11.11.2007 | 22:21
Toppurinn
Náði að toppa sjálfan mig þessa helgina, svaf út í það endalausa og snéri sólahringnum við. Gat svo auðvitað ekki sofnað fyrr en eftir miðja nótt. Það var því seint farið á fætur þennan sunnudaginn. Las blöðin í morgun en þurfti svo endilega að leggja mig svona smá....... Vaknaði 3.30 og geri aðrir betur! Gjörsamlega eyðilagði daginn, ætlaði að leggjast út í flakk og heimsóknir. Það er eins gott að ég var ekki búin að fastsetja neitt, hefði ekki staðið við eitt eða neitt.
Þrátt fyrir þessa yfirgengilegu leti og svefnþörf þessa helgina hef ég náð að afkasta nokkru, er hætt að eltast við eigin hala, held ágætlega í hann nema í eigin námi. Þar er eitthvað farið að safnast upp.
Er nú ekkert sérstaklega sátt við sjálfan mig, hefði viljað vera activari og hitta fólk. Það hefur lítið farið fyrir slíku hjá mér um helgar það sem af er vetri. Á sjónvarp horfi ég ekki nema rétt undir miðnætti þannig að ég er beinlínis "úti úr kortinu" þegar kemur að fréttaefni og þáttaröðum.
Tíminn þýtur áfram, finnst alveg með ólíkindum að það sé komið fram undir miðjan nóvember. Þann 8. sl. var liðið eitt ár síðan ég fór í aðgerðina. Lifi ágætlegameð mitt eina lunga en þurfti að vera mun duglegri í að hreyfa mig og auka þolið. Er eins og fýsibelgur ef ég þarf að hlaup upp stiga. Enn er miklir verkir í brjóstkassanum, alltaf eins og "krumla" sé læst utan um hann hægra megin. Mér skilst að það sé eðlilegt og þannig geti það verið í langan tíma. Ekkert sem hamlar mér, svo fremi sem ég hef mín verkjalyf. Er enn einkennalaus m.t.t krabbameinsins þannig að lífið gæti ekki verið betra. Ég þarf ekki að kvarta miðað við margan annan og nýt þeirra forréttinda að vera vinnufær. Hef tekist helst til of mikið upp í mig í þeim efnum, finn svo sem fyrir því en lifi það af.
Nú verður slökkt á tölvunni fyrir miðnætti og reynt að snúa sólahringnum við. Hlakka alltaf til að hefja nýja vinnuviku, þá kemst rútína á hlutina og ég á fullu úti við en ekki einungis við eldhúsborðið. Er ákveðin í því að eyða jólunum úti hjá krökkunum og er farin að telja niður dagana. Hefði helst viljað fara með krökkunum til Kanarí, er orðin hálfgerð hitabeltisplanta síðustu árin en ekkert svigrúm er til þess vegna prófana. Því verður það Debrecen sem er hið besta mál.
Nákvæmlega ekkert að gerast í pólitíkinni fyrir utan einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Pétur Blöndal náði ekki í gegn breytingum á starfsmannalögum opinberra starfsmanna á síðasta kjörtímabili. Nú fara sjálfstæðismenn aðrar leið; allt verður einkavætt og þá þarf ekki opinbera starfsmenn í þann geira, a.m.k. Ótrúlegt hvað fjölmiðlar eru þegjandalegir yfir þessari þróun sem og nýjasta útspili Kbbanka. Menn ætla íbúðalánasjóð greinilega út, ég hef ekki trú á því að Samfylkingin setji sig almennt á móti því þó Jóhanna reyni að streitast á móti. Í öllu falli finnst mér líklegt að landinn hugsi sér til hreyfings, í "persónulega útrás" og flytji búferlum í auknum mæli. Hvernig má annað vera?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.