27.10.2007 | 01:54
Lánsöm
Svaf nátúrlega af mér bróðupartinn af kvöldinu, veit að ég er að ganga allt of nærri mér í vinnu. En mér finnst svo æðislegt að vera viðurkennd fyrir störf mín eftir allt sem undan er gengið, að ég læt mig hafa það. Þarf reyndar á vinnunni að halda til að reyna að kroppa í halann sem lengdist í veikindunum og við fráfall Guðjóns. Það er mér ómetanlegt að fá tækifæri til þess og mér finnst ég yfirmáta lánsöm að geta unnið sem er meira en margur getur sagt.
Veit hins vegar að ég hef gengið of langt og þarf að endurskipuleggja hlutina. Hef vaknað síðustu nætur um kl.03 svo svakalega verkjuð að það hálfa væri nóg. Það eitt að liggja flatur er hrein skelfing. Er náttúrlega með mikla slitgigt eftir að hafa starfað við ummönnunarstörf frá 15 ára aldri og gleymi þeirri staðreynd allt of oft eftir að ég greindist. Einhvern veginn reiknar maður með því að allir verkir séu af illu komnir og stimplar þá alla á krabbameinið. Staðreyndin er hins vegar sú að mínir verkir eru trúlega til komnir af slitgigtinni og eftir brottnámið af lunganu. Þeir verkir hverfa seint, er mér sagt. Tók eftir því, þegar við gistum á hóteli í Búdapest og ég með 1 kodda, að verkirnir jukust svo að ég hreinlega kastaði upp eftir nóttina. Þarf að hafa a.m.k. 3-4 kodda og sofa hálf sitjandi. Þannig er það einfaldlega og ég verð að lifa með því.
Það er ótal margt sem spilar inn í mína líðan síðustu vikur. Söknuður og sorg, brottför krakkanna, flutningar, tómleikatilfinning, of mikið álag og áhyggjur af ýmsum toga. Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að ég er "týnd" eða bókstafleg "lost" í þessari breyttu tilveru. Að geta ekki búið á þeim stað sem ég vil búa er bara heilmikið mál. Allir þurfa að geta stundað sín störf og tryggja sína afkomu, ég er engin undantekning þar á.
Hvað ég vildi að ég kæmist út úr þessum rúmsjó og fyndi "minn farveg". Veit að það kemur að því en skelfing er biðin erfið og biturleikinn hefur verið að gera sterklega vart við sig upp á síðkastið. Hvernig má það vera að menn komist upp með það að leggja líf manns í rúst og blómstra á sama tíma! Urrrrrrrrr.....................! Einhvern tíman kemur að því að menn uppskeri eins og þeir sá.
Ég get hins vegar sofið út á morgun og það verður gert Hvað ég hlakka til, ég á engin orð til að lýsa þeirri tilhlökkun. Næ pottþétt að vinna upp minn "hala",um helgina, þá loks fer mér að líða betur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.