Ekki á allt kosið

Þá liggja niðurstöður fyrir eftir allt bröltið. Hitti minn doktor í gær  sem var svo sem ekki boðberi góðra frétta. Meinið hefur tekið sig upp aftur eins og okkur hefur grunað síðustu mánuði. Öll teikn voru á lofti.  Við eltum reykinn en fundum aldrei eldinn.  Mér er það með öllu óskiljanlegt af hverju það kom ekki fram fyrr en ég lá inni í lok júlí, þá nýbúin að fá þær niðurstöður að allt væri hreint. En svona er þetta og ég get ekki sagt að ég sé undrandi en fúl er ég.

Jákvæðu fréttirnar eru þó þær að meinið er staðbundið í sárbeðnum þar sem hæ.lungað var staðsett og fjarlægt. Engin merki eru um meinvörp sem gerir þetta einfaldara dæmi. Ekki er hægt að fjarlægja meinið með skurðaðgerð þar sem það er staðsett á bak við hjarta en það getur breyst þegar meðeferð er hafin. Framundan er því meðferð, bæði lyf og geislar en eftir að ákveða hvort ég fái annað hvort í einu eða bæði á sama tíma. Fæ vonandi fréttir af því á morgun.

Ég er auðvitað hundfúl yfir þessum fréttum en það er ákveðinn léttir að vita við hvað maður er að kljást, ekki síst þegar heilsufarið er búið að vera bágborið. Ég hef hvorki verið fugl né fiskur síðustu vikur og mánuði, þurft á öllu mínu að halda til að vera á fótum almennt, sérstaklega síðustu vikurnar. Nú verður hægt að ráðast í þetta og ég tel víst að verkir og önnur óþægindi munu minnka eftir því sem líður á meðferð.

Ég get ekki sagt að ég sé spennt fyrir lyfjameðferðinni, fannst hún algjört helvíti (afsakið orpbragðið) síðast en hef það forskot núna að vita hvað bíður mín þannig að ég kem örugglega til með að þola hana betur en síðast.  Ég hef þá trú að ég sé almennt í betra ástandi nú en þegar ég hóf meðferð fyrir tæpum 2 árum sem á eftir að auðvelda ferlið. Kvíði ekki geislameðferðinni enda aukaverkanir almennt mun minni. En þetta er á sig leggjandi þar sem sú tegund sem ég greinist með, svarar vel geisla- og lyfjameðferð. Ég myndi ekki leggja hana á mig nema að ávinningur sé nokkur, það er á hreinu.

Krakkarnir tóku þessum fréttum með miklu æðruleysi enda með ólíkindum hvað þau eru raunsæ. Auðvitað er þeim brugðið enda þessi uppákoma ekki endilega heppileg núna þegar þau eru í námi en svona er þetta bara og við tökumst á við þetta saman. Það er engan bilbug á okkur að finna né uppgjöf. Þessi uppákoma setur strik í reikninginn að mörgu leyti en við tökumst á við það.

Ég kvíði mest þeim erfiðleikum sem fylgja veikindunum og meðferðinni. Þau setja ekki bara strik í fjármálin og allt fer á hvínandi hvolf - aftur!  Þau setja einnig strik í  félagslífið og starfið. Er varla búin að rétta við úr kútnum eftir síðustu veikindin. Kerfið miskunarlaust og óvægið - bankarnir líka. Ekki bætir núverandi efnahagsástand og horfur úr skák. Áhyggjurnar vegna tekjutaps og tilheyrandi eru oft erfiðari en veikindin sjálf svo ekki sé minnst  á þá tilfinningu að vera óvinnufær. Ég á ekki endalausan veikindarétt og hef þegar eytt töluvert af honum í ,,hangs" og bið eftir greiningu sem hefði átt að liggja fyrir a.m.k. í byrjun ágúst en ég tel mig vera búna vera með einkenni síðan í mars, alla vega.  Það stemmir við niðurstöðurnar.

Maður fær víst ekki við allt ráðið við í lífinu. Sumir fá stærri skammt af erfiðleikum en aðrir eins og gengur og við mis vel í stakk búin til að takast á við mótlæti. Af hverju veit ég ekki og fæ sennilega aldrei svör við.  Fátt annað að gera en að spýta í lófana þegar á móti blæs.  Fæ vonandi fréttir af væntanlegri meðferð á morgun, reikna jafnvel með því að hefja meðferð í næstu viku. Þangað til þarf ég að nota tíman til að snúa  sólahringnum til betri vegar og undirbúa mig undir herlegheitin. Ætla mér að sækjast eftir allri þeirri þjónustu sem mér býðst í þetta skiptið enda meðvitaðri nú en síðast um rétt minn og reynslunni ríkari. Kerfið sem er algjört bákn, vex mér ekki lengur í augu, farin að kannast við það og það sem ég þekki ekki, afla ég mér upplýsinga um, þó það taki á að ræða við margan opinbera starfsmanninn. Kannski leikurinn verði auðveldari með hinni nýju stofnun sem ríkið var að setja á laggirnar?

Ég mun tryggja það að hafa nóg fyrir stafni á næstu vikum og mánuðum. Ætti að fá nægan tíma til að vinna í bókinni minni sem setið hefur á hakanum um stund. Alla vegar er af nógu að taka þegar kemur að verkefnum á þessum bæ. 

Við hér, litla famelíen, tökum þennan slag og setjum markið hátt enda teljum við okkur eiga innistæðu fyrir því. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Þú átt fulla innistæðu fyrir því Guðrún mín, þetta eru nú ekki þær fréttir sem mig langaði að sjá á síðunni þinni.

Mínar bestu óskir um bata og megi Guð vera með þér í þessu ferli öllu saman.

Þú er hugrökk og dugleg kona.

Ragnheiður , 3.10.2008 kl. 00:37

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

þetta eru heldur leiðinlegar fréttir Guðrún Jóna..en þú ert baráttukona. Vona innilega að þér eigi eftir að ganga vel í gegnum þetta.

Hólmdís Hjartardóttir, 3.10.2008 kl. 00:42

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Hvað getur maður sagt.  Ég sendi þér knús og hlýjar hugsanir og vona að allt eigi eftir að ganga vel og ég held reyndar að þú hafir allt sem til þarf í baráttunni, sem er framundan

Sigrún Jónsdóttir, 3.10.2008 kl. 00:49

4 Smámynd: Brynja skordal

Brynja skordal, 3.10.2008 kl. 01:42

5 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Þetta voru ekki góðar fréttir, en gott að þeir áttuðu sig loksins á hvað amar að og því hægt að snúa borðinu við og berja þennan fjanda niður. Gangi þér vel og þú er með mér í bæn.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 3.10.2008 kl. 03:25

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Kæra Guðrún, ég hef nú ekki komið hér inn áður þó við höfum svo sem rekist á hvor aðra á kommenta síðum annarra.
Langar til að segja þér að öllum slæmum fréttum fylgir eitthvað gott, og ég les það úr þínum skrifum að þú munt leita þetta góða uppi.
Guð veri með þér og þínum og þið munuð verða í bænum mínum.

Kveðja Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 3.10.2008 kl. 07:45

7 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Sælar allar saman og kærar þakkir fyrir innlitið og hlýjar kveðjur. Það kemur alltaf á óvart að finna hve miklu máli þær skipta og gera hlutina einhvern veginn bærilegri. Ég mun reyna að snúa vörn í sökn í þessari baráttu. Það er ofboðslegur léttir að vita hvað það er sem maður er að berjast við, þá fyrst er hægt að vígbúast og bretta upp ermar.

Eigið góðan dag

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 3.10.2008 kl. 08:08

8 Smámynd: Anna Margrét Bragadóttir

Anna Margrét Bragadóttir, 3.10.2008 kl. 08:50

9 Smámynd: Svanhildur Karlsdóttir

Knús

Svanhildur Karlsdóttir, 3.10.2008 kl. 09:13

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.10.2008 kl. 09:33

11 Smámynd: Áslaug Ósk Hinriksdóttir

Gangi þér ótrúlega vel í þinni baráttu.  Veit vel að þetta tekur allt saman á þar að segja horft uppá hetjuna mína kveljast og sofa meira og minna allan sólarhringinn en það var allt þess virði.
Baráttukveðjur til þín, knús og kossar

Áslaug Ósk Hinriksdóttir, 3.10.2008 kl. 10:13

12 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Elsku Guðrún mín,ég veit heldur ekki hvað ég á að segja en ég veit að þetta er sárt, ég fell tár við að lesa þennan pistil og við að skrifa þér núna, því ég þekki sársaukan og hann er svo ands.....sár,þó að ég hafi ekki fengið þennan sjúkdóm,þá hef ég mína reynslu frá veikindi hennar mömmu og ég svo virkilega óska þess að þú náir að berjast af krafti og klóm,þó orðin þreytt sé,en Vonin gerir kraftaverk og að taka bara einn dag í einu er bara nauðsynlegt,fyrirgefðu bullið í mér,mér er ekki sama um þig elsku vinkona mín,ég skal kveikja á kertaljósi handa þér og hugsa hlýtt til þín og biðja Guð og hans fallegu Engla þig styrkja og vernda og veita þér ást og hlýju í þessari erfiðu baráttu sem framundan er,knús knús og stór faðmur af öllu því jákvæða og fallega til þín elskan mín.

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 3.10.2008 kl. 10:17

13 identicon

Elsku frænka!

Ekki bjóst ég við þessum fréttum, aftur á svo stuttum tíma.

Við stöndum við bakið á þér í baráttunni að nýju og óskum þér góðs bata :*

Knús og kossar úr Keflavíkinni,

Sara

Einar Páll &

Kamilla Sif

Sara Björg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 11:55

14 identicon

Sæl Guðrún Jóna,

Hef lengi fylgst með þér af hliðarlínunni og skynja ótrúlega seiglu og skarpskyggni undirniðri hjá þér. Hef reynslu af þessu sama með son minn, að fá greiningu aftur, og trúðu mér það venst ekki, versnar bara. Hvað sem því líður er betra að vita hvenrig ,,óvinurinn" lítur út til að geta tekist á við hann heldur en að  glíma við þið óþekkta. Það veist þú manna best. En baráttukona eins og þú brotnar ekki þótt stráið bogni tímabundið og ég óska þér alls góðs í þinni vegferð framundan kæra Guðrún. Mun biðja fyrir þér.

Erna Káramamma

Erna Arnardóttir (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 12:00

15 Smámynd: Guðrún Hauksdóttir

Gangi þér vel í þinni baráttu

Guðrún Hauksdóttir, 3.10.2008 kl. 13:27

16 identicon

Elski frænka

Hef hugsað mikið til þín þegar ég keyri frammhjá liggur við á hverjum degi að ég verði að kíkja á þig og taka mömmu með hún hefði gaman af því og þú líka veit ég.. Veit að þú ert sterk og stendur þetta af þér..Læt verða af því að kíkja.

Stína (Stellu dóttir)  

Kristín Alexandersdóttir (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 13:58

17 identicon

Á að vera Elsku frænka

Kristín Alexandersdóttir (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 14:01

18 Smámynd: Katrín

Shit happens

Óvissan er vond og hefur slæm áhfrif á sál og líkama.  Þó svarið sé ekki gott er nú loks hægt að gera áætlanir.  Nú spýtir þú í lófa systir góð og sýnir þína viðfrægu seiglu

Katrín, 3.10.2008 kl. 14:38

19 identicon

Sæl Guðrún mín! Ekki var þetta svar gott en gott að þú ert búin að fá greiningu og óvissan úti, það er líka alltaf betra að vita við hvað er að eiga. Ég hef fulla trú á að þér takist að sigrast á þessu. Gangi þér vel Guðrún mín, ég ætla að kveikja á kerti fyrir þig. Kær kveðja Helga Jóh (fyrverandi nemandi þinn)

Helga Jóh (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 16:55

20 identicon

Sæl Guðrún.

Mig langaði bara að segja gangi þér vel og ég sendi þér jákvæðar hugsanir.

Guðný Björgv. (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 20:11

21 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Guðrún Jóna, kæra bloggvinkona.

Sannarlega eru þetta ekki góð tíðindi.  Ég óska þess af öllu hjarta að þú náir að vinna þig í gegnum þetta.  Baráttuandinn er þér í blóð borinn og nú kemur hann sér vel.  Við verðum að búast við því besta og vonast eftir því að þegar þessum stormi linni, siglir þú inn í lygnan sjó í þínu lífi.  Að þú fáir að njóta þín að þessari baráttu lokinni, eins og þú átt svo virkilega skilið.

Þú átt stuðning minn. 

Anna Einarsdóttir, 3.10.2008 kl. 21:14

22 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Hjartans þakkir öll sömul, ég er bókstaflega klökk að lesa allar þessar hlýju kveðjur. Eins og sumir þekkja þá þegar þá hafa þær ótrúlega mikið að segja og lyfta sálartetrinu upp. Þið eruð yndisleg.

Ég er ekkert á leiðinni að gefast upp, viðurkenni að ég bogna aðeins en þeim mun ákveðnari að komast í gegnum þennan kafla.  Takk fyrir stuðninginn

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 3.10.2008 kl. 23:40

23 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 5.10.2008 kl. 12:07

24 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Óska þér góðs bata og velgengni. Það er ótrúlegt að lesa skrifin þín, þú ert algjör hetja í mínum augum.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 7.10.2008 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband