegheit
Helgin búin að vera ansi róleg og viðburðarsnauð. Fátt til að krydda tilveruna nema örfá ,,ólánstilvik" eins og mér er einni lagið.
Dreif mig með grútskítugan bílinn á þvottastöð í gær sem er ekki frásögu færandi. Nema hvað, ég beið í rúmar 45 mín eftir að komast að og andaði léttar þegar bíllinn var kominn í ,rennuna" og farinn af stað. Fylgdist með öðru auganu þegar sápunni var skvett yfir kaggan. Þegar bíllinn var í miðju sápubaðinu stefndi í óefni. Bílinn fyrir framan mig haggaðist nefnilega ekki en minn bíll aftur á móti var á fullri siglingu í átt til hans. Hamaðist eins og brjáluð á bremsunum en ekkert dugði. Bíllinn fór upp og niður úr rennunni og hélt áfram. Þegar ekki var nema hársbreidd á milli okkar, lamdi ég í flautuna og það gerði hinn bílstjórinn líka. Eftir að flauturnar höfðu dunað í kór um stund og minn bíll kominn í rassinn á hinum, komu loks kornungir drengir og slökktu á græjunum. ,,Árekstri" afstýrt á síðustu sekúndunum.
Bíllinn fyrir framan mig fékk handþvott og þurrkun og loks opnaðist hurðinn og hann út. Ég beið síðan í tæpa 30 mín eftir að græjurnar færu í gang á ný og rosalega var ég fegin þegar bíllinn var ,,búinn" og ég komin út. Var stórlega létt, laus úr prísundinn og með hreinan bíl, loksins. Ekkert smá ánægð á mínum hreina bíl. Sú ánægja varði hins vegar ekki lengi. Þegar úr bílnum var komið blasti við mér heldur ófögur sjón; sápuslettur og taumar eftir bílnum öllum. Skítarrákirnar og tjaran líka. Ég hreinlega nennti ekki á þvottastöðina til að láta þvo hann aftur.
Neyddist til að fara í Smáralindina til að ná mér í nýjan afruglara fyrir stöð 2. Sá gamli gaf hreinlega upp öndina. Þarf að sætta mig við gömlu týpuna enda ekki með örbylgjuloftnet og enn á biðlista eftir ADL tengingu fyrir sjónvarpið. Þó búin að bíða síðan í janúar. Nema hvað, þegar heim var komið, fór mín í stillingarnar (sem ég hata) en ekkert gekk auðvitað. Ekki lengi að hringja í Stöð 2 til að fá leiðsögn við uppsetninguna. Eftir 45 mín basl, gáfumst við bæði upp, ég og þjónustufulltrúinn sem tjáði mér að sá afruglari sem ég fékk væri ónýtur.
Mín var ekki beinlínis kát, klukkan orðin 18.30 og allt lokað. Laugardagskvöld í þokkabót. Náði ekki að horfa á stöð1 í sjónvarpinu, allar stillingarnar út í Q. Var auðvitað nett pirruð en kvöldinu eyddi ég fyrir framan tölvuna í minni endalausu verkefnavinnu. Stöð 2 hrökk inn seinni partinn í dag, eftir langa mæðu og dygga leiðsögn þannig að mín er búin að vera ,,tengd" í kvöld. Þvílíkur lúxus.
Til að kóróna daginn var ég svo bíræfin að koma við í sjoppu og kaupa mér hamborgara. Ég var svoooooooo svöng, nú skyldi ég láta mig hafa það. Hlakkaði mikið til að gæða mér á honum. Lítið varð úr því, kornung stelpa á óskoðaðri ,,druslu" svínaði fyrir mig í hringtorgi með þeim afleiðingum að hamborgarinn þeyttist fram í bílinn og lenti í mauki á gólfinu. Ónýtur og óætur. Það sama gilti um innkaupapokana, allt þeyttist niður og gólf og brotin egg út um allt. Sem sé týpískur dagur hjá mér.
Fátt eitt freistaði mín að fara út í dag, veðrið ekki beint aðlaðandi. Dreif mig þó út í búð og þvílíkur brunagaddur. Ég var fljót heim aftur. Ekki einu sinni tíkurnar hafa áhuga á útivist í þessu veðri, jafnvel þó heilagt verkefni Perlu virðist vera að naga niður stórt tré í garðinum.
Hef náð að halda mér þolanlegri með því að vera létt á fóðrum og hvíla mig í tíma og ótíma. Þvílíkt letilíf segi ég nú bara. Nóttin kannski ekki sú besta þannig að það var ljúft að kúra undir teppi í dag og glápa á sjónvarpið.
Katan og Haffinn í góðum gír að vanda. Prófin hafa gengið vel fram til þessa en ótal mörg eftir þannig að nú reynir á langtímaúthaldið. Þau eru bæði seig þannig að ég hef engar áhyggjur. Neita því ekki að ég væri svo sannarlega til í að heimsækja þau um páskana. Er komin með upp í kok á þessu veðri hér á landi. Krakkarnir kíktu út á föstudagskvöldið, mér fannst komin tími til, þau eru fullróleg miðað við aldur og minn smekk. Eitthvað annað en móðirin á þeirra aldri.
Bloggar | Breytt 3.3.2008 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.2.2008 | 22:37
Sátt
Er býsna sátt við framlag okkar í Eurovision. Hefði viljað sjá Magna og Birgittu ofar með sitt fantagóða lag og flutning en Friðrik Ómar og Regína áttu sigurinn sannarlega skilið. Regína hefur áður sýnt þjóðinni hvers hún er megnug sem sönkona, ef við hefðum valið hennar lag þá hefðum við komist lengra en með Silvíu. Kann þó alltaf betur og betur að meta lagið hennar Silvíu, mér til mikillar undrunar. Er greinilega seintekin. Mér finnst Friðrik Ómar hafa vaxið sem söngvari, hann fór á kostum í kvöld, þvílík rödd!
Skil ekkert í þjóðinni að kjósa Mercedes club yfir höfuð, rammfalskur flutningur þó lagið sé grípandi en textinn eingöngu hey, hó, hey, hó, hó. Fínt á gólfinu en minnir mig dálítið á ,,sýrulag" Dr. Spock með sniðugt lag og flottir gúmmíhanskar en come on ....
Hét því reyndar fyrir nokkrum árum að hætta öllum afskiptum af Eurovision enda deginum ljósar að við eigum ekkert erindi í keppnina eftir að öll Austantjalds löndin komu inn. Sterk samstaða innan blokkarinnar og útilokað að ná árangri með því fyrirkomulagi sem hefur ríkt. Finnst að Vestur Evrópa eigi að taka sig saman og leyfa hinum þjóðunum að eiga sína keppni.
Bleik var reyndar brugðið þegar ég lísti þeirri ákvörðun yfir að nú væri ég hætt afskiptum af keppninni, ég hef grun um að fáir hafi verið meiri Eurovision fan en ég í gegnum tíðina. Þvílíkar serimóníur í kringum undankeppnina hjá mér svo ekki sé minnst á stóra kvöldið sjálft. Skipulagði bæði kvöldin með margra mánaða fyrirvara, ég skildi tryggja það að vera ekki á vakt, hvorki kvöldið sjálft né daginn eftir. Að sjálfsögðu teiti á heimilinu. Eurovision hefur verið heilög hjá mér allt frá að við Íslendingar fengu að fylgjast með henni og Dana vann keppnina. Ég ól mín börn upp í þessum anda og ekki laust við að sum systkinabörnin hafi verið undir sömu áhrifum. Sé ekki betur en að krakkarnir séu jafn spenntir og ég var. Búin að setja þá kvöð á Kötu og Haffa að þau haldi merkjum mínum á lofti og fyrirskipa ,,hitting" árlega á Eurovision kvöldi í framtíðinni þar sem mín skál verði drukkin.
Í öllu falli horfðu Kata og Haffi á keppnina í gegnum netið en náðu ekki að sjá úrslitin. Sendingu lokið klukkan 22, hvað sem því veldur. Og mútta kaus fyrir þau samviskusamlega.
Annars fannst mér mörg lögin fantagóð, hafði lítið fylgst með Laugardagslögunum fram til þessa, enda ,,hætt" að fylgjast með. Páll Rósinkrans náttúrlega í sérflokki sem og Magni, Birgitta og Ragnheiður Gröndal. Rosalega eigum við mikið af sterku tónlistafólki, ég segi ekki annað. Ég vil fara sjá það gera garðinn frægan á erlendri grund, líkt og Magni gerði. Þau eru öll á heimsmælikvarða.
Einhvern tíman hefði frúin haldið upp á kvöldið og fagnað sigri á viðeigandi hátt. Það er af sem áður var. Nú gæti ég ekki drukkið einn bjór án þess að fá bévítans verki. Ferlegt hreint út sagt!
Gerði heiðarlega tilraun til að ná sambandi við minn meltingasérfræðing sem ég var hjá í mörg herrans ár. Var boðið að senda honum tölvupóst sem ég reyndar þurfti að stíla á almennt netfang læknastofunnar. Sjálfsagt hafa ritarar lesið það fyrst og komið skilaboðum áleiðis. Lýsti þar fjálglega mínum einkennum og verkjum ásamt sjúkrasögu síðasta árs og lét í ljós eindregna ósk að fá tíma sem fyrst. Ég fékk hringingu tæpum 3 vikum síðar og mér boðinn tími þann 27. mars þannig að í heildina er 7 vikna bið eftir tíma hjá mínum manni. Málið greinilega ekki í forgangi. Ég afþakkaði pent.
Hringdi á allar stofur meltingasérfræðinga í kjölfarið og fyrsti lausi tíminn er 7. mars. Þangað til verð ég að láta mig hafa verkina og óþægindin. Ekki fitna ég á meðan í öllu falli þó ég sé eins og útblásin blaðra. Það verður fróðlegt að heyra hver greiningin verður. Ég er búin að þola við síðan í desember, ætti að geta þraukað enn í nokkrar vikur en viðurkenni að róðurinn verður æ þyngri. Get ekki hugsað mér að fara í gegnum Læknavaktina enda einungis um skyndiplástralausn að ræða þar og á bráðamóttöku fer ég einungis á börum. Verkjaköstin fara versnandi á því er enginn vafi en ég mun þrauka áfram eins og ég hef gert hingað til. Skárra væri það nú enda ekki metin í forgangi.
Hér verður snemma gengið til náða í þeirri von að dagurinn á morgun verði betri en þessi sem var með versta móti, satt best að segja. Ótal verkefni hafa hrúgast upp þannig að það verður af nógu að taka sem fyrr. Ekki verið í miklu stuði það sem af er
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.2.2008 | 02:06
Þung vika
Vikan búin að vera býsna þung. Erfiðar hugsanir og mikið álag. Ekkert sem á að koma mér á óvart, vissi af álaginu og öllum tilfinningapakkanum sem myndi gera vart við sig. Var þó svolítið hissa hvað þessi tími tók á. Maginn gaf sig formlega með miklum látum í nótt og í dag. Hlaut að koma að því hugsaði ég með mér þegar allt fór af stað í nótt. Einkennilegt hvað næturnar verða fyrir barðinu alltaf, hef einhvern tíman sagt þetta áður. Í öllu falli fór þessi dagur fyrir lítið
Ég verð að viðurkenna að ég á langt í land í sorgarferlinu, heilmikil vinna eftir. Sjálfsásakanirnar verstar og nagandi óvissa. Íþyngjandi spurningar. Hefði ég getað afstýrt ósköpunum? Ég kem aldrei til með að fá að vita það. Mér finnst það vond tilfinning. Hef alltaf átt erfitt með að sætta mig við að fá ekki að vita allt sem mér finnst skipta máli. Eftir á að hyggja veit ég ekki hvernig við fórum í gegnum ferlið í fyrra. Stuðningur systkina minna, fjölskyldna þeirra og vina fleytti okkur ansi langt. Trúlega hefur ákveðinn dofi verið til staðar fyrstu vikurnar eftir andlátið. Var auk þess að berjast í lyfjameðferðinni. Það er eins og sársaukinn sé meiri núna að mörgu leyti, ég sé allt ljóslifandi fyrir mér, allt rifjast upp.
Hef tekið eftir því að daginn er farið að lengja, þvílíkur munur. Farið að birta um 9 leytið á morgnana. Vorið verður komið áður en maður veit af. Ég hlakka ekki lítið til. Finn að það er kominn framkvæmdarhugur í mig. Langar að fara að þrífa, mála, breyta og brasa. Af nógu er að taka í þeim efnum. Svo ekki sé minnst á garðinn og lóðina. Listinn sem sé langur, mér á ekki eftir að leiðast.
Strax farin að hugsa um sumarið. Tryggvi, bloggvinur minn, hefur verið ötull að minna mig á hrossin mín. Auðvitað á ég að taka þau suður. Það yrði frábært ef það gengi upp að finna laus pláss fyrir þau. Það hefur reyndar aðeins haldið aftur af mér að vera ekki búin að ákveða hvar ég vil búa. Mér gengur hægt að taka ákvörðun um þau málefni. Hef engan áhuga á höfðuborginni, vil vera í ,,sveitinni", í öllu falli nær náttúrunni og kyrrðinni. Hafa nóg pláss fyrir mig og hundana og geta hleypt þeim út, öðruvísi en í spotta.
Allt tekur tíma og góðir hlutir gerast hægt, stendur einhvers staðar. Þó mér liggi á að framkvæma sem mest og ljúka sem flestu þá ætla ég ekki að flýta mér við ákvörðun um næstu skref í mínu lífi. Mér dugar að taka einn dag í einu í þeim efnum. Finnst ótrúlegt að ég skuli hafa sloppið eins vel og raun ber vitni og er farin að leyfa mér að horfa fram í tíman og láta mig dreyma. Það hefur skipt sköpum að eiga góða að. Þar hef ég verið heppnari en margur.
Þeir standa okkur næst
sem skilja hvað lífið er okkur,
geta sett sig í okkar spor,
tengst okkur í sigrum og ósigrum,
og brjóta álög einmanaleikans.
(Henry Alonzo
Horfi bjartsýn fram á veginn. Eins og dóttir mín orðar það á heimasíðu sinni: lífið er eins skemmtilegt og þú vilt hafa það
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)