13.10.2008 | 03:08
Depurð
Það er ekki laust við að ég finni fyrir depurð eftir þá rússibanaferð sem þjóðinni hefur verið boðið ,,,frítt upp á" uppá síðustu vikuna. Á ég þá ekki einungis við afleiðingar sem skapast hafa af græðgi íslenskra fyrirtækja, þáttöku stjórnvalda í sukkinu eða beina þátttöku fjárglæframanna heldur og einnig þá meðferð sem þjóðin hefur nú fengið í timburmönnum og eftirmálum þess klúðurs sem upp er komið. Erlendir ráðherrar og fjölmiðlar hafa undanfaraið, í kapp við hvorn annan, hafa verið óstöðvandi í að úthúða okkur sem þjóð og sumum hefur ekki munað um að setja á þjóðina hryðjuverkalög. Myndi sennilega endurtaka leikinn, ef eitthvað er.
Á sama tíma og þjóðin er að uppgötva í raun þá stærðargráðu sem tap íslensku þjóðarinnar er og átta sig á umfangi efnhagskreppunnar í öllum heiminum, hafa ráðmenn okkar búið yfiir vitneskju um að svona kynni að fara svo mánuðum skiptir. Það er okkur, almúganum, að verða ljóst eftir því sem þjóðin er upplýst meira, hægt og bítandi. Fáum ískaldar staðreyndir í smá skömmtum en svo virðist sem kjörnum þingmönnum okkar lands hafi verið ljós þessi hætta um efnahagshrun í langan tíma og á ég þá ekki einungis við um stjórnarliða. Hvernig í ósköpunum getur það hafa átt sér stað án þess að það læki út í fjölmiðla og til þjóðarinnar?
Menn eru æfir út í íslenska banka, fjárfesta, fjárglæframenn og hinn almenna Íslending sem ekki er óhultur á gögum Lundunáborgar sem stendur. Menn eru æfir eftir þátt Silfur Egils í dag og þá ýmist í garð Egils sem hagaði sér náttúrlega ekki eins og fullorðinn maður eða í garð Jóns Ásgeirs sem menn telja að kunni ekki að skammast sín.
Hvernig sem ábyrgðin dreifist og hverjir eru raunverulegir sökudólgar er ekki útséð með ennþá en ljóst er að okkar kreppa er einungis hluti af stórri alheimskreppu og útilokað fyrir einhvern einn eða tvo tugi manna að bera alfarið ábyrðg á. Að minnsta kosti ef sá hópur manna er af jarðríki. Það mun skýrast síðar og verða skráð í mannkynssöguna, enginn vafi á því.
Það sem mér þykir alvarlegast í því víti sem þjóðinni hefur verið boðið upp á síðstu 2 vikurnar er sjónarspil stjórnvalda. Ráðamenn sett upp þá rullu á svið okkar að þeir hafi ekkert vitað, að þróun mála hafi komið þeim í opna skjöldu, þeir þekki ekki til málanna og beri þ.a.l. enga ábyrgð. Sí sona hafa þeir leikið hlutverkið 2 síðustu vikurnar og ég, líkt og flestir, trúað þeim. Gat meira að segja fallist á þau rök að sýna ráðherrum Breta ákveðna þolinmæði í því skyni að leysa megi mál við þá á diplómatískan hátt þó hryðjuverkalögum væri beitt á okkur sem er náttúrlega þjóðarógn. Treyst þarna mati ríkisstjórnar sem alls ekki vildi fara í átök við Bretana og hafa enn ekki viljað sækja um astoð til IMF á meðan kannað yrði hvaða skilyrði bankinn myndi setja. Ég var reiðubúin til að sýna þolinmæði á meðan menn voru að vinna vinnu sína, að ég hélt.
En þetta var allt eitt sjónarspil, þjóðin fékk ekki réttu skýringarnar, það hlýtur að liggja ljóst fyrir eftir atburði helgarinnar. Ríkisstjórnin telur hagsmunum sínum betur borgið með því aðhalda raunverulegum ástæðum leyndum. Eru ekki sáttir við innkomu IMF, hafa ugglaust aðra þræði uppi í ermi sér. Hugsanlega mun Borwn launa þeim greiðanna og liðka eitthvað til með ríkisstjórninni fyrir að fara ekki í hart vegna hryðjuverkalaganna. Við fáum það ugglaust staðfest þegar ferað líða á vikuna næstu.
Ég hef verið á þeirri skoðun að núverandi ríkisstjórn og stjórn Seðlabankans eigi að klára að vinna þau skítverk sem þessir aðilar kölluðu yfir þjóðina. Það hefði aldrei verið hægt að komast hjá áhrifum sem nú ríða yfir heim allan en vissulega hefði mátt lágmarka þau hér innanlands. Mér er það ljóst að þessum stjórnvöldum er ekki treystandi og útilokað að treysta þeim til að semja fyrir þjóðina. Það virðast vera aðrir hagsmunir en þjóðarinnar sem ráða för. Því á að skipta út kjörnum fulltrúum Alþingis, þjóðin á að fá utanaðkomandi aðstoð hlutlausra aðila til að stýra peningamálum fyrst um sinn, rjúfa þing og kjósa til Alþingis á ný.
Vonbrigði mín í garð stjórnarandstöðunnar eru mikil. Þeir hafa staðið í hliðarlínunni undanfarna sólahringa, bæði Ögmundur, og Steingrúmur J og bent þjóðinni á það að þeim hafi verið kunnug sú hætta sem steðjaði að fjármálastefnu ríkisstjórnar síðustu misserin. Að þeir hafi marg reynt að benda stjórnvöldum á þá staðreynd. Nei, það gerðu þeir nefnilega ekki. Þeir láku þessum bölsýnisspám sínum ekki til fjölmiðlanna - eða hvað? Ekki fjölluðu þeir um þann heimsendir sem framundan væri skv. áliti þeirra félaga. Með öðrum orðum horfðu þeir upp á þjóðarskútuna sigla í strand án þess að koma ,,skipverkum" til bjargar. Standa núna eins og tveir sveitarkarlar uppi á mjólkurbrúsum við heimreiðina og kalla; við vissum þetta, við sögðum þetta! FF þegja þunnu hljóði, einhverra hluta vegna.
Ég hef alla vega komist að þeirri niðurstöðu eftir miklar vangaveltur þessa helgina að hvorki ríkisstjórn né stjórnarandstæðingum er treystandi til að gæta hagsmuna þjóðarinnar, ekki miðað við það sem nú liggur fyrir. Það mun ekki koma mér á óvart ef sú frétt verður birt á næstunni að við vorum, þetta litla land" lítið peð til að þyrla upp moldvirðri vegna enn stærra máls sem ýmsar ríkisstjórnir, fleiri en okkar, ber einhverja ábyrgð á. Þau stjórnvöld sem styðja óhefta útrás fjármálamanna og fyritækja taka beinan þátt í öllu sukkinu. Trúlega með hagsmuni þjóða sinna og efnahag að leiðarljósi en græðgin finnst alls staðar og nær að skjóta rótum víða. Fjármagni fylgja völd og þar sem peningar völd eru fyrir, þar eru áhrif og ítök. Dæmið er ekkert flókið og flest mál upplýsast um síðir.
Ég vissi sem flestir aðrir að framundan yrðu erfiðir tímar en ég var með hausinn djúpt ofan í sandinum. EKki eru öll kurl komin til grafar og ég hygg að þau sé mun ljótari en a.m.k. meðalJóninum dettur í hug. Spunaleikur ríkisstjórnar síðustu 7-10 dagana hefur ekki hvað haft þar áhrif. Ég skil hins vegar mun betur þetta pat og fum sem einkennt hafa vinnubrögðin, hver vill bera ábrygð á viðbragðsáætlunum sem þeim sem þjóðin hefur orði vitni af þar sem allt púðið fer í að bjarga pappírum og mús?
Ég ríf mig upp úr depurðinn á morgun, vona að öðrum takist að hefja það ferli, ekki síst þeim sem misttu ævistarf sitt í versta klúðri sögunnar með einu pennastriki ríkisstjórnar. Það hefði hugsanelga verið hægt að milda áhrifin, ef menn hefðu verið betur upplýstir og gripið fyrr til aðgerða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:37 | Facebook
Athugasemdir
Tek undir allt sem þú segir Guðrún Jóna. Nú þarf óháða rannsókn og leiðbeiningu og þetta þarf að koma frá óháðum aðilum, þeir eru ekki til hér á landi.
Sigrún Jónsdóttir, 13.10.2008 kl. 08:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.