Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Áfram hóst og gelt

Búin að vera hælismatur í dag, hóst, kitl og gelt út í það endalausa.  Hiti, beinverkir, kuldahrollur og hvaðeina.  Framtakssemin eftir því.  Skelfilegt að eyða fríinu sínu með þessum hætti.  Er ósköp fúl yfir þessari uppákomu.  Hún ætti ekki að koma mér á óvart, Haffi búin að vera með sömu pestina og það er orðið býsna kalt, alla vega á morgnana og á kvöldin.

Í dag stóð til að henda rusli og dóti.  Löngu orðið tímabært að snurfusa og losa sig við pappakassa, gamalt dót og annað sem á heima á haugunum.  Nú átti að taka á því áður en krakkarnir fara út.  Eitthvað fór lítið fyrir mínu framlagi í þeim efnum, fór í 2 skápa og þar með var það upptalið.  Haffi eins og herforingi fór tvær ferðir með fullan bíl í Sorpu en lítill munur sést enn.

Það er því blessaður sófinn í kvöld, sjónvarpið og poppið.  Hef ekki einu sinni heilsu til að grufla í kennsluáætlunum. Gjörsamlega andlaus en auðvitað brosandiSmile

Einn kosturinn við þennan krankleika er sá að nú hef ég fylgst með sjónvarpsfréttum. Ótrúlegt að fylgjast með Grímseyjarklúðrinu.  Ugglaust á ráðgjafinn stóran þátt í því klúðri en eru það ekki vegamálastjóri, ráðuneytisstjóri, ráðherra og ríkisstjórn sem bera endanlega ábyrgðina (í þeirri röð)?  Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið?

Ég segi það enn og aftur, ég hef ekki trú á því að hveitibrauðsdagar þessarar nýju ríkisstjórnar verði langir.  Sjálfstæðismenn með óbreytta stefnu og vinnubrögð og ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekki enn komið niður á jörðina.  Öll raunveruleikatengsl eru rofin á þeim bæ og það bókstaflega riginir upp í nefið á sumum þeirra.  Svo virðist sem völd og titlatog sé það sem sóst var eftir af þeirra hálfu.  Menn þvaðra út og suður í krafti embættis síns, í bullandi mótsögn við ríkisstjórnarsáttmálann.  Ég hef ekki trú á því að Ingibjörg Sólrún nái að hafa hemil á óstýrlátum froðusnökkum.

Verð vonandi hressari á morgun, mörg verkefni liggja fyrir, eiginlega út í það endalausa og kennsla að byrja eftir helgi.  Ætla rétt að vona að við náum að gera eitthvað skemmtilegt áður en Haffi fer út á þriðjudaginn.  Urrrrrrrrrrrr, þennan fja...... ætla ég mér að losna við hið snarasta.

 

 


Hóst og gelt!

Fór í langþráðann göngutúr í kvöld með mína einu sönnu; Lafði Diönu. Hóstinn ekki stoppað síðan, hóstað og gelt þar til ég hef hreinlega kastað upp.  Er sem sé versnandi af mínum "bronchitis" sem ég fékk í Brekkunni.  Krakkarnir búnir að vera með sömu einkenni, ekki síst Hafsteinn sem hefur hreinlega verið hundslappur.  Hann er að rétta úr kútnum en ég held, svei mér, að ég sé að taka við honum.  Eins gott að ég er í "fríi"!Pouty

Ekki er um mörg úrræði að velja þegar kemur að læknisþjónustunni, við ekki með fastan heimilislækni í Reykjavíkinni enda ekki búsett þar per se. Þó krakkarnir séu tilbúnir til að leita til lækna heima, dugi vart að hósta í síman til að fá meðferð. Vð höfum hins vegar möguleika á því að fara á Læknavaktina og það höfum við nýtt okkur óspart, með æði misjöfnum árangri þó.  Stundum hefur betur farið að sitja heima með sinn krankleika en stundum höfum við fengið góð úrræði, eins og gengur.  En einmitt á það ekki að vera, einstaklingar eiga ALLTAF að fá þau bestu úrræði sem völ er á, hverju sinni.  Heilsugæslan á að vera hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar en er hún það í raun?  Ég spyr.

Hef því ekki verið neitt óskaplega dugleg í dag, ekki komist með tærnar þar sem ég ætlaði að hafa hælana.  Markmiðsetningin léleg, eins og oft áður.  Verð að taka mig á í þeim efnum, sem öðrum.

Varð fyrir miklu láni í dag, svo ótrúlegu að ég á ekki til orð.  Höfðingsskapur og stuðningur á erfiðum tímum sem kom verulega flatt upp á mig. Það gerist ekki oft að ég verði orðlaus en nú varð ég það. Í fyrsta skiptið síðan ég veiktist og missti Guðjón, fékk ég þvílíkan skilning á aðstæðum og óvæntan stuðning.  Ég á ekki slíku að venjast, hef ætíð þurft að hafa mikið fyrir hlutum og gengið að því vísu.  Þannig er lífið einfaldlega.  Heppni" hefur aldrei verið inni í minni orðabók, ég hefi ekki skilið hugtakið.  Á það ekki síst við kerfið og aðrar stofnanir þar sem ekkert er gefið eftir og lítill skilningur á breyttum aðstæðum.   Það mun taka mig tíma að finna réttu orðin til að lýsa yfir mínu þakklæti en það verður gert á viðeigandi hátt.

Ég held því áfram að brosa hringinn, þannig ætla ég mér að lifa lífinu.  Sætta mig við þær breytingar sem bíða mín og taka þeim fagnandi.  Búið að taka á að þurfa að sætta sig við þær; þær eru hins vegar óumflýjanlegar, þannig er það einfaldlega og ég verð að taka því.  Það hefur tekið mig aldeilis tíma.

 Komin á fullt í kennsluundirbúningnum, hefði viljað vera duglegri í dag en ég er bara mannleg. Heyrði loks í minni mágkonu í kvöld, frábært að heyra í henni en skelfilegt hvað ég hef ómeðvitað trassað þau tengslin sem og nokkur önnur.  Það er æði margt sem ég hefði viljað sinna betur en ekki gert.  Nú verður tekið á þeim málum!

Næsta brýna skrefið er að ná þessari berkjubólgu og hita úr mér og fara að sinna þeim ótal verkefnum sem bíða mín.  Yndisleg tilfinning að vita að ég þarf ekki að vakna í býtið í fyrramálið enda algjör B-manneskja sem dýrkar það að kúra frameftir á morgnana, þrátt fyrir að hafa tekist að venjast öðrum aðstæðum.

 Ég held að lukkuhjólin séu farin að snúast, löngu orðið tímabærtUndecided


Áfram B manneskja

Úff! Áfram, stjórnsöm B manneskja. "Skulda" ótal fólki símtal en síminn mitt uppáhald í gegnum tíðina. Svo fer ég af stað og þar sem ég hef "vanrækt" fólk svo lengi þá dugir kvöldið ekki til og sumir ekki heima eins og gengur.

Ég á það til að skipta mér of mikið af, án þess að ætla mér það. Finnst endilega að mín reynsla ætti að vera öðrum víti til varnaðar.  Kveiki ekki endilega á því að fólk þarf að reka sig á sjálft.  Bölvuð afskiptasemi í mér en mér gengur ekkert annað en gott til.

Þessi dagur betri heilsufarslega en í gær, vildi gjarnan vera betri af "bronchitisinum", reynar vera alveg laus við hann enda þarf að vera eins og dúkkulísa með eitt lunga. Ríf þetta úr mér, eins gott að Læknavaktin skuli vera til.

B manneskjan búin á því. Verð vonandi hressari á morgunHalo


Búin á því

Þá er maður kominn upp á fastalandið, gjörsamlega búin á því.  Ekki það að guðaveigarnar hafi borið mig ofurliðið, heldur ferðalagið, umstangið og útiveran.Gasp Var reyndar ekki dugleg í Dalnum, fór á föstudagskvöld og svo aftur í gærkvöldi.  Brekkusöngurinn er náttúrlega toppurinn á þjóðhátíð og ekki klikkaði Árni Johnsen frekar en fyrri daginn.  Það er einfaldlega magnað að syngja með honum á sunnudagskvöldinu og horfa síðan á blysin sem lýsa upp dalinn.  Engin orð lýsa þeirri tilfinningu.

Ekki tókst okkur systrum að standa undir nafni: "tvær úr Tungum", sú eldri fékk nóg og flaug upp á fastalandið á laugardagskvöldinu.  Leyni því ekki að vonbrigðin  og undrunin voru mikil en svona er lífið og mennirnir ólíkir.  Hálf vængbrotin og miður mín, því er ekki að neita. Vond tilfinning þegar menn slá ekki saman í takt, ekki síst ef það fer fram hjá manni.

Mér fannst svolítið sérstakt að keyra um Vestmannaeyjabæ, fátt breyst á 6 árum og rataði maður hiklaust.  Búðirnar vöfðust ekki fyrir mér né aðrir merkilegir staðir. Mér fannst ég hins vegar ekki komin "heim" þannig lagað séð. Bjó í Eyjum í 11 ár samtals, þykir ofboðslega vænt um Eyjarnar en sá kafli virðist einfaldlega liðinn í mínu lífi.  Mér leið reyndar eins og ég hefði aldrei farið, aðeins skroppið frá.

Hitti reyndar fáa heimamenn en Ellý, þessi elska lét sig hafa það að kalla á eftir mér í brekkunni þar til ég heyrði. Frábært að hitta hana, eiginlega svolítið magnþrungin stund. Rosalega þykir mér vænt um hana, tilfinningar sem ekki er hægt að tjá, aðeins finna.  Auðvitað hitti ég fleiri; Möggu Ársæls og Hjalla og Jónu Heiðu sem klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn, ég hefði viljað spjalla meira við þau.  Hólmfríði hitti ég ,fyrrum yfirmann minn út á flugvelli sem breytist ekki neitt, alltaf 17 ára í anda.  Við ekki alltaf sammála, en sammála um að vera ósammála. Lea, fyrrum vinkona mín, vildi hins vegar lítið við mig tala.  Það var samt gaman að hitta hana enda stórbrotinn karakter þar á ferð.Kissing

Þegar upp er staðið, var það fyllilega þess virði að fara á Þjóðhátíð. Erfitt að mörgu leyti, allt of margar tilfinningar og líkamlega var þetta ögrun. Stóð mig reyndar vel, held ég, ekki síst í göngunni.  Krakkarnir hreint út sagt magnaðir, bæði mín eigin og vinir þeirra, ekki síst úr Dölunum. Ótrúlega skemmtilegir og frábærir í alla staði. Þvílíkir gullmolar og engin leið að gera upp á milli þeirraW00t

Framundan vinnuvika, nældi mér reyndar í "bronchitis" á ferðalaginu en vona að ég verði til í slaginn í fyrramálið. Svaf í allt kvöld. Ótrúlega tómlegt að koma í hús, enginn Haffi eða Kata og tíkurnar ýmist á hundahóteli eða hjá Söru. Kisan Ísafold, reyndar ekki vikið frá mér frá heimkomu og tók vel á móti mér. Það fjölgar hjá okkur á morgun þegar krakkarnir og tíkurnar koma heim.

Einkennilegt hvernig þessi veikindi hafa breytt forgangsröðun manns, þjóðhátið var eitt af því sem ég setti í forgang ef ég hefði þessi veikindi af.  Brekkan með krökkunum, brennan, flugeldasýningin og brekkusöngur.  Tilfinning sem ekki er hægt að lýsa.  Nú er því forgangsverkefni lokið, áfram heldur lífið og næstu verkefni taka við. Efst í huga mér er sveitin og kyrrðin. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að eftir þjóðhátíð fer að skyggja á næturna, daginn fer að stytta.  Haustin eru reyndar minn uppáhaldstími.

Krakkarnir að fara út á næstu 2-3 vikum og miklar breytingar framundan.  Óttast að mörgu leyti breytingarnar en fagna þeim líka, systikinin orðin fleygir fuglar og vel í stakk búin til að takast á við tilveruna.  Það er ég líka þó ég sé ekki enn búin að marka næstu skref, málin í farvatninu en engar endanlegar ákvarðanir ennþá. Það var góður endir á helginni að spjalla við stoltið mitt, hana Auju, ótrúleg manneskja og fagmaður þar á ferð sem ber nafn sitt með réttu; Auðbjörg  Smile Hlakka til að fylgjast með ferli hennar.

Úff, hvað er gott að vera komin í sitt hreiður. Nú er að krossleggja fingur með heilsufarið og horfa fram á við. Næsti kafli er framundan og ekkert annað en að taka á honum. Er hins vegar alveg búin á því núnaCrying

Er his

Vonbrigði

Ég hef ekki verið allra í gegnum tíðina og sitt sýnist hverjum í þeim efnum; þannig er það einfaldlega. Ég er hins vegar heil og þeim trú sem ég tek, fáum dylst það. Stundum allt of "bláeyg". Ég hef alla tíð verið auðsæranleg en í seinni tíð gætt þess vel hverjir "komast að mér", ég kann því illa að verða særð. "Þroskuð" að því leytinu til að "brennt barn forðast eldinn".  Hef reyndar sætt gagnrýni vegna þessa en menn verða að skilja það að maður fer ekki í sama pyttinn tvisvar ef hægt er að afstýra því.

Vinátta og trúnaður felst m.a í því að taka hinum aðilanum eins og hann er, með kostum og göllum. Getað bent á það sem vel er gert og það sem miður er, án þess að fjandinn verði laus.  Ekki svo að skilja að maður hafi alltaf rétt fyrir sér, heldur hitt að skoðanaskipti ættu að vera með þeim hætti að gagnkvæm virðing sé til staðar.   Séu þau skilyrði ekki til staðar, er grundvöllur til vináttu og trúnaðar ekki til staðar. Hvernig má annað vera; vinir ganga í gegnum súrt og sætt saman og slík tengsl virka ekki einungis í aðra áttina.

Trúlega er ég lík móður minni heitinni í þeim skilningi að bresti trúnaður eða skilningur, þá set ég í lás. Þegar maður hefur fengið rauða spjaldið, eyðir maður ekki orku né tíma í að sannfæra eða breyta öðrum enda lífsins ómögulegt að "kenna gömlum hundi að sitja".

En svona er lífið, gleði, sorg, vonbrigði og sigrar og margt í okkar eigin höndum í þeim efnum, sumt ekki. Ég veit að ég er ekki fullkomin en ég reyni mitt besta, stundum er það ekki nóg. Ekkert annað en að taka því og beina sjónum að jákvæðari hlutum, læra af reynslunni og gera ekki sömu mistökin tvisvar. Í öllu falli veit ég hverjir eru vinir mínir eftir reynslu síðustu mánaða og hverjir ekki. Jákvæður punktur, heldur betur og lásinn kominn á sinn stað. Ég þarf á allri orku að halda fyrir mig og mína á næstunni og mun klára mína pligt. Ég hef hins vegar engin áhrif á þann sem kýs að túlka hlutina með öðrum hætti en lagt er upp með.

Hnaut um eftirfarandi sem mér fannst eiga vel við eftir kvöldið;

"Það er óþægilegt að verða fyrir vonbrigðum, og því verra sem þau eru meiri. Þessu fylgja sárar tilfinningar sem geta varað lengi og orðið okkur að tjóni. Þess vegna er nauðsynlegt að takast á við vonbrigðin, reyna að skilja hvers vegna þau koma, hvernig eigi að bregðast við þeim og losna við þau ef mögulegt er"

                                 Höfundur óþekktur. 


Einar Oddur látinn

Mér var all brugðið að lesa Fréttablaðið í morgun en þar kom fram á forsíðunni að hann hefði orðið bráðkvaddur í fjallgöngu á Kaldbak á Vestfjörðum. Þvílíkur sjónarsviptir fyrir fjölskyldu og okkur öll, ekki síst í Norðvestukjördæmi.  Einar Oddur var maður sem þorði að segja sínar skoðanir umbúðalaust. Hann var ekki fyrir rósamál og umbúðir, hreinskiptinn og það gustaði af honum. Kynntist honum persónulega og líkaði vel við hann. Við vorum ekki alltaf sammála en það var líka allt í lagi, hann virti skoðanir annarra.

Einar Oddur lét verkin tala, hamhleypa og hafði ég þá tilfinningu að hann lifði lífinu hratt. Hann fór snöggt að sama skapi.  Hugur minn og samúð er hjá eiginkonu, börnum og afkomendum þeirra. Tíminn framundan er erfiðari en orð fá lýst.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1280237

 


Vanhæfisástæður

Mér er títt hugsað til sveitarstjórnar minnar og ósjaldan kemur hugtakið "vanhæfi" upp í huga mér. Vert að líta á stjórnsýslulögin í þeim efnum en þau segja m.a í II. kafla sem fjallar um sérstakt hæfi:

Starfsmaður eða nefndarmaður er vanhæfur til meðferðar máls: 
*    Ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila.
*    Ef hann er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið     til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar.
*    Ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti sem segir í 2. tölul.                                                                                                                                                   *    Ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans skv. 2. tölul. eða sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir. .

Um áhrif vanhæfis segir m.a eftirfarandi í 4 gr. II. kafla:


Sá sem er vanhæfur til meðferðar máls má ekki taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þess. Nefndarmaður, sem vanhæfur er til meðferðar máls, skal yfirgefa fundarsal við afgreiðslu þess.

Starfsmaður, sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans, skal án tafar vekja athygli yfirmanns stofnunar á þeim.
Yfirmaður stofnunar ákveður hvort starfsmanni hennar beri að víkja sæti. Í þeim tilvikum, er vafi kemur upp um hæfi yfirmanns stofnunar, tekur hann sjálfur ákvörðun um hvort hann víkur sæti.

Í 23. gr. í "Samþykkt um stjórn og fundarsköp Dalabyggðar í Dalabyggðar" kemur m.a. eftirfarandi fram:

*  "Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að afstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

*   Sveitarstjórnarmenn, sem jafnframt eru starfsmenn sveitarfélagsins og hafa sem slíkir átt þátt í að undirbúa tiltekið mál sem lagt er fyrir sveitarstjórnina, eru alltaf vanhæfir þegar sveitarstjórn fjallar um málið.  .

*   Sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, ber að vekja athygli sveitarstjórnar á því"

Stjórnsýslulögin einföld og skýr sem og samþykktirnar. Eftir þennan lestur kemur upp í minn    huga; formaður byggðaráðs og Hestamannafélagið Glaður en fyrrnefndur á mikilla hagsmuna að gæta í sínu hestamannafélagi, formaður byggðaráðs og Dvalarheimilið Silfurtún þar sem formaðurinn er starfsmaður og tekur þátt í að semja við sálfan sig sem verktaka hjá heimilinu.

Byggðaráðsmaður/varaoddviti og staðarhaldarinn á Eiríksstöðum en fyrrgreindur tekur ákvarðanir um eigin launagreiðslur og til maka síns sem eru staðarhaldarar, byggðaráðsmaður/varaoddviti og ferða-, menninga- og markaðsfulltrúi en sami aðili gegnir báðum störfum/embættum og ákvarðar eigin störf og launagreiðslur.

Aðeins örfá dæmi en er einhver vafi á vanhæfisástæðum................................?  Whistling


Dalamenn komnir með ferða,- menningar- og markaðsfulltrúa

Þá er búið að ráða ferða-, menningar- og markaðsfulltrúa í Dalabyggð. Helga Ágústsdóttir hlaut hnossið og ugglaust vel af því komin enda með reynslu í slíkum málum sem staðarhaldari á Eiríksstöðum síðustu ár.

Ráðningin hlýtur hins vegar að hafa breytingar í för með sér fyrir sveitarstjórn og byggðaráð en hún situr í hvorutveggja. Í öllu falli hlýtur hún að þurfa að víkja ansi oft af fundum sökum vanhæfis eða hvað..........................Whistling


Litlu samfélögin

Eins og við var að búast fór þessi dagurinn í svefn, endalausan svefn.Sleeping Ég næ að urra mig áfram á meðan vinnutörn stendur og er síðan eins og sprungin blaðra þegar skylduverkum lýkur. Heimilisstörfin hlaðast upp og um leið rykið og óhreinindin.  Er samt alveg klár á því að úthaldið er meira núna en í síðustu viku og enn meira en fyrir 3 vikum þannig að ég er á réttri leið. Finn það ekki síst á heldur minni verkjum svona í heildina séð þó þeir geti verið slæmir á köflum.

Veikindin hafa sett strik í mitt líf sem og fjölskyldu minnar í nokkur ár, haft mestu áhrifin síðasta árið og í raun kollvarpað öllum áætlunum, fjárhag og markmiðum.  Fátt er um fína drætti þegar kemur að mótvægisaðgerðum í þeim efnum, maður verður bara að bíta á jaxlinn og reyna að vinna sig út úr málunum. Tryggingakerfið meingallað og í raun varasamt með skemmd epli í körfunni. Ég hefði seint trúað því að óreyndu og hef í gegnum tíðina talið okkur Íslendinga búa við gott velferðar- og heilbrigðiskerfi. Hef ósjaldan talað um kosti þeirra og það öryggi sem við búum við.  Þar hef ég verið á villugötum líkt og fjölmargir. Kosturinn við erfiða reynslu er auðvitað sá að maður lærir, reynar "on the hard way" Pinch

Mér er ansi oft hugsað um vald, valdbeitingu og misbeitingu valds á síðustu vikum og mánuðum, ekki síst í fámennum byggðalögum. Vald er  vand með farið og skelfilegt þegar það lendir í höndum einstaklinga sem hafa ekki hæfni né getu til að fara rétt með það. Sumir eru jafnvel "valdasjúkir". Oftar en ekki er slíkir einstaklingar  ákaflega sjálflægir og eigingjarnir og leggja höfuðáherslu á eigin hagsmuni, metnað og markmið.  Við slíkar aðstæður er öðrum einstaklingum beinlínis ógnað, lífsskilyrði og öryggi þeirra er beinlínis háð vilja og duttlungum þeirra sem fer með valdið.Bandit

"Valdamiklir" einstaklingar hafa yfirleitt lögboðið vald, t.d kosnir til að stjórna eins og í sveitarstjórnum. Í litlum byggðalögum gegna þeir, að öllu jöfnu, öðrum störfum og hafa nokkur yfirráð í krafti þeirra.  Þannig geta þeir haft áhrif á það hverjir fá atvinnu og geti búið í byggðalaginu.  Slíkar aðstæður eru hættulegar þegar einn til tveir einstaklingar ráða bókstaflega yfir örlögum annarra. Í öðrum tilfellum er um að ræða embættismenn, s.s. presta, sýslumenn, lögreglumenn, kennarar,lækna o.fl. aðila úr opinbera geiranum. Í enn öðrum tilfellum má sjá bankastjóra og áðra úr fjármálageiranum.  Þegar slíkir einstaklingar komast til valda er hætt við að óbein völd þeirra verða mikil.  Það gefur auga leið að prestur, sýslumaður og læknar svo fáein dæmi séu tekin, gegna mikilvægum störfum sem fela m.a. í sér trúnað við aðra. Erfitt getur reynst þeim að aðskilja pólitísk störf og embættisstörf. Sumir beinlínis nýta sér aðstöðu sína sem þeir hafa í störfum sínum til að hafa bein áhrif á skjólstæðinga sína, þekkt eru dæmi þar sem þeim er beinlínis ógnað, fylgi þeir ekki viðkomandi að málum. Hver vill hafa sýslumanninn, prestinn eða lækninn á móti sér?Shocking

Þegar einstaklingar úr fjármálageiranum komast til valda í pólitísku umhverfi síns byggðalags, gefur auga leið að þeir geta haft gríðaleg áhrif á afkomu og líffskilyrði viðskiptavina sinna. Ekki það að það sé algilt að menn skilji ekki þar á milli og misbeiti valdi sínu, beint eða óbeint,en þau tilfelli eru sannarlega til.  Í þeim byggðalögum þar sem íbúar kjósa einstaklinga í valdamiklum stöðum til áhrifa, er þessi hætta alltaf til staðar.

Í öllu falli tel ég alla sem búa í litlu samfélagi kannast við þessar vangaveltur og vita við hvað er átt. Margir hafa lent í þeirri bitru reynslu að vera sviptir atvinnu sinni, búsetuskilyrðum og jafnvel ærunni. Neyðst til að taka poka sinn og hypja sig á brott með skottið á milli fótanna.  Hefja nýtt líf annars staðar. Oft tekur það mörg ár að öðlast sjálfstaust og fóta sig að nýju.   Eftir standa sigrihrósandi valdfíklar með valdið í sínum hendum, hafa fengið umboð frá kjósendum og plantað sínu fólki í aðrar áhrifastöður í samfélaginu.  Það er eins gott að setja sig ekki upp á móti valdaklíkunni, annars kann illa að fara.Devil

Við þessi skilyrði eru einstaklingar valdir inn í samfélagið í stað þess að þeir velji það til búsetu.  Hvernig er slíkt samfélag í raun?  Það er stöðug ólga meðal íbúanna sem þora ekki að tjá sig um óánægju og skiptar skoðanir, þeir gætu misst allt sitt.  Þeir tjá sig í hálfum hljóðum við eldhúsborðið, úti í mjólkurhúsi eða í krónni.  Menn eru óánægðir og ásáttir, tala illa um hvorn annan og lífið fer að snúast um það að finna veikleika og galla annarra, ekki síst þeirra sem fylgja ekki straumnum enda hagur þeirra að fylgja þeim sem ráða.  Það kraumar og kraumar og á endanum sýður upp úr.  Smáspýjur hér og þar til að tappa af ólgunni.  Það breytist hins vegar fátt nema þá helst að hlutirnir fara niður á við, traust og trúnaður farið til fjandans og allir uppi á móti öllum.  Svona getur þetta reyndar gengið lengi, jafnvel í áratugi.  Þeir sem ekki sætta sig við þessi lífsskilyrði verða að hypja sig á brott ellega að hafa verra af. Svo ótrúlegt sem það virðist hljóma, sætta íbúar sig við slíkar aðstæður þegar upp er staðið, óttast breytingar og berjast í raun gegn þeim.

Samfélög sem eru undir ógnarstjórn sýna litlar framþróun, stöðnun ríkir enda illa tekið á móti nýrri hugsun og nýjum straumum. Þau eru lítt búsældarleg og afkoman fremur döpur.  Fjárfest er í gæluverkefnum þeirra sem fara með völdin og eiga þau verkefni sjaldan samleið með vilja íbúa eða hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Hægfara en stöðug hnignun er afleiðingin.  Samfélögin verða "út undan" og lítt samkeppnishæf við önnur byggðalög um nýja íbúa enda hætt við að það jafnvægi sem valdhafar hafa komið á, raskist.

Hvað er til ráða við aðstæður sem þessar? Framsýnir leiðtogar sem fá fólk í lið með sér að móta sameiginlega sýn, stefnu og markmið er sú lausn sem er varanleg. Að virkja alla þá krafta sem samfélagið býr yfir til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum byggðalagsins og íbúanna. Þeir þurfa að tileinka sér breytta hugsun gagnvart valdhöfum. Í stað þess að lúta ógnarstjórn þurfa þeir að líta á þá sem fulltrúa sína sem fara með umboð sitt, samfélaginu til bóta. Íbúar þufa að geta treyst valdhöfunum og trúnaður þarf að ríkja. Þeir þurfa einnig að vera opnir fyrir nýjum hugmyndum, líta á skoðanaskipti sem eðlilegan hlut og viðurkenna að einstaklingar eru misjafnir eins og þeir eru margir.  Samfélög eiga ekki að vera einsleit og mótast af valdaklíku hverju sinni, þau eiga að búa yfir fjölbreytleikar þar sem virðing er borin fyrir skoðunum, trúarbrögðum, þjóðerni o.s.frv. Ég tel fullsannað í mörgum samfélögum að gamla lagið, þar sem nokkrir ráða öllu, stenst ekki tímans tönn og er þeim síst til framdráttar.  Við búum á 21. öldinni; lýðræði á að vera sjálfsagt mál. Þeir sem eru á öndverðu meiði, eru einmitt þeir sem sækjast eftir áhrifum með eigin hagsmuni í huga og misbeita hiklaust valdi sínu.Frown


Brekkusöngur í Bolungarvík

Ég sé ekki betur en að búið sé að kippa öllum stoðum undan þeim byggðum sem einungis byggja afkomu sína á sjávarútvegi með nýjasta útspili sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórn. Þorskkvótinn skorinn niður svo um munar en engar breytingar á öðrum kvóta til að milda skaðan. Ekki einu sinni á löngu, steinbít og öðrum tegundum sem nóg er af. W00t

Fátt kemur fram um þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórn hefur á takteininum til að bjarga því sem bjarga verður.  Sú eina sem er sýnileg er brekkusöngur Árna Johnsen í Bolungarvík.  Það á greinilega að hressa mannskapinn við og fá hann til að gleyma raunum sínu um stund, eða hvað?  Árni er aðvitað bráðskemmtilegur maður sem nær upp stemningu alls staðar þar sem hann mætir með gítarinn. En skyldi hann fá lögreglufylgd?Blush

Vestfirðingar sem og aðrir er lifa á sjávarútveginum sjá sæng sína út breidda; atvinuleysi, skuldasöfnun, verðlausar eignir og gjaldþrot.

Ég er ansi hædd um að við bændur verðum að hefja okkar varnarbaráttu; Einar K er jafnframt landbúnaðarráðherra og þessi ríkisstjórn er staðráðin í því að breyta byggðum landsins í sumarbústaðaparadísir.Crying

Ekki á bætandi við annað útspil ríkisstjórnar sem fólst í lækkun á lánshlutfalli hjá Íbúðalánasjóði sem var í argandi mótsögn við fyrri yfirlýsingar núverandi félagsmálaráðherra eins og Kristinn H vakti athygli á.  Nú gátu fjölmiðlar veitt því athygli sem hann hafði fram að færa.

En Nota bene! Þetta kusu kjósendur yfir sig í síðustu kosningum, meira að segja á VestfjörðumSideways

Hvernig verða næstu 4 árin? Sick

Stórgóður pistill á heimsíðu Kristins H um aðgerðir ríkisstjórnar gagnvart landsbyggðinni.

http://kristinn.is

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband