22.11.2007 | 23:16
,,Svo bregðast krosstré sem önnur tré"
Nú hefur Framsóknarflokkurinn staðið í sinni tilvistarkrísu um all langt skeið. Eftirhreyturnar keppast við að mæra flokkinn fyrir að vera elsti flokkur landsins, orðinn rúmlega níræður! Geri aðrir betur! En nú er einfaldlega komið að endalokum hans og hans æviskeiði að ljúka. Hef ekki trú á því að núverandi forystusauðum takist að dæla í hann "lifni við pillu", þau valda einfaldlega ekki því hlutverki að óbreyttu. Klíkumyndanirnar og ofsóknir á hendur þeim sem þora að segja sína skoðun, hafa skemmt það mikið innviði flokksins að það er ekki aftur snúið. Þú kennir ekki gömlum hundi að sitja! Ekki svo auðveldlega.
Forystumenn flokksins hafa skilið félagsmenn eftir í sárum síðustu 10 árin, engin breyting virðist ætla að verða á þeirri aðferðafræði manna þrátt fyrir nýja forystu. Ástandið virðist versna, ef eitthvað er. Það er staðreynd að sár sem rista djúpt, gróa ekki svo auðveldlega.
Reyndar hefur það verið með ólíkindum hvað við framsóknarmenn höfum látið bjóða okkur í gegnum tíðina. ,,Óþekkir" eru rasskeltir á opinberum vettvangi, útskúfaðir og hraktir á brott. Við hin boffsum og bölsótumst í hálfum hljóðum yfir útreiðinni. Erum ósátt við aðferðirnar en hversu margir hafa þorað að stíga fram og segja sínar skoðanir umbúðarlaust? Það hafi fáir gert og þeir sem hafa sýnt þann kjark hafa verið króaðir af í sérstaka ,,óþægðarstíu" og boltaðir þar niður eins og mannýgir hrútar og tarfar. Hver vill lenda í þeirri stíu?
Svo virðist sem það dugi fyrir forystuna að mala ,,hlýlega" framan í hinn almenna flokksmann á fundum og þingum, þá er allt gleymt og grafið og allir vinir í skóginum. Baráttan blásin í brjóst manna með þrumuræðu og góðlátlegum bröndurum núverandi formanns
Nú, ef það dugir ekki þá eru menn tuktaðir til í bókstaflegri merkingu. Menn verða að hlýða og ekkert múður með það. Sviptnir sínum titlum og trúnaðarstörfum. Nógu oft hef ég orðið vitni af því.
Það er svo sem ekkert fréttnæmt þó ég hafi sagt mig úr flokknum, einhverjum til mikillar gleði, trúi ég. Einhverjum skrattanum er skemmt við þá frétt.
Það er hins vegar saga til næsta bæjar þegar Anna Kristinsdóttir segir skilið við Framsóknarflokkinn, ekki síst vegna þess að framsóknarblóð rennur bókstaflega í æðum hennar. Hún hefur sinnt trúnaðarstörfum og starfað fyrir flokkinn í 27 ár og ég veit að það hefur hún gert af heilindum. Kjörkuð og segir sínar skoðanir en verið sínum flokki trú í gegnum súrt og sætt.
Þetta eru reyndnar gleðifréttir fyrir suma, bæði innn flokks og utan. Trúlega hefur hún þótt of ,,baldin" innandyra og því léttir af brottför hennar en þeir sem standa utan við flokkinn munu ugglaust leita eftir hennar starfskröftum, á því er enginn vafi. Hún kemur örugglega til með að hafa nokkurt val í þeim efnum.
Ég tel fátt koma Framsóknarflokknum til bjargar úr því sem komið er. Endurlífgunartilraunir síðustu missera, eftir viðskilnað fyrrum formanns, hafa ekki borið árangur. Hvernig má annað vera þegar sjúkdómurinn fær að krauma látlaust og ekkert gert til að uppræta hann? Þeir eru til sem eru sannir framsóknarmenn og hollir þeirri stefnu sem flokkurinn boðar. Þeir sjá hins vegar ekki til sólar og koma ekki til með að gera það í bráð, a.m.k. Mér hugnast sú stefna sem flokksstarfið byggir á en get ekki sætt mig við þá afbökun sem hefur orðið á henni. Allt vegna valdabaráttu og titlatogs manna sem setja eigin hagsmuni ofar hagsmunum flokksmanna og þjóðarinnar.
Ég kannast svo sem við slík vinnubrögð, oft á tíðum er erfitt að gera greinamun á því sem kallast ,,framsóknarmennska" og ,,Dalamennska" meðal einstakra, ,,metnaðarfullra" manna. Er hann nokkur?
Við uppskerum eins og við sáum og þegar flokkurinn vanrækir sitt fólk og þjóðina eingöngu vegna valdabaráttu og eigin hagsmuna, molnar hann innan frá, fólk missir tiltrúna og snýr sér annað, alla vega um síðir. Ótrúlegt hvað margir hafa verið þolinmóðir, en það kemur að því að menn gefast upp eins og reynslan sýnir. Fyrir 2-3 árum taldi flokkurinnum 10.000 meðlimi, hversu margir skyldu vera flokksbundnir nú?
Í öllu falli eru 90 ár langur tími og ef menn rífa eingöngu niður og byggja aldrei neitt upp á móti þá gefa ,,líffærakerfin" sig smátt og smátt. Nú duga engir skyndiplástrar, vítamín og ,,lyfjakúrar". Það eru nefnilega komnir upp fjölónæmir stofnar. Ég tilheyri þeim. Það sem meira er, framsóknarhjartað er löngu hætt að slá í þeim sem fara með völdin. Þá er fátt til ráða.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:29 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með að vera hætt í Framsókn, og velkomin í F...............
Georg Eiður Arnarson, 22.11.2007 kl. 23:22
Takk fyrir það, mikill gleðidagur í dag
Veit ekki hversu viljug ég verð að kenna mig við stjórnmálaafl aftur, síðast var það stórmál fyrir mig en ég gerði það líka heilshugar þá. Ég styð hins vegar alltaf gott fólk til góðra verka
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 22.11.2007 kl. 23:28
Sæl Guðrún Jóna,
Já ég sé að það eru fleiri en einn eða tveir, sem hafa verið að yfirgefa framsóknarskútuna! Ég er t.d. ein af þeim! Hvað ætli við séum mörg? Það væri fróðlegt að vita það.
Það hlýtur að vera áhyggjuefni allra stjórnmálaflokka, þegar "grasrótin" segir stopp, hingað og ekki lengra. En ég er ekki svo viss um að forysta Framsóknarflokksins sé tilbúin að hlusta frekar en fyrri daginn! Sumir eru bara glaðir yfir því að hafa "losnað" við þessa óþekktaranga, eins og þú réttilega bendir á en aðrir verða manni bara reiðir fyrir að hafa ekki haldið áfram að stíga ölduna með þeim!
Ég er líka sammála þér að það er ekki mjög spennandi kostur að ganga til liðs við aðra stjórnmálahreyfingu. Auðvitað hættir maður ekki að taka afstöðu, en fyrir mitt leyti mun það eingöngu vera til að styðja einstaklinga og góð málefni.
Gangi þér allt í haginn,
kv. Sigrún Jónsdóttir
Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 16:03
Sæl og gott að heyra frá þér
Já það verður að segjast eins og er að margir hafa og eru að yfirgefa flokkinn. SJálf gerði ég það ekki fyrr en eftir langa umhugsun enda hugnast mér stefna og gildin hans. Forystan er hins vegar á allt annarri línu og komin langt út af brautinni og fjarri grunngildunum.
Kannski það hafi verið eitthvað til í því sem sumir héldu fram fyrir ca 2 árum, etv. þarf flokkurinn algjörlega að hrynja svo hægt sé að byggja hann upp á ný.
Það var löngu tímabært að grasrótin segði; hingað og ekki lengra
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 26.11.2007 kl. 22:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.