Á skólabekk

Framundan er 4 vikna nám hjá frúnni á Bifröst. Sest þar á skólabekk nk. mánudag ef heilsa leyfir. Mun leggja kapp mitt á að komast hvernig sem ástandið verður enda sé ég mig í rómatískum hyllingum í yndislegu umhverfi. Gönguferðir og veiði í Hreðavatni. Er hægt að biðja um eitthvað meira? Krakkarnir koma til mín í fríium, það verður smá vandamál með tíkurnar en við hljótum að leysa þau mál með einhverjum hætti. Öll hundahótel yfirfull.

Ástandið hefur svo sem lítið breyst þrátt fyrir góðar fréttir í vikunni en munurinn er sá að ég veit að ég er ekki að kljást við krabbamein. Vandamálið er enn til staðar og hver orsakavaldurinn er, er enn á huldu, hef mínar kenningar um maga- og gall, líkt og áður. Þau mál verða einfaldlega að þróast og koma í ljós á næstunni. Hef sagt stríð á hendur ástandinu, nenni ekki að vera svona lengur.

Um að ræða mjög áhugvert nám á meistarastigi í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustunni sem hófst í janúar sl. Hef ekki mikið tjáð mig um það þar sem ég hef verið á báðum áttum en er ákveðin að láta á það reyna. Verður maður ekki að aðlaga sig að breytingum umhverfinu?  Ég lít alla vega á þetta nám sem tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á gang mála.

Tölvan hrundi hjá mér, ekki orðin ársgömul og finnst mér það býsna skítt. Stýrikerfið hrunið og eitthvað bras á harða disknum þannig að björgunarðagerðir eru hafnar til að bjarga gögnum enda vinnutölvan mín. Að sjálfsögðu fellur þessi bilun ekki undir ábyrgðina, var mér tjáð í dag en ég fæ tölvuna vonandi á morgun. Ótækt að vera tölvulaus næstu vikurnar þannig að mikið er í húfi.

Mun leggja í hann á sunnudag eða mánudagsmorgun, fer eftir heilsufarinu. Hefði ekki komist langt í dag en morgundagurinn gæti orðið betri. Naut því ekki góða veðursins  sem skyldi en er ekkert að ergja mig á því, treysti á gott veður í Norðurárdalnum. Hver veit nema að ég kíki yfir Brekkuna og líti á hrossin sem ég hef ekki séð í óratíma. Þau reynast mér ansi þung skrefin þangað, hefði seint trúað því að óreyndu. 

Mín fyrrum  heimabyggð er að sjá á eftir dýralækninum og fjölskyldu, mikil vinkona mín þar á ferð. Veit að margur á eftir á sjá á eftir henni þó vissulega komi alltaf maður í manns stað. Fáir jafn traustir íbúunum en hún.  Nokkuð um að þungavigtafólk sé á förum enda samfélagsmynstrið ekki endilega eftirsóknarvert síðustu árin, því miður. Pólitíkin spilar þar sterkt inn í.  Það verður þrautin þyngri að byggja upp mannlífið á þeim slóðum, tekst örugglega ekki fyrr en sveitarfélagið sameinast suður fyrir brekku þannig að vægi einstakra ,,valdamanna" minnki verulega. En nóg um það, þessu verður ekki breytt svo glatt.

Alla vegar eru framundan skemmtilegir tímar, mér skal takast að bæta ástandið og njóta þess sem bíður handan við hornið. ,,Brunch" framundan hjá Tóta og Systu  á morgun, hlakka ekki lítið til, þau höfðingjar heim að sækja og alltaf jafn jákvæð, sama hvað dynur á.Smile

 

 

 

 


Samstaða skilar sér.

Er ánægð með atkvæðagreiðsluna í mínu stéttarfélagi. Rúm 63% atkvæðabærra félagsmanna greiddu atkvæði og nýttu þar með rétt sinn Samningurinn samþykktur með 91% greiddra atkvæða. Ótrúlega góður árangur miðað við að nú standa yfir sumarfrí og fólk út um hvippinn og hvappinn. Að meðaltali greiddu um 37% félagsmanna aðildafélaga BHM sína samning þannig að þátttaka var skammarlega dræm.

Þessi samningur er fyrsta skrefið í áttina, mikið vantar enn á að leiðrétta þann launamun sem er á milli einstakra háskólastétta. Forystan sýndi ótrúlega samningatækni,  klókindi og kjark finnst mér í þessari lotu. Félagsmenn greinilega sammála. Við munum áfram standa saman og  styðja við bakið á forystunni.

Til hamningju kollegar!


mbl.is Hjúkrunarfræðingar samþykktu samning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega létt

Fékk niðurstöður í dag, vorum bæði undrandi; ég og minn læknir. Engin merki um sjúkdóminn! Einhverjar breytingar á blóðprufum sem komu mér ekki á óvart. Ætluðum varla að trúa okkar eigin augum, einkennin hafa svo sannarlega gefið ástæðu til að óttast annað. Enn liggur ekki fyrir skýring á öllum verkjunum, þyngdartapinu og slappleikanum. Við höldum áfram að skoða þau mál. Verkjastillingin gengur þokkalega, fæ enn slæm köst en almennt betri.  Sigurður mun halda áfram að fylgjast með gangi mála sem er mikill léttir. Það verður hægt að grípa í taumana strax ef þörf er á.

Það voru því góðar fréttir sem ég gat fært krökkunum. Við höfðum öll, hvert fyrir sig, búið okkur undir slæmar fréttir þó við reyndum að ,,peppa" hvort annað upp. Vorum eins og þrjár Pllýönur. Þeim er alla vega létt ekki síður en móðurinni. 

Nú er bara að halda áfram og finna orsakir og meðhöndla þær. Einhvern veginn mun auðveldara að kljást við málin þegar þau liggja fyrir, óvissan er alltaf nagandi. Þó búið að útiloka martröðina þannig að eftirleikurinn verður léttari. Ég geri mér grein fyrir því að ég þarf að lifa með ákveðnum verkjum eftir lungnaskurðinn það sem eftir er, gigtarskömm sækir í rifbeinin og fleira í þeim dúr. Get vel sætt mig við þá verki og lært að lifa með þeim, á meðan ég veit af hverju þeir stafa. Hver sem ástæðan er fyrir barlóminum núna, ætti að vera auðveldara að meðhöndla hann en krabbameinið. 

Ég er því ótrúlega heppin, það fer að styttast í 2 ár frá greiningu sem er kraftaverk miðað við útlit í fyrstu, staðsetningu og tegundina. Það hafa ekki allir verið jafnheppnir og ég. Nú vil ég komast til botns á þessu öllu saman og fara að njóta lífsins og lifa því lifandi.  Mér skal takast að komast frá þessum barlómi og byggja mig upp! Ekkert me, he með það. Þrælaði mér í fyrsta göngutúrinn í kvöld í langan tíma, var auðvitað höktandi í taumi hjá Kötunni líkt og Lafðin en það hafðist og var fyllilega þess virði. Nú er bara að halda áfram. 

Ég hef sjaldan þurft eins mikið á því að halda að endurheimta baráttuþrekið, ekki síst það andlega sem hefur verið í lamasessi um nokkurt skeið út af ástandi síðustu vikna. Víða sótt að og höggin ófá, ósveigjanleikinn og harkan gríðaleg svo ekki sé minnst á spurningu um siðferði sumra. Slíkar aðstæður kalla ekki á uppgjöf af minni hálfu, síður en svo. Slakt heilsufar getur haft áhrif en ég mun seiglast þetta áfram.

Ég kemst alltaf af. Það þýðir ekki

að maður sé óbugandi hetja heldur

heill í stuðningi við sjálfan sig 

og hafi viljann til að sigra.

(Linda Ronstadt)


Rangfærslur

Það fauk hressilega í mína þegar ég hlustaði á hádegisfréttir Stöðvar 2 í dag. Þvílík fréttamennska þar á bæ en þar halda menn því fram að íslenskir læknastútentar sem stunda nám í Ungverjalandi fái ekki íslenskt lækningaleyfi þar sem þeir standist ekki próf hér þá landi líkt og læknar frá Austantjaldslöndunum. Ég á ekki til orð, gjörsamlega kjaftstoppW00t

Það vill nefnilega svo til að Háskólinn í Debrecen telst til eins af 10 bestu háskólum í Evrópu, ólíkt Háskóla Íslands sem nær ekki inn á lista þeirra 100 bestu, hvað þá ofar. Ungverjaland tilheyrir auk þess Evrópska efnahagssvæðinu þannig að kandidatspróf í lækningum og tannlækningum eru fullgild hér á landi. Skólinn lýtur sömu gæðastöðlum og aðrir en hafa sett markið hærra en margur.

Samvinna er á milli Háskólans í Debrecen og H.Í þannig að íslenskir nemendur úti geta valið að taka eitt ár hér heima af námi sínu og á það við 4.,5. og 6 námsár. Nám íslensku nemendanna er fullgilt hér heima og metið til fulls, kjósi þeir að skipta alveg um skóla, verða að vísu að þreyta þetta blessaða inntökupróf líkt og aðrir. Standist þeir það, fara þeir beint inn í H.Í og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Þess ber að geta að háskólinn úti metur ekki nám frá H.Í þannig að kjósi t.d. 3ja árs læknanemi hér heima að halda áfram sínu námi þar, verður hann að byrja á byrjunarreit. Svo stífar eru kröfurnar þar. Ég er ekki viss um að rangfærslur sem þessar hvetji þessa nemendur til að sækja heim til að taka hluta af sínu námi - kannski er það einmitt tilgangurinn. Hver veit?

Hitt er svo annað mál að erlendir læknar frá ýmsum Austantjaldslöndum, t.d. frá Póllandi hafa þurft að taka íslenskt lækningapróf til að fá lækningaleyfi hér á landi. Menntun þeirra þykir standa að baki náminu hér heima.  Margir starfa á ábyrgð annarra lækna á meðan þeir stunda sín störf hér, t.d. svæfingalæknar. Sumir reyna við íslenska prófið, aðrir ekki. Sumir ná prófinu - aðrir ekki.Hvort að slakur árangur þeirra sé vegna lélegrar undirstöðuþekkingar í fræðunum eða tungumálaörðugleika, skal ég ekki um segja.  Það er hins vega algjörlega óskylt mál.

Mér finnst þessi fréttaflutningur gjörsamlega út í hött, ófaglegur og illa unninn. Hann er til þess fallinn að varpa rýrð á það nám sem íslenskir nemendur stunda á erlendri grundu og ber keim af því að einhvers konar rígur sé til staðar af hálfu einhverra hér heima. Einhver kom fréttinni af stað, kveikjan kemur einhversstaðar frá. Umfjöllun sem þessi er ekki tilefnislaus. Öllum þeim sem hafa útskrifast frá Debrecen hefur vegnað mjög vel í starfi hér heima og ekki verið eftirbátar kollega sinna hér. Mér finnst fréttamenn Stöðvar 2 hafa rýrt hressilega trúverðugleika fréttaflutnings þeirr. Ég mun í öllu falli hlusta á þær framvegis með efasemda-og gagnrýnisgleraugum. Ninja

 


Hægt og bítandi

Það hefur verið rólegt yfir Engjaselinu síðustu dagana og frúin lítt til framkvæmda. Krakkarnir hafa reynt að bæta upp það sem á vantar hjá þeirri gömlu af miklum myndaskap þannig að það saxast á sum verkefnin. Önnur flóknari sem ég  ein get leyst, hafa setið á hakanum þar sem ég hef einfaldlegan ekki verið fær um að sinna þeim. Það hefur haft og mun hafa einhverjar afleiðingar, við því er fátt að gera en að mæta þeim. Eitt er víst að kerfið eirir engum.

Það gengur hægt og bítandi með verkjastillinguna, nætursvefninn hefur lengst og dúrarnir á daginn að sama skapi. Engar niðurstöður fyrr en á þriðjudag og ræðst þá hvort ég þurfi í fleiri rannsóknir. Mér finnst það afar líklegt. Það var ,,hvíslað" í eyru mér eftir beinaskannið að ekkert sæist óvenjulegt við fyrstu sýn. Má ekki treysta því en gefur mér góðar vonir engu að síður. Líðanin hefur smám saman að vera að lagast en á enn langt í land. Það verður auðveldara að kljást við ástandið þegar niðurstöður liggja fyrir í síðasta lagi á þriðjudag.

Er orðin pinuleið á þessum uppákomum, viðurkenni það fúslega. Nenni ekki að standa í veikindum oga barlómi. Hafði háleitar hugmyndir um sumarið en þetta er í fyrsta skiptið í 27 ár sem ég hef ekki unnið í sumarfríi mínu. Farið að síga ískyggilega á seinni part sumarsins og haustið að nálgast. Ekki það að haustið er ,,minn tími" þannig að ég kvíði því ekki en þá verða krakkarnir flognir út aftur í skólan.  Það hefur hins vegar ekkert upp á sig að væla yfir orðnum hlut, ég fæ engu breytt um það sem liðið er. Næsta skref er því að skipuleggja tíman í haust og reyna að finna eitthvað skemmtilegt út úr því.

Þarf fljótlega að fara að taka ákvarðanir um stefnuna í haust, er ekki enn viss hvert ég vil stefna. Vil taka mér góðan tíma  til ákvarðana en verð að gæta mín á því að falla samt ekki á honum. Þessi veikindi setja óneitanlega strik í reikninginn og tefur málin aðeins.

Einhvers staðar stendur; ,,upp, upp mín sál................." Allt tekur á enda og óvissan skýrist. Þangað til er bara að draga andan djúpt og telja upp á 10!

stjarna


Glundur og geislavirkni

Er hálfnuð í rannsóknunum. Orðin stútfull af glundri og geislavirkum efnum, ýmist tekin um munn eða fengin í æð. Ætti að vera orðin ljómandi og auðvelt að sjá í gegnum mig.Wizard

Allt gengið þokkalega, lenti reyndar í langri töf og bið í morgun fram að hádegi sem kætti mig lítt þar sem biðin var að miklu leyti til komin vegna þess að geislafræðingurinn hafði þá einkennilegu þörf að taka fólk fram fyrir mig. Um var að ræða einstaklinga sem voru að fara í sömu rannsókn og ég.  Okkur hafði orðið vel til vina þar sem við héngum á marrandi og lítt traustvekjandi  bekk á biðstofunni eins og hænur á priki og skáluðum í kapp við hvort annað. Vorum fjögur, ég átti fyrsta tíman en fór síðust í rannsóknina. Varð býsna fúl, satt best að segja og vægast sagt enda komin í keng.

Verkjameðferðin farin að skila einhverjum árangri en þó ekki eins og vonir stóðu til, geng enn um gólf í verstu hviðunum, næturnar í uppáhaldi í þeim efnum sem fyrr. Meðferðin verður endurskoðuð á morgun en er almennt skárri. 

Það þarf ekkert að fara mörgum orðum um þær hugsanir sem takast á loft á meðan þessum barlómi stendur. Þær gera vart við sig þó ég ýti þeim jafnharðan frá mér aftur.  Fæ hugsanlega einhver svör úr þeim rannsóknum sem búnar eru á morgun en í síðasta lagi á þriðjudag. Aðalmálið núna er að bæta ástandið svo ég geti lifað lífinu lifandi. Er orðin ansi teygð og skökk í sófanum og hundleið á sjónvarpsglápi en sé vonandi fyrir endan á þeim ósköpum. Það jákvæða við þetta allt saman að nú finn ég eiginlega ekkert til í hnénu og fætinum, farin að verða býsna liðug, svei mér þá.W00t

Læt mig dreyma um að vera í framkvæmdarhug um helgina með krökkunum, hef varla dýft hendinni ofan í kalt vatn síðustu dagana.  Hundleiðinlegur félagsskapur fyrir krakkana og brýn þörf að breyta því. Færi á upphitun fyrir þjóðhátíð á Players á laugardag, hefði ég heilsu til þess. Verð sennilega að láta mér nægja að hlusta á þjóðhátíðarlögin hér heima með einstaka ABBA innskoti. Ekki amaleg tilhugsun.

Well, rise and shine í býtið, Katan á heimleið eftir kvöldvakt þannig að mér er ekki til setunnar boðið. Hafsteinn passað þá gömlu í kvöld, úff hvað ég vorkenni krökkunum, þetta er lítið spennó.  Orðin sérfræðingur í sjónvarpsdagskránni og búin að birgja mig upp af krossgátublöðum. Tounge

Skylduverk og önnur pligt hafa því miður þurft að sitja á hakanum þessa dagana, fátt við því að gera en að bölva í hljóði. Ce la vie! 

 


Skýr skilaboð

Þá liggja fyrir niðurstöður atkvæðagreiðslu aðildafélaga BHM, öll stéttarfélögin fyrir utan eitt, samþykktu samninginn.

Þátttakan í atkvæðagreiðslu hjá Kennarfélagi KHÍ nam  30% en  41,7% hjá Félagi háskólakennara sem þýðir að meðaltali 35,9% hjá þessum tveim stéttarfélögum. Þegar ég rýndi í þátttökuna í atkvæðagreiðslunni hjá þeim 17 aðildafélögum sem samþykktu samninginn á undan kom svipuð þátttaka í ljós, þ.e allt frá 23,1% þátttöku og upp í 58,9% eða sem nemur um 37,1% að meðaltali.  Af þeim sem greiddu atkvæði voru flestir sem samþykktu samninginn.

Skilaboðin eru skýr, meira en helmingur félagsmanna í aðildarfélögum BHM hefur ekki áhuga á því að nýta sér atkvæðarétt sinn. Skilaboðin má túlka á ýmsa vegu. Annað hvort eru félagsmenn að lýsa andstöðu sinni við forystuna og samninganefndina með því að hunsa atkvæðagreiðsluna eða að það er hreinlega engin þörf fyrir atkvæðagreiðslu og þar með atkvæðarétt. Svipaðar niðurstöður er að finna í atkvæðagreiðslum annarra stéttarfélaga þetta árið. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skar sig greinilega úr en þar greiddur tæpl. 70% atkvæðabærra félagsmanna atkvæði með yfirvinnubanni. 

Ég hlýt að velta fyrir mér lögmæti 23% þátttöku atkvæðagreiðslu. Í flestum félögum, stjórnum og hjá hinu opinbera væri vart fundafært, hvað þá að atkvæðagreiðslan yrði lögmæt. 

Ég einfaldlega sé enga ástæðu til að halda úti atkvæðagreiðslu um kjarasamninga miðað við þessar niðurstöður.  Er einfaldlega ekki búið að kasta atkvæðaréttinum og færa öll völd til til forystunnar á hverjum stað og hverju sinni?


mbl.is Háskólakennarar samþykktu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt að gerast

Hitti minn lækni í dag, var eins og hefði verið skrúfað frá krana þegar ég komst í tæri við hann. Var eins og blaðra sem þurfti að tæma lofti úr. Veit ekki hvað hann hefur hugsað en í öllu falli tók hann mér vel eins og alltaf. Honum fannst ég orðin ansi skökk enda er það ekki svo að maður fer í þær stellingar sem manni líður best í? Þarf hins vegar að vinna í þeim málum, ljótt að vera svona og ekki mjög ,,kvenlegt".

Vissi fyrirfram af rannsóknum en hann ákvað að allur pakkinn yrði tekinn í þetta sinnið þannig að framundan er meira en ég átti von á. Rannsóknirnar verða keyrðar í gegn í þessari viku, hugsanlega fram í þær næstu þannig að svör ættu að liggja fyrir mánudag eða þriðjudag.  Verkirnir hafa farið stigvaxandi upp á síðkastið og því ekki eftir neinu að bíða að finna orsakirnar. Það verður léttir að vita hvað maður er að kljást við. Nú prófum við nýja verkjalyfjameðferð og sjáum hvað setur á næstu dögum. 

Tók krakkana með mér í þetta sinnið, hef ekki gert það áður. Fannst eðlilegt  að þau fengju aðeins að fylgjast með enda þau búin að vera áhyggjufull, hafa ekki séð mig svona verkjaða fyrr. Þó að ástandið þurfi alls ekki að þýða að allt sé komið á versta veg, blundar sá grunur alltaf í manni. Ákveðnar tilfinningar og minningar fara í gang þegar kemur að hefðbundnu tékki, það þekkjum við öll sem höfum greinst með þennan fjanda og er eðlilegt ferli. Ég geri mér grein fyrir því að málin líta ekkert allt of vel út núna en ég er alls ekki svartsýn um að eðlilegar skýringar liggi að baki þessu hábölvaða heilsufari og verkjum. Hef að sjálfsögðu mínar kenningar um orsakir sem ég vona að reynist réttar. Tounge En hver sem skýringin kemur til með að verða er ekkert annað en að taka á því og gera sitt besta.  Þarf að hugsa um fleiri en sjálfa mig, ástandið hefur farið illa í krakkana og því mikilvægt að komast til botns í málin, okkar allra vegna.

Sé alltaf betur og betur hversu mikils virði það er að eiga gott og náið trúnaðarsamband við sinn lækni. Hef ekki verið dugleg í gegnum tíðina að leita til lækna, finnst það alltaf svolítið happadrætti enda þeir misjafnir eins og aðrir. Hef þó látið mig hafa það að tala við nokkra síðustu vikur en enginn einhvern veginn tilbúinn að taka á málum og ,,gera eitthvað", vísað í minn sérfræðing. Vandamálin hafa því setið eftir óleyst og versnað.  Skiljanlegt að sumu leyti en sum vandamál heyra etv. ekki undir krabbameinslækni og svo fara menn einnig í sín frí eins og gengur. EKki alltaf hægt að fresta málum þar til sumar- og vetrarfríium lýkur. En ég gæti ekki verið heppnari með minn sérfræðing í dag. Alltaf gott að leita til hans og hann farinn að þekkja mig sem er mikils virði. 

Ég hef einu sinni hafnað lækni og það var í upphafi greiningarinnar haustið 2006. Lenti hjá mjög færum sérfræðing en ég gat ekki talað við hann né myndað trúnaðarsambad við hann. Veit þó að sá læknir er mjög fær á sínu sviði og vinsæll af mörgum. En við erum misjöfn og þannig er þetta bara. Gagnkvæm virðing og góð samskipti eru lykilatriði á milli sjúklings og aðstandenda annars vegar  og heilbrigðisstarfsmanna hins vegar.

Törnin byrjar hjá mér í fyrramálið og síðan verður þetta tekið með trukki. Ég er farin að sjóast í þessu ferli, rannsóknirnar taka auðvitað sumar á eins og gengur og sumar tímafrekari en aðrar en þetta venst ótrúlega þannig að ég er ekkert kvíðin. Sigurður ætlar að halda vel utan um sjúklinginn og vera í tíðu sambandi sem mér finnst gríðalegt öryggi því ekki er víst að sú meðferð sem lagt var upp með í dag komi til með að skila tilætluðum árangri. Ég þarf þá alla vega ekki að bíða dögum saman eftir að önnur úrræði verða reynd. 

Veit að ég fæ vængi um leið og verkirnir minnka, get þá kannski haldið áfram og sinnt þeimm brýnu verkefnum sem bíða mín. Hef nákvæmlega ekkert gert síðustu vikurnar annað en að standa mína pligt, farið hratt versnandi. Sé það í hyllingum að fá lengri nætursvefn en 2-3 klst. í senn. Vá, hvað það verður æðislegt!

Ekkert annað að gera en að takast á við þau verkefni sem bíða núna, því fyrr, því betra.Nú verður keyrt áfram á fullu ,,stími" Cool

 


Hriktir í stoðum

Titringurinn á stjórnarheimilinu virðist vera að aukast svo um munar, ýmsir komnir á skjálftavaktina. Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðismanna tala í kross og hver höndin uppi á móti annarri. Samfylkingarmenn taka undir það sem þeim líkar en skammast út í það og þá sem þeim líkar ekki. Stjórnarflokkarnir ekki beinlínis samstíga. Trúverðugleiki manna hefur snarminnkað.

Ég geri ráð fyrir því að þrýstingur um aðildaviðræður í ESB frá forkólfum atvinnulífsins, verslunarmönnum, fjárfestum og bönkum auk þrýstings frá auðmannsstéttinni sé farin að vera þrúgandi. Líklega er nýjasta útspil dómsmálaráðherra litað af þeim þrýsting, erfitt að segja hvaða hvatir liggja að baki tillögum hans. Það virðist óhugsandi að taka upp Evruna án aðildar í ESB en kannski er það strategían hans. Um leið og viðræður hefjast um Evruna er búið að opna á aðildaviðræður enda hanga þau mál saman.

Ég held að öllum sé ljóst að samstarf ríkissflokkanna er ekki snuðurlaust, það kraumar og ólgar undir yfirborðinu og gýs reglulega eins og vera ber þegar þrýstingurinn er orðinn of mikill. Spurningin virðist snúast um það hvenær slitnar upp úr samstarfinu.  

Lítið fer fyrir mótvægisaðgerðum ríkisstjórnar í þeirri efnahagskreppu sem ríkir. Einhverjir styrkir  til menninga- og menntamála til landsfjórðunganna. Sá hæsti nær ekki 30 milljónum. Etv. góð viðleitni en dugar skammt á móti skertum kvóta o.fl. Kannski málin séu í nefndum og nefndarnefndum og hafi því ekki litið dagsins ljós ennþá. Sumir segja að góðir hlutir gerist hægt, etv. þurfum við að sýna meiri þolinmæði. Hugsanlega getur ríkið úthlutað auknu  fjármagni þar sem þörf er á því fyrir ágóðan vegna hækkanna á eldsneytiskostnaði, hver veit?  Ríkisstjórnin er hugsanlega með einhver tromp uppi í erminni??

Hvað sem þeim vangaveltum líður, fer lítið fyrir mótvægisaðgerðum. Fátt eitt jákvætt virðist koma frá ríkisstjórninn. Landinn skammaður fyrir of mikla eyðslu og hvattur til að taka upp sparibaukinn. Skyldi skýringuna á aðgerðarleysi stjórnvalda vera að finna í innbyrðis ágreiningi á milli ríkisstjórnarflokkanna?  Sumir vilja aðild að ESB - aðrir ekki, einhverjir vilja friða Þjórsáver- öðrum finnst það ekki koma til greina.  Fer að líkjast lönguvitleysu. Annar flokkurinn fer hamförum vegna kosninga í öryggisráðið - hinn vill sem minnst um þau mál ræða. Einn ráðherran vill bjarga heiminum á meðan annar lætur sem hann viti ekki af þeirri viðleitni.  Svona er hægt að halda endalaust áfram.

Er ekki undrandi á minnkandi fylgi við ríkisstjórnina.  Hún virðist þó taka við sér þegar bakhjarlarnir fara að sýna klærnar. Það verður spennandi að fylgjast með umræðunni á næstunni.Whistling

 


Hlutur ríkisins

Ég hlýt að spyrja eins og flestir landsmenn; er ekki orðið tímabært að ríkið lækki sínar álögur á hvern líter bensíns og díselolíu til að draga örlítið úr skellinum fyrir fólk? Ríkisbuddan bólgnar stöðugt samfara hækunum á eldsneyti. Ég veit að fátt ræður við heimverðið en ríkið getur lagt sitt af mörkum.

Olís telur það skyldu sína að verð á markaði endurspegli heimverðið hverju sinni. Það sé skýringin á því að gamlar birgðir hækki jafnhliða nýjum. Eru það ásættanleg rök? 

Sé fyrir mér flótta úr stéttum atvinnubílstjóra og gjaldþrot hjá þeim sem þurfa að nota eldsneyti sem stóran hluta af rekstri sínum.

Við sjáum sæng okkar útbreidda þegar kemur að fluginu, það verður einungis á færi þeirra ríku að fljúga í náinni framtíð. Svo ekki sé minnst á sumarfrí á erlendri grundu. Það verður of dýrt fyrir meðal Jóninn að leyfa sér slíkan munað. Flugið verður mun dýrara en hótel og uppihald.

Mig grunar að ástandið eigi enn eftir að versna. Hvenær skyldi akstursgreiðslur til þeirra sem starfa hjá hinu opnbera hækka til móts við þær hækkanir sem hafa orðið á þessu ári?W00t


mbl.is Eldsneytisverð snarhækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband