25.12.2007 | 23:03
Pælingar
Miklar pælingar síðustu daga, nægur tími til hugsana. Styttist í áramótin, uppgjör á hinu liðna ári/árum og upphaf á nýju lífi. Hef heitið mér því. Þýðir ekkert að halda fortíðina og hjakka í sama farinu.
Ef hlutirnir væru í eðlilegum farvegi værum við að hleypa til í fjárhúsunum, nú er þeim kafla lokið. Þau kaflaskil eru ekki sársaukalaus. Á ekki að kvarta, er með krökkunum mínum sem er meira en margur getur sagt. Í raun á ekki að skipta máli hvar maður er á þessum tíma, svo fremi sem maður er með sína nánustu í kringum sig. Er samt hálf fegin að aðfanga- og jóladagur séu liðnir. Erfiðasti hjallinn að baki, fram að gamlárskvöldi....
Krakkarnir farnir inn eftir 12 tíma lestur, ræs kl.08 í fyrramálið, sama prógrammið. Reyni að passa upp á að þau borði reglulega, eitthvað sem þau virðast ekki lengur þekkja. Kalt úti, nýfallinn snjór og stillt veður. Mér sýnist ekki það sama uppi á teningnum heima á Fróni, enn önnur rokan.
Hef ekki verið dugleg að fara í göngutúra hér í kring, hálf hrædd við útigagnsmennina sem leita sér af einhverju matarkyns hér um slóðir, ekki síst Sígaunar, skilst mér. Ætti samt að vera í lagi að degi til. Ekki laust við einhver flensueinkenni í dag, kuldahrollur og beinverkir. Haldið mér inni við með þá afsökun að það sé of kalt úti. Reyktur matur ætlar að fara illa í mína sem ekki bætir úr skák, uppáhaldið mitt. Nóg hafði ég fyrir því að koma steikinni og hangikjötinu út í töskunni góðu. Svei mér ef maður er ekki orðinn eins og postulínsbrúða, vafin inn í bómullarhnoðra. Það má ekki blása á mig. Tek á þessu á nýju ári, engin spurning.
Stunda ,,innhverfa íhugun" og rækilega naflaskoðun þessa dagana, leita af farvegi fyrir nýja lífið mitt. Enn að leita af áttavitanum en farin að sjá til sólar. Er það ekki byrjunin af einhverju jákvæðu, eða hvað? Fylgir maður ekki sólarganginum Ekki laust við ákveðna tilhlökkun að vera fær um að ljúka ákveðnum kafla og hefja nýjan.
Hef notið þess að vaka fram eftir og sofa út. Ekkert sem rekur á eftir mér, búðarápið og gjafainnkaupin búin, ekkert nema rólegheit og tóm sæla. Glugga í fræðin á milli pælinga, verð auðvitað að ljúka við hvorutveggja; verkefnin og ákvörðunartöku um framhaldið. Er ekkert að flýta mér samt, vafra um á netinu eða á ungversku og þýsku sjónvarpsstöðvunum þegar mér dettur í hug, skutla í eina og eina vél og sé til þess að hafa mat á borðum. Punkta niður í bókina mína góðu inn á milli.
Búin að hafa það fínt þessa daga, krakkarnir yndislegir og allt lukkast vel. Hef samt einhvern veginn ekki komist í hið eina og sanna ,,jólaskap". Finnst jólin ekki komin ennþá. Er ekkert að ergja mig á því, finnst það sérstök tilfinning engu að síður.
Kvöldinu ætla ég að ljúka með góðri mynd af DVD disk (The Band of Brothers) og fullri poppskál. Sef klárlega út í fyrramálið. Ég á ótrúlega gott
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.