23.4.2008 | 18:57
Létt á fæti
Það er aldeilis að mín er orðin létt á fæti, ég bókstaflega svíf. Endurkoma í morgun og ekki laus við örlítnn kvíða, ekki mjög spennandi að fara með fullri meðvitund á hátæknisjúkrahúsið þó á endurkomudeild væri að ræða. Andlitið bókstaflega datt af mér, frábærar móttökur, hlýtt viðmót og fagleg vinnubrögð á allan hátt. Þarna ríkir greinilega góður mórall og starfsgleðin geislar af öllu starfsfólki. Mér var fært kaffi, ekki einu sinni heldur tvisvar. Mér varð svo um þessi umskipti að ég gleymdi magasárinu, tók við kaffinu, brosandi aftur fyrir eyru en tókst auðvitað að hella því niður á drifhvítt teppið. Fyrirgefið á stundinni
Ég komst að því að á endurkomudeild slysamóttökunnar er ekki skortur á hjúkrunarfræðingum og færri komast að en vilja. Sá ekki betur en að aldurssamsetningin væri önnur en á slysa-og bráðamóttökunni, hjúkrunarfræðingarnir flestir 35 ára + og starfsmannavelta lítil. Í þetta skiptið var mér boðið að koma hvenær sem væri á opnunartíma, ef eitthvað væri með gipsið eða fótinn. Öll vandamál skal leysa.
Hitti þann fróma lækni sem tjaslaði brotinu sama, eldhress og skemmtilegur maður. Var ekkert að skafa af því, sagðist hafa reynt að negla hnjáliðinn sama ,,til að reyna að gera eitthvað" en liðurinn í maski svo ég noti hans eigin orð. Ástandið sem sé slæmt, brotið með því verra og allt mölbrotið, mélinu smærra. Spáin hljómar upp á gervilið innan 10 ára.
Fékk þennan fína gipshólk, nokkrum kílóum léttari en fyrri spelka var enda úr trefjaplasti núna. Ekki laust við að ég öfundaði ungan dreng við hliðina á mér, hann fékk svart gips. Ferlega smart og hefði verið í stíl við fatalagerinn minn en mér skilst að það sé svona spari. Auðvitað fá krakkarnig og unglingarnir að velja eitthvað sem þeim finnst smart, auðveldar þeim gipsmeðferðina.
En ég er sem sé hæst ánægð, ekkert mál að komast um. Jafnvægispunkturinn hins vegar annar, þarf að fara varlega í stiganum ennþá svo ég steypist ekki fram fyrir mig. Hef rýrnað hressilega sjálf, orðin mjög ,,slank" og pen eftir síðustu vikur. Fóturinn illa bólginn ennþá enda mikil blæðing í vöðvana. Er eins og illa hannað bjúga að lögun, rýr efst á læri, bólgnar síðan svagalega út, mjókkar svo aftur. Fer sennilega ekki í sólbað á almannafæri þetta árið og hvað framtíðina varðar kemur sér vel að há stígvél eru í tísku. Ég á þau nokkur
Framundan áframhaldandi gipsmeðferð í 2 vikur og síðan á að byrjað að hreyfa hnéð án þess að ég fái að tylla í fót. Sjúkraþjálfun hefst þá fljótlega. Já, sjúkraþjálfun. Augun urðu eins og undirskálar, þvílíkur lúxus, fékk enga eftir lungnaskurðinn. Fékk ekki lengra plan, ekki vitað hvernig hnéð og fótleggurinn kemur út úr þessu öllu og of snemmt að segja til um meira. Ekki raunhæft að mynda í dag,verður gert næst. Hvað varðar varanlegan skaða skilst mér að ég uppfylli öll þau skilyrði sem tryggingafélögin setji fram í smáa letrinu. Á það ferli allt eftir, á að vera þokkalega tryggð en vissara að hafa lögfræðing með sér í því máli þegar að því kemur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Facebook
Athugasemdir
Velkomin á léttara gips! Slæmt að heyra hvað brotið var slæmt, en vonandi kemur hreyfigetan með góðri sjúkraþjálfun. Ég get staðfest að þeir sem ég er hjá eru að gera góða hluti.
Sigrún Jónsdóttir, 23.4.2008 kl. 20:15
Sæl systir góð. Mikið var nú gott að lesa þennan pistil, loksins gekk eitthvað upp Ástandið á hnénu, aftur á móti, ekki eins jákvætt en vona innilega að það lagist nú til mun betra ástands. Kvenpeningurinn á mínum bæ hefur legið í slæmum veikindum í dag, Sara veiktist illa í fyrrakvöld og hefur verið með háan hita síðan. Kamilla Sif veiktist í nótt og hef ég verið með hana á handleggnum meira og minna síðan. Hún er blessunarlega sofnuð núna, þessi litla dúlla Sjálf hef ég verið lasin síðan á mánudag en sloppið við háa hitann, fékk verki í pumpuna í staðinn en allt er þetta samt "under control". Fórum á neyðarmóttökuna um hádegið í dag, við mæðgurnar vorum hreinar af streptokokkum en sú litla greindist með þá og fór á sýklalyf. Sara á að hafa samband ef upp úr henni gengur grænn eða gulur uppgangur Halldór sá eini með heilsu og hann fékk að vera heima í dag og hjálpa okkur hinum, neyð brýtur lög Hefði sko alveg viljað fara á harmonikkuballið sem verður á Ránni í kvöld Bestu kveðjur úr Keflavíkinni samt og koss og knúsar til Gunnu grönnu og léttu
Sigrún sys (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 20:24
Gleðilegt sumar elsku vinkona
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.4.2008 kl. 23:39
Gott að fá góðar móttökur Lítið stress á Endurkomudeild. Annars fékk ég rautt jólagips ásínum tíma. Vonandi rætist úr með hnéð.
Hólmdís Hjartardóttir, 24.4.2008 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.