23.10.2008 | 02:06
Langur dagur
Það gekk mikið á hjá minni í dag, blóðprufur, læknisviðtal og lyfjameðferð og síðan annað læknisviðtal og geislameðferð. Nóg að gera en sveif áfram á mínu rósrauða skýji með dóttur mína mér við hlið. Ekki amalegt að hafa einkabílstjóra, handlegg til að styðjast við og fúsar hendur til að stjana í kringum mig. Gæti alveg vanist þessu, í alvöru talað!
Fékk ágætist viðtöl, of snemmt að segja til um árangur meðferðar sem er nýja hafin en er nokkur nær um að vita hvað bíður mín næstu vikurnar. Þetta þykir töff meðferð þannig að ég á von á mikilli þreytu og öðrum aukaverkunum, ekkert sem kemur á óvart en gott að fá þetta ,,beint í æð" og ræða þessi mál þó ég ég að heita að kunna þetta. Meðferðin beinist fyrst og fremst að því að minnka fyrirferðina þannig að hún verði skurðtæk að henni lokinni, það er svona draumastaðan. Nú ef ekki þá verður hún ,,grilluð" í stuttu máli. Hið besta mál. Ég er ekki svo kvíðin fyrir því sem framundan er. Öllu munar að vita hver óvinurinn er og hvaða gereyðingavopn eru skilvirkust. Þá fyrst er hægt að bretta upp ermar og hefja varnar- og sóknabararáttu.
Fer i lyfjameðferð alla miðvikudaga og má reikna með því að aukaverkarnirnar fari að gera vart við sig á laugardegi eða sunnudegi þegar áhrif steragjafar fjara út. Aukaverkanir geislanna verða hugsanelga meira staðbundin og koma jafnt og þétt allan tíman. Fæ vikuleg viðtöl við bæði krabbameins-og geislækni þannig að málin eru í góðum farvegi.
Ég mun sjá hvernig þessi næsta vika fer í mig áður en ég get ákveðið einhver frekari plön. Borgar sig að vera niður á jörðinni og vita hver staðan er áður en ég geri einhverjar skuldbindingar. Verð að sætta mig við að einbeita mér að því að auka úthald og getu mína hérna heima fyrir, áður en ég get hugsað út fyrir það. Er ágætlega sátt við það enda hvorutveggja af mjög skornum skammti hjá mér ennþá þó mér finnist ég hressari núna en fyrir viku, svona heilt á litið. Við erum enn í basi með að verkjastilla mig en ég hef enn úrræði þannig að ég þarf alla vega ekki að engjast um tímunum saman og bíða eftir að verkir gangi yfir. Þó mér sé illa við alla lyfjasúpuna þá dettur mér ekki í hug að þrjóskast við að nota lyfin þegar þeirra er þörf. En rosalega eru þau dýr, maður lifandi! Er ég ekki að tala um einhverja þúsundkalla á mánuði. Þarf að taka bókhaldið saman og senda Doktor Gunna. Jafnvel senda þingmönnum þær niðurstöður við tækifæri. Var loksins að fá lyfjaskírteini í hendurnar þannig að róðurinn fer að léttast í þeim efnum.
Katan fylgdi mér eftir í allan dag, þessi elska og áttum við frábæran dag. Eftir okkar hefðbundna ,,quality time" í sófanum seinni partinn og smá fegurðarblund, settist Katan niður við lestur enda má hún ekki missa einn dag úr lestri og ég að kikja á verkefni. Höfðum það yfirmáta rólegt og nutum hverrar mínútu.
Morgundagurinn er enn óskrifaður, við munum haga seglum eftir vindi; umfram allt njóta þess að vera til og hafa gaman af. Svefninn enn í skralli hjá frúnni en það gerir ekkert til á meðan ég þarf ekki að vakna snemma eins og í morgun. Ég get þá alltaf lagt mig aftur, næga tíma hef ég til þess en ég vil helst vaka á sama tíma og skvísan. Læt mig svífa áfram á mínu rósrauða skýi út í nóttina, þakklát eftir frábæran dag.
Athugasemdir
Yndislegt að þú hefur dóttirina hjá þér í þessa daga, þér til halds og trausts.
Kærleikur og ljós til ykkar
Kristín Gunnarsdóttir, 23.10.2008 kl. 08:22
Mikið er ég sátt og sæl við að lesa að dóttirin er með þér þessa daga. Það er frábært til þess að vita.
Kær kveðja
Ragnheiður , 23.10.2008 kl. 22:54
Anna Einarsdóttir, 23.10.2008 kl. 23:20
Taki fyrir þetta, kæru bloggvinkonur.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 24.10.2008 kl. 01:46
þú ert heppin að eiga svona dóttir.
Gangi þér vel Guðrún og njóttu þess að vera á rósrauða skýinu.
Sigrún Óskars, 26.10.2008 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.