24.7.2007 | 22:32
Góðir hlutir gerast hægt
Símtalið kom í morgun, mín á kafi í vinnunni og miðju þroskaprófi með stelpuskottu. Gleðigjafinn; Sigurður Bö færði mér niðurstöðurnar. Allt gott að frétta, engin merki um krabbamein í líkamanum. Hann sagðist reyndar vera gleðipinni þegar ég spurði hann hvort hann væri gleðigjafi. Hann stendur fyllilega undir því nafni. Mér var eiginlega svo brugðið að ég hafði ekki rænu á að spyrja hann ítarlega út í niðurstöðurnar. Þorði ekki að vonast eftir svo góðum fréttum. Búin að læra það af langri reynslu að vera hóflega bjartsýn.
Síðustu 2 vikur hafa tekið á, meira en ég átti von á. Sjúkdómsferlið hefur allt rifjast upp, biðin endalausa, aðgerðin og svo lyfjameðferðin sem var eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegn um. Kalla þó ekki allt á ömmu mína. Er eiginlega hálf dofin, ekki búin að hoppa hæð mína ennþá en ég veit að það kemur. Mér finnst það líkjast kraftaverki að vera í þessari stöðu nú, miðað við umfang og eðli sjúkdómsins. Auðvitað veit ég að þetta getur breyst á augabragði en ég ætla að trúa Sigurði, ég er læknuð þar til annað kemur í ljós og laus við þennan fjanda. Ég leyfi mér að þora að trúa því.
Nú fyrst finnst mér ég geta farið að gera langtímaáætlanir og taka stórar ákvarðanir. Nú ætla ég að skipuleggja sumt a.m.k. ár fram í tímann, annað til lengri tíma. Búin að vera stopp of lengi við ljósið sem er löngu orðið grænt, eins og einhver sagði við mig um daginn. Viðurkenni hins vegar að mér reynast ákvarðanirnar erfiðar sem er ekkert óeðlilegt miðað við þær krossgötur sem ég stend við.
Búið að vera ansi þungt í mér síðustu vikurnar vegna þessa alls og ekki síst vegna þess að ég hef skynjað og frétt um óvild annarra. Ótrúlegt hvað sumir nenna að eltast við að leggja steina í götu mína, meira að segja löngu eftir að ég hröklaðist í útlegð. Eyði trúlega allt of miklum tíma og orku í að hugsa um tilganginn og ávinninginn fyrir þá en veit að hluta til um hvoru tveggja en breyti engu þar um. Ég treysti hins vegar fáum en þeir standa líka undir því trausti. Sorgin er að naga mig og bíta sem er eðlilegur fylgifiskur breytinga. Það þarf heldur ekki mikla vindhviðu til að ýfa hana upp.
Ætla að reyna að rífa mig upp úr þessu volæði og einbeita mér að uppbyggingu og jákvæðari hlutum. Gæti komið mönnum á óvart í þeim efnum. Áfram eru það litlu skrefin, hægt og bítandi. Það stoðar lítt að horfa alltaf um öxl. Góðir hlutir gerast hægt.
Athugasemdir
Hjartanlega til hamingjum með fréttirnar. Jákvæðni leiðir af sér jákvætt ferli. Gangi þér vel.
Gíslína Erlendsdóttir, 25.7.2007 kl. 09:30
Sæl vertu - til hamingju með hringinguna og niðurstöðurnar.
Er sjálf hjá honum Sigurði Bö og hef verið í 4 ár. Hann hefur alltaf samband á þriðjudegi, þeim næsta eftir tékk. Hefði getað sagt þér það fyrr. En það er einhvern veginn alltaf spennuvekjandi að fara í tékk og bíða eftir niðurstöðum. Það venst aldrei - .
Gangi þér vel.
Ingibjörg
Ingibjörg Þ.Þ. (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 12:51
Gunna mín þetta eru frábærar fréttir. Nú er bara að halda brosandi út í lífið því það bíður eftir þér. Ekki vera hafa áhyggjur af einhverju sem hugsanlega getur orðið miklu seinna. Þú ert laus við krabbann...það er staðreynd
Katrín, 25.7.2007 kl. 17:04
Sæl Gíslína og kærar þakkir fyrir þessi orð. Ég er óttalega vanþakklát og verið neikvæð oft á tíðum, ekki endilega út af sjúkdómnum heldur öðrum þáttum sem plaga mig. Oftar en ekki hefur þú haft bein áhrif á mig með jákvæðni þinni og góðum ráðum. Hjartans þakkir fyrir það. Auðvitað er ég þakklát, ég veit að það verður alla vega einhver tími en við vitum það öll sem berjumst í þessu að ekkert er öruggt í hendi.
Baráttukveðjur til þín, mín kæra. Þú færð póstinn fljótlega og ættfræðina
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 25.7.2007 kl. 21:02
Sæl Ingibjörg og bestu þakkir fyrir hvatninguna. Gott að heyra frá samherja, ekki síst frá e-m sem er hjá Sigga B0, eins og ég leyfi mér oft að kalla hann. Frábær læknir og ótrúlega jákvæður og hreinskiptinn. Mér finns ég mjög lánsöm að hann skyldi samþykkja að sinna mér, aðrir valkostir voru víst hefðbundnari.
Þá veit ég að þetta er ferlið hjá honum, viðtal fyrst síðan símtal viku seinna. Eftir 4 ára reynslu ættir þú að þekkja ferlið vel. Maður hlýtur að sjóast í þessum efnum sem öðrum. Vonandi er þinn sjúkdómur ekki virkur. Baráttukveðjur til þín
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 25.7.2007 kl. 21:06
Hæ sys,
Já, laus, alla vega í bili. Ekkert er gefið í þessum efnum en er á meðan er, kannski verð ég laus næstu áratugina
Þarf að berjast við nokkra púka og ára, leysi það og fer síðan brosandi út í lífið aftur, ljósið löngu orðið grænt en ég sá það ekki. Bið að heilsa í Víkina eða á ég að segja "Olíuvík" núna?
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 25.7.2007 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.