13.7.2008 | 22:59
Sófadýr
Hef aldrei á ævi minni horft jafn mikið á sjónvarp og undanfarna viku. Heilsufarið bágborið og farið versnandi. Kemur sér að krakkarnir eru duglegir hér heima við, væri ansi illa sett án þeirra. Minn aðalvettvangur hefur verið sófinn þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir til annars. Ekki endilega það sem ég hafði hugsað mér í sumar.
Fengið eitt og eitt ,,kjafsthögg" á öðrum vettvangi að undanförnu sem ég er að reyna að höndla, finn þó að þrekið hefur minnkað í þeim efnum. Er orðin ofboðslega þreytt á þessum höggum, sérstaklega þegar málin eru ekki beinlínis á mínu færi að leysa þau heldur háð öðrum. Þessu virðist seint ætla að linna, fortíðadraugar og söguleg óheppni. Kerfið stíft og ósveigjanlegt og erfiðleikar með ákveðna einstaklinga í uppsiglingu. Sumir kunna sér ekki hóf og virða engin takmörk. Yfirgangur og virðingaleysi sem ég hef ætíð átt erfitt með að sætta mig við. Hef minni en engan áhuga á einhverju stríði við umrædda aðila en einhvers staðar verður að setja fótinn niður.
Styttist í tékk og rannsóknir, fæ vonandi svör og einhverja úrlausn mála. Finnst þessi gæði ansi bágborin, satt best að segja. Mér hefur fundist ærið að kljást við blessaða löppina svo annað færi ekki líka í steik, enn og aftur. Geng um gólf flestar nætur, friðlaus af verkjum og það sama gildir um aðra tíma sólahringsins. Næturnar einhvern veginn þó verstar, kannski af því maður vill vera sofandi þá og finnur meira fyrir hlutum þá. Hef spænt upp hverjur krossgátublaðinu af fætur öðru upp á síðkastið. Krakkarnir miður sín, eðilega enda fátt sem virkar og erfitt að dylja ástandið fyrir þeim.
Hef því ekki verið dugleg við að rækta sambönd við aðra, orkan farið í að kljást við krankleikan, standa sína pligt og ekki í neinu formi til að spjalla. Grrrrrrrrr hvað mér leiðist þetta. Ég mun þó takast á við það sem framundan er, ekkert annað í stöðunni en hef sjaldan þurft jafnmikið á ,,gulrót" að halda og nú. Þarf að bíta á jaxlinn og urra mig í gegnum þetta allt.
Er komin með upp í kok af sjónvarpsglápi. Við mægður sátum saman í gærkvöldi og reyndum að þræla okkur í gegnum einhverjar bíómyndir. Það gekk þó ekki betur en svo að við dottuðum báðar fyrir framan imban. Næsta skrefið verður að þræða myndbandaleigurnar og sjá hvort ekki er hægt að finna eitthvað krassandi á meðan ástandið er eins og það er.
Vænti þess að vera komin með einhverjar niðurstöður þegar líður á vikuna og í framhaldi af því verði hægt að grípa til einhverra aðgerða til að bæta ástandið. Vona að ,,andinn" hellist yfir mig svo ég fái kraft til að kljást við þau leiðindamál sem eru uppi á borðum. Vonandi eru þau síðustu málin sem eru frá minni fyrrum heimabyggð og ég þarf að vinna úr. Aðfarirnar verið með ólíkindum enda verður þeim þeim gerð ítarleg skil á öðrum vettvangi. Þangað til eru það litlu skrefin, aðalatriðið er að gera sitt besta, meira getur maður ekki gert. Þó það dugi ekki alltaf er ég rosalega fegin að þurfa ekki að taka skrefin ein og skelfing verður gott þegar þetta ástand gengur yfir, í víðasta skilingi þeirra orða. Það kemur að því að það styttir upp.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.7.2008 | 12:28
Ótrúlegt en satt!
Framhaldsskólakennarar samþykktu samninginn með 74% greiddra atkvæða. Þó fylgir ekki sögunni að einungis 732 félagsmenn af þeim 1620 sem voru, greiddu atkvæði. Þátttakan var því heldur dræm líkt og í mörgum öðrum stéttarfélögum eða sem nemur um 45,2%. Á móti voru rúm 22%. Niðurstaðan engu á síður afgerandi en atkvæðagreiðslan fór fram með póstsendum atkvæðaseðlum. Ótrúlega forneskjuleg aðferð á upplýsingaöldinni enda hefur atkvæðagreiðslan og talning tekið sinn tíma.
Ég ligg ekki á þeirri skoðun minni að mér þykir þessi samningur arfaslakur og tel að framhaldsskólakennarar sem hafa dregist verulega aftur úr í launum, hefðu getað ná betri árangri. Mín grunnlaun hafa verið 274.000 kr. á mánuði þannig að líkt og hjá hjúkrunarfræðingum hafa framhaldsskólakennarar þurft að stóla mikið á yfirvinnu eða vinna önnur störf samhliða kennslunni. Ég botna ekkert í forystunni né stéttinni almennt að sætta sig við þessa samninga enda erum við í raun að taka á okkur kjaraskerðingu. Það sama gildir um BHM.
Skv. þessum samning tosast grunnlaun mín upp í 294,300 krónur á mánuði. Misjafnt er eftir aðsókn nemenda í áfanga og framboði á kennurum hvort að einhver yfirvinna sé í boði. Hún var það t.d. ekki hjá mér á vorönninni þannig að það er auðvelt að sjá að hvorki ég né aðrir geta lifað af kennslunni einni saman.
Gríðaleg vinna liggur að baki undirbúning kennslu, mun meiri en margur gerir sér grein fyrir. Ítroðsluaðferðin í formi þurra fyrirlestra og punkta á töflu er nánast liðin tíð, fjölbreytni í kennsluaðferðum er lykilatriði til að ná til nemenda. Í mínu starfi hef ég þurft að styðjast við erlent námsefni þar sem fátt er um fína drætti hvað varðar íslenskt efni. Margir nemendur eru tregir til að lesa námsefni á erlendu tungumáli þannig að gríðaleg vinna fer í að útbúa slæður og þýða glósur fyrir nemendur, finna myndbönd, ítarefni o.s.frv.. Ég er viss um að fæstir átti sig á umfangi undirbúningsins, eðlilega.
En þetta samþykktum við, ótrúlegt en satt!
![]() |
Kennarar samþykktu kjarasamning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2008 | 17:10
Á kostnað neytenda
Hvalfjarðargöngin voru og eru bylting fyrir Vesturlandið, á því liggur engin vafi í mínum huga. Mikil framsýni á áræðni af þeirra hálfu sem fóru af stað með verkefnið á sínum tíma. Göngin hafa margsannað gildi sitt og fáir sem efast um mikilvægi þeirra.
Ég hef verið og er enn mjög ósátt við það að göngin skulu vera kostuð af neytendum í gegnum gjaldtökuna. Hróplegt misræmi í samgöngumálum almennt í landinu sem er einsdæmi fyrir utan þjóðvegina til Eyja og Grímseyja sem liggja sjóleiðina og byggja á gjaldtöku til neytenda.
Enn hef ég ekki séð haldbær rök af hálfu stjórnvalda sem réttlæta þessa gjaldtökur. Við skattborgararnir greiðum okkar hlut til samgöngumála án þess að hafa nokkur áhrif á forgangsröðun verkefna eða úthlutanir á milli landshluta. Við borgum þegjandi og hljóðalaust, getum ekki annað, höfum ekkert bal en getum etv. haft óbein áhrif í kosningum á 4 ára fresti. Engu treystandi í þeim efnum samt. Því er gjaldtaka í Hvalfjarðargöngin óréttmæt og mismunar fólki eftir búsetu. Það sama gildir með Grímseyinga og Eyjamenn.
Hef auðvitað mínar skoðanir á því hverjir hagnast mest á þessu fyrirkomulag og það eru örugglega ekki neytendur. Vissulega breytt skilyrði í samgöngum við höfuðborgarsvæðið og þægindi en fyrir það verða menn að borga. Mér er ekki kunnugt um gjaldtöku í önnur göng á landinu. Af hverju skyldi þessi mismunun vera?
Þeir eru ekki margir þingmennirnir í Noðrvesturkjördæmi sem berjast fyrir því að ríkið taki yfir rekstri Hvalfjarðargangna sem stóð reyndar alltaf til í upphafi og átti að gerast þegar göngin væru farin að borga sig. Þeir eru þó örfáir, þingmenn FF og einn þingmaður Samfylkingarinnar. Hef ekki heyrt mikið til VG manna um þessi málefni. Eru kannski á móti göngunum almennt vegna umhverfisáhrifa en ég skal ekki um það segja.
Um 14 milljónir bifreiða hafa ekið um göngin frá opnum þeirra og tel ég víst að þau séu löngu búin að borga sig og farin að skila umtalsverðum hagnaði. Einhverjir púkar fitna á fjósbitanum og hagnast í bak og fyrir, bæði pólitískir og ópólitískir einstaklingar. Það þarf ekki miklar pælingar til að átta sig á því hverjir þeir eru
Hvað sem því líður er löngu orðið tímabært að útrýma misrétti landsmanna eftir búsetu þeirra og tryggja öllum sama rétt í samgöngumálum - eða hvað?
![]() |
Tvöfalda þarf Hvalfjarðargöng á næstu 5 til 10 árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.7.2008 | 23:36
Að þyrla upp moldviðri?
Er ekki fullseint í rassinn gripið að fara fram á að fyrverandi forstjóri skili inn gögnum sem ku vera trúnaðargögn? Komið fram í júlí mánuð og maðurinn yfirgaf svæðið í maí. Fram til þessa virðast menn ekki hafa haft neinar athugasemdir um þetta meinta eignarnám forstjórans sem virðist hafa farið fram fyrir opinum tjöldum þar sem menn vita að um einhverja kassa af pappír var að ræða.
Ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að forstjórinn var látinn axla ábyrgð þá sem stjórnmálamenn hefðu með réttu átt að gera. Bakari hengdur fyrir smið. Nú er þyrlað upp moldviðri út af gögnum og jeppabifreið sem hann hefur verið með síðan hann hætti störfum í maí. Ég hlýt að velta fyrir mér þeim hvötum sem liggja að baki þeim aðgerðum og fjölmiðlafári sem málið hefur fengið síðustu sólahringana. Af hverju kom þetta mál ekki strax upp í maí og hver stendur á bak við moldviðrið?
Tek reyndar enga afstöðu til réttmæti þess að taka með sér gögnin enda ekki með neinar forsendur til þess. Forstjórinn telur þetta sín eigin gögn og á það ekki að vera þannig að menn séu saklausir þar til annað kemur fram? Mér sýnist borgarfulltrúum vera það kappsmál að gera málið tortryggilegt. Hvað varðar jeppabifreiðina er ekki ólíklegt að hún fylgi manninum á meðan uppsagnarfresti hans stendur, hafi hún verið hluti af launum og kjörum nema að annað hafi komið fram í uppsögninni. Það er ekki flóknara en það.
Eðlilegra hefði verið að fjalla um málið innan OR en ekki í fjölmiðlum en úr því sem komið er skiptir mestu máli að allir fletir málsins komi upp á borðið til að gæta sanngirni. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að meiningin sé að gera forstjóran tortryggilegan. Hann er etv. ógn við OR og REY með alla sína sérþekkingu, reynslu og sambönd????
![]() |
Hyggst skila gögnunum eftir helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.7.2008 | 19:50
Sátt!
Búin að lesa samninginn sem hljómar mun betur en fyrstu fréttir gáfu til kynna í gærkvöldi. Var hálf brugðið þá og alls ekki bjartsýn. Skildi ekkert hversu ánægður formaðurinn okkar var miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir um samninginn, þ.e. 20.300 k. hækkun á alla, lækkun yfirvinnuprósentu en nokkurra prósentuhækkun á alla launatöfluna vegna kerfisbreytinga.
Forystan hefur náð um 14% hækkun grunnlauna og sömu hækkun á vaktaálag. Á móti kemur að vísu að yfirvinnuprósetnan lækkar úr 1.038% niður í 0,95% en það er í raun algjörlega í takt við stefnu okkar um að auka vægi dagvinnulauna.
Mér finnst það raunar kraftaverki líkast að ná fram þessari hækkun launa í því samningsumhverfi sem ríkt hefur. Ríkið hefur verið með öllu ósveigjanlegt og ekki reiðubúið til að hlusta á neitt annað en flata krónutöluhækkun upp á 20.300 kr. á línuna. Það hefur því ekki verið auðvelt að kljást við samninganefnd ríkisins. Samninganefnd F.Í.H og forystan á því heiður skilið, haldið var klókt á þeim spilum sem voru uppi. Ríkið hagnast einnig þegar fram í sækir þegar fleiri hjúkrunarfræðingar geta aukið starfshlutfall sitt í stað þess að treysta á yfirvinnu til að skrimta.
Vissulega eiga hjúkrunarfræðingar langt í land með að fá kjör sín leiðrétt til samræmis við aðrar sambærilegar stéttir en það skref sem stigið var í gær er stórt og góð byrjun á því vandasama verki sem framundan er. Ég vil því meina að þessi samningur sé stór áfangi og í raun sigur. Kringumstæður gríðalega erfiðar og samningsumhverfið ósveigjanlegt. Það þarf kænsku, kjark og dug til að semja í slíku umhverfi. Öll vitum við hvernig fór fyrir samninganefnd BHM og þeim samningum sem þar var landað. Það sama gildir um samninga við Félag framhaldsskólakennara, snautlegir samningar, algjörlega úr takt við raunveruleikan og ég treysti mér ekki til að samþykkja.
Ég verð því að viðurkenna að ég er örlítið ,,lúpuleg" eftir comment mitt í gærkvöldi þar sem mér fannst ekki tilefni til bjartsýni, hálf skammast mín eiginlega fyrir fljótfærnina en hafði þó rænu á að hafa einhvern fyrirvara.
Ég mun mæta á kynningafund og setja mig vel inn í málið. Mér sýnist þessi samningur geta haft umtalsverð áhrif á mínar ákvarðanir í náinni framtíð. Ég er þess fullviss að félagsmenn muni samþykkja samninginn. Vonandi liðkar hann til fyrir samningaviðræðum ljósmæðra og ríksisins
Ég get ekki annað en óskað samningnefnd okkar til hamingju með þennan sigur, ferlið hefur ekki verið auðvelt. Þvílík þrautseigja!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.7.2008 | 22:33
Samningur í höfn
Fyrstu fréttir að berast, samningur í höfn. Ekki gefið upp um innihald hans annað en að grunnlaun hækki. Of snemmt að fagna þar sem innihaldið er óljóst en ég ber fyllt traust til forystunnar sem hefur sýnt að hún er sterk.
Meira seinna.......................
![]() |
Hjúkrunarfræðingar semja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.7.2008 | 20:47
Áfram er haldið...............
Enn annar þjónustusamningur um einkarekstur. Í þetta sinn innan heilsugæslunnar. Ekki kemur skýrt fram hver ávinningurinn er með slíkum samning umfram rekstur heilsugæslu á vegum hins opinbera. Það mætti etv. skilja þessa frétt þó með þeim hætti að samningurinn eigi að tryggja bættari þjónustu. Í raun þá verið að segja að opinber þjónusta á heilsugæslusviðinu sé ekki nógu góð - eða hvað?
Það verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála og spennandi að sjá um hvaða lækna er að ræða. Skyldu þeir tengjast Heilsuverndastöðinni (InPro)? Sterk tengsl þaðan inn í ríkisstjórnarflokkana.
Ætla mér ekki að taka afstöðu til þess hvort þessi þjónustusamningur sé jákvæður eða neikvæður fyrir skjóstæðingana en þeir eiga að skipta höfuðmáli. Það virðist vera á kristaltæru að heilbrigðisþjónustan verður einkavædd og vart lengi að bíða þar til þaf rekstrarform verði það að allt að 80-90% af allri heilbrigðisþjónustu. Ríkið mun sjá áfram um heilbrigðisþjónustu fyrir afmarkaðan hóp ef af líkum lætur. Þessa þróun höfum við séð í öðrum löndum. Í dag eru Bandaríkjamenn að gera hvað þeir geta til að losna út úr einkarekna rekstrarforminu, árangurslítið.
Það fer enginn út í einkarekstur nema að hafa einhvern ávinning og arð af slíkum rekstri. Heilbrigðisþjónustan mun snúast í auknu mæli um lögmál hag- og markaðsfræði þar sem arðsemi er lykilatriði. Það kæmi því ekki á óvart að senn fari tryggingafélögin að bjóða sérstakar sjúkratryggingar. Einhverjir munu fitna við kjötkatlana.
Hvernig skyldi fara með LSH? Einkahlutfélag eða opinbert? Í öllu falli fækkar ríkisstarfsmönnum óðfluga og þar með mun þörfin fyrir starfsmannalögin minnka. Klókt hjá Sjálfstæðismönnum og Samfylkingin dansar með í takt.
![]() |
Samið við heimilislækna um rekstur læknastofu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.7.2008 | 23:53
Þoka, ófærð og væll!
Búið að vera einkennilegt veður um helgina. Lítið fór fyrir þeirri hitabylgju sem veðurfræðingar kepptust um að spá fyrir um, alla vega í höfðuborginni. Svartaþoka bróðurpartinn snemma í morgun, sólarglenna tvisvar og aftur þoka á milli. Varð aldrei almennilega hlýtt heldur.
Katan veðurteppt úti í Eyjum. Einkennileg lögmál og viðskiptahættir virðast gilda hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hún lenti í 2 rúmlega tíma seinkun á föstudag og virtist sem sumir væru teknir fram fyrir aðra sem áttu bókað flug á tilteknum tímum. Það sama gerðist í dag, loks þegar hægt var að fljúga og orðið fært vegna þokunnar. Þá gilti lögmálið; ,,fyrstur kemur, fyrstur fær" þannig að þeir sem mættu skv. álætlun og í samráði við starfsmenn flugfélagsins voru settir aftur fyrir þá sem bókaðir voru síðar, jafnvel seint í kvöld. Þegar spurðir, var fátt um svör hjá starfsmönnum, vildu meina að flugturninn bannaði allt flug á meðan Flugfélag Íslands væri að fljúga, menn mættu ekki á tilsettum tíma sem gerði þeim erfitt fyrir. Get skilið þau rök en ekki af hverju Katan komst ekki með neinni vél áður en lokaðist fyrir flugið aftur. Hún mætti á tilsettum tíma og beið og beið, án árangurs. Farþegar sem áttu bókað far mun seinna en hún, komust á leiðarenda. Ég er hrædd um að eitthvað yrði sagt ef Flugfélag Íslands hagaði sér svona gangvart farþegum sínum. Ekki orð um þennan vandræðagang og erfiðleika með flug á milli lands og Eyja í fjölmiðlum, einungis fréttir af þungri umferð í átt að höfuðborginni.
Það er ekkert smá mál að lenda í slíkum uppákomum. Fólk þarf að keyra rúma 2 klst. vegalengd frá Bakka til að komast í bæinn. Engin aðstaða á flugvöllunum á Bakka og í Eyjum til að bíða til lengri tíma. Felstir þurfa að mæta í vinnu o.s.frv. Hafsteinn komst með Flugfélagi Íslands í dag eftir seinkun enda vissulega ófært fyrir partinn en hann komst á leiðrarenda og á sína vakt. Þau lögmál sem giltu hjá Flugfélagi Vestmannaeyja eru í öllu falli í mótsögn við hefðbundin markaðslögmál. Er hrædd um að margt athugavert kæmi í ljós ef þau mál væru skoðuð nánar af réttum aðilum. Meira um það síðar.
Katan kemst vonandi í fyrramálið, vonandi hefur þokunni létt eitthvað þá enda vinna seinni partinn. Þekki það þó frá fyrri tíð að þokan getur hangið yfir Eyjunum dögum saman líkt og hattur. Ef það gerist er ekkert annað í stöðunni en að huga að Herjólfi, bílinn verðum við á nálgast á Bakka við fyrsta tækifæri. Tökum á því ef og þegar að því kemur.
Hvað sem öllum vandræðagangi líður, skemmtu krakkarnir sér vel á Goslokahátíðinni og auðvitað er það aðalatriðið. Til þess var leikurinn gerður.
Hér var lítið aðhafst um helgina, það viðraði ekki til sólbaða þannig að ég greip bók á milli þess sem ég hreiðraði um mig í sófanum. Gamalkunnugt maga- og/eða gallvesen að búið að gera vart við sig undanfarna viku til tíu daga þannig að ég hef verið óvíg að miklu leyti, ofan á annað. Dormað því mikið á milli verkjakasta. Mínir sérfræðingar í sumarfríi þannig að það er ekkert annað að gera en að harka af sér og þreyja þorran. Viðurkenni að ég er orðin býsna þreytt á þessum eilífu uppákomum, finnst lífsgæðin ekki beint til að hrópa húrra fyrir. Fátt slær á bév... verkina, get ekkert annað gert en að bíta á jaxlinn í þeirri von að ástandið gangi yfir. Sama fjörið byrjað og í vetur, erfitt að borða, lystarlaus og verkjuð þegar ég læt eitthvað ofan í mig. Hef löngum haft þá trú að þessar uppákomur tengist gallsteinum en þeir aldrei verið sannaðir á mig. Ekki ólíklegt að magasárið hafi tekið sig upp aftur miðað við einkennin en auðvitað veit ég það ekki. Ekki hafa fundist merki um meinvörp þannig að ég er svo sem ekkert að stressa mig á því, mér leiðast hins vegar eilíft vesen. Aukakílóin fjúka án fyrirhafnar.
Hefði átt að mæta í tékk hjá Sigga Bö á þriðjudag en tíminn frestast til 22. júli vegna sumarfría. Er reyndar að reyna að væla mig inn á tíma hjá honum þann 15. sem ég vona að gangi. Það er ekki nóg að lifa fjandans krabban af, heilsan verður að vera skítsæmileg þannig að maður njóti þá þess lífs sem manni er ætlað. Það er ansi fátt sem maður getur aðhafst eins og staðan hefur verið. Hef því verið býsna pirruð og leið. Eilíft bras og barlómur.
Heilbrigðiskerifið þvílíkur frumskógur að mér dettur ekki einu sinni í hug að væla í heimilislækni eða labba mér inn á einhverja vaktina. Mér verður hvort eð er vísað á minn sérfræðing. Þannig hefur það alltaf verið. Ég nenni ekki að ergja mig á því að fara rúntinn enn og aftur, vitandi hvað kemur út úr því.
Fer því að sofa með það hugarfar að ástandið hljóti að verða eilíitið skárra á morgun og með hverjum deginum styttist í tékkið. Þá verður tekið á málum. Það verður flott að fá Kötuna heim á morgun, ætla mér að pína þau systkin svolítið á næstu dögum. Mörg aðkallandi verkefni þannig að ég reyni að fá þau til að hjálpa mér á milli vakta. Ekki mikið svigrúm, Hafsteinn að vinna meira og minna tvöfalt og þau bæði í vaktavinnu en það munar um hvert hænuskrefið. Verð að gæta mín á því að vera ekki of aðgangshörð við þau
Stefni á að reyna að komast með krökkunum í sól og sumaryl áður en þau byrja í skólanum. Hef verið að skoða ferðir og aldrei slíku vant eru laus sæti hingað og þangað en rosalega hækka ferðaskrifstofurnar ferðirnar vegna hækkunar á eldsneyti og gengisfellingu krónunnar. Í einni ferð nam hækkunin um 70 þús krónur m.v. 2 farþega vegna þessa. Algjörlega út í Hróa miðað við raunverulegar hækkanir. Þarf að skoða þetta betur, hrikalegar hækkanir og ótrúverðugar skýringar.
Þangað til læt ég mig dreyma um strönd, sól, hita og verkjaleysi. Svo ekki sé minnst á kaldan bjór og Pina Colada án þess að fárveikjast.
Ekki fer ég að leggjast nður og láta
erfiðleikana troða mig undir fótum.
(Ellen Glascow)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.7.2008 | 00:29
Of seint í haust
Mér sýnist bæjarstjórinn bregðast skynsamlega við málum. Vandinn hefur blasað við í nokkurn tíma og öllum hlutaðeigandi kunnugur.
Hins vegar er ansi langt að bíða til haustsins með aðgerðir, sbr. ummæli formanns fjárlaganefndar. Formaður heilbrigðisnefndar tekur í sama streng og formaðurinn, farið verið yfir málin í haust. Full seint í rassinn gripið, væntanlega verður búið að skrúfa endanlega fyrir alla bráðaþjónustu þegar að því kemur.
Ótrúlega óábyrg stefna og léleg stjórnsýsla af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Menn verða að gera betur en þetta. Ætli einkavæðing eða samningur um einkaframkvæmd sé í farvatninu........
![]() |
Óviðunandi mismunun segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2008 | 23:45
Helgi - enn og aftur
Mér finnst vikan rétt byrjuð en komin helgi. Tíminn æðir áfram á hraða ljóssins, í bókstaflegri merkingu. Mér finnst eiginlega nóg um. Hef svo sem sagt það marg oft áður en alltaf jafn undrandi. Öðru vísi mér áður brá þegar ég gat vart beðið eftir að vikan liði. Nýtti hvert tækifæri til að skemmta mér og náttúrlega öðrum.
Helgarnar bjóða upp á samveru með fjölskyldunni, skemmtanir, ferðalög og önnur skemmtilegheit. Alla vega hjá fólki sem vinnur hefðbundna dagvinnu. Margir flykkjast upp í sumarbústað, aðrir hendast af stað með hjólhýsi, fellihýsi og hvað eina í eftirdragi og elta góða veðrið. Sumir nota helgarnar til að hitta vini og kunningja eða til að lesa góða bók og svo lengi má telja,
Helgar eru ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér, hafa oft verið kvíðvænlegar. Mér finnst þær fremur viðburðasnauðar og einmannalegar, satt best að segja. Eru lengi að líða enda ekki margt um að vera, sérstaklega á veturna. Flestir hafa nóg með sjálfa sig og sína enda oft erfitt að hitta á fólk um helgar. Sjónvarpsdagskráin er oft afspyrnu slök, sérstaklega á laugardagskvöldum hvernig sem á því stendur. Oft heyri ég ekki í neinum frá föstudegi til mánudags, hvað þá að ég hitti einhvern. Öðruvísi en úti á landi, finnst mér. Það hefur komið sér vel að vera á kafi í vinnu og námi þannig að ég hef yfirleitt nóg fyrir stafni en langar stundum að breyta til.
Ég lagði upp með háleitar hugmyndir og plön varðandi þetta sumar. Krakkarnir heima og nú skyldum við gera eitthvað skemmtilegt saman. Bæði vinna þau vaktavinnu þannig að önnur hver helgi er frátekin í vinnu. Aðalatriðið að reyna að stilla vaktir þannig að þau ættu fríhelgar á sama tíma. Ekki gengur það eftir að öllu leyti og svo má ekki gleyma því að þau eiga bæði vini og vandamenn sem þau þurfa og langar til að sinna.
Bév.... fótbrotið skemmir hressilega fyrir mér þetta sumarið, er ekki ferðafær hvert sem er og get ekki gengið neinar vegalengdir. Sit áfram uppi með verki og ónot undir rifjaboganum sem eru komnir til að vera og hamla mér enn frekar. Er eiginlega fúl yfir þessu, finnst þetta hábölvað ástand. Get svo sem ekkert gert til að breyta því þannig að það stoðar lítt að sýta það sem er en ofboðslega getur mér leiðst þetta, ég get ekki sagt annað.
Goslokahátíðin þessa helgina, langaði ekkert smá að fara en það var ekki raunhæfur kostur. Katan farin til Eyja, mikið fjör og mikið stuð
eins og vera ber. Finnst alveg frábær hvað krakkarnir halda tryggð við Eyjarnar enda bjuggum við þar samtals í 11 ár. Tengsl þeirra hafa ekki rofnað.
Það er einmitt á helgum sem þessum sem ég sit og velti fyrir mér hvar ég er, hvert ég vil stefna og hvernig. Ég veit með vissu að borgarlífið á ekki við mig, er landsbyggðatútta í útlegð. Eitthvað sem ég kaus ekki sjálf. Mér finnst ég því vera ,,munaðarlaus", finn mig ekki ennþá og á ,,hvergi heima", ennþá. Er orðin hálf leið á því ástandi, satt best að segja.
Það virðist lengra á milli vina og ættingja á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar og lífsmynstrið allt annað. Hraðinn og vinnuálag mikið, mikill tími fer í að komast til og frá vinnu þannig að eðlilega vill fólk slappa af þegar kemur að helgum. Nándin er mun meiri úti á landi sem getur verið bæði jákvætt og neikvætt. Tíminn nýtist betur, maður ræktar betur vinagarð sinn og nýtur útivista í meira mæli. Á þessum tíma vildi ég vera á kafi í heyskap og sem mest úti í náttúrunni, svo ekki sé minnst á útreiðatúra.
Leitin af sjálfri mér virðist ætla að dragast á langinn. Hef vissulega tekið ýmsar ákvarðanir, sumar hafa gengið eftir, aðrar ekki. Hef því mætt nýjum krossgötum þegar ég hef farið í gegnum önnur. Enn eru ýmiss mál sem slá mig jafnharðan niður þegar ég rís upp, held samt áfram, ekkert annað í stöðunni. Einhvern tíma lýkur þeim málum og ég verð ,,frjáls" og laus við fortíðadrauga og óvildarmenn. Það kemur alltaf að kaflaskiptum. Það hefur verið á brattan á sækja síðustu tvö árin í þeim efnum, ég hef bognað en ekki brotnað. Oft hefur það tekið á enda til þess ætlast en ég klára þau mál sem eftir standa og hlakka til að fá frið.
Það stoðar lítt að horfa stöðugt um öxl, aðalatriðið er að spila sem best úr þeim spilum sem maður er með hverju sinni. Hef nóg að gera á næstunni svo fremi sem heilsan leyfir. Ef ekki þá verður það sólbað, takk fyrir, gangi spáin eftir.
Tíminn og ég gegn hverjum
öðrum tveimur sem er.
(Spænskur málsháttur)
Bloggar | Breytt 5.7.2008 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)