26.11.2007 | 23:17
Daglegt líf
Það má með sanni segja að ég sé algjör ,,félagsskítur" eins og einhverjum varð á orði um daginn og hef verið síðustu mánuði. Fer aldrei neitt að vinnu lokinni, sit við tölvuna þegar heim er komið og keppist við klukkuna enda markmiðið að vera búin í minni vinnu fyrir miðnætti. Það vill nefnilega svo til að þegar heim er komið úr ,,hefðbundinni" vinnu tekur aðalvinnan við, þ.e. fjarkennslan. Hefðbundinn virkur dagur hjá mér felur í sér rúmlega 200 km. akstur auk vinnu. Allir dagar eins hvað snertir vinnuálag , helgarnar ekki undanskildar. Ofan á þetta prógram bætist eigið nám sem fær náttúrlega ekki mikið vægi svo ekki sé minnst á hundauppeldi, þrif og heimilishald. Stundum þarf að fara í búð og þá seinkar dagskránni hjá mér.
Þegar færi gefst síðla kvölds, heyri ég í krökkunum, við tölum reyndar mikið saman, þökk sé Frelsi og Skype. Þegar föstum liðum er lokið, sest ég niður við bloggið og pikka inn þær hugrenninga sem leita á mig þá stundina. Fæ ákveðna útrás við það, finnst stundum gott að skrifa mig frá hlutum auk þess sem ég ..á" þetta svæði til að koma skoðunum mínum á framfæri. Yfirleitt er klukkan farin að nálgast miðnættið þegar að blogginu kemur.
Þetta daglega líf er etv. ekki endilega eins og ég hefði kosið. Ég vanræki vini og vandamenn enda númer eitt, tvö og þrjú að klára sína pligt. Ef ég geri það ekki, hvað þá? Ég hef tekið að mér verkefni og þau verð ég að standa við. Of mikið af verkefnum, það veit ég en þegar upp er staðið, veitir mér ekkert af þeim. Það vill nefnilega svo til að ég hef verið skuldum vafin eftir fráfall maka og veikindin mín. Ég hef ekki legið á því að mér hafa ekki verið sýndar neinar tilslakanir, skilningur eða frestur hjá skuldunautum, hvort heldur sem það er viðskiptabankinn, skatturinn eða annað. Í ruan hafa sumir aðilar gert mér lífið eins erfitt og hægt er að hugsa sér. Það kemur mér ekkert á óvart, það hef ég marg sagt. Vaxta- og innheimtukostnaður í sumum tilfellum hærri en skuldin sjálf. Ég hef og verð að standa ein í þessum málum sem eina fyrirvinnan og þannig er það einfaldlega. Mér óar ekkert við vinnunni, hefði viljað vera frískari og með meira úthald en það bæði tekur á og tíma að vinna sig út úr skuldasúpunni. Ég er ein þeirra lánsömu að fá tækifæri til þess og við það er ég sátt. Það er meira en margur í mínum sporum.
Á meðan málin standa svona, snýst mitt líf um vinnu og aftur vinnu. Það er einfaldlega ekki mikill tími aflögu til félagslífs. Sá naumi tími sem er afgangs fer í krakkana, hundana og stundum í sjálfan mig. Það er lúxus að komast í gönguferð. Ég get ekki sagt að ég eyði tíma fyrir framan imbakassan, slík meðferð á tíma er mér einfaldlega of dýrkeypt.
Ég er því ekki á kaffihúsum, á fartinni í heimahús og það sem meira er; ég eyði litlum tíma í símanum sem er nýlunda. Hef nefnilega alltaf verið dugleg að hafa samband við aðra, mun meira en aðrir við mig en nú er tíminn af skornum skammti. Sá naumi tími sem er afgangs, fer gjarnan í að ,,leggja sig", meira en ég kýs sjálf en það er eins og líkaminn segir til sjálfur og stjórni þar för. Stundum orka ég ekki merira og þá er ekkert annað að gera en að leggjast með tærnar upp, hvernig sem mér líkar það svo.
Að undanförnu hef ég fengið að finna fyrir álagstollunum eins og hefur komið fram. Afleiðingarnar eru þær að mér sækist öll vinna hægar, þarf að leggja mig í tíma og ótíma til að hlaða batteríin. Það kemur mér ekkert á óvart. Hef fundið fyrir þreytu og verkjum frá því ég byrjaði að vinna, stundum meira en venjulega. Ekkert sem kemur á óvart en hélt kannski að ég myndi ná að byggja upp þol og þrek smátt og smátt. Hef líka gert það að einhverju marki en ekki nóg enda ekki verið skynsöm. Síðustu vikur hafa verið slæmar og við því mátti búast þegar keyrt er fram úr því afli sem maður hefur. Það er minna mál að láta sig hafa slíka álagstolla þegar maður veit að engin alvara er á ferð þó þeir setji vissulega strik í reiknginn.
Ég sé ekki fram á miklar breytingar á mínu álagi á næstunni. Ég ætla mér að koma málum í eðlilegan farveg. Hef staðið ein í þeirri baráttu og mun gera það áfram á meðan ég stend í fæturnar. Ég hef ekki viljað heyra það nefnt að krakkarnir taki sér hlé frá námi á meðan ég er vinnufær og mun ekki taka undir slíkar tillögur. Á meðan svo er, verð ég einfaldlega að vera áfram leiðinleg, ,,félagsskítur", ,,einræn og sérsinna" eins og einhverjum varð á orði. Það verður að hafa það, ég er að berjast fyrir eigin lífi og lífsskilyrðum þannig að þá verður einfaldlega svo að vera. Ekki það að ég get ekki varist þeirri hugsun að sumir hafa það gott og þekkja ekki erfiðleika né það hvað það er að þurfa að stunda vinnu á mörgum stöðum. Ein fyrirvinna hefur eðlilega meira fyrir hlutunum en tvær og tekjur ríkisstarfsmanna eru ekki til að hrópa húrra fyrir. Ekki duga mér einföld dagvinnulaun í þeirri stöðu sem ég hef verið þetta árið.
Hitt er svo annað mál að ég þarf að forgangsraða tíma mínum betur, ég er ekki eilíf frekar en aðrir en það er óraunhæft að ætla sér miklar breytingar fyrr en málin eru komin í eðlilegan farveg. En ég get varið tímanum mínum betur með því að fórna einhverju af því sem ég er að gera núna. Það er eitthvað sem ég mun skoða. Ekki skortir á sektarkenndina yfir því að sinna ekki sínum nóg. Fæstir vita, eðlilega ekki, hvað ég þarf að kljást við daglega og hversu mikið ég þarf að hafa fyrir hlutunum. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir sem hafa lent í svipaðri stöðu, úthaldsminni, skuldugri og blankari. 'Eg skal, get og vil sigra þá erfiðleika, a.m.k. á meðan ég hef heilsu til.
Skilningur á stöðu sem þessari er hins vegar af skornum skammti víðast hvar. Mér gengur einna helst verst með að sætta mig við það og alltaf jafnundrandi á því. Það að stunda nám með mikilli vinnu kallar á gríðalegan fórnarkostnað. Ég ætla rétt að vona að námið skili tilætluðum árangri einhvern timan þó það geri það ekki þar sem ég hefði helst viljað vera.
Athugasemdir
Sæl,
mig langaði að kvitta fyrir mig þar sem ég les bloggið þitt á hverjum degi og hreinlega dáist að kraftinum í þér. Þú ert ótrúlega dugleg og margir í þínum sporum væru löngu búnir á því.
bestu kveðjur
Ásta
Ásta Lárusdóttir (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 10:46
Ég veit! ég legg til að sólahringurinn verður lengdur um a.m.k. 5-6 klukkutíma.. það væri fínt!
Þú stendur þig eins og hetja þarna ein með öll dýrin, vinnurnar 2 og námið! já ég man ekki eftir þér án þess að þú hafir a.m.k. 2 hunda, 1 kött, er í 2 vinnum og í námi! heh.. En samt ertu alltaf til staðar.. nokkuð magnað...
Datt í hug lagið hennar Birgittar haukdal, Móðir.. Hlustaðu á það við tækifæri.. það er svo fullkkomið hvernig það lýsir mæðrum og þá sérstaklega þér:)
kveðja að utan
Kata litla dóttirin sem getur ekki beðið eftir að fá múttuna hingað út..
kata dóttirin (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 11:32
Getur móðir óskað sér einhvers frekar en orð Kötu? En maður má víst aldrei gleyma sjálfum sér, þú verður að finna þér tíma í slökun og skemmtun, annars verður allt svo leiðinlegt á endanum. Ég hef á tilfinningunni að þú sért svolítið grimm við sjálfa þig.
Hólmdís Hjartardóttir (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 12:20
Þú ert komin á favorates hjá mér Guðrún Jóna, þannig að "innlit" verða regluleg!
kv. Sigrún
Sigrún Jónsd. (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 12:49
Baráttukveðjur.
Georg Eiður Arnarson, 27.11.2007 kl. 14:11
Takk fyrir hlýjar kveðjur öll. Þær virka get ég sagt ykkur
Það býr margt í Kötunni og þeim báðum á því er enginn vafi. Ég er einstaklega lánsöm með mína unga tvo
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 27.11.2007 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.