28.1.2008 | 23:25
Löng nótt
Síðasta nótt var með þeim lengri sem ég man eftir, náði að sofna um kl. 5 og komin á stjá um 6.30, algjörlega búin á því. Þvílík magakveisa. Mér skilst að hún sé búin að ganga víða mönnum til hrellingar. Í öllu falli fór ég ekki langt í morgun, reyndi mikið en án árangurs. Þoli ekki að geta ekki staðið við skuldbindingar mínar.
Þessi dagur hefur því farið í mest lítið, svaf fram eftir öllu, er farin að halda einhverju niðri og heldur í áttina. Skal vera orðin betri í fyrramálið.
Nú styttist heldur betur í brottför hjá prinsessunni, fer út á sunnudag. Kvíði svolítið fyrir en er þakklát fyrir þær vikur sem við höfum átt saman. Tíminn líður á ógnarhraða og áður en við vitum af, verður komið vor. Hafsteinn fer ekki út fyrr en 10. feb. enda kom hann seinna heim í fríið. Búið að vera líflegt í kotinu og nóg að gera. Farin að pikka upp fyrri getu í eldamennsku, var farin að glata niður allri getu á þeim vettvangi. Hef lítinn áhuga á því að elda ofan í mig eina. Lystin hverfur um leið og ég er búin að elda.
Eitthvað farið að róast í borgarpólitíkinni heyrist mér, spennandi verður að fylgjast með framvindu mála. Mér hefur fundist margur fara offari í gagnrýni sinni á Ólaf F. hvað varðar veikindi hans. Mér fannst rétt af honum að ræða þau opinskátt enda opinber persóna og umræðan orðin rætin. En af henni má ráða að andlegir sjúkdómar séu settir skör lægra en ,,líkamlegir" sjúkdómar. Það er umhugsunarefni nú á 21. öldinni. Fordómar birtast á margan hátt.
Hve margir hafa ekki kiknað undan álagi einhvern tíman á lífsleiðinni? Makamissir, skilnaður, atvinnumissir, fjárhagsörðugleikar, sjúkdómar og margt fleira geta sligað manninn. Fólk missir tímabundið fótanna við slík áföll og einstaklingar eru mis vel í stakk búnir til að takast á við þau. Auk þess er misjafnt hver stuðningur manna er við slíkar aðstæður. Er það einhver skömm að kikna tímabundið? Er það ekki viðringarvert að fók leiti sér hjálpar við slíkar aðstæður? Ég hefði haldið það. Þá sýnir fólk að það er tilbúið til að berjast áfram og byggja sig upp.
Ég er svo undrandi og miður mín yfir rætni og offorsi manna. Vilji mennn gagnrýna Villa, Ólaf eða einhverja aðra þá ber að gera það á málefnalegan hátt. Enginn er yfir gagnrýni hafinn og margt af því sem hefur gerst í borgarpólitíkinni að undanförnu er ógnvænlegt. Það ber líka að gangnýna og fólk á að láta í sér heyra. Niðurbrot og persónulegt níð telst ekki til gagnrýni.
Það er merkilegt að fylgjast með því hve margir eru tilbúnir að kasta fyrstir steininum úr eigin glerhúsi
Athugasemdir
Tek undir þetta með þér, mikil orða grimmd í fólki stundum.
Finnst þetta samt sýna enn einu sinni, að best er að koma hreint til dyra strax, til að koma réttum upplýsingum á framfæri, annars missa menn þetta frá sér og alskyns getgátur og bull fyllir upp í eyðurnar sem eru skildar eftir opnar.
Leiðindi ef þú ert orðin pestaryksuga, vonandi lagast þetta fljótlega.
Hlýtur annars að gerast, það fer að vora bráðum þegar tíminn líður svona hratt.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 29.1.2008 kl. 00:35
æi þurftirðu að ná þessu. Ef ólafur hefði strax tjáð sig um veikindi sín væri málið dautt. Minn fyrrverandi eiginmaður var alvarlega veikur af þunglyndi.Hafði sjálfur mikla fordóma eins og mér sýnist Ólafur hafa. Það borgar sig að vera bara hreinskilinn. Fólk hefur skilning. Hressist þú sem hraðast...
Hólmdís Hjartardóttir, 29.1.2008 kl. 04:18
Þarna komstu með það Þorsteinn; pestaryksuga er ég með rentu. Nú er bara að fara að kíkja á blómafræfla, sólhatta og hvað þetta heitir nú allt saman. Ligg enn og líkar það illa.
Það er nú einu sinni svo að þeir sem þjást af þunglyndi eða örðum geðrænum kvillum virðast sjálfir gjarnan hafa mestu fordómana. Ég tel að Óalfur hefði komið sterkar út ef hann hefði rætt sín mál hispurlaust. Opinberar persónur eru útsettar fyrir umtali, því miður. Mér finnst hann verði að fara snúa vörn í sókn, skrápurinn virðist ekki þykkur hjá honum. Það er ákveðinn veikleiki sem ég hef áhyggjur af, hann liggur vel við höggi.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 29.1.2008 kl. 08:44
Hér á mínu heimili er Isabelin mín Diljá lasinnog Alexandra Von Athena var veik um helgina en þetta er bölvaður óþveri og leiðindapest,en þetta varir vonandi bara í stuttan tímaþví þeim leiðist ansi mikið að vera of mikið heimaog fá ekki að fara í skólann.
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 29.1.2008 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.