Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.12.2007 | 01:02
"Viðsnúningur"
Búin að snúa sólahringnum við, vaknaði reyndar í býtið í morgun en finnst ótrúlega gott að leggja mig aftur enda beinlínis fyrir þeim þrem sem eru í próflestri hér á heimilinu. Skreið á fætur upp úr hádegi og eftir óratíma og nokkrar tilraunir tókst mér að setja á mig ,,andlit" og dreif mig í Plaza sem er eitt mollið hér. Útsölur í gangi en aðalmálið var að komast út og fá sér gott kaffi, skipta um umhverfi. Keypti inn að venju, lagði í svínakjötið hér sem var bara allt í lagi. Þurfti ekki að hrína í búðinni, dugði að benda í þetta skiptið. Svo virðist sem svínakjöt sé mikið á borðum hjá Ungverjum, alla vega er kjötborðið troðfullt af því. Hins vegar fylgir ekki sögunni hvaða partur svínsins var hér á borðum, hef ekki hugmynd um það.
Er nú í mínu fínasta formi, vel vakandi og spræk, búin að ,,screena" blessuð fræðin. Loksins. Nú er að reyna að koma einhverju á blað. Mér sýnist heilladrýgst að lesa og vinna á kvöldin þegar krakkarnir fara í koju. Trufla minnst þannig. Svakalegur tími hjá Haffa, búinn að sitja stanslaust við lestur síðan 19. desember, nonstop! Prófið verður þann 3. jan og ljóst að hann mun ekki komast yfir allt efnið. Vonandi verður hann heppinn í prófinu sem skiptist í 3 eða 4 hluta.
Ótrúlegt að það sé að koma gamlársdagur, sé ekki að við gerum neitt til hátíðarbrigða nema þá helst í mat. Krökkunum veitir ekki af tímanum til lesturs þannig að nýaárið verður eins og hvert annað kvöld. Kvíði eiginlega svolítið fyrir. Er ekki vön að stunda djammið á þessum tímamótum en föst í venjum og vil gjarnan horfa á mitt skaup og fréttaannál og horfa á raketturnar. Ekki mikið um þær hér, skilst mér. En við erum saman, þessi litla famelía og það er aðalatriðið.
Dagarnir renna út í eitt hér, var að uppgötva það fyrir stundu að það er laugardagskvöld! Fannst vera virkur dagur. Dvölin styttist í annan endan, tíminn bókstaflega búinn að fljúga áfram. Ef allt gengur upp verðum við Kata samferða heim en Haffi þarf að vera lengur vegna sinna prófa. Krossa fingur í þeirri von að hann verði heppinn og nái meinafræðinni í fyrstu atrennu. Margur er að þurfa að taka þetta próf x 2-3, þykir ansi stíft og efnismikið. Endurtekning þýðir styttra frí heima áður en vorönnin hefst. Enginn heimsendir en strákurinn vissulega orðinn þreyttur.
Stefni á afköst á morgun, þvílíkur léttir verður það að setja einhverjar línur niður á blað og koma verkefnum af stað
24.12.2007 | 00:03
Að kvöldi dags
Þá er þessi dagur liðinn, tókst vonandi að minna Haffa á afmælisdaginn. Í öllu falli vorum við með fámennt en góðmennt afmæliskaffi. Krakkarnir tóku sér stutta pásu frá lestrinum. Mér finnst með ólíkindum hvað meðleigjandi krakkanna, Kári, tekur því vel að vera með kerlingu inni á hiemilinu sem er sífellt að vasast í eldhúsinu og skipta mér að. Góður drengur þar á ferð.
Svolítið skrítið að vera í öðru landi að undirbúa jólin. Þorláksmessan hefur alltaf ákveðinn sjarma yfir sér heima, afmæli Haffa og lestur jólakveðja í útvarppinu. Höfum yfirleitt sett upp tréð á Þorláksmessukvöld, oftar en ekki í stressi og krampa á síðustu stundu. Allt rólegra þetta árið, á reyndar hitt og þetta eftir, vantar jólapappír og merkispjöld að venju. Einkennilegur ávani að eiga aldrei nóg af þessum hlutum, virðist seint ætla að læra af reynslunni.
Hef verið að hugleiða að undanförnu hvað ég er heppin. Þurfti að gangast undir allsherjar tékk í desember, sneið, skann, blóðprufur og allan pakkan vegna þeirra einkenna sem ég var með í tæpar 8 vikur. Einkennin lofuðu ekki góðu og var ég búin undir það versta enda virkilega slæm af verkjum og hvimleiðum einkennum. Ákvað að vera ekki að vekja ugg hjá krökkunum með því að rjúka upp til handa og fóta og tilkynna þeim þetta, fannst rétt að bíða. Nógu erfitt er búið að vera hjá þeim samt. Ætlaði mér að tala við þau auglits til auglits og færa þeim fréttirnar sjálf ef einhverjar yrðu. Mér til mikillar undrunar og í stuttu máli sagt komu rannsóknirnar vel út, engin merki um sjúkdóminn né meinvörp. Sloppin í bili alla vega. Ekki veit ég hvort okkar var meira undrandi, ég eða Siggi Bö. Ótrúlegur léttir og þvílík heppni! Þá er sá pakki frá í bili.
Heilsan smátt og smátt að skána, enn með verki og einkenni, trúlega tengd magabólgum m.m. sem aukast ef álag er á mér, minnka þegar mín er í rólegheitum. Verð einfaldlega að passa mig betur.
Er ansi lúin núna, ætla að skríða í koju til að vera hress á morgun. Eftir þann dag fer tíminn að miklu leyti í afslöppun hjá mér. Pínu sprengur síðustu dagana og varla búin að snúa ofan af mér eftir ferðalagið um daginn. En allt í eðlilegum gír og skv. hefðbundnum jólaundirbúningi. Stífur lestur hjá krökkunum til ca. 16.00 - 17.00 á morgu, þ.e. á staðartíma. Við munum borða um kl.18.00 á íslenskum tíma annað kvöld.
23.12.2007 | 00:18
Lítil jólastemning
Skrapp í miðbæinn með krökkunum í dag, þau tóku sér 2 klst hlé frá lestrinum. Ósköp fannst mér jólaskreytingar rýrar og stemning lítil. Reyndar skítakuldi úti þannig að ég var ekki lengi úti við en ég er hrædd um að mörgum þætti jólastemningin fátækleg.
Tók mig til og keypti inn í dag, fór í Interspar sem er eins konar Bónus eða Nettó hér. Leitaði af rjóma í 2 klst. áður en ég gafst upp en fór létt með að fylla körfuna. Þegar kom að því að fara á kassan beið mín margra metra langur flöskuháls og þannig var ástatt með afgreiðslu við alla kassana. Mun verra en í Nettó, svei mér þá. Hins vegar var ekki að merkja neitt stress á einum né neinum, Ungverjar gera greinilega ráð fyrir biðröðum og rólegheitum. Kúnnaranir spjalla gjarnan við afreiðslufólkið að loknum innkaupum, afslappaðir og rólegir. Mér sýnist mikið um að fólk greiði með einhverskona miðum, hvort heldur sem það eru afsláttarmiðar eða styrkur í einhverri mynd. Peningar eru sjaldnar sá gjaldmiðill sem fólkið notar.
Þegar kom loks að mér, kallaði afgreiðslustúlkan eitthvað út í loftið og áður en ég vissi af, var kominn örygisvörður sem stóð yfir mér allan tíman sem ég týndi ofan í körfuna. Reyndi að flýta mér sem mest ég mátti til að tefja ekki næstu kúnna um of, dauðlangaði að rétta öryggisverðinum poka og biðja hann um að skutla matvörunni ofan í hann. Þorði því ekki, veit ekki hvaða afleiðingar slík framhleypni hefði haft í för með sér. Ég slapp án athugasemda frá verðinum og létti mikið þegar út var komið. Ákvað að tína í flesta pokana þegar þangað var komið, lét duga að koma vörunum fyrir í körfunni til að komast sem fyrst út. Mjög óþægileg tilfinning, sá reyndar ekki nein skotvopn á manninum.
Krakkarnir komnir í háttinn, strembinn próflestur hjá þeim. Þau taka sér ekki mörg hléin þessa dagana. Frumburðurinn er 26 ára í dag, Þorláksmessubarn.
Trúi því varla að það séu liðin heil 26 ár síðan ég átti hann á Landsanum og eyddi þar fremur fábrotnum jólum. Tíminn flýgur ekki áfram, hann æðir áfram
Haffi er búinn að lofa mér að taka sér pásu frá lestri um kaffiðleitið í u.þ.b. klst. og fá sér afmæliskaffið. Síðan harkan sex og haldið áfram að lesa. Er að fara í stórt próf í meinafræði þann 3. janúar, heldur fyrr en hann áætlaði og tíminn til lestrar mjög knappur miðað við það efni sem hann þarf að komast yfir. Ekkert annað á boðstólnum nema 10. jan sem er orðið eiginlega of seint enda fleiri próf að taka.
Katan á fullu að lesa undir sitt próf sem hún tekur þann 28. des. Mjög stuttur tími til stefnu. Í raun mega þau ekkert vera að því að halda einhver jól. Þau verða því í skeytastíl hjá okkur. Ég verð að sætta mig við það. Styð þau best með því að virða planið þeirra og láta lítið fyrir mér fara. Sjá til þess að þau nærist og hvílist hæfilega. Þar er mín í essinu sínu. Þetta er svakalega erfiður tími hjá krökkunum. Aldrei verið mín sterka hlið að tipla á tánum, reyni það eftir bestu getu en auvitað rek ég mig utan í borð og stóla. Því meir sem ég reyni að vanda mig og fara hljótt, þeim mun meiri brussa verð ég. Ekki nýtt á nálinni
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2007 | 23:02
Hrikalegt!
Búið að taka endanlega ákvörðun um að úrelda Sláturhúsið í Búðardal. VG þeir einu sem reyndu að koma málum í farsælli farveg, við dræmar undirtektir. Núverandi meirihluti sveitarstjórnar einhuga í ákvörðun sinni. Framkvæmdir og verðmæti þeirra sem fóru langt upp í 200 milljónir fyrir 3-4 árum þurrkað út, eitt pennastrik. KS tryggir sína markaðsstöðu, fær úreldingaféð. Aldrei framar slátrað í Dölum. Tímamót og straumhvörf í sögunni myndi einhver segja. Húsið nánast orðið ,,útflutningshæft" eftir gríðalega vinnu og kostnað.
Ég held satt best að segja að ráðamenn séu ekki með fullu viti. Klúður í upphafi starfa núverandi sveitarstjórnar að gefa húsið eftir, rangar ákvarðanir og því illmögulegt að snúa þeirri þróun við sem þar hófst en alls ekki útilokað, ef menn höfðu vilja til. Fyrri sveitarstjórn seildist ofan í vasa skattborgara sinna til að afla fé til framkvæmda og úrbóta án þess að bera þá ákvörðun undir sína íbúa. Hrikaleg aðgerð á þeim tíma og brot á lýðræði en enn hrikalegra það sem nú hefur gerst. Tjón fyrir Dalina sem aldrei verður bætt. Var þessi ákvörðun um að kasta fyrri fjárfestingum á glæ, borin undir íbúana?
Er menn svo blindir að átta sig ekki á því að hægt er að sækja menn til saka, gerist þeir óábyrgir eða skaða hagsmuni síns sveitarfélags? Það gilda nefnilega stjórnsýslulög yfir allar ákvarðanir sveitarstjórna og hver sveitarstjórnarmaður er lagalega ábyrgur fyrir ákvörðunum og aðgerðum sínum. Það ber að hafa í huga að allir sveitarstjórnarmenn bera ábyrgð, byggðaráðsmenn og sveitarstjóri þó meiri en aðrir enda þeir sem bera ábyrgð á rekstri og fjármálum sveitarfélagsins. Ég dreg ekki fjöður yfir það að formaðurinn og framkvæmdarstjórinn eru þeir sem axla mestu ábyrgðina.
Þvílíkur jólaglaðningur sem núverandi meirihluti færir sínum íbúum þetta árið!. Það verður að segjast eins og er að það er huggun harmi gegn að það skuli vera hægt að sækja menn til saka og láta þá axla ábyrgð gjörða sinna. Ég hef ekki trú á öðru en að það verði gert. Hvernig má annað vera?
Einhvern veginn finnst mér ákvarðanir sem þessar smekklausar á aðventunni, tíma ljóss og friðar. Hvað eru menn eiginlega að hugsa? Ég veit að það eru skiptar skoðanir á tilvist sláturhússins en ég hef ekki trú á því að það séu margir sáttir við það hvernig farið er með fjármuni og fjárfestingar sveitarfélagsins. Hvar er hugsunin um arð og skilvirkni á þessum bæ? Fyrifinnst hún einungis innan herbúða hestamanna beggja megin við borðið?
Skyldi núverandi meirihluti komast upp með að stjórna sveitarfélaginu með sama hætti og hingað til? Þ.e. án þess að íbúar hafi hugmynd um hvað gerist á bak við luktar dyr, sveitarstjórnarmenn báðum megin við borðið að plotta og koma ,,sínum" málum áleiðis. Hvernig verður með málefni Silfurtúns? Allur rekstur þar fyrir luktum dyrum, engar rekstrarlegar upplýsingar hvað þá upplýsingar um veitta þjónustu. Hver skyldi ástæðan vera fyrir þessu fyrirkomulagi formanns byggðaráðs og yfirlæknisins?? Það verður spennandi að fylgjast með opinberum niðurstöðum Landlæknisembættisins sem er nú í átaki við að bæta aðbúnað aldraðra. Hvar standa Dalamenn í þeim efnum?? Vonandi vel, en enginn veit því allar slíkar upplýsingar eru á huldu og örfáum ætlaðar.
Hvað skyldi taka við í júní nk.? Var ekki ráðningarsamningur við sveitarstjóra til tveggja ára?? Hvert stefnir yfirstrumpur sveitarfélagsins á nýju ári? Hver fær stóra bitann af kökunni þá? Hverjum þarf að tryggja völd og ítök??? Kannski of snemmt að spá fyrir um það en einhvern veginn er ég viss um að ég viti svarið..... Ég ætla rétt að vona að menn átti sig á því að engir eru vinir í pólitík!
Þetta voru vondar fréttir á aðventunni. Hugga mig við að menn verða að axla sína ábyrgð en það bætir ekki skaðann fyrir sveitarfélagið. Menn ættu að skammast sín. Á ég virkilega að trúa því að þessir aðilar eigi eftir 2 1/2 ár enn við stjórnvölinn?? Reikna má með því að sveitarfélagið verði líkt og sviðin jörð. Reiðskemman og önnur gæluverkefni ráðamanna munu þó trúlega standa eftir sem minnisvarði um störf þeirra.
Ég legg til við jólasveininn að meirihluti stjórnar fái grænsápu í skóinn sinn fram að jólum, pipraða naglasúpu og gaddavír eftir það í hvert mál. Það er deginum ljósara að þorrablóstnefndir hafa úr nægu efni að moða þetta árið. Það er eiginlega algjört ,,must" að mæta núna. Ekki forsvaranlegt að láta góða skemmtun fram hjá sér fara
Hef það annar gott hér í Debrecen, kalt en stillt veður. Sýnist stefna í rauð jól hér líkt og heima en EKKERT ROK! Búin að kíkja í nokkrar búðir, fann gullfallegt jólatré, líkist normannsþyn, yfirmáta þétt og bústið eins og ég vil hafa trén. Verkefni morgundagsins að finna ljósaseríur og gjafir handa börnunum. Ekki mikið úrval sýnist mér.....
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.12.2007 kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.12.2007 | 01:50
ÚFF!
Man ekki eftir öðru eins álagi og uppákomum. Er þó orðin býsna sjóuð. Komin heim um kl. 22.30, er búin að troða ofan í tösku. Reyndar umpakkaði henni úti á bílastæði, náði ekki að lyfta henni upp í bílinn þannig að það var ekkert annað að gera en að taka upp úr henni, troða henni í bílinn og síðan pakka aftur. Var með yfirvigt í haust en kannski meiri krafta, nú hafðist þetta engan veginn? Meiri þyngd? Minni kraftar??? Ég skal ekki segja en hvað sem öðru líður þá er þetta búið að vera ,,hell" eins og börnin segja.
Dýrin fóru á 3 staði, allt frá Kjalarnesi og til Keflavíkur. Bóluseting í millitíðinni. Er eiginlega kjaftstopp yfir því, fengum kisuna fyrir tæpu ári síðan frá Kattholti , keyptum hana út, örmerkta, hreinsaða og að ég hélt bólusetta. Kröfur sem Kattholt setur fyrir fósturforeldra. Fékk fyrir hana pláss á ,,hótel Kattholti" að því gefnu að hún yrði bólusett fyrir kattafári sem kostaði litlar 3.9oo kr. og síðan 800 kr. nóttin, takk fyrir. Kattarskömmin var aldrei bólusett! Dýrt er hvert kattarlíf segi ég nú. Ekki er gistingin ódýrari fyrir hunda. Þetta er flott viðskiptatækifæri, skil ekkert í mér að fatta það ekki fyrr!
Endursendist út um all ,,kjördæmið" í dýrareddingum og sækja jólagjafir út um allt. Tók óratíma að rata og finna götur og hús. Náði í búð rétt fyrir lokun til að kaupa sinnep á steikina á aðfangadag og rándýra tösku í handfarangur. Ekkert annað opið en Eymundsson í Mjóddinni. Brjáluð traffík, Reykjavík greinilega orðin stórborg. Maður kemst ekkert nema á fetinu, svo brjáluð var traffíkin.
Í stuttu máli þá er þetta ekki hægt. Get ekki hugsað mér að vera á þessu höfuðborgarsvæði, brjóstsviðinn ætlar mig lifandi að drepa. Vil ekki sjá þetta. Má ég biðja um landsbyggðina, takk fyrir. Þau mál verða rækilega hugsuð næstu vikurnar. Var nálægt því að fresta ferðinni í kvöld. Minnst af útréttingum dagsins voru vegna minna eigin mála. Þetta er rugl, eitt orð yfir það.
Í öllu falli verður ekkert um svefn þessa nóttina. Mun aldrei vakna í tæka tíð ef ég sofna núna. Mín jólakort berast seint eins og oft áður en nú enn seinna. Þau verða póstlögð í Debrecen. Ég náði ekki að kaupa frímerki né eina einustu jólagjöf fyrir lokun, hvað þá að setjast niður og borða. Náði þó ekki helmingnum af því sem ég ætlaði, hvað þá að kíkja í langþráða heimsókn
Ég segi stopp. Ekki meira af svona. Lífið er meira virði en að sækja sér svona aðstæður. Verð örugglega meðvitundarlaus næstu dagana þegar komið er á leiðarenda. So be it! Búin að fá upp í kok eftir síðustu daga.
16.12.2007 | 02:08
Laugardagskvöld á aðventu
Enn annað laugardagskvöldið! Allir dagar ættu að vera eins þegar maður er kominn á þennan aldur en nei! Laugardagskvöldin eru öðruvísi, væntingarnar einhvern veginn aðrar. Hvenær skyldi ég læra af reynslunni? Í raun eru þetta verstu kvöld vikunnar, fátt eitt að finna í sjónvarpinu svona að öllu jöfnu, hef reyndar ekki kíkt kvöld. Síminn yfirleitt ekki valkostur. Löngu hætt því enda til hvers að svekkja sig? Forðast brennt barn ekki eldinn?
Einhvern veginn er það nú svo að maður vill vaka lengur á laugardagskvöldum. Leifar frá fornri tíð þegar ,,djammið" var við völd? Löngu liðin tíð en samt föst í þessu fari, vaka lengur og láta sér leiðast.
Var að uppgötva það að 16. des er að renna upp og það eru að koma jól! Ég ætlaði svo sannarlega að njóta aðventunnar, ekkert stress, rólegheit, njóta þess að vera til, njóta lífsgjafarinnar. Kertaljós, tónlist og jólakort. Stemning eins og var í ,,den". Í stuttu máli hefur tíminn flogið frá mér og ég hef ekki gert neitt af því sem ég ætlaði, nákvæmlega ekkert. Hver stund hefur farið í að vinna og aftur vinna. Bandaríkjamenn kalla þetta ,,workaholic" og ég held að ég þjáist af því heilkenni, eiginlega engin spurning. Tel mig náttúrlega ekki viljandi hafa skapað þessar aðstæður en hve lengi getur maður stungið hausnum í sandinn?
Eyðilagði auðvitað lungann af deginum í svefn, var svoooooooo þreytt að það hálfa væri nóg, aðeins að leggja sig smá aftur. Urr......, er maður góður við sjálfan sig!! Blekki engan nema sjálfa mig.
Náði mér á strik um miðjan dag, upp á Skaga að sækja gögn og síðan hófst vinnan við eldhúsborðið. Afkastaði nokkru en ekki nóg, var búin að setja mér það markmið að klára allt sem út af borði stæði í kvöld. Varð að bakka með það, klára á morgun. Langaði ósegjanlega að skreppa aðeins í ,,shopping" á morgun, svo ekki sé minnst á eina stutta heimsókn, eini tíminn fyrirsjáanlegur til þeirra verka. Mánudagur pakkaður, þriðjudagurinn einnig og svo út í býtið á miðvikudagsmorgunn. Trilljón hlutir að framkvæma þangað til. Ég veit svo sem af langri reynslu að allt hefst þetta, ég hefði hins vegar viljað fá tækifæri til að pústa, anda aðeins og vera ekki í stressi eins og alltaf. En, engum að kenna nema sjálfri mér.
Hvað er ég að kvarta! Daglegt amstur og stress sem ég bý til sjálf. Líðanin síðustu vikurnar hefur reyndar sett strik í reikninginn, álagstengd en engu að síður hábölvuð. En hvað er það á miðað við það sem margur er að ganga í gegnum! Ég fékk lífgjöf og hef sloppið við sjúkdóminn ennþá, það er meira en margur getur sagt. Sumir fá högg ofan á högg en rísa upp aftur og aftur enda veit ég það að hugurinn ber mann hálfa leið, ef ekki lengra. Ég hef unnið við ummönnun og hjúkrun frá 15 ára aldri og veit að þeir sem hafa baráttuþrek, sigrast á ótrúlegustu veikindum, þvert á kenningar og rannsóknir. Það er einfaldlega staðreynd.
Það er einu sinni svo að eftir að maður fær greininguna ,,krabbamein" er maður á varðbergi alla tíð. Þó ég sé t.d. talin læknuð veit ég að sjúkdómurinn getur tekið sig upp hvenær sem og enda lúmskur fjandi. Það eitt að fá pestar og annað kallar ævinlega á rannsóknir og frekari skoðun. Það þýðir óvissa, hræðsla og ótti við að nú sé allt komið af stað að nýju. Biðin eftir rannsóknum og niðurstöðum endalaus og öll tilfinningaflóran á fullu. Heilbrigðiskerfið slappt og allt tekur tíma. Endalausan tíma. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að lífið heldur áfram og ekki ætla ég að sitja aðgerðarlaus í einhverju volæði og bíða eftir því að veikjast aftur. Hvorki setja mitt líf né barnanna á ,,hold" á meðan ég bíð eftir næsta skelli sem gæti verið eftir 10 ár þess vegna. ,,Life goes on" og eins gott að njóta þess á meðan er.
Auðvitað lærir maður að búast við hinu versta en vona hið besta, þannig er það einfaldlega. Eftir fyrsta höggið og greininguna fer varnarkerfið í gang. Það er farsælla, að mínu mati, að reikna með hinu versta sé tilefni til þess á annað borð. Ekki til þess að breiða upp fyrir haus heldur til að búa sig undir átök. Flestir þurfa nefnilega tíma til að vígbúast. Ég er alla vega ein af þeim.
Ég er ein þeirra heppnu, ennþá. Verð að fara að endurmeta mitt líf og forgangsröðun. Það kemur að því að það stytti upp, einhvern tíman nær maður endum saman og getur farið að brosa framan í tilveruna. Hætta að skríða með veggjum og forðast gluggapóstinn. Þegar sú stund rennur upp, verður breyting á hjá mér. Ég ætla mér nefnilega að þakka það fyrir það tækifæri sem ég hef fengið. Hætta að hugsa um það hvernig ég ,,vildi" hafa hlutina, gera það besta úr stöðunni eins og hún er. Grasið er ekki endilega grænna hinum megin. Við mótum nefnilega eigið líf að stórum hluta.
Vissi svo sem að þessi tími yrði erfiður, hélt ég slyppi með miklu vinnuálagi og undirbúning fyrir jól í Debrecen. Minna tóm til að hugsa og syrgja. Sorgin læðist hins vegar aftan að manni; lag í útvarpinu, ljósasería í glugga, mynd af sauðfé, rauð Toyota í umferðinni, handbragð heima fyrir, minningar hellast yfir mann. Það virðist ekkert þurfa til. Áleitnar spurningar; af hverju, hvað ef... Um leið biturleiki og reiði; kerfið brást, ekki var hlustað, aðstæður erfiðar af annarra manna völdum; í raun skelfinegar. Bæði hrakin og smáð. Enn á þeirri vegferð að reyna að sætta mig við hlutina, finna sjálfa mig. Er eins og korktappi úti á rúmsjó. Reyni að fylgja kompásnum.
Ég veit að fleiri eiga sárt um að binda. Aðventan er sá tími sem syrgjendur finna hvað mest til. Þannig er það einfaldlega og ég get ekkert annað gert en að una því og reyna að halda áfram að vinna mig í gegnum sorgina. Margur hefur það verra en ég, ég á þó börnin mín og góða að. Þess vegna verð ég að finna lífinu nýjan tilgang og annan farveg. Það breytir því þó ekki að ég finn til í hjarta mínu eins og börnin segja. Hugmyndin um kerti, jólakort og Frostrósir var ekki góð, hefði átt að bíða þangað til næstu jól. Samt ákveðin léttir að leyfa sér að finna til.
Dimm er nótt og daufleg jól
dapurt lítið hjarta,
svartálfur í svörtum hól
syrgir álfinn bjarta.
Burtu er hans blíðast ljós
byrgir myrkrið stóra
hrími flosuð hélurós
hylur þröngan ljóra.
(Ásta Sigurðardóttir)
Á morgun kemur nýr dagur, laugardagskvöldið liðið, sem betur fer. Alltaf bjartara á sunndögum
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.12.2007 | 00:29
,, Og Þyrnirós svaf................."
Jamm, nú er bara sofið, sofið út í það endalausa. Um leið og færi gefst er sofið. Eiginlega hundfúlt. Þarf trúlega að láta skoða blóð- og járnhaginn. Vil ekki kannast við skammdegisdrunga, hef ekki einu sinni tíma til að vera með þungar hugsanir.
Fer hins vegar allt of seint að sofa. Hvernig má annað vera þegar fyrri partur kvöldsins fer í lúr og kúr?? Það er greinilega þjóðþrifamál að komast í afslöppun til krakkanna. Ég held ég geti sagt það með góðri samvisku að fjarkennsla er erfiðasta kennsluformið sem hægt er að hugsa sér. Gríðaleg vinna við að setja upp power point, hanna verkefni og fara yfir þau aftur. Námið að mestu sjálfsnám hjá nemendum sem þýðir auðvitað það að verkefnin verða að vera í samræmi við það. Gagnvirk próf duga skammt að sumu leyti. Næsta önn verður rólegri býst ég við, færri áfangar og þar með minni vinna. Ég verð þó að segja eins og er að mér finnst fullorðinsfræðsla í formi fjarkennslu gríðalega skemmtileg.
Hafði mig þrátt fyrir allt í verkefnayfirferð, er á síðasta spelinum og síðan eftir að fara yfir öll prófin. Ég er alltaf jafnundrandi á því hve tíminn líður hratt, hann bókstaflega flýgur áfram. Einungis vika í brottför hjá mér. Jibbí! Vona að ég nái að ljúka því sem ég þarf að gera á þeim tíma. Allt of mikið eftir.
Veðrið setti sinn toll á nánasta umhverfi mitt, allt lauslegt fauk auðvitað og sumt skemmt. Mér var nær að vera ekki búin að koma garðhúsgögnum inn í hús. Vantar tilfinnanlega pláss og ekki síður krafta til að bera þau. Það hefst auðvitað einhvern veginn eins og alltaf. Er hætt að gráta veraldlega hluti, þeir skipta í raun svo litlu. Það væri hins vegar spennandi að sjá hvernig tryggingarnar afgreiða slík mál, smáa letrið hlýtur að fyrra þær ábyrgð eins og endranær.
Vikan að verða hálfnuð og ég get varla beðið eftir því að helgin komi. Reikna þá með því að ljúka þeim verkefnum sem standa út af borðum og get þá farið að anda léttar. Katan fékk fullt stig húsa í sínu verklega prófi í morgun, Haffi ekki eins sáttur eftri erfitt próf en segist pottþétt vera búin að ná sem er aðalatriðið. Hann er sennilega sloppinn við lokaprófið en ekki með þá háu einkunn sem hann stefndi að.
Fátt eitt að gerast í pólitíkinni, heilbrigðisráðherra segir grun um áform hans um einkavæðingu tilhæfulausa. Nú er bara að bíða og sjá til. Samfylkingarmaður vill fella niður gjaldtöku í Hvalfjarðargöng og er þar með á öðru máli en félagi hans; samgöngumálaráðherra. Auðvitað á að vera löngu búið að fella niður gjaldið, það átti aldrei að setja það á enda gríðaleg mismunun í því fólgið. Einungis Vestlendingar og Eyjamenn verða að greiða gjald til að komast á milli á sínum ,,þjóðvegi". Þetta hefur hins vegar viðgengist. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna. Af hverju stöndum við ekki saman gegn þessu óréttlæti???
Leysi þetta mál ekki fremur en önnur, ætla að hundskast í ból og halda áfram mínum Þyrnirósarsvefni. Stefni að metárangri á morgun
11.12.2007 | 00:49
Dagurinn hafðist
Langur dagur og strangur, tiltölulega nýkomin heim. Gaufaðist í gegnum daginn,föl og fá enda ekki búin að sofa lengi þegar ég þrufti fram úr. Prófagerð og óvænt verkefni settu strik í reikninginn. Ekki beinlínis spennó að ferðast um í þessu veðri. Svei mér ef ekki er allt að fjúka enn aðra ferðinna.
Þessi veðurofsi fer í mínar fínustu og virðist ég vera sú eina sem tjái mig um það. Svona ofsi í veðrinu hefur reyndar alltaf farið í mig, truflar einbeitinguna, svefninn og erfitt að keyra. Ekki bætir úr skák að maður er eins og úfin hæna í þessum veðurofsa. Annars eru tíkurnar sammála mér, hvorugar fást til að reka út trýnið. Vonandi verður ástandið eitthvað skárra á morgun.
Báðir krakkarnir í prófum á morgun og á fullu. Ónæmisfræði hjá Haffa og verkleg efnafræði hjá Kötunni. Mér skilst að prófessorarnir hafi verið duglegir að fella hópana í dag í síðarnefndu fræðunum. Þetta eru þó einungis hlutapróf þannig að það er ekki hundrað í hættunni þó ekki gangi allt upp sem skyldi .
Sjálf er ég búin að fá frest á mínum verkefnum, Guð sé lof. Dauðlangar að ljúka þessum námskeiðum enda heilluð af viðfangsefninu; opinberr stjórnsýslu og sveitarstjórnarmálum. Krankleika mínum sýndur skilningur sem mér finnst ómetanlegt og hvetur mig til dáða.
Í öllu falli lagði ég mig ekkert í dag sem þýðir að ég hlýt að sofa svefni hinna réttlátu í nótt. Upp í býtið, fæ vonandi blöðin í fyrramálið, kemst ekki í gang öðru vísi. Blaðberar brugðust mér illþyrmilega í morgun og einkenndist dagurinn náttúrlega af því. Ég er farin að vera eins og gamall, liðamótalaus tréhestur. Allt verður að vera í föstum skorðum og ekki má bregða út af vananum eins og sjá má. Fer að líkjast þeim sem ég hef gagnrýnt mest í gegnum tíðina
Verkefnum dagsins lokið, náði ekki að ljúka þeim öllum. Geri betur á morgun, næst er að koma sér í koju. "Rise and shine" kl.07 sem er stórmál fyrir B-manneskju. Vona að bíll, hús og aðrir munir verði heilir þegar risið verður úr rekkju, snælduvitlaust veður úti!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 15:37
Einkavæðing
Vinstri grænir eru með vangaveltur um það hvort nýjustu sparnaðartillögur og fjársvelti til heilsugæslunnar sé liður í áformum ríkisstjórnar um einkavæðingu. Þarf einhver að efast um það? Sú vinna er þegar hafin, heilbrigðisráðherra hefur blásið til sóknar í þeim efnum og vinnufundir hafa farið fram vítt og breitt meðal stjórnenda. Þeir vinnufundir hafa farið fram ,,úti í sveit" á hinum ýmsum hótelum og hefur Örkin verið vinsæll áfangastaður í þeim efnum. Að sjálfsögðu eru þeir fundir fyrir luktum dyrum.
Einkavæðing innan heilbrigðisþjónustunnar hefur verið forgangsmál Sjálfstæðismanna í áraraðir og hefur Ásta Möller ekki legið á sínum áherslum í þeim efnum. Enda frumkvöðull á því sviði þegar hún stofnaði Liðsinni ehf á sínum tíma. Er nú formaður heilbrigðisnefndar sem fer með stefnumótun í málaflokknum. Öllum er ljóst hver skoðun Péturs Blöndals er, honum finnst eðlilegt að þeir sem eiga pening, borgi meira. Samfylkingamenn hafa löngum beint sjónum sínum í þessa áttina. Í mínum huga var það á kristaltæru við myndun síðustu ríkisstjórnar hver stefnan yrði og afleiðingar; einkavæðing yrði sú leið sem yrði valin. Hvað svo sem Jóhanna Sigurðardóttur finnst um þessa leið, þá verður hún að beygja sig undir vilja flokksins.
Þetta er nákvæmlega það sem þjóðin kaus yfir sig og hennar óskir. Hafi menn kvartað undan þjónustunni fram til þessa, þá mega menn von á því að kvartanir verði háværari. Heilbrigðisþjónustan verður etv. skilvirkari en hún verðr háð efnahag einstaklingsins hverju sinni. Láta menn sér detta það í hug að nýtt háskólasjúkrahús verði byggt af ríkinu?? Trúlega verður það byggt en það verða einkaaðilar sem standa að byggingunni, rekstrinum og forgangsröðuninni. Ríkið verður kaupandi af þjónustunni og þeir sem eru efnaðri, fá betri, skjótari og skilvirkari þjónustu. Verðskrá þjónustu sérfræðinga verðu gefin frjáls, TR greiðir einungis hluta af henni skv. viðmiðun sem er út úr kortinu og sjúklingurinn borgar mismuninn. Hvernig er málum háttað með tannlæknaþjónustu eftir að skólatannlækningar o.þ.h voru lagðar niður? TR greiðir ekki nema brot af frjálsri álagningu tannlækna, efnaminni foreldrar ráða ekki við eitt eða neitt og tannheilsa barna í molum. Hvernig er málum háttað með þjónustu hjartasérfræðinga? Ef þú færð ekki tilvísun, verður þú að greiða þá þjónustu að fullu.
Týpískt fyrir þessa stjórnmálaflokka; að taka upp leiðir í heilbrigðiskerfinu sem hafa verið reyndar í öðrum löndum og verið handónýtar. Sjáum við ekki það sama í menntamálum?
Þetta kaus þjóðin yfir sig. Hvað gerir hún nú? Ég sé fyrir mér fjölgun ferða á vegum Heimsferða til Austantjalds landanna þar sem heilbrigðisþjónustan er ódýrari. Nú, og þar sem sóttvarnareftirlitið er ekkert með einstaklingum til og frá EES löndunum, fjölgar berkaltilfellum og öðrum smitsjúkdómum í landinu. Mænustótt, barnaveiki, stífkrampi, heilahimnubólga, taugaveiki og Guð má vita hvað! Hvernig skyldi skráningu verða háttað? Í nýlegum tillögumum sparnað á að leggja sóttvarnareftirlit niður.
Heilbriðgisstarfsmenn hljóta að hugsa sinn gang í framhaldi af einkavæðingunni sem brýtur gjörsamlega í bága við heilbrigðislögin sem eiga að tryggja öllum jafnan aðgang að þjónustunni. Það verða margir feitir púkarnir uppi á fjósbitunum; framundan gúrkutíð í viðskiptum innan heilbrigðisgeirans. Það er annað hvort að taka þátt í því kapphlaupi eða leita á aðrar slóðir.
Nær hefði verið að minnka yfirbygginguna og fækka þeim ótal störfum sem hafa skapast í kringum hana. Fagfólk innan heilbrigðisþjónustunnar ræður ekki ríkjum innan LSH, það eru viðskiptafræðingar, markaðsfræðingar, fjármálastjóra og hvað þetta heitir nú allt saman. Væntanlega fara stjórnmálafræðingar að ráða ríkjum, fulltrúar í almannatengslum og ýmis gæludýr ríkjandi stjórnmálamanna hverju sinni.
Það er greinilega blómleg tíð framundan í heilbrigðisgeiranum og viðskiptatækifærin mörg. Um að gera að stökkva um borð í lestina eða hvað.......
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2007 | 18:00
Virðing
Get ekki stillt mig um að láta í ljós virðingu mína. Ferða-, menningar- og markaðsfulltrúinn í minni fyrrum heimabyggð hefur ákveðið að taka sé hlé í störfum sínum í byggðaráði. Er mjög ánægð með þetta framtak hennar. Þarna er á ferð hæfileikaríkur einstaklingur sem ég vænti mikils af í framtíðinni en hún var einfaldlega vanhæf inni í byggðaráði vegna annarra starfa sinna.
Ekki get ég sagt að virðingin fylgi þeim sem tók hennar sæti. Sveitarstjórinn sjálfur sem er framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins auk þess að vera sveitarstjórnarmaður. Sem sveitarstjóri hefur hann nokkur völd innan byggðaráðs, margfeldisáhrif hans eru því mikil. Það að hann skyldi taka sæti byggðaráðsmanns sýnir í raun þá miðstýringu valds sem þarna á sér stað. Nær hefði verið að hleypa öðrum að og dreifa valdinu.
Úff! þetta er eins og sagan endalausa þarna. Ég er á þeirri skoðun að stjórnsýslan verði óbreytt þarna þar til sveitarfélagið sameinast suður fyrir brekku. Þá loksins fá íbúar að kynnast skilvirkri, gegnsærri og sanngjarnri stjórnsýslu. Það þyrfti að stífa vængina hjá nokkrum páfuglum í sveitarstjórn. Menn fljúga eins og þeir eru fiðaðir til, skrautfjaðrirnar duga skammt. Það kemur nefnilega alltaf að skuldadögum.
Andinn kom yfir mína í dag. Fór eins og stormsveipur um húsið og þreif, setti upp einhver ljós og kveikti á kertum um allt. Spilaði disk með Il DIVO á meðan og það á hæsta. Rosalega flottur diskur. Fyrsti dagurinn í margar vikur sem ég er ekki að drepast í verkjum og ég hreinlega sló öllu upp í kæruleysi. Búin að leita af ABBA disknum og öðrum með Jóhanni sem ég fékk í jólagjöf í fyrra en finn hann hvergi í öllu draslinu. Rosalega á maður mikið af hlutum annars sem aldrei er notaðir!
Ákvað að eyða þessum degi innan dyra í stað þess að fara í jólastressið út um allt. Nóg komið af kæruleysi, mál til komið að snúa sér að alvöru lífsins; verkefnavinnu og yfirferð. Ætli gosleysið reki mig ekki út fyrir dyr á morgun
Ekki laust við að minningar streymi þessa dagana. Sagt er að jólamánuðurinn sé alltaf verstur fyrir eftirlifendur. Því er það kostur að vera að drukkna í vinnu, minna tóm til hugsana.
Get ekki stillt mig um að ,,bísa" nokkrum línum af bloggi systur minnar (ekki í fyrsta sinn) en um er að ræða texta eftir frænda okkar; Hörð Torfa. Hann hefur reynt margt á sinni ævi og tekst á snilldarlegan hátt að tjá sig um sína reynslu. Við erum systkinabörn og hef ég ætið verið stolt af frænda mínum sem ruddi brautina fyrir marga og hefur alltaf farið ótroðnar slóðir. Textinn segir allt sem segja þarf. Mikið fjandi getur brekkan verið brött þó hugurinn sé á sínum stað!
oft er brekkan brött
og býsna þung mín byrði
mér finnst oft ég standi í stað
og stefnan einskis virði
en að hika er út í hött
ég held ég viti það
ég vil sjá og sigra.
ég sættist ekki á minna
hugurinn ber mig hálfa leið
hitt er bara vinna
úr ljóðinu brekkan e. hörð torfa
Vona að systir kær fyrirgefi mér ,,stuldinn"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)