30.10.2007 | 23:40
Í góðum gír
Allt gengur sinn vanagang. Ótrúlegur léttir að getað haldið í rófuna sína og ekkert að safnast upp, ennþá, náð að vera býsna afkastamikil þrátt fyrir pestarskömm
Aðeins rúmar 4 vikur eftir af önninni, o.m.g ! segi ég eins og unglingarnir. Tíminn æðir áfram, það verða komin jól áður en maður snýr sér við og nýtt ár áður en maður veit af.
Styttist í "ársafmæli" greiningar minnar. Ég get heldur betur verið sátt við mitt hlutskipti. Ástandið alveg þolanlegt og ég einkennalaus m.t.t. krabbameinsins. Ef ég er meira verkjuð eða þreyttari en venjulega, er það mín eigin sök, tók of mikið að mér. Ekki það að verkir eru ekki það versta, það er vel hægt að lifa með þeim og sætta sig við þá. Þeir eru smámál miðað við það sem aðrir mega þola. Ef það gengur ekki nógu vel hjá mér þá er það sjálfri mér að kenna. Hef einfaldlega ekki verið nógu dugleg í þeirri lífstílbreytingu sem er mér nauðsynleg. Eru áramótin ekki fínn tími til framkvæmda og breytinga?
Næsta tékk í janúar og á ekki von á því að neitt neikvætt komi út úr því, miðað við líðan og heilsufar. Er farin að leyfa mér að trúa því að það sé komið hlé á þessu sjúkdómsferli í bili. Er óttarlegur bómullarhnoðri og verð að gæta þess að vindurinn blási ekki á mig, fæ þá strax kvef og bronchitis.
Hlakka mikið til þess að komast í jólafrí, er að vonast til að ég eyði jólunum með krökkunum, þykist náttúrlega svo óskaplega ómissandi hjá þeim. Er í algjörri afneitun gagnvart þeirri staðreynd að þeir eru orðnir fleygir fuglar og standa á eigin fótum. Þau láta sig hafa þessa ranghugmynd mína, ennþá. Þau byrja í sínum prófum í kringum 24. desember og ljúka þeim einhvern tíman í lok janúar, byrjun febrúar. Koma þá heim í einhvern tíma þangað til næsta törn byrjar. Annars mikil afföll á 1. árs nemendum í læknisfræðinni, nemendur eru að hrynja niður eins og flugur, gefast upp og fara heim. Mikið um hlutapróf þessar vikurnar og gríðaleg samkeppni, að því er virðist. Verst er að klíkumyndanirnar eru ansi sterkar þarna meðal Íslendinganna og ekki komast allir inn sem vilja. Húka utan hóps, í kulda og trekki. Hver myndi ekki gefast upp?
Er með hugan hjá krökkunum, ekki síst Katarínu. Held þó að henni sé farið að líða eitthvað betur. Þessi vanlíðan og leið kemur trúlega í bylgjum, stutt í jólin og prófin. Haffi hefur meira forskot í þessum efnum, er á sínu 3. ári og orðinn hagvanur og sjóaður í þessu umhverfi auk þess að vera eldri og þroskaðri. Auðvitað er erfitt að vera fjarri vinum og fjölskyldu.
Búin að setja mér ótal markmið á morgun, eins gott að fara að halla sér. Þarf að ráðast á kerfið og skattinn, þetta dugir ekki lengur. Vikan að verða hálfnuð. Ræs í býtið! Vonandi engin hálka og greiðfært, ekki enn búin að ná mér í dekk
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.