Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
15.1.2008 | 00:05
Upp....
Allt komið í sinn fasta gír og á fullan ,,swing", út um allar trissur. Nákvæmlega eins og hlutirnir eiga að vera. Það á einfaldlega ekki við mig að liggja út af og gera ekki neitt. Hrikalega leiðinlegt. Byrjuð að leita af ,,hobbýi", kannski ég læri almennilega að prjóna á gamals aldri, eða hvað.............??
Hver klúðrir á fætur öðru í þjóðfélaginu, af nógu að taka í þeim efnum. Maður veit eiginlega ekki hvert þeirra er verst, pólitísku ráðningarnar, húsafriðunarmálið, árásirnar á laganna verði eða Grímseyjarferjan. Öll málin grátleg, með mismunandi hætti þó. Óveður í Grindavík, slys á brautinni og bruni í andlit eftir síðbúinn flugelda. ÚFF, engin lognmolla, það er á hreinu.
Nýjasta útspil heilbrigðisráðherra er að krefja sjúkrahús og heilrigðisstofnanir um aukið upplýsingastreymi til sjúklinga. Hef sjálf ekki orðið vör við annað en slíkar upplýsingar hjá sérfræðingum. Í Domus fer enginn inn í rannsókn án þess að greiða fyrst svo dæmi sé nefnt.
Hins vegar vita það fáir fyrirfram að fari þeir inn á bráðadeild og verði lagðir inn á ,,gæsludeild" í einhverja klukkurstundir eða allt upp í sólahring, verða þeir að greiða fyrir daggjaldið að fullu. Einnig fyrir fæðið en það er hins vegar undir hælinn lagt hvort það gleymist að panta handa sjúklingnum bakka eður ei. Í sumum tilfellum er sjúklingurinn fastandi á meðan dvöl hans stendur og þar til fer heim. Reikningnum er í öllu falli skellt framan í sjúklinginn við brottför en hægt er að semja um að fá hann sendan heim og mjög háum reikningum má dreifa í einhverjar greiðslur, skilst mér.
Með tilkomu kostnaðargreiningar o.fl. innan sjúkrahúsa er lagt kapp á það að halda fólki inni skemur en sólahring þannig að kostnaðurinn falli ekki á stofnunina og fari þannig inn í reksturinn. Það er því sífellt algengara að fólk sé sent hundveikt heim. Heilsugæslan ætti þá að taka við í gegnum heimahjúkrunog sinna hinum sjúka þegar heim er komið en það tekur tíma að sækja um slíkt og fá beiðnina samþykkta. Þessi mál í þokkalegum farvegi í stærri sveitarfélögum en í algjörum lamasessi í sumum hinna smærri heilsugæsluumdæma.
Hvað sem því líður er það hið besta mál að ráðherran skerpi á sýnileika reikninga og kostnaðar, svo fremi sem ekkert annað ,,duló" búi undir
Síavaxandi einkavæðing liggur fyrir; ferilverkum (aðgerðum, speglunum o.m.fl.) á stofum sérfræðinga sem fer fjölgandi, öll ræsting aðkeypt af einkafyrirtækjum á stærri stofnunum, hjúkrunarþjónusta aðkeypt í gegnum einkarekngar starsfsmannaleigur, læknis- og önnur sérfræðiþjónusta keypt af einkareknum ,,heilsugæslustöðvum" og nýjasta "tilraunaverkefnið" felst í að bjóða út störf læknaritara. Það er fátítt í dag að nokkur maður leggist inn á sjúkrahús í dag til rannsókna; þær fara flestar fram úti í bæ eða í gegnum göngudeildarþjónustuna. Ríkið greiðir auðvitað niður þá þjónustu en hlutur sjúklings fer stigvaxandi líkt og með lyfjakostnaðinn.
Það verður fróðlegt að taka út stöðuna eftir 3 ár
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.1.2008 | 01:25
Berklar
Vísir blæs upp frétt um mann með ,,meint berklasmit" í tengslum við áflog eða árás á annan mann. Maðurinn útlendingur. Það hlaut svo sem að koma að því að fjölmiðlar tækju við sér vegna berkla sem víða eru vandamál í Evrópu, USA, Indlandi, Afríku og ég veit ekki hvar og hvar. Hitt er svo annað mál að mér finnst óþarfi að rjúka upp til handa og fóta með æsifrétt, við erum búin að búa við þá staðreynd að hingað eru fluttir ótal einstaklinga sem eru með bakteríuna í sér, einkennalausir eða veikir. Allt frá því að landið var galopnað og dregið úr sóttvörnum landsins, ekki síst með því að leggja af berklaeftirlit nýbúa frá EES löndunum.
Við Íslendingar náðum að hindra útbreiðslu berkla á síðustu öld og síðusta áratuginn hafa einungis innan við 20 einstaklingar greinst með smit á hverju ári. Við vorum með virkt berklaeftirlit bæði í skólum og á vinnustöðum og algengt var að bólusetja heilbrigðisstarfsmenn allt fram á 8. áratug síðustu aldar gegn berklum. Fyrir rúmum áratug taldi sóttvarnaeftirlitið okkur hafa náð það góðum árangri í berklavörnum að hefðbundið berklaeftirlit var lagt niður. Of dýrt og svaraði ekki kostnaði.
Hins vegar voru allir útlendingar sem hingað komu til að stunda vinnu, allir berklaprófaðir og heilsufarsskoðaðir áður en þeir fengu atvinnuleyfi. Líður í sóttvörnum landsins. Þeir sem greindust með smit voru einfaldlega meðhöndlaðir líkt og við Íslendingar. Þetta eftirlit er ekki lengur til staðar nema hjá útlendingum utan EES landanna. Í dag ganga menn beint að atvinnu hér, ekkert eftirlit að neinu tagi svo fremi sem þeir komi frá EES löndunum, jafnvel þó berklar séu víða vandamál í þeim löndum. Ekki einungis hefðbundinn stofn berklabaktería sem veldur usla heldur og einnig fjölónæmir stofnar sem fátt eitt bítur á.
Berklar geta verið lúmskur sjúkdómur, hinn sýkti oft einkennalaus eða með væg, almenn einkenni. Margir bera því bakteríuna í sér án þess að hafa hugmynd um það og án þess að vera veikir. Talið er að um yfir þriðjungur íbúa heimsins séu útsettir fyrir bakteríunni og nýtt smit eigi sér stað á einnar sekúnda fresti. Dulinn og einkennnalus sýking algengust en tíundi hver af smituðum fær virka berkla. Tölur frá 2004 staðfesta að 14.6 milljónir manna hafi með króníska og virka berkla, ný tilfelli um 8,9 milljón og 1,6 milljónir manna létust. Talið er að í 20% tilfella sé bakterían ónæm fyrir hefbundnum lyfjum og 2% ónæm fyrir ,,varalyfjunum". Þessar tölur hafa hækkað síðan.
Bakterían ræðst yfirleitt á lungun en getur verið til staðar í taugakerfinu, sogæðakerfinu, blóðrásarkerfinu, kynfærum, beinum og liðum og jafnvel í húðinni. í 75% tilfella verða lungun fyrir barðinu og eru helstu einkennin verkur fyrir brjósti,hósti með uppgangi sem varir í meira en 3 vikur, hiti og kuldahrollur, nætursviti, lystarleysi, þyngdartap, húðfölvi og viðkomandi hefur skert úthald og þreytist fljótt. Einkenni sem geta bent til margs annars, s.s. flensu, berkjubólgu o.fl. Fáir kveikja á perunni enda fræðsla um sjúkdóminn meðal almennings af skornum skammti.
Þegar hinn sýkti hnerrar, talar, kyssir eða hrækir berast sýktir dropar út í andrúmsloftið. Hver dropi sem getur verið 0.5 to 5 µm í þvermál og hvert sinn sem viðkomandi hnerrar geta 40.000 slíkir dropar borist í andrúmsloftið. Það þarf ekki marga dropa til að valda smiti hjá næsta manni.
Sjúkdómurinn er útbreiddur, eins og sjá má.
World TB incidence. Cases per 100,000; Red = >300, orange = 200300; yellow = 100200; green 50100 and grey <50. Data from WHO, 2006.
Þróun berklatilfella í heiminum síðan 1990:
Kúrvan á hraðri uppleið
Fjölmargir bera bakteríuna án þess að gera sér grein fyrir því og eftir að sóttvarnaeftirlitið slakaði á klónni er augljóst að smit hlýtur að grassera. Það er ekki fyrr en einhver er orðinn veikur og þarf jafnvel á sjúkrahús að menn kveikja á perunni, berklaprófa þann veika og komast að smitinu. Í gang fer ákveðið ferli, allir sem hafa starfað með eða eru í návígi við viðkomandi eru berklaprófaðir. Þeir sem reynast jákvæðir, eru rannsakaðir enn frekar og sýni þeir einhverjar breytingar á lungnamynd, eru þeir meðhöndlaðir með lyfjum.
Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af er sú staðreynd að fjölmargir eru smitaðir án þess að vera greindir, berklaeftirlitið er slappt. Menn hafa sofnað á verðinum og miðað við flæði útlendinga til landsins kemur að því að við fáum fjölónæma bakteríustofna sem ekkert bítur á, hafi það þá ekki gerst nú þegar. Fjölónæmir berklar eru mikið vandamál í mörgum fyrrum Sovétríkjum, einkum
Eystrasaltsríkjunum svo dæmi séu nefnd. Í Rúmeníu og Búlgaríu eru berklar mjög útbreiddir.
Hvað voru menn að hugsa hjá sóttvörnum ríkisins og í þeirri ríkisstjórn sem lagði af berklaeftirlit með öllum útlendingum, í skólum og á vinnustöðum?.Vissulega kostar eftirlitið en einungis brot af því sem það kostar að meðhöndla þann fjölda sem greinist svo ekki sé minnst á þjóðhagsleg áhrif.
Umræðan hefur ekki farið hátt, menn forðast að tala um þessar staðreyndir enda rasistastimpilinn sem Frjálslyndir fengu fyrir síðustu kosningar ekki eftirsóknarverður. En hvernig í ósköpunum er hægt að tengja berklaeftirlit og annað smitsjúkdómaeftirlit við rasisma? Mér er það með öllu óskiljanlegt.
Við skulum ekki gleyma því að okkur tókst að útrýma fleiri sjúkdómum en berklum á síðustu öld. Barnaveiki og mænusótt sjáum við ekki lengur. Kíghóstatilfellin ekki mörg, stífkrampi ekki algengur. Bólusetningar hafa komið í veg fyrir þessa sjúkdóma og við höfum náð feikigóðum árangri. Hvað varir sá góði árangur lengi? Ýmsar aðrar þjóðir hafa ekki náð svona langt.
Við skulum einnig hafa það í huga að eyðni er víða landlægur sjúkdómur og hvert er eftirlitið með þeim sjúkdóm hér á landi? Meðal Íslendinga takmarkast reglulegt eftirlit við þungaðar konur. Þeir útlendingar sem eru tékkaðir koma frá löndum utan EES svæðisins. Öðrum þjóðum stendur slíkt eftirlit ekki til boða af fyrra bragði.
Ég er svartsýn þegar kemur að berklum hér á landi. Tel að stjórnvöld hafi sofnað á verðinum með frjálsu flæði útlendinga til landsins án þess að viðhafa heilsufars- og smitsjúkdómaeftirlit. Flestir útlendingarnir koma frá EES löndunum, hafa trúlega enga hugmynd um það hvort þeir beri bakteríuna í sér eða aðra smitsjúkdóma. Margir þeirra óskráðir í landinu og engin leið að fylgjast með því hverjir eru smitaðir eða veikir. Ekki víst að skráðum tilfellum fari fjölgandi á næstu árum, ekki fyrr en fjöldi þeirra sem veikist og þarf læknishjálp eykst og er ég hrædd um að þá séum við að tala um faraldur.
Kannski þessar hugleiðingar verði taldar ,,rasismi". Ég er ekki sammála því, flokka þær undir staðreyndir, áhyggjur og gagnrýni stjórnvöld fyrir ábyrgðarleysið í þessum efnum. Aðeins eitt stjórnmálaafl vakti athygli á þessum málum fyrir síðustu kosningar og gerir enn. Meðlimir þess lentu nánast í aftöku ,,í beinni" þar sem þeir þorðu að vekja athygli á þessum málum. Okkur hættir nefnilega til að gleyma okkar skyldum gagnvart þeim útlendingum sem hingað sækja. Þeir eiga sama rétt og við til heilbrigðiseftirlits og þjónustu. Okkur ber að sjá til þess að þeir fái hvorutveggja auk viðeigandi meðferðar, líkt og við Íslendingar! Sá réttur er ekki bundinn stjórnmálaflokki heldur stjórnarskránni og mannréttindum. Á það hafa hins vegar Frjálslyndir réttilega bent.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.1.2008 | 20:27
Víða erfitt í læknishéruðunum
Nú bítast þau á í Skessuhorni, framkvæmdarstýra Heilsugæslunnar í Ólafsvík og yfirlæknirinn í Búðardal um stöðu læknamála í læknishéruðum Vesturlands og víðar. Sú fyrrnefnda hélt því fram í blaðinu á dögunum, að erfiðlega gengi að manna stöður lækna um allt land, þ.á.m. í Ólafsvík, Stykkishólmi, Búðardal og á Akranesi. Yfirlæknirinn brást snöggt við og kom með þá yfirlýsingu, í sama blaði, að framkvæmdarstýran færi með rangt mál og heldur því fram að enginn læknaskortur hafi verið í læknishéraði Búðardals í áratugi. Sjálfur hefur læknirinn starfað í 13 ár á sömu stöðinni og hinn læknirinn í tæp 6 ár og forverar hans í 5 ár eða lengur enda svo gott að búa í Búðardal.
Auðvitað frábært að vita að starfsmannavelta meðal lækna í héraðinu sé lítil sem engin, ár frá ári, enda er ör starfsmannavelta víða vandamál í læknishéruðum landsins. Sum eru stundum mönnuð tímabundið af læknanemum eða ellilífeyrisþegum. Framkvæmdarstýran var hins vegar ekki kát með þessa yfirlýsingu læknisins og benti á, daginn eftir, í sama blaði, að yfirlæknirinn hafi verið einn meira og minna síðasta ár.
Kannski ekki merkileg frétt en þó. Vekur mig til umhugsunar. Í fyrsta lagi það að þessi umræða skuli fara fram í fjölmiðlum. Kannski eru menn að bítast um íbúana og mæra sitt byggðalag í harðri samkeppni, hvað veit ég, útlaginn??
Í öðru lagi fór ég að hugsa; bíddu við, heil 13 ár á sama stað!
Maðurinn hlýtur að hafa staðnað í faginu á öllum þessum tíma. Aldrei farið neitt annað allan þennan tíma og því lítið tileinkað sér nýjungar eða haldið sér við. Kemst aldrei frá. Nú, eins og allir vita í héraðinu, hefur maðurinn staðið króníska sólahringsvakt meira og minna allt síðasta ár, jafnvel nokkur ár og verið einn með stofuna. Einn að sinna öllum íbúum sýslunnar. Í ofanálag er hann formaður byggðaráðs, í sveitarstjórn, oddviti síns lista, í stjórn dvalar- og hjúkrunarfélagsins og yfirlæknir þar einnig, í stjórn Fellsenda og læknir þar einnig. Sinnir hjúkrunarheimilinu á Reykhólum, er í stjórn hestamannfélagsins og hesteigandafélagsins auk þess að sitja í hinum og þessum nefndum á vegum sveitafélagsins. Stundar hestamennsku í frístundum, skipuleggur hestamannamót, fer á landsmótin og á fjölskyldu og lítið barn. Geri aðrir betur en hvernig fer maðurinn að þessu öllu?
Hinn læknirinn er eins og flautuþyrill um allt land og erlendis, jafnvel á bakvaktinni norður í landi eða úti í Kanaríaeyjum hver veit? Í öllu falli eru alltaf tveir læknar skráðir á bakvakt, annar alltaf að vinna en hinn alltaf í fríi. Einhverjir hafa nú komið veit ég, svona helgi og helgi, til að leysa blessaðan manninn af enda veitir ekki af. Hann hlýtur hins vegar að vera löngu útbrunninn og búinn á því. Þvílíkt álag og þvílíkt starfsþrek hlýt ég að segja! Læknishéraðið gríðalega víðfemt og stórt, keyrslan því mikil og útköllin oft löng. Hvernig er hægt að leggja þvílíkt álag á einn mann og hvað getur hann enst lengi við svona álag??
Þjónustan hlýtur að skerðast við þetta allt saman, maðurinn getur ekki verið á mörgum stöðum í einu og sinnt einn stofu á meðan hann hendist í útköll, útibú stöðvarinnar, hjúkrunarheimili sem eru vítt og breytt um héraðið eða á fundi út um allt eða hvað? Kannski þarf enga fundi. Hvenær fer læknirinn uppi í hesthúsi eða á hestbak? Á nóttunni? Hvenær sinnir hann fjölskyldu sinni? Hvernig fer sveitarfélagið að þegar hann er á Reykhólum eða í löngum sjúkraflutinngum utan héraðs? Héraðið læknislaust á meðan. ÚFF, þetta er svakaleg ábyrgð og álag á einum manni og hlýtur að enda með skelfingu; hjartastoppi hjá honum eða einhverju þaðan af verra. Ekki kalllar hann til varamenn til að hlífa sér. Hann stendur sína pligt sjálfur!
Illa er búið að læknum okkar úti á landsbyggðinni ef ástandið er svona slæmt víðar, það er víst óhætt að segja. Það er ekki að engu að menn staðni og brenni út í starfi. Ekki er framkvæmdarstjórinn í Búðardal öfundsverður að hlutverki sínu, ástandið hlýtur að leggjast þungt á hann enda orðinn rígfullorðinn maður og ábyrgð hans sem opinbers embættismanns mikil og íþyngjandi. Það reynist honum örugglega erfitt að sjá til þess að læknirinn hans fái viðeigandi sí- og endurmenntun og nauðsynlega hvíld. Þetta er bara ekki hægt!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.1.2008 | 00:08
Gjaldtaka og Hvalfjarðargöng
Vestlendingar og Vestmannaeyingar búa einir landsmanna við það að þurfa að greiða fyrir noktun á sínum ,,þjóðvegi". Þeir síðarnefndu eru tilneyddir til að greiða fyrir siglingu með Herjólfi eða flug til að komast upp á fastalandið en Vestlendingar greiða gjald fyrir að aka um Hvalfjarðargöng. Margur finnur fyrir því gjaldi á pyngju sinni þar sem töluvert er um að þeir stundi vinnu sína utan héraðs, aðallega á höfðuborgarsvæðinu. Einnig eitthvað um það að höfuðborgarbúar stundi vinnu sína á Vesturlandi. Þannig eru margir að aka um Hvalfjarðargöngin allt að tvisvar á dag.
Ef litið er á stefnu stjórnarflokkana í samgöngumálum kemur í ljós að Samfylking hefur enga eiginlega stefnu í samgöngumálum. Tala einungis almennt um ,,stórátak" í þeim efnum enda ,,byggist raunhæf byggðastefna á góðum samgöngum". Stefnlaust rekald sem auðvelt er að ,,díla" við.
Sjálfstæðismenn eru öllu skýrari í afstöðu sinni til þessara mála og telja ,,mikilvægt að nýta til hlítar nýja möguleika á fjármögnun samgöngumannvirkja, s.s. gjaldtöku og einkaframkvæmd". Þeir ráða auðvitað ferðinni.
Stjórn Spalar efh samanstendur af sjálfstæðismönnum, lögfræðing á vegum fjármálaráðuneytisins sem er undir stjórn Sjálfstæðismanna, aðstoðarvegamálastjóra sem heyrir nú undir ráðherra Samfylkingar en áður ráðherra Sjálfstæðismanna, Eimskipsmanni, og oddvita Hvalfjarðarsveitar en hann tilheyrir Lista Sam Einingar. Árstekjurnar yfir annað hundrað milljarðar fyrir skatt og hagnaður eftir skatt yfir 100 milljónir.
Það er því augljóst að á meðan núverandi stjórnarflokkar halda um stjórnartaumana verða engar breytingar á gjaldtöku um Hvalfjarðargöng eða til og frá Vestmannaeyjum. Þegar er farið að ræða um að bjóða út frekari gangnagerð til einkaaðila og flýta þeim framkvæmdum og fjármögnun með því að taka upp gjöld á fleiri leiðum. Skyldu Héðinsfjarðargöng vera inni í þeim umræðum?
Raddir um niðurfellingu þessara gjalda heyrast af og til, ekki mjög háværar og svo virðist sem fjölmiðlar hafi engan sérstakan áhuga á því að vekja máls á þessari mismunun sem gerður er á landsmönnum eftir landsvæðum. Hvernig skyldi standa á því?
Í huga mér er stöðug ein spurning; hvað voru kjósendur að hugsa í síðustu kosningum? Er þetta virkilega það sem landsmenn vilja?
Einkavæðing er stefna ríkisstjórnarflokkana og það sem koma skal í öllum málaflokkum.
9.1.2008 | 23:48
Hæfniskröfur bæjarstjórnar- og sveitarstjórnarmanna
Hnaut um áhugverða lesningu í kvöld. Elliði, bæjastjóri Vestmannaeyja kvartar sáran yfir stöðu þeirra byggða sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Kennir þingmönnum um alvarlega stöðu mála og þá helst þingmönnum Frjálslynda flokksins og jú, einhverjum öðrum líka. Vildi hins vegar ekki nafngreina þá sem hann telur ábyrga. Mig skal ekki undra, hann getur ekki nafngreint einn þingmann Frjálslyndra sem ber ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í sjávarplássunum, ekki nema þá með því að fara með ósannindi opinberlega. Gæti reynst honum dýrt og því betra að loka þverrifunni. Honum reynist örugglega erfitt að nafngreina félaga sína og samflokksmenn. Er ekki núverandi sjávarútvegsráðherra Bolvíkingur og hefur setið í ríkisstjórn í meira en áratug? Hver skyldi ábyrgð hans vera í málefnum landsbyggðarinnar?
Viðtalið við Elliða vakti mig til umhugsunar um þá hæfni og kröfur sem eru gerðar til bæjar- og sveitarstjórnarmanna almennt. Þær eru í raun engar aðrar en þær að vera með lögheimili í því byggðalagi sem þeir starfa og vera fjárs síns ráðandi. Síðustu árin hefur borið á því að erfiðara er að fá fólk til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Það undrar mig svo sem ekki enda pólitíkin hörð og óvægin, ekki síst í litlu klíkusamfélögunum þar sem áherslur og málefni ráða ekki för heldur fjölskyldu- og vináttubönd. Það er erfitt að fara gegn slíkum klíkum enda með ítök alls staðar. Seint verður hægt að segja að pólitísk barátta innan litlu samfélaganna sé málefnaleg. Þar ræður skítkast og níð för. Allt týnt til sem hægt er að finna, ef ekkert finnst þá er það einfaldlega búið til og virðist engin takmörk á hugmyndaflugi manna í þeim efnum.
Skipta má þeim einstaklingum sem veljast til bæjarstjórna- og sveitarstjórnastarfa gróflega í tvo hópa; annars vegar þá sem sækjast eftir því að komast til valda og áhrifa til að svala eigin valdaþörf og hins vegar þá sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera samfélag sitt eftirsóknarvert og betra samfélag til að búa í. Sem sé af hugsjón og með þarfir íbúanna í huga. Vissulega er það til í dæminu að menn eru hreinlega tilneyddir að taka að sér þessi störf, ekki síst í allra minnstu samfélögunum og er það þá undir hælinn lagt hvorum hópnum þeir tilheyri eða jafnvel einhvers staðar á milli, hlutlausir og aðgerðarlitlir.
Í fyrrnefnda hópnum þar sem menn sækjast eftir áhrifum og völdum eru gjarnan einstaklingar sem þegar hafa nokkur ítök í sínu byggðalagi í krafti starfs síns; skólastjórinn, atvinnurekandinn, útgerðarmaðurinn, óðalsbóndinn, formenn stjórmálafélaga, bankastjórinn, jafnvel presturinn, sýslumaðurinn og læknirinn. Sem slíkir hafa þeir mikil áhrif og að viðbættum völdum og áhrifum sem bæjar- og sveitarstjórnarmenn hafa, eru þeim engin takmörk sett. Þeir hafa alls staðar ítök, áhrif og völd. Ráða í raun hverjir búa í sveitarfélaginu, hverjir fá atvinnu, lánafyrirgreiðslu, húsnæði, lóðaúthlutanir, leikskólapláss o.s.frv.
Völdin virðast ótakmörkuð, eigin áhuga- og hagsmunamál sett á oddinn og ná að öllu jöfnu fram að ganga. Ef einhver mótmælir er snarlega reynt að þagga niður í honum, með góðu eða illu. Valdamiklir einstaklingar eru vanir að safna í kringum sig hirð ,,já-manna" sem þóknast ,,leiðtoga" sínum í einu og öllu. Þannig spynnst eins konar valdaköngulóavefur inn í samfélagið, valdamaðurinn með ítök og þræði alls staðar þar sem skiptir máli. Þannig getur hann séð eigin hagsmunum borgið. Ósjaldan er ,,já-mönnum" hent út þegar búið er að nota þá til þess sem þeir eru ætlaðir til og nýjum hleypt inn fyrir hliðið.
Það er vissulega erfitt að gera ákveðnar hæfniskröfur til bæjar- og sveitarsjórnarmanna en ef litið er á eðli starf þeirra er ljóst að þeir þurfa að hafa haldgóða þekkingu í opinberri stjórnsýslu og stjórnsýslulögum. Hver einasta ákvörðun bæjar- og sveitarstjórnar er stjórnvaldákvörðun og ber að fara að lögum þegar þær eru teknar. Fjármál eru stór þáttur í störfum þeirra, þ.e. að ákvarða dreifingu og forgangsröðun á tekjustofnum sveitarfélaganna. Þeim ber að tryggja að lögbundnum verkefnium sveitarfélaganna sé sinnt og veita ákveðna grunnþjónustu sem einnig er bundin í lögum. Semja fjárhagsáætlanir, bæði til eins árs og þriggja ára og reka stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þurfa þ.a.l. að hafa haldgóða þekkingu í fjármálafræðum og þekkingu á hlutverkum sveitarfélaganna.
Slíka þekkingu og reynslu er ekki hægt að tileinka sér á stuttum tíma, það er hins vegar auðvelt að verða sér úti um grunnþekkingu á þessum sviðum og leita eftir sérþekkingu þegar það á við. Þá kröfu er hægt að gera til bæjar- og sveitarstjórnarmanna. Hún er sjálfsögð. Hins vegar má gera þær kröfur til bæjar- og sveitarstjóra að þeir hafi haldgóða þekkingu á málaflokkum á sveitarstjórnarstiginu og á fjármálum. Þeir eru jú framkvæmdarstjórarnir og sérfræðingarnir.
Við sem höfum búið eða búum í litlum samfélögum úti á landi, þekkjum áhrif þeirra sem sækjast eftir völdum og hafa ítök alls staðar. Gegna oft trúnaðarstörfum og sem slíkir hafa þeir aðgang að viðkvæmum upplýsingum um nánungann. Heilsufar, fjármál, fjölskyldumál. Klíkan allsráðandi, engum utanaðkomandi hleypt inn í sæluna. Þeir verða að sitja úti í kuldanum og láta þetta yfir sig ganga. Mótmælin of dýrkeypt, starfið getur fokið, búskapurinn, börnin látin gjalda þess o.s.frv. Hvernig er hægt að vera pólitískur andstæðingur bankastjórans, sóknarprestsins eða yfirlæknisins? Alfeiðingarnar auðvitað ,,disaster".
Íbúarnir verða að láta ýmsilegt yfir sig ganga og geta fátt gert í stöðunni, ekki nema á 4 ára fresti og ansi oft eru sárir íbúar fljótir að gleyma og fyrirgefa þá.
Sumir eiga ekkert erindi inn í pólitíkina og bæjar- og sveitarstjórnarmál. Eiga að halda sig við sitt fag. Elliði er dæmi um það, vinsæll kennari en kolómögulegur bæjarstjóri sem rýkur í fjölmiðlana um leið og honum mislíkar eitthvað. Hefur hátt enda með gjallarhorn í rassvasanum. Ætti að halda sig við lífsleiknina og starfið með unga fólkinu. Láta pólitíkina eiga sig. Það sama má segja um einn bæjarstjórann vestur á firðum. Ætti að halda sig við tónlistina og skipulagningu tónleika. Listinn ótæmandi í þessum efnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.1.2008 | 01:19
Lent á Fróni
Við mæðgur loks komnar heim. Hið eiginlega ferðalag hófst í gær kl.15.00. Heimkoma kl.18.00 í kvöld.
Skelfilegur endir á erfiðu ferðalagi, efni í heila færslu að fjalla um leiðina Búdapest-Kaupmannahöfn. Ekki skánaði ástandið í Keflavík, heil ritgerð um þá reynslu. Hörmulegur endir og auðmýkjandi í alla staði. 1 og 1/klst í ,,tollinum" sem ég kýs að kalla ,,öryggis- og fíknefnaleit". Fíknefnahundur og heila klabbið, allt rifið og tætt úr töskum. Engar útskýringar, ekkert val, enginn réttur! Lögsaga flugvallarins með víðtækari rétt en lögreglan, svo ég vitni í orð töllstjóra. Svo virðist sem stjórsýslulög ná ekki yfir þessa lögsögu. Einstaklingur berstrýpaður af öllum rétti. Hvaða lög skyldu gilda um þessa starfsemi og aðgerðir meintra tollvarða sem þurfa ekki að kynna sig né tilgang, aðferð né annað? Einungis framkvæma. Leitarhundurinn vildi ekki sjá okkur mæðgur né okkar hafurstask. Það vildu hins vegar aðrir og það heldur betur.
Ætli herlög gildi í Leifsstöð??? Í öllu falli voru skilaboðin skýr; þegiðu og gerðu það sem við förum fram á, annars..... Þegar aðspurðir hvað fælist í ,,annars" var fátt um svör. Einskonar ,,af því bara og þegiðu". Það þarf ekkert að útskýra á þeim bænum, einungis framkvæma. Og maður þagði, beit á jaxlinn, lét þetta yfir sig ganga. Tilefnið? Okkur kom það ekki við. Menn lögðu mikla vinnu í að þreifa og þukla hverja flík vandlega, nærfötin auðvitað ekki undanskilin. Menn kipptu sig ekki upp með það þó þau flygju á gólfið. Engar spurningar um tollskyldan varning, hvað þá verðmiða á fatnaði.
Ég þarf og mun komast að því hvernig þessum herlögum er háttað í Leifstöð. Menn halda ekki vatni yfir látum Bandaríkjamanna. Erum við ýkja langt frá þeim??? Við mæðgur sáum ekki betur en að einhver útlendinsræfill hafi lent illa í málum, rétt á eftir okkur. Við síðust út úr fríhöfninni (svo kallaðri). Króaður af, hent inn í herbergi fyrir framan okkur, sólar skornrr frá skónum, urrað á strákræfilinn á bjagaðri ensku sem var með 2 KARTON af tóbaki en ekki 1!
Ekkert hafði fundist á meðan okkar dvöl stóð í þessum huggulegu híbýlum. Hundurinn leit ekki við honum. Hvað skyldi hafa orðið um drengstaulann?
Þretta var barasta alveg eins og í ,,amerísku" bíórmyndunum! En er mönnum ekki alltaf kynntur réttur sinn í þeim? Það er hins vegar ljóst á íslensku stjórnsýslulögin ná ekki yfir Leifstöðina né störf toll- og öryggisvarða.
Það verður ótrúlega ljúft að leggjast á koddan núna á eftir, mikið rosalegar er ég ánægð að dagurinn sé liðinn og að ég sé komin til míns heim. .Er sloppin úr príundunni, í bili a.m.k. Fátt mun halda mér vakandi næstu klst.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2008 | 23:44
Ferðahugur
Kominn ferðahugur í okkur mæðgur, styttist í heimferð. Katan fer í seinna prófið sitt í fyrramálið, efnafræði. Vona að allt gangi upp. Planið að taka heimferðina í tveim áföngum, þ.e fara til Búdapest á föstudag og gista þar enda ræs kl.04 um nóttina og flug þaðan til Köben um kl.07. Ef við færum héðan væri brottför um kl.01 og síðan stanslaus keyrsla á okkur þar til lent er heima á Fróni.
Búið að vera yndislegur tími hér. Afrakstur minn hins vegar skammarlega rýr, hef ekki lokið þeim verkefnum sem stóðu út af borðum. Lesið mikið en verið gjörsamlega týnd og engan veginn í formi til að koma mér að þeim atriðum sem skipta máli. Það jákvæða við þennan tíma er tvímælalaust samveran með krökkunum, þvílík heppni að getað komið því við að eyða jólunum saman. Hef tekið því yfirmáta rólega og ætti að vera búin að snúa ofan af mér og hlaða batteríin.
Alvara lífisins framundan, vinnan og skólinn. Af nógu er að taka eins og fyrr daginn. Verð áfram að vinna töluvert, alla vega næstu mánuði, þannig er það einfaldlega og ekkert annað en að sætta sig við það. Er heppnari en margur annar, get þó unnið.
Það verður erfitt fyrir Hafstein að verða einn eftir hér í Debrecen, flestir félagarnir farnir eða á förum. Við Kata líka. Bekkjarfélagar hans fóru margir heim fyrir jól og koma seinni partinn í janúar til að taka prófin sín. Hann ákvað að ljúka þeim fyrst úr því Katan hefði aldrei komist heim í jólafrí. Við bíðum spennt eftir því að settir verði inn auka prófdagar þannig að hann geti tekið stóra prófið í kringum 8. jan. Á þá eftir eitt annað próf sem er öllu minna í umsvifum. Veit að hann klárar sig drengurinn, það er aðallega ég sem væli, tel mig svo ómissandi.
Hlakka til að hefja nýtt ár, takst á við þau mál sem bíða. Móta framtíðina og taka næstu skref. Hef kunnað að meta letilífið hér, gæti alveg hugsað mér að vera hér áfram, fengi ég vinnu og sæmileg laun en slíkt er ekki í boði. Verð því að láta heimsóknir duga. Er farin að sakna hundanna, þvílíkt hvað ég er háð þeim. Veit þó að það fer vel um tíkurnar og köttinn.
Allir komnir í ró, ræs kl.07, Kári og Katan sem sé að fara í próf. Stefnan sett á smá ,,shopping" eftir próf. Löngu orðið tímabært að við mæðgur skryppum og gerðum okkur einhvern dagamun. Kaffihús með meiru. Stefnum einnig á að fara út að borða annað kvöld, í fyrsta skiptið síðan ég kom. Ekki seinna vænna. Muna bara að það kemur alltaf að því að borga af kortinu
Ætla í fyrra fallinu í háttinn, löngu orðið tímabært að snúa sólahringnum við aftur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2008 | 02:29
Steinlá
Þar kom að því; ég steinlá í dag með pest. Hef grun um að þetta sé inflúensa miðað við einkenni, var ekki búin að láta bólusetja mig. Held að toppnum sé náð eftir viku veikindi og nú sé mín á uppleið. Svaf drjúgan part dagsins, rétt náði að elda og síðan var skriðið upp í sófa þar sem ég steinsöfnaði til kl.22.00 á staðartíma. Mikið hressari núna en ekki sloppin.
Eyddum gamlárskvöldi í miklum rólegheitum. Litla famelían og 3 gestir, borðuðum góðan mat og spjölluðum. Ég var búin á því rétt fyrir miðnætti á staðartíma, þraukaði þó til miðnættis á íslenskum tíma. Fannst áramótin ekki komin fyrr en þá.
Krakkarnir rólegir, ekkert ármamótadjamm á þeim, rosalega eru þau hörð við sjálfan sig, ég get ekki annað sagt. Nokkuð um að bekkjarfélagar Kötu væru einir, hver í sínu horni í gærkvöldi en virtust velja þann kostinn. Þáðu alla vega ekki að koma í mat.
Ungverjar skutu upp meira en við áttum von á en komast náttúrlega ekki í hálfkvist við okkur Íslendingana. Flugeldasýning á torginu hér í Debrecen en ekkert okkar hafði orku í að fara þangað. Þvílíkt framtaksleysi í okkur. En allir voru sáttir og það skiptir mestu máli.
Átti svolítið erfiðan tíma um miðnættið eins og búast mátti við. Áramótin kalla alltaf á minningar og uppgjör, hvað ávannst á árinu?, hvað kom upp á? o.s.frv. Á eftir mikla vinnu í sjálfri mér og uppgjöri áður en ég get grafið það liðna. Er ekki enn komin á það stig að geta fyrirgefið böðlum mínum, held að ég eigi ansi langt í land með það. Finnst enn ósanngjarnt að aðrir stjórni því hvar ég bý, vinn o.s.frv. Eiginlega ekki hægt að sætta sig við það. Í öllu falli er mikil vinna framundan í þessum efnum.
Dvölin styttist í annan endan, hlakka til að koma heim en það verður erfitt að vita af Hafsteini hér einum en hann er ýmsu vanur og kvartar ekki. Það er frekar að ungamamman telji sig ómissandi. Tveir dagar í próf í efnafræði hjá Kötunni, setið stíft við lesturinn og gengið vel. Hún telur dagana niður þar til við förum heim. Búið að vera yndislegt hérna, langar ekkert lítið til að vera hér að vori, hitinn mikill og sólardagar margir. Mér skilst að gróðurinn sé virkilega fallegur. Kannski að sú ósk mín rætist; að liggja í leti í sólinni og hafa það yfirmáta ,,nice". Er orðin sóldýrkandi, eitthvað sem hefði aldrei hvarflað að mér, nennti aldrei að vera í sólbaði sem krakki og fram undir síðustu 2-3 árin.
Enn búin að snúa sólahringnum við, þarf að fara beita mig meiri hörku í þeim efnum....Styttist í alvöru lífsins, stefnubreytingu og ákvarðanir. Jamme..... Af mörgu er að taka og ekkert af því er einfalt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.1.2008 | 00:22
Gleðilegt árið
Þá er árið liðið. Græt það ekki. Fagna því nýja.
Óska fjölskyldu, vinum og vandamönnum gleðilegs og gæfuríks árs með þökk fyrir allt á liðnu ári.
Saknaðarkveðjur frá okkur í Debrecen
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.12.2007 | 00:49
Breytt áætlun
Hafsteinn tók ávörðun um að fresta prófinu í meinafræðinni. Ekkert vit í að lesa 16 tíma á dag í tæpar 3 vikur og mæta í prófið án þess að hafa náð að fara yfir allt efnið. Mæta upp á von og óvon um að hann verði heppinn með efni og sleppi í gegn. Þegar svona langt er komið í náminu skipta einkunnir miklu máli. Ekki margir aðrir dagar á lausu en vonir standa til þess að prófdegi verði bætt inn í annarri viku af janúar. Þetta þýðir skaplegri lestur en styttra frí heima að loknum prófum. Svona er þetta og er ég mjög sátt við ákvörðun hans. Hef varla séð hann síðan ég kom, varla að hægt sé að segja að hann hafi tekið pásu á aðfangadag.
Þessi breytta áætlun verður líklega til þess að við gerum okkur einhvern dagamun annað kvöld. Kötu sækist lesturinn vel og getur því slakað aðeins á. Gerum örugglega engar rósir en slöppum af yfir góðum mat og reynum að horfa á Skaupið á netinu þegar fram líða stundir.
Er bæði kvíðin og ánægð vegna áramótanna, þetta ár senn á enda og get ég ekki sagt að ég gráti það. Er hálf fegin að því sé að ljúka; það kemur aldrei aftur. Reynslan situr eftir, á eftir að vinna úr ýmsu ennþá. Ákveðin tilhlökkun en engu að síður beygur gagnvart nýju ári. Einhvern veginn er það innprentað í mann að með nýju ári skapist ný tækifæri. Óvissa og hið óþekkta veldur hins vegar alltaf einhverjum skjálfta auk þess sem það er löngu tímabært að fara taka ákvarðanir um framtíðina.
Gunnar Brynjólfur á afmæli dag; til hamingju frændi. Hlakka til að sjá ykkur og skæruliðana á nýju ári. Finnst svo örstutt síðan hann fæddist, þó liðin 27 ár, takk fyrir! Tíminn flýgur bókstaflega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)