20.6.2008 | 00:30
Breytingar
Lífið er háð breytingum, um það verður ekki deilt. Stundum eru þær fyrirsjáanlegar en stundum óvæntar og koma í bakið á manni. Í enn öðrum tilvikum virðast þær linnulausar. Ég fékk fregnir í kvöld af einum nákomnum þar sem breytingum er þröngvað upp á viðkomandi og virðist vera geðþóttaákvörðun að ræða í því tilviki. Sú frétt fékk mig til að íhuga breytigngar og áhrif þeirra. Er ekki alls óvön þvinguðum breytingum sjálf. Oftar en einu sinni verið þröngvað til að breyta kúrs og umturna lífi mínu, hvort sem mér hefur líkað það betur en ver.
Flestum breytingum fylgir mikil óvissa, við vitum hvað við höfum í dag en ekki hvað við fáum eftir breytingarnar. Það er í eðli okkar að vera föst í viðjum vanans og því oft erfitt að leiða aðra inn á nýjar brautir. Fyrra jafnvægi er raskað, tímabundin ókyrrð kemst á, a.m.k. þar til nýtt jafnvægi hefur skapast. Af þeim sökum myndast gjarnan andstaða gegn breytingum og nýjum hugmyndum.
Okkur tekst flestum að aðlagast breytingunum, misfljótt reyndar en til eru þeir sem ná aldrei sáttum við þær. Það hefur löngum verið sagt að breytingar krefjist vilja til að taka áhættu og hæfileika og vilja til að falla frá mörgum gömlum aðferðum, bæði í hugsun og við framkvæmdir. Það eru til þeir sem ýmist eru áhættufælnir eða hafa ekki aðlögunarhæfnina. Afleiðing breytinga er augljós í þeim tilvikum.
Aðstæður til breytinga eru misjafnar. Þær ýmist þröngva okkur til breytinga eða skapa tækifæri fyrir okkur til að breyta sjálf. Hvernig við bregðumst við er einstaklingsbundið enda háð mörgum þáttum, s.s. aldri, heilsufari, persónuleika, hvatningu, atvinnu, menntun, reynslu af breytingum, o.s.frv. Aðalatriðið hér er að hver og einn skoði eigin styrkleika og veikleika til að geta brugðist rétt við og hagnýtt sér þau tækifæri sem felast í breytingunum.
Breytingum fylgir óhjákvæmilega einhver streita, mismikil eftir aðstæðum og áhrifum þeirra á líf okkar. Ef breytingin er ekki af eigin frumkvæði er andstaðan og óvissan enn meiri. Viðkomandi tapar í raun áttum á því hver hann er, hvert hann vill stefna og finnur fyrir öryggisleysi. Á það ekki síst við er einhver höfnun fylgir breytingunni. Þannig getur breyting verið ógnun við núverandi tilveru.
Þegar breytingar eru framundan, ekki síst ef þær eru ekki kærkomnar er mikilvægt að finna jákvæðu hliðarnar og sjá kostina í stöðunni. Á ég þá ekki endilega við að maður fari í Pollýönu hlutverkið og virki hress og brattur á yfirborðinu. Hugsunin þarf að rista dýpra en svo. Það vill nefnilega svo vel til að jafnvel þegar breytingar ógna núverandi stöðu, felast ákveðin tækifæri í henni. Við þurfum að vera nógu jákvæð til að koma auga á þau á áhrif þeirra á daglegt líf.
Ég kýs að líta á breytingar sem tækifæri, kannski orðin sjóuð. Er þó ekkert öðruvísi en aðrir og geng í gegnum ákveðið ferli þegar breytingar koma óvænt svo ég tali ekki um þegar þær eru þvingaðar upp á mig af öðrum. Ég þekki því vel óvissuna, óöryggið, fjárhagsáhyggjurnar og hvaðeina sem því fylgir að vera kippt út úr tilverunni. Reynslan hefur hins vegar sýnt mér að í öllu mótlæti felast tækifæri. Maður þarf bara að setja upp gleraugun til að sjá þau.
Allt sem þú þarft að gera er að horfa
beint af augum og sjá veginn og þegar
þú sérð hann - að ganga af stað
(Amy Rand)
Athugasemdir
góð hugvekja, takk fyrir skemmtileg komment (á góðri íslensku) á blogginu mínu
Hólmdís Hjartardóttir, 20.6.2008 kl. 00:38
"Djúpar" og góðar pælingar Guðrún mín. Þú ert frábær penni
Sigrún Jónsdóttir, 20.6.2008 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.