8.6.2008 | 23:42
Töff helgi
Helgin var fremur töff hjá minni, verkjuð sem aldrei fyrr í liðum og brjóstkassa. Þarf að lifa með þessum verkjum það sem eftir er, skilst mér, afleiðing brjóstholsaðgerðarinnar. Óljóst hvort liðverkirnir séu afleiðing krabbameinsins eða vegna slitgigtar. Var vöruð við þessu á sínum tíma og lært að lifa með þessu ástandi. Hef forðast sterk verkjalyf eins og heitan eldinn en bólgueyðandi lyf hafa komið mér í gegnum daginn svona almennt og þannig hefur þetta gengið.
Nú brá svo við að ég misreiknaði lyfjabirgðirnar og varð uppiskroppa um helgina. Áhrifin ekki lengi að koma í ljós, hef veri kengbogin og vart getað hreyft mig. Verkirnar allt frá fingurliðum í stóru liðina og rifjabogan. Verkirnir í rifjaboganum líkjast mjög verkjum eftir rifbeinsbrot, hver hósti, stuna og hreyfing er sársaukafull enda hef ég vaknað upp á 2-3 klst. fresti síðustu nætur. Illskást að ganga um gólf. Sofið sitjandi. Átti til bólgueyðandi í töfluformi og lét mig hafa það að taka þær inn þrátt fyrir blátt bann lækna vegna magasársins og uppskar eftir því. Ekki oft sem ég beygi af. Verkirnir eftir fótbrotið eru ,,piece of cake" miðað við þessi ósköp
Það einkennilegasta við þetta er að maður getur ekkert leitað um helgar þegar svona aðstæður skapast. Lyfjaendurnýjunum er ekki sinnt um helgar og á kvöldin. Ég get vel skilið þá vinnureglu enda eiga menn að vera með vaðið fyrir neðan sig og búnir að endurnýja sín lyf í dagvinnutíma og á virkum dögum. En slysin gerast og hvað þá? Ég braut odd af oflæti mínu og leitaði á vaktina í Smáranum. Fannst ástandið réttlæta það að sækja þá þjónustu. Mér var vísað frá án þess að fá endurgreiðslu.
Ég kann að hljóma eins og lyfjafíkill sem vantar skammtinn sinn en sem betur fer eru þau lyfin mín ekki eftirritunarskyld, síður en svo. Eftir nokkrar tilraunir fannst meðferð sem hentar og gerir mér kleift að starfa og funkera án þess að kljást við aukaverkanir sem fylgja sterkum verkjalyfjum. Ekki allir eru svo lánsamir.
Þessi uppákoma vekur mig hins vegar til umhugsunar um lyfjamál margra almennt, ekki síst eldri borgara. Margir eru á ótal lyfjum, t.d. gegn háþrýstingi, hjartasjúkdómum, sykursýki, magabólgum, vöðvabólgum, eru á blóðþynningu og ég veit ekki hvað og hvað. Hversu oft skyldi koma upp sú staða að menn gleymi að endurnýja lyfseðla sína og þurfa að bíða yfir helgi svo ekki sé minnst á alla rauðu hátíðisdagana? Alfeiðingarnar geta því verið margvíslegar þegar lyfjatöku er sleppt í 2-5 daga samfleytt. Hér vantar í öllu falli einhver úrræði fyrir okkur tossana.
Helgin fór því ekki eins og stefnt var að, afraksturinn rýr og líðanin hábölvuð. Er létt að vita til þess að það er mánudagur á morgun. Það jákvæða við þessa reynslu er þó það að nú mun ég stúdera grasa- og jurtafræðina á fullu. Ég þarf að lifa með þessum verkjum það sem eftir er, ekki væri verra að geta sopið á einhverju glundri í stað þess að þurfa að stóla á rándýr, bólgueyðandi lyf þar sem mánaðarskammturinn fer ekki undir 12-15.000 kr. Mér skilst þó að grasa- og jurtaglundrið kosti þó sitt en er tilbúin að prófa. Málin verða í öllu falli endurskoðuð. Er orðin ansi glúrin í krossgátunum eftir síðust nætur og búin að spæna upp nokkur slík blöð.
Ég verð einnig að horfa raunsætt á málin, ég held lífi, verkirnir eru smávægilegir í því samhengi en fjandi geta þeir verið hvimleiðir. Það verður harkan sex í fyrramálið, ég verð í öllu falli ekki í vandræðum með að vakna.
Athugasemdir
Ósköp er að heyra Guðrún mín....vonandi verður morgundagurinn betri
Hólmdís Hjartardóttir, 9.6.2008 kl. 00:47
Sigrún Jónsdóttir, 9.6.2008 kl. 09:04
Ég tek undir með Hólmdísi..... vonandi nærðu hvíld og betri líðan.
Anna Einarsdóttir, 9.6.2008 kl. 09:06
Innlitskvitt og bestu kveðjur
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 9.6.2008 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.