24.9.2007 | 00:22
Það hafðist
Náði loksins í skottið á mér, rétt í þessu þannig að vinnuálagið ætti að vera komið á rétt ról. Hefði seint trúað því hvað ég er lítill bógur þegar kemur að úthaldinu. Síðasta helgi fór algjörlega með mig og er í raun ekki búin að ná mér eftir hana. Fékk ég samt gríðalega aðstoð og hjálp, annars hefðu hlutirnir aldrei klárast.
Svo virðist sem ég þurfi að haga mér eins og einhver postulínsdúkka upp í glerskáp til að vera þokkalega verkjastillt. Það hugnast mér afskaplega illa. Ekki það að álagið var svo sem óhóflegt alla síðustu viku en mér gremst hversu lítið ég þoli og hve lengi ég virðist vera að jafna mig eftir álagspunkta. Urrrrrrrrrrr
Út af fyrir sig ætti ég alls ekki að kvarta, ég er orðin vinnufær á ný og það eru FORRÉTTINDI eins og ég hef áður sagt. Það eru ekki allir svo heppnir. Ég hef hins vegar alls ekki sama starfsþrekið og áður. Kannski vegna þess að ég er einungis með annað lungað, örugglega hefur það eitthvað að segja, a.m.k. ennþá þar sem ég hef einfaldlega ekki verið nógu dugleg að þjálfa mig upp. Göngutúrarnir með hundana eru góðir og mér lífsnauðsynlegir en þeir eru ekki nóg. Ég verð að vera duglegri í endurhæfingunni.
Veikindin sem slík tóku gríðalegan toll af heilsufarinu og ég búin að vera lengi veik áður en ég greindist. Var komin með þol gagnvart verkjum og eilífum sýkingum. Maður bölvaði í hljóði og lét sig hafa það að mæta í vinnu, hvernig sem líðanin var og gekk náttúrlega enn frekar á allar orkubirgðir og þrek með því að marg nýta á neyðarrafhlöðurnar. Þau skipti sem ég fór til læknis var slitgigt kennt um verki og vanlíðan þannig að það var svo sem ekkert annað að gera í stöðunni en að reyna að lifa með verkjunum. Ég sé það betur eftir á hversu mikil heimska þetta var og ætla mér ekki að detta í sama pyttinn aftur. Verð að taka "nótis" af þessum staðreyndum í óþolinmæði minni.
Kosturinn við veikindin felst í reynslunni sem er dýrmæt i leik og starfi. Það sem ekki er síður mikilvæg og jákvæð reynsla er sú staðreynd að nú kann ég að meta lífið betur en áður. Hver dagur hefur meiri þýðingu en áður því lífið er ekkert sjálfgefið. Því á maður að njóta þess og það hef ég loksins lært. Það er ekki þar með sagt að það sé auðvelt að skipta um gír og kúvenda stefnunni. Satt best að segja tekur það á og skiptir þá engu máli þó maður geri sér grein fyrir því að sú kúvending er bæði rétt og nauðsynleg. Ég er ekki frá því að aðlögunarhæfnin gagnvart breytingum minnki með aldrinum eins og reyndar fræðin halda fram, jafnvel þó breytingarnar séu jákvæðar.
Öll höfum við þær þarfir að ná framgangi í starfi og ná fram markmiðum okkar. Við þurfum flest að tilheyra einhverjum og gegna ákveðnum hlutverkum í lífinu. Ræturnar þurfa að liggja einhvers staðar og við þurfum að vera örugg í því umhverfi sem við lifum í. Á mínum aldri eru flestir búnir að ná flestum sínum markmiðum og uppfylla þessar þarfir. Reglulega kemur þó upp þörf fyrir breytingar sem við tökum oftast fagnandi. Ég upplifi mig ennþá bremsunni á grænu ljósi á krossgötunum, er ekki búin að finna mig í breyttu hlutverki sem ég er ekki alveg búin að skilgreina. Ég veit ekki alveg hvert ég vil stefna og hverju ég vil tilheyra. Kaflaskilin augljós og ég fagna þeim. Margt varð að breytast.
Er ekki frá því að haustinu fylgi svolítið þungar hugsanir og söknuðurinn magnist. Þau er haustið minn uppáhalds tími. Sorgin gerir eiginlega meira vart við sig og spurningarnar sem eru óteljandi vakna á ný, sumar kröftugri en fyrr. Þó veit ég vel að sum svörin fæ ég aldrei. Síðasta helgi og vikan þar á eftir reif svolítið upp þessar tilfinningar og erfiða reynslu síðustu ára. Algjörlega eðlilegt ferli en kemur mér alltaf jafnmikið á óvart.
En áfram held ég auðvitað. Ekkert annað að gera og fagna því að fá tækifæri til að leggja áherslu á aðra þætti en ég hef gert síðustu árin. Það breytir því ekki að breytingar taka á Þoli ekki að safna verkefnum og þurfa stöðugt að vinna upp á mettíma. Finnst það langt frá því að vera eftirsóknarvert að eyða 2/3 af sólahringnum í vinnu og því verður það eitt það fyrsta sem tekur breytingu. Tímastjórnun, forgangsröðun og val á verkefnum verða endurskoðuð. Hef ótrúlega gaman að vinna en dett alltaf í þá gryfju að taka of mikið að mér. Framkvæmi þá hlutina undir allt of miklu álagi og etv. ekki eins vel og ég vildi. Smátt og smátt hlýt ég að ramba inn á hlutverk mitt, staðsetningu og framtíðarmarkmiðum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Veikindin | Breytt s.d. kl. 00:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.