4.7.2008 | 22:49
Fjársvelti
Það er fokið í flest skjól þegar grípa þarf til örþrifaráða og leggja niður vaktþjónustu lækna. HSS þjónar um 20.446 manns á sínu upptökusvæði, m.v. mannfjölda 1. des sl. og fer íbúum fjölgandi, ekki síst með tilkomu Keilis. Eru þá flugfarþegar ekki taldir með né þeir sem hafa búsetu á svæðinu án þess að hafa lögheimili þar. Sennilega nemur fjölgun íbúa um 5000 manns á síðustu 10 árum m.v. gögn á heimasíðu Hagstofu Íslands eða gróflega áætlað um 33%.
Þegar litið er til fjárveitinga til stofnunarinnar bregður manni í brún, svo naumt eru þær skammtaðar og í hróplegri mótsögn við fjárveitingar annarra sambærilegra heilbrigðisstofnana. Ekki þekki ég allar hliðar málsins en HSS þekki ég. Þar hefur farið fram gríðalega öflug þjónusta síðustu misserin þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á bráðaúrlausnir fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar.
Sett var á laggirnar hraðþjónusta á dagvinnutíma sem viðbót við slysa- og bráðamóttöku stofnunarinnar sem og fasta tíma til lækna. Vegna fjárskorts er búið að leggja hana niður og nú á sem sé að leggja niður vaktþjónustu eftir að dagvinnu lýkur. Einungis neyðartilvikum í gegnum 112 verður sinnt.
Afleiðingarnar eru augljósar, þjónustan verulega skert og skjólstæðingar þurfa að koma sér í bæinn til að leita læknishjálpar utan dagvinnu. Læknavaktin og Slysa- og bráðamóttakan í Fossvoginum eru þau úrræði sem íbúum býðst í rúmlega 40 km. fjarlægð. Það þarf ekki að spyrja hvernig þau mál þróast, ég sé ekki slysamóttökuna í Fossvoginum bæta við sig fleiri skjólstæðingum. Þegar er búið að loka skurðstofum vegna sumarleyfa og skorts á fjárveitingum, vænti ég.
Hvernig má það vera að fjárveitingarnar eru svona naumt skammtaðar? Eru stjórnarþingmenn kjördæmisins ekki að standa sig? Fjárveitingar nema um 78.734 kr. á íbúa miðað við 20.446 íbúa á Suðurnesjum. Sambærilegar stofnanir eru að fá fjárveitingar upp á 101.013 kr. á íbúa og sú sem mest fékk var með 200.976 kr. á íbúa. Mér þætti fróðlegt að vita um hvaða stofnanir eru að ræða í þessum tilvikum sem nefnd eru og hver skýringin er á þessum mikla mismun.
Þessi mismunun er mér með öllu óskiljanleg en ég viðurkenni að ég þekki ekki alla fleti málsins. Mér er sem ég sæi Skagamenn eða íbúa frá Hveragerði keyra í bæinn í hvert sinn sem þeim vantar læknisþjónustu eftir kl. 16.00 á virkum dögum og um helgar.
Mér virðist sama hvert er litið innan heilbrigðisgeirans; málin eru víða í ólestri. Ekki hafa fengist leiðréttingar, samningar í hnút, fólksfækkun innan heilbrigðisgeirans og svona má lengi telja. Einu stofnanirnar sem virðast vera að fá nægilegt fjármagn til reksturs eru þær einkareknu, að undangengnu útboði, einkum innan öldrunargeirans.
Tveir ráðherrar koma úr kjördæminu, þ.á.m. fjármálaráðherran sjálfur og a.mk. 4 stjórnarþingmenn. Á sama tíma og heilbrigðisráðherra sendir jaðartofnunum ákall um hjálp til að viðhalda lágmarks neyðarþjónustu í uppsögnum hjúkrunarfræðinga, er ein þeirra svelt. Búið að undirrita samninga um aukin verkefni jaðarstofnana en á sama tíma er skorið við nögl í grunnþjónustunni.
Að mínu mati er þessi stefna ríkisstjórnarinnar með öllu óskiljanleg og óverjanleg eins og hún blasir við mér. Einhvern veginn finnst mér vandamálin hafa hrannast upp eftir að Sjálfstæðismenn tóku við heilbrigðisráðuneytinu. Staðan hefur alla vega lítt skánað þó menn fagni styttri biðlistum, aðgerðir hafa flust af LSH út jaðarbyggðirnar og á landbyggðina. Í flestum tilvikum hefur þeim flutningi fylgt fjármagn.
Heilsugæslan er grunnþjónusta við íbúa landsins og jafnframt sú ódýrasta. Það hefur löngum verið skoðun mín að leggja þurfi meira fjármagn í uppbyggingu hennar. Hlutfallslega fær heilsugæslan mjög rýra sneið af kökunni, bullandi mótsögn miða við gildi hennar.
Mér sýnist heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra þurfi að huga betur að málum og hlúa betur að íbúum Suðurnesja. Stjórnarþingmennirnir þurfa að hysja upp um sig buxurnar, vinna sína vinnu og sinna hagsmunamálum íbúanna í kjördæminu.
Heilsugæsluvakt lokuð utan dagvinnu hjá HSS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:00 | Facebook
Athugasemdir
Það er of naumt skammtað
Hólmdís Hjartardóttir, 4.7.2008 kl. 22:54
Engin spurning, fjárveitingar þó mismunandi á milli stofnanna ef miðað er við íbúafjölda. Í hverju skyldi sá mismunur vera fólginn???????
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 4.7.2008 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.