17.10.2008 | 01:05
Komin, á fullt
Þá er meðferðin komin á fullt, fór í fyrstu geislana í dag. Þurfti undirbúningstíma fyrir herlegheitin þar sem það svæði sem geisla á, er afmarkað kyrfilega með tússi. Geislunin tekur örstta stund, aðaltíminn fer í að koma sér fyrir á hörðum bekk og reyna að verða sér úti um þrjósku til að halda þá legu út, þó skammvinn sé, vegna verkja. Það var ekki auðhlaupið að því markmiði.
Átti tíma í lyfjagjöf í gær en hann fórst fyrir vegna ótrúlegs klúðurs í biðröðinni til míns sérfræðings. Í stuttu máli beið ég í 3 klst. á bekk á biðstofunni og var ógjörningur að fá einhvern til að bæta úr því. Þegar ég gafst loks upp, meðtekin af verkjum og lyfjalaus, var orðið of seint að hefja meðerðina, orðið of áliðið. Fyrir vikið tókst mér aldrei að verkjastilla mig í gær og nóttin fremur bág.
Fór því í lyfjameðferðina í dag, að loknum geislum og gekk hvorutveggja vel. Náði að liggja skammlaust á bekknum og verkjastatus sæmilegur í dag. Var hins vegar orði ansi dösuð og búin á því þegar heim var komið um kl. 16 enda búin að standa vaktina síðan kl. 06 í morgun. Er býsna ánægð með þann árangur þó hann hafi kostað það að ég sofnaði við kvöldfréttir og svaf í einum rykk til kl. 21.30! Það er kraftaverk í mínu tilviki.
Nú liggur meðferðarplanið fyrir; lyfjameðferð x 1 í viku og geislar daglega, 5 daga í viku, samtals 22 skipti. Mér sýnist það prógram ná fram í miðjan nóvember. Síðan á að meta stöðuna m.t.t framhalds, þ.e hvort ég verið skurðtæk eða haldi áfram óbreyttri meðferð. Þetta plan miðast við að allt gangi vel; fái ég miklar aukverkanir, verður planið endurmetið eins og venjan almennt er. Ég veit og treysti því að fyrri sérfræðingar mínir sem önnuðust brottnámið á lunganu, munu skera, sjái þeir einhverja smuga án þess að sú aðgerð myndi kosta mig, skert lífsgæði, óheft ferðafrelsi og getu til annast sjáfla mig til frambúðar.
Sérfræðingur minn var ekki nógu sáttur við mig í gær, finnst ég of verkjuð. Ég get ekki verið meira sammála honum. Er búin að halda því fram ansi lengi, reyndar. Verkirnir eru af margvíslegum toga, bæði út gigt- og ,,draugaverkir og svo seytir æxlið efnum sem valda ómældum verkjum. Því standa vonir til að verkirnir minnki smám saman eftir því sem geislar og lyf hafa áhrif. Læknirinn ræddi um innlögn við mig til að verkjastilla mig, ég afþakkaði pent og var fljót að því. Ég er búin að vera svo verkjuð lengi án þess að hafa fengið viðunandi lausn mála að mér finnst ég hreinlega ekki nógu ,,slæm" til að teppa eitt dýrmætt pláss á hátæknisjúkrahúsinu. Auk þess komin á betri meðferð við þeim nú en áður. Fer helst ekki inn á sjúkrahús nema á börunum og meðvitundarlítil eins og ég hef áður sagt. Ætla því að reyna að taka mig á hvað varðar verkina og ekki síst mataræði, er komin með ýmiss merki um vannæringu sem ég sporna gegn. Get ekki látið lélegan næringarstatus tefja fyrir eða eyðileggja meðferðina. Í þetta sinn verður félagsráðgjafi stofnunarinnar að standa sína plig gagnvart mér og senda inn umsóknir fyrir þeim hejálpartækjum- og efnum sem ég á rétt. Próteindryggki þess vegna.
Er fegin að vera búin að fá einhverjar fastar línur með framhaldið, get loksins farið að skipuleggja mig fram í tímann. Mér verður ekki mikið meint af meðferðinni, hingað til alla vega enda rétt að byrja. Er þreytt og dösuð en alls ekki með ógleði, uppköst og rugguveiki eins og síðast. Hef fullan hug á því að reyna að vinna örlítð samhliða meðferðinni, verð að láta á meðferðina reyna í næstu viku til að byrja með. Ef ég er fín á þeim tíma, vil ég alla vega prófa að vinna. Tel það algjört ,,must", ekki síst til að halda geðheilsu minni, verð að vera innan um fólk og geta sinnt því sem ég vil sinna og er mér hugleikið. Sé til í næstu viku.
Ég get, ætla, og skil stendur einhvers staða, góður frasi að hafa yfir í huganum á meðan meðferðin stendur yfir og ekki síst á milli lota. "GÆS,, verða einkunarorð mín á næstunni, leyfi mér að stela þeim frá bróður en þau svínvirka hjá honum.
Það er þreytt en sæl kona sem leggst til hvílu í kvöld, úff hvað verður ljúft að sofna aftur
Athugasemdir
Kæra Guðrún Þú ert alveg ótrúlega dugleg og bjartsýn, en það er það sem hjálpar við að halda þér uppi þó ég viti alveg um erfiðu stundirnar einnig, hef gengið í gegnum þetta stig frá stigi með minni bestu vinkonu svo ég tel mig geta sett mig inn í þín spor að hluta. Það er ætíð sagt að maður skilji ekki ef maður hefur eigi lent í því sama, ég tel það ekki vera rétt, því allar sorgir og veikindi eru erfiðar fyrir þann sem lendir í því og þess vegna er maður betur í stakk búin til að skilja, Æi nú er ég farin að ræðast, en sendi þér ljós og orku frá Húsavíkinni og þú ert í mínum bænum duglega nafna mín.
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.10.2008 kl. 09:05
Kærar þakkir nafna, veit að ljósið og orka frá Húsavíkinni eru ómetanleg. Það er þín kveðja og hlýi hugur einnig. Þú ert yndisleg
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 17.10.2008 kl. 09:23
Sömuleiðis nafna mín.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 17.10.2008 kl. 09:26
Þetta er heljarinnar erfitt ferli hjá þér mín kæra en ég hef svo mikla trú á þér. Þú ert búin að vera svo ógurlega dugleg og hugrökk.
Kærar hjartans kveðjur til þín
Ég er með þér í liði
Ragnheiður , 17.10.2008 kl. 12:11
Sendi þér ljós og kærleik Guðrún mín og hafðu ljúfa helgi Duglega kona knússs
Brynja skordal, 17.10.2008 kl. 12:30
Farðu nú vel með þig Guðrún mín. Sendi þér knús og kveðjur.
Sigrún Jónsdóttir, 17.10.2008 kl. 12:37
vertu góð við sjálfa þig
Hólmdís Hjartardóttir, 17.10.2008 kl. 16:41
Þú ert ekkert smá dugleg elsku Guðrún, gangi þer sem allra best vinan, þú verður í bænum mínum
Kristín Gunnarsdóttir, 18.10.2008 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.