Til hvers að blogga?

Ég hef stundum verið að velta fyrir mér af hverju ég blogga. Ég byrjaði eins og margur í minni stöðu, í veikindaferlinu.  Þetta var ágæt leið til að skrifa mig frá ýmsum hugsunum og reynslu, miðla upplýsingum til vina og vandamanna. Mér finnst þetta einnig  góð leið til að tjá mig um tilfinningar, skoðanir á hinum ýmsu málum, ekki síst pólitískum skoðunum og áherslum. Kosturinn við þetta form að hér er ég við ritvöllinn á eigin ábyrgð og þarf ekki að bera mín skrif undir neinn. Engum ber heldur skylda til að lesa skrif mín, það er öllum frjálst val.Smile

Mér hefur svo sem verið kunnugt um að skrif mín og skoðanir hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum í gegnum tíðina og það hefur komið fyrir að ég hafi verið of harðorð, líkt og margur. En ég hef líka verið fær um að standa við mín  skrif of ábyrgjast þau sjálf. Oftar en ekki hef ég verið gagnrýnin á stjórnsýsluna í minni, fyrrum heimbyggð en hef ávallt byggt þá gagnrýni á rökum. Við búum jú,við lýðræði, eigum alla vega að gera það sem þýðir að við höfum skoðanafrelsi. Þegar stjórnsýslan er margítrekað brotin, ber okkur að gera athugasemdir við það eða hvað?W00t

Eitthvað hefur sú gagnrýni mín farið fyrir brjóstið á þeim sem verða fyrir henni og uppi verður fótur og fit. Í stað þess að svara gagnrýni minni beint sem öllum er frjálst hér á síðunni, er rokið upp til handa og fóta, beint inn í eldhús nágrannans, í fjósið, krónna, eða einfaldlega á biðstofuna til að espa menn upp og fjargviðrast yfir gagnrýninni. Slík viðbrögð minna mig á gömlu Gróurnar á Leiti sem settu undir sig pilsið og svuntuna og hlupu á milli bæja með nýjustu sögurnar. Enginn vildi þekkja þessar Gróur en allir hlustuðu á þær og buðu þeim inn í bæ. Enginn kannaðist síðan við að hafa talað við þær, allir skömmuðust sín fyrir þær.Sick

Nútíma Gróurnar bera sig reyndar öðru vísi að. Nú má ekki kenna sögurnar við þær sem persónur. Aðrir eru fengnir til að lána nöfn sín til breiða út boðskapinn og alltaf er nóg til af þeim sem eru tilbúnir að vinna sig upp í áliti hjá þeim sem "meira mega sín". Verst er að þeir sem slíkt gera, vinna sig ekkert upp í áliti, þeir eru notaðir á meðan þörf er fyrir þá, síðan er þeim hent. Engin virðing borin fyrir öllu amstrinu sem þeir hafa lagt á sig né fyrir trúboðstarfinu.  Þeir mega missa sín og nægir eru tilbúnir að koma í staðinn í sama tilgangi.

Það er einkennilegt hvað menn eru leiknir í að fá mannskap til liðs við sig í þessum tilgangi. Sjálfir koma þeir náttúrlega "ekki nálægt" neinu, eru saklausari en allt blátt og koma aldrei fram undir nafni. Eitthvað virðist ég koma við kauninn á þeim blessuðum, mikið er í lagt fyrir lítið heyrist mér. Og menn kokgleypa öngulinn, enn og aftur, blessaðir. Hringrásin hefst og múgæsingin færist í aukana. En menn gæta sín að tala ekki upphátt, þeir láta Gróurnar um það, ekki satt?Halo

Ég er svo sem býsna undrandi þessa dagana, sé ekki að tilteknum einstaklingum standi ógn af mér lengur. Þeim tókst ætlunarverk sitt, ég er farin, a.m.k í bili. Þeir orðnir alvaldir í sveitarfélaginu, gæta sín að birta ekki of mikið í fundargerðum sínum, birtist þær á annað borð þannig að umkvörtunrefnum fer fækkandi þó stjórnsýslubrotin grasseri aldrei sem fyrr. Kannski menn séu sannleikanum sárreiðastir eða hvað? Ótrúlegt hvað ég virðist fara fyrir brjóstið á sumum ennþá. Whistling

Í öllu falli er það nú svo að þessi bloggsíða er á mína ábyrgð og hér hef ég hugsað mér að blogga um það sem mér liggur á hjarta hverju sinni, súrt og sætt, hæðir og lægðir. Mér myndi ekki leiðast það að fá comment en því miður er það staðreynd að þeir sem láta hæst, koma ekki fram undir nafni.  Eru þess duglegri að þyrla upp moldviðri, fara með veggjum, koma af stað illindum, ala á tortryggni og splundra vináttusamböndum.  Stundum tekst það, stundum ekki.

 Ég hef ekki náð það miklum "þroska" í andlegum og trúalegum skilningi þannig að ég hef ekki fyrirgefið mínum böðlum. Til þess að slíkt geti gerst þarf heiðarlegt uppgjör að fara fram, þannig er það einfaldlega og þannig verður það. Það ferli er hafið og tekur tíma.

Enginn er fullkominn, ég ekki heldur og tilbúin að viðurkenna það. Margt hefði ég viljað gera öðru vísi í gegnum tíðina en ég get ekki breytt fortíðinni, einungis haft áhrif á núið og framtíðina. Gera betur á morgun en í gær og reyna að bæta fyrir það sem betur mátti fara í liðinni tíð. Þess ber að geta að maður ræður ekki alltaf við aðstæður, oft koma þar aðrir inn í sem ráða för.

Hvað sem þessum vangaveltum líður, þá er Katan að fara í próf á morgun kl.20.00 annað kvöld. Veit að henni á eftir að ganga vel, hún var arfahress í kvöld og ég ekki hlegið lengi svona dátt með henni.Heart

 

images

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórdís tinna

  Mér finnst þu frábær - takk fyrir það

Þórdís tinna, 10.11.2007 kl. 00:52

2 identicon

Manstu hvað Hjölli sagði ?  Að það standi aldrei styr um lítilmenni ?   Gott að fólk hefur eitthvað til að tala um varðandi þín málefni ... þeim leiðist þá ekki á meðan !

Sendi bara kærar kveðjur í sveitina

Sigrún sys (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 11:30

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

takk

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 15.11.2007 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband