Færsluflokkur: Bloggar

Fæ sting

Ég fékk bókstaflega sting ,,fyrir hjartað" þegar ég las fréttina. Ætlaði mér svo sannarlega að vera á staðnum en svo fór sem fór. Lítið hægt við því að gera, hugga mig við að krakkarnir ætluðu að skála fyrir þeirri gömlu og gamall starfsfélagi og núverandi bloggvinur bauðst til að fá sér í aðra tánna fyrir mig. Takk fyrir það Aðalsteinn.

Það verður reynt aftur að ári, fátt kemur til að hindra það en neyðist til að allan varan á, af gefnu tilefni! W00t


mbl.is Stærsti kór Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei komst ég vestur

Það kom mér svo sem ekkert á óvart en vestur í Norðurárdalinn og Bifröst náði ég aldrei.  Ekki nýtt hjá frúnni að áætlanir standist ekki.

Var að versla mér námsbækurnar  í Bóksölu Stúdenta um kaffileitið mánudaginn þegar ósköðin dundu yfir. Hrikalegir kviðverkir með tilheyrandi, rétt náði að skríða inn í bíl, stynjandi og emjandi eins og fýisbelgur. Snéri mér hundrað sinnum við í sætinu til að finna ,,réttu stellinguna" og minnka verkina,færði það fram og aftur, rauk út bílnum og ég veit ekki hvað og hvað. Gafst upp eftir tæpan hálftíma, þá farið að gruna hvers kyns væri og hringdi í margumtalaða neyðarnúmer 112. Sjúkrabíll kominn á nóinu og mín upp á börur, stynandi ennþá meira og másandi. Lítt samvinnuþýð, gat hreinlega ekki lagst út af þannig að eitthvað hef ég reynst mönnum erfið, ekki í fyrsta sinnið.Whistling Katan var fljótari úr Seljahverfinu niður á Hringbraut en sú gamla frá Háskólanum.

Til að gera langa sögu stutta, fékk ég sem sé gat á görnina eins og margur kynni að segja eða blæðandi magasár. Fyrri kenning mín um maga- eða gall vesen reyndist sem sé rétt. Eftir ótal marga klukkutíma, bið og flöskuhálsa var mér tryllað inn á skurðstofu og í aðgerð. Var skelfingu lostin yfir því að þurfa í svæfingu, vitandi að það gæti verið erfitt að venja mig af öndunarvélinni.  En allt gekk upp, magasárinu lokað, kviðarholið skolað og vel tókst að vekja frúnna og ýta henni í gang. Komin náttúrega með bullandi lífhimnubólgu með tilheyrandi. 

Ég sannfærðist endanlega um það að flaggskip LSH sé skurstofu- og svæfingateymi spítalans. Móttökur, vinnubrögð, viðmót og meðferð ólýsanleg og fagleg.  Ýmsum öðrum þáttum verulega ábótavant í þjónustunni, eins og ég hef áður tjáð mig um meira um það síðar. Tel mig vita meira nú.

Var að skríða heim, allir gangar á legudeildum stútfullir, rúm í öllum skotum þannig að ég tók tækifæri til útskriftar í dag fegins hendi. Á minni deild hófst daglegur stofugangur ævinlega með sama söngnum sem allir kyrjuðu í kór; ,,getur þú farið heim, getur þú útskrifast, okkur vantar rúm". Rímlaus kveðskapur, á eftir að stúdera bragahætti nánar. Það mætti jafnvel rappa þetta svolítið, einhæft eins og það er núna og bragðdauft!

Góðu fréttirnar eru þær að nú liggur fyrir skýring á öllum verkjunum, bæði magasárið og síðan önnur vandamál sem hefði átt að vera búið að greina og meðhöndla fyrr. Ekki liggur allt endanlega fyrir og ýmislegt hefði mátt afgreiða á meðan dvöl minni stóð. Fékk þó konsult frá færum sérfræðing í verkjameðferð sem mun annast mig á næstu vikum og mánuðum. Suma verkina kem ég seint og illa til með að losna við, jafnvel aldrei enda miklar taugaskemmdir eftir lungnaskurðinn. Ég get þó verið viss um að unnið verði áfram með þau mál, þau eru komin í ákveðinn farveg sem er mikill léttir. Lét meira að segja mig hafa það að láta deyfa mig á ótal stöðum við rifjabogan sem var svo sem ,,helv...." út af fyrir sig en ég færi út á gras að bíta ef það er talið draga úr verkjunum þannig að mín fór í gegnum þetta, gáttuð af eigin kjarkiW00t

Er kannski ekki í fantaformi til að vera heima og býsna verkjuð ennþá en ákaflega glöð með heimkomuna.  Finnst hún vera þess virði. Joyful

Það verður enginn brekkusöngur hjá minni þessa þjóðhátíðina, átti pantað far í dag og til baka á morgun.  Það góða við þau vonbrigði er að ég veit að þjóðhátíðin verður á sínum stað að ári liðnu, maginn kominn í samt lag þannig að ég geti jafnvel leyft mér þann munað að fá mér einn bjór eða svo. Krakkarnir fengu ekki tækifæri til að hætta við þjóðhátíðina, skárra væri það nú þannig að ég linnti ekki látum fyrr en þau drifu sig. Eru búin að tékka vel á þeirri gömlu síðan og allt gengið upp.

Nú er það minn heittelskaði sófi, hef þráð hann alla vikuna.  ,,Here I come" loksins!Heart

Meira síðar ..........Whistling


Á skólabekk

Framundan er 4 vikna nám hjá frúnni á Bifröst. Sest þar á skólabekk nk. mánudag ef heilsa leyfir. Mun leggja kapp mitt á að komast hvernig sem ástandið verður enda sé ég mig í rómatískum hyllingum í yndislegu umhverfi. Gönguferðir og veiði í Hreðavatni. Er hægt að biðja um eitthvað meira? Krakkarnir koma til mín í fríium, það verður smá vandamál með tíkurnar en við hljótum að leysa þau mál með einhverjum hætti. Öll hundahótel yfirfull.

Ástandið hefur svo sem lítið breyst þrátt fyrir góðar fréttir í vikunni en munurinn er sá að ég veit að ég er ekki að kljást við krabbamein. Vandamálið er enn til staðar og hver orsakavaldurinn er, er enn á huldu, hef mínar kenningar um maga- og gall, líkt og áður. Þau mál verða einfaldlega að þróast og koma í ljós á næstunni. Hef sagt stríð á hendur ástandinu, nenni ekki að vera svona lengur.

Um að ræða mjög áhugvert nám á meistarastigi í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustunni sem hófst í janúar sl. Hef ekki mikið tjáð mig um það þar sem ég hef verið á báðum áttum en er ákveðin að láta á það reyna. Verður maður ekki að aðlaga sig að breytingum umhverfinu?  Ég lít alla vega á þetta nám sem tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á gang mála.

Tölvan hrundi hjá mér, ekki orðin ársgömul og finnst mér það býsna skítt. Stýrikerfið hrunið og eitthvað bras á harða disknum þannig að björgunarðagerðir eru hafnar til að bjarga gögnum enda vinnutölvan mín. Að sjálfsögðu fellur þessi bilun ekki undir ábyrgðina, var mér tjáð í dag en ég fæ tölvuna vonandi á morgun. Ótækt að vera tölvulaus næstu vikurnar þannig að mikið er í húfi.

Mun leggja í hann á sunnudag eða mánudagsmorgun, fer eftir heilsufarinu. Hefði ekki komist langt í dag en morgundagurinn gæti orðið betri. Naut því ekki góða veðursins  sem skyldi en er ekkert að ergja mig á því, treysti á gott veður í Norðurárdalnum. Hver veit nema að ég kíki yfir Brekkuna og líti á hrossin sem ég hef ekki séð í óratíma. Þau reynast mér ansi þung skrefin þangað, hefði seint trúað því að óreyndu. 

Mín fyrrum  heimabyggð er að sjá á eftir dýralækninum og fjölskyldu, mikil vinkona mín þar á ferð. Veit að margur á eftir á sjá á eftir henni þó vissulega komi alltaf maður í manns stað. Fáir jafn traustir íbúunum en hún.  Nokkuð um að þungavigtafólk sé á förum enda samfélagsmynstrið ekki endilega eftirsóknarvert síðustu árin, því miður. Pólitíkin spilar þar sterkt inn í.  Það verður þrautin þyngri að byggja upp mannlífið á þeim slóðum, tekst örugglega ekki fyrr en sveitarfélagið sameinast suður fyrir brekku þannig að vægi einstakra ,,valdamanna" minnki verulega. En nóg um það, þessu verður ekki breytt svo glatt.

Alla vegar eru framundan skemmtilegir tímar, mér skal takast að bæta ástandið og njóta þess sem bíður handan við hornið. ,,Brunch" framundan hjá Tóta og Systu  á morgun, hlakka ekki lítið til, þau höfðingjar heim að sækja og alltaf jafn jákvæð, sama hvað dynur á.Smile

 

 

 

 


Hægt og bítandi

Það hefur verið rólegt yfir Engjaselinu síðustu dagana og frúin lítt til framkvæmda. Krakkarnir hafa reynt að bæta upp það sem á vantar hjá þeirri gömlu af miklum myndaskap þannig að það saxast á sum verkefnin. Önnur flóknari sem ég  ein get leyst, hafa setið á hakanum þar sem ég hef einfaldlegan ekki verið fær um að sinna þeim. Það hefur haft og mun hafa einhverjar afleiðingar, við því er fátt að gera en að mæta þeim. Eitt er víst að kerfið eirir engum.

Það gengur hægt og bítandi með verkjastillinguna, nætursvefninn hefur lengst og dúrarnir á daginn að sama skapi. Engar niðurstöður fyrr en á þriðjudag og ræðst þá hvort ég þurfi í fleiri rannsóknir. Mér finnst það afar líklegt. Það var ,,hvíslað" í eyru mér eftir beinaskannið að ekkert sæist óvenjulegt við fyrstu sýn. Má ekki treysta því en gefur mér góðar vonir engu að síður. Líðanin hefur smám saman að vera að lagast en á enn langt í land. Það verður auðveldara að kljást við ástandið þegar niðurstöður liggja fyrir í síðasta lagi á þriðjudag.

Er orðin pinuleið á þessum uppákomum, viðurkenni það fúslega. Nenni ekki að standa í veikindum oga barlómi. Hafði háleitar hugmyndir um sumarið en þetta er í fyrsta skiptið í 27 ár sem ég hef ekki unnið í sumarfríi mínu. Farið að síga ískyggilega á seinni part sumarsins og haustið að nálgast. Ekki það að haustið er ,,minn tími" þannig að ég kvíði því ekki en þá verða krakkarnir flognir út aftur í skólan.  Það hefur hins vegar ekkert upp á sig að væla yfir orðnum hlut, ég fæ engu breytt um það sem liðið er. Næsta skref er því að skipuleggja tíman í haust og reyna að finna eitthvað skemmtilegt út úr því.

Þarf fljótlega að fara að taka ákvarðanir um stefnuna í haust, er ekki enn viss hvert ég vil stefna. Vil taka mér góðan tíma  til ákvarðana en verð að gæta mín á því að falla samt ekki á honum. Þessi veikindi setja óneitanlega strik í reikninginn og tefur málin aðeins.

Einhvers staðar stendur; ,,upp, upp mín sál................." Allt tekur á enda og óvissan skýrist. Þangað til er bara að draga andan djúpt og telja upp á 10!

stjarna


Sófadýr

Hef aldrei á ævi minni horft jafn mikið á sjónvarp og undanfarna viku. Heilsufarið bágborið og farið versnandi. Kemur sér að krakkarnir eru duglegir hér heima við, væri ansi illa sett án þeirra. Minn aðalvettvangur hefur verið sófinn þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir til annars.  Ekki endilega það sem ég hafði hugsað mér í sumar. 

Fengið eitt og eitt ,,kjafsthögg" á öðrum vettvangi að undanförnu sem ég er að reyna að höndla, finn þó að þrekið hefur minnkað í þeim efnum. Er orðin ofboðslega þreytt á þessum höggum, sérstaklega þegar málin eru ekki beinlínis á mínu færi að leysa þau heldur háð öðrum. Þessu virðist seint ætla að linna, fortíðadraugar og söguleg óheppni. Kerfið stíft og ósveigjanlegt og erfiðleikar með ákveðna einstaklinga í uppsiglingu. Sumir kunna sér ekki hóf og virða engin takmörk. Yfirgangur og virðingaleysi sem ég hef ætíð átt erfitt með að sætta mig við. Hef minni en engan áhuga á einhverju stríði við umrædda aðila en einhvers staðar verður að setja fótinn niður.

Styttist í tékk og rannsóknir, fæ vonandi svör og einhverja úrlausn mála. Finnst þessi gæði ansi bágborin, satt best að segja. Mér hefur fundist ærið að kljást við blessaða löppina svo annað færi ekki líka í steik, enn og aftur. Geng um gólf flestar nætur, friðlaus af verkjum og það sama gildir um aðra tíma sólahringsins. Næturnar einhvern veginn þó verstar, kannski af því maður vill vera sofandi þá og finnur meira fyrir hlutum þá. Hef spænt upp hverjur krossgátublaðinu af fætur öðru upp á síðkastið. Krakkarnir miður sín, eðilega enda fátt sem virkar og erfitt að dylja ástandið fyrir þeim.

Hef því ekki verið dugleg við að rækta sambönd við aðra, orkan farið í að kljást við krankleikan, standa sína pligt og ekki í neinu formi til að spjalla. Grrrrrrrrr hvað mér leiðist þetta. Ég mun þó takast á við það sem framundan er, ekkert annað í stöðunni en hef sjaldan þurft jafnmikið á ,,gulrót" að halda og nú. Þarf að bíta á jaxlinn og urra mig í gegnum þetta allt. 

Er komin með upp í kok af sjónvarpsglápi. Við mægður sátum saman í gærkvöldi og reyndum að þræla okkur í gegnum einhverjar bíómyndir. Það gekk þó ekki betur en svo að við dottuðum báðar fyrir framan imban. Næsta skrefið verður að þræða myndbandaleigurnar og sjá hvort ekki er hægt að finna eitthvað krassandi á meðan ástandið er eins og það er.

Vænti þess að vera komin með einhverjar niðurstöður þegar líður á vikuna og í framhaldi af því verði hægt að grípa til einhverra aðgerða til að bæta ástandið. Vona að ,,andinn" hellist yfir mig svo ég fái kraft til að kljást við þau leiðindamál sem eru uppi á borðum.  Vonandi eru þau síðustu málin sem eru frá minni fyrrum heimabyggð og ég þarf að vinna úr. Aðfarirnar verið með ólíkindum enda verður þeim þeim gerð ítarleg skil á öðrum vettvangi. Þangað til eru það litlu skrefin, aðalatriðið er að gera sitt besta, meira getur maður ekki gert. Þó það dugi ekki alltaf er ég  rosalega  fegin að þurfa ekki að taka skrefin ein og skelfing verður gott þegar þetta ástand gengur yfir, í víðasta skilingi þeirra orða. Það kemur að því að það styttir upp.

 

 

 

 


Þoka, ófærð og væll!

Búið að vera einkennilegt veður um helgina. Lítið fór fyrir þeirri hitabylgju sem veðurfræðingar kepptust um að spá fyrir um, alla vega í höfðuborginni. Svartaþoka bróðurpartinn snemma í morgun, sólarglenna tvisvar og aftur þoka á milli.  Varð aldrei almennilega hlýtt heldur.

Katan veðurteppt úti í Eyjum. Einkennileg lögmál og viðskiptahættir virðast gilda hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hún lenti í 2 rúmlega tíma seinkun á föstudag og virtist sem sumir væru teknir fram fyrir aðra sem áttu bókað flug á tilteknum tímum. Það sama gerðist í dag, loks þegar hægt var að fljúga og orðið fært vegna þokunnar. Þá gilti lögmálið; ,,fyrstur kemur, fyrstur fær" þannig að þeir sem mættu skv. álætlun og í samráði við starfsmenn flugfélagsins voru settir aftur fyrir þá sem bókaðir voru síðar, jafnvel seint í kvöld.  Þegar spurðir, var fátt um svör hjá starfsmönnum, vildu meina að flugturninn bannaði allt flug á meðan Flugfélag Íslands væri að fljúga, menn mættu ekki á tilsettum tíma sem gerði þeim erfitt fyrir. Get skilið þau rök en ekki af hverju Katan komst ekki með neinni vél áður en lokaðist fyrir flugið aftur. Hún mætti á tilsettum tíma og beið og beið, án árangurs. Farþegar sem áttu bókað far mun seinna en hún, komust á leiðarenda. Ég er hrædd um að eitthvað yrði sagt ef Flugfélag Íslands hagaði sér svona gangvart farþegum sínum. Ekki orð um þennan vandræðagang og erfiðleika með flug á milli lands og Eyja í fjölmiðlum, einungis fréttir af þungri umferð í átt að höfuðborginni.

Það er ekkert smá mál að lenda í slíkum uppákomum. Fólk þarf að keyra rúma 2 klst. vegalengd frá Bakka til að komast í bæinn. Engin aðstaða á flugvöllunum á Bakka og í Eyjum til að  bíða til lengri tíma. Felstir þurfa að mæta í vinnu o.s.frv. Hafsteinn komst með Flugfélagi Íslands í dag eftir seinkun enda vissulega ófært fyrir partinn en hann komst á leiðrarenda og á sína vakt.  Þau lögmál sem giltu hjá Flugfélagi Vestmannaeyja eru í öllu falli í mótsögn við hefðbundin markaðslögmál. Er hrædd um að margt athugavert kæmi í ljós ef þau mál væru skoðuð nánar af réttum aðilum. Meira um það síðar.

Katan kemst vonandi í fyrramálið, vonandi hefur þokunni létt eitthvað þá enda vinna seinni partinn. Þekki það þó frá fyrri tíð að þokan getur hangið yfir Eyjunum dögum saman líkt og hattur. Ef það gerist er ekkert annað í stöðunni en að huga að Herjólfi, bílinn verðum við á nálgast á Bakka við fyrsta tækifæri. Tökum á því ef og þegar að því kemur. 

Hvað sem öllum vandræðagangi líður, skemmtu krakkarnir sér vel á Goslokahátíðinni og auðvitað er það aðalatriðið. Til þess var leikurinn gerður.

Hér var lítið aðhafst um helgina, það viðraði ekki til sólbaða þannig að ég greip bók á milli þess sem ég hreiðraði um mig í sófanum. Gamalkunnugt maga- og/eða gallvesen að búið að gera vart við sig undanfarna viku til tíu daga þannig að ég hef verið óvíg að miklu leyti, ofan á annað. Dormað því mikið á milli verkjakasta. Mínir sérfræðingar í sumarfríi þannig að það er ekkert annað að gera en að harka af sér og þreyja þorran. Viðurkenni að ég er orðin býsna þreytt á þessum eilífu uppákomum, finnst lífsgæðin ekki beint til að hrópa húrra fyrir. Fátt slær á bév... verkina, get ekkert annað gert en að bíta á jaxlinn í þeirri von að ástandið gangi yfir. Sama fjörið byrjað og í vetur, erfitt að borða, lystarlaus og verkjuð þegar ég læt eitthvað ofan í mig. Hef löngum haft þá trú að þessar uppákomur tengist gallsteinum en þeir aldrei verið sannaðir á mig. Ekki ólíklegt að magasárið hafi tekið sig upp aftur miðað við einkennin en auðvitað veit ég það ekki. Ekki hafa fundist merki um meinvörp þannig að ég er svo sem ekkert að stressa mig á því, mér leiðast hins vegar eilíft vesen. Aukakílóin fjúka án fyrirhafnar.

Hefði átt að mæta í tékk hjá Sigga Bö á þriðjudag en tíminn frestast til 22. júli vegna sumarfría. Er reyndar að reyna að væla mig inn á tíma hjá honum þann 15.  sem ég vona að gangi. Það er ekki nóg að lifa fjandans krabban af, heilsan verður að vera skítsæmileg þannig að maður njóti þá þess lífs sem manni er ætlað. Það er ansi fátt sem maður getur aðhafst eins og staðan hefur verið.  Hef því verið býsna pirruð og leið. Eilíft bras og barlómur. 

Heilbrigðiskerifið þvílíkur frumskógur að mér dettur ekki einu sinni í hug að væla í heimilislækni eða labba mér inn á einhverja vaktina. Mér verður hvort eð er vísað á minn sérfræðing. Þannig hefur það alltaf verið. Ég nenni ekki að ergja mig á því að fara rúntinn enn og aftur, vitandi hvað kemur út úr því.

Fer því að sofa með það hugarfar að ástandið hljóti að verða eilíitið skárra á morgun og með hverjum deginum styttist í tékkið. Þá verður tekið á málum. Það verður flott að fá Kötuna heim á morgun, ætla mér að pína þau systkin svolítið á næstu dögum. Mörg aðkallandi verkefni þannig að ég reyni að fá þau til að hjálpa mér á milli vakta. Ekki mikið svigrúm, Hafsteinn að vinna meira og minna tvöfalt og þau bæði í vaktavinnu en það munar um hvert hænuskrefið. Verð að gæta mín á því að vera ekki of aðgangshörð við þauHeart
Stefni á að reyna að komast með krökkunum í sól og sumaryl áður en þau byrja í skólanum. Hef verið að skoða ferðir og aldrei slíku vant eru laus sæti hingað og þangað en rosalega hækka ferðaskrifstofurnar ferðirnar vegna hækkunar á eldsneyti og gengisfellingu krónunnar. Í einni ferð nam hækkunin um 70 þús krónur m.v. 2 farþega vegna þessa. Algjörlega út í Hróa miðað við raunverulegar hækkanir. Þarf að skoða þetta betur, hrikalegar hækkanir og ótrúverðugar skýringar.

Þangað til læt ég mig dreyma um strönd, sól, hita og verkjaleysi. Svo ekki sé minnst á kaldan bjór og Pina Colada án þess að fárveikjast.

Ekki fer ég að leggjast nður og láta 

erfiðleikana troða mig undir fótum.

(Ellen Glascow) 

 

 


Helgi - enn og aftur

Mér finnst vikan rétt byrjuð en komin helgi. Tíminn æðir áfram á hraða ljóssins, í bókstaflegri merkingu. Mér finnst eiginlega nóg um. Hef svo sem sagt það marg oft áður en alltaf jafn undrandi.  Öðru vísi mér áður brá þegar ég gat vart beðið eftir að vikan liði. Nýtti hvert tækifæri til að skemmta mér og náttúrlega öðrum. 

Helgarnar bjóða upp á samveru með fjölskyldunni, skemmtanir, ferðalög og önnur skemmtilegheit. Alla vega hjá fólki sem vinnur hefðbundna dagvinnu.  Margir flykkjast upp í sumarbústað, aðrir hendast af stað með hjólhýsi, fellihýsi og hvað eina í eftirdragi og elta góða veðrið. Sumir nota helgarnar til að hitta vini og kunningja eða til að lesa góða bók og svo lengi má telja,

Helgar eru ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér, hafa oft verið kvíðvænlegar. Mér finnst þær fremur viðburðasnauðar og einmannalegar, satt best að segja. Eru lengi að líða enda ekki margt um að vera, sérstaklega á veturna. Flestir hafa nóg með sjálfa sig og sína enda oft erfitt að hitta á fólk um helgar. Sjónvarpsdagskráin er oft afspyrnu slök, sérstaklega á laugardagskvöldum hvernig sem á því stendur. Oft heyri ég ekki í neinum frá föstudegi til mánudags, hvað þá að ég hitti einhvern. Öðruvísi en úti á landi, finnst mér. Það hefur komið sér vel að vera á kafi í vinnu og námi þannig að ég hef yfirleitt nóg fyrir stafni en langar stundum að breyta til.

Ég lagði upp með háleitar hugmyndir og plön varðandi þetta sumar. Krakkarnir heima og nú skyldum við gera eitthvað skemmtilegt saman. Bæði vinna þau vaktavinnu þannig að önnur hver helgi er frátekin í vinnu. Aðalatriðið að reyna að stilla vaktir þannig að þau ættu fríhelgar á sama tíma. Ekki gengur það eftir að öllu leyti og svo má ekki gleyma því að þau eiga bæði vini og vandamenn sem þau þurfa og langar til að sinna.

Bév.... fótbrotið skemmir hressilega fyrir mér þetta sumarið, er ekki ferðafær hvert sem er og get ekki gengið neinar vegalengdir.  Sit áfram uppi með verki og ónot undir rifjaboganum sem eru komnir til að vera og hamla mér enn frekar. Er eiginlega fúl yfir þessu, finnst þetta hábölvað ástand.   Get svo sem ekkert gert til að breyta því þannig að það stoðar lítt að sýta það sem er en ofboðslega getur mér leiðst þetta, ég get ekki sagt annað.

Goslokahátíðin þessa helgina, langaði ekkert smá að fara en það var ekki raunhæfur kostur. Katan farin til Eyja, mikið fjör og mikið stuð

eins og vera ber.  Finnst alveg frábær hvað krakkarnir halda tryggð við Eyjarnar enda bjuggum við þar samtals í 11 ár. Tengsl þeirra hafa ekki rofnað.

Það er einmitt á helgum sem þessum sem ég sit og velti fyrir mér hvar ég er, hvert ég vil stefna og hvernig.  Ég veit með vissu að borgarlífið á ekki við mig, er landsbyggðatútta í útlegð. Eitthvað sem ég kaus ekki sjálf. Mér finnst ég því vera ,,munaðarlaus", finn mig ekki ennþá og á ,,hvergi heima", ennþá. Er orðin hálf leið á því ástandi, satt best að segja.

Það virðist lengra á milli vina og ættingja á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar og lífsmynstrið allt annað. Hraðinn og vinnuálag mikið, mikill tími fer í að komast til og frá vinnu þannig að eðlilega vill fólk slappa af þegar kemur að helgum. Nándin er mun meiri úti á landi sem getur verið bæði jákvætt og  neikvætt. Tíminn nýtist betur, maður ræktar betur vinagarð sinn og nýtur útivista í meira mæli. Á þessum tíma vildi ég vera á kafi í heyskap og sem mest úti í náttúrunni, svo ekki sé minnst á útreiðatúra. 

Leitin af sjálfri mér virðist ætla að dragast á langinn. Hef vissulega tekið ýmsar ákvarðanir, sumar hafa gengið eftir, aðrar ekki.  Hef því mætt nýjum krossgötum þegar ég hef farið í gegnum önnur. Enn eru ýmiss mál sem slá mig jafnharðan niður þegar ég rís upp, held samt áfram, ekkert annað í stöðunni. Einhvern tíma lýkur þeim málum og ég verð ,,frjáls" og laus við fortíðadrauga og óvildarmenn.  Það kemur alltaf að kaflaskiptum. Það hefur verið á brattan á sækja síðustu tvö árin í þeim efnum, ég hef bognað en ekki brotnað. Oft hefur það tekið á enda til þess ætlast en ég klára þau mál sem eftir standa og hlakka til að fá frið.

Það stoðar lítt að horfa stöðugt um öxl, aðalatriðið er að spila sem best úr þeim spilum sem maður er með hverju sinni. Hef nóg að gera á næstunni svo fremi sem heilsan leyfir. Ef ekki þá verður það sólbað, takk fyrir, gangi spáin eftir.

 

Tíminn og ég gegn hverjum

öðrum tveimur sem er.

(Spænskur málsháttur)

 

 

 


Hálf dapurt

Ekki margt jákvætt í fréttum þessa helgina. Er slegin yfir samningum BHM við ríkið, tel forystuna hafa brugðist stefnu sinni. Þekki auðvitað ekki allar hliðar málsins en engar skýringar á takteininum af hálfu formannsins sem réttlætir samningana. Formaður samninganefndar ríkisins fullyrðir að það standi ekki til að semja um meira en 20.300 kr. hækkun á mánaðarlaun. Stálin stinn af hálfu ríkisins greinilega. Það eru fleiri stífir á meiningu sinni þannig að ég sé fram á nokkurt samningsþóf næstu daga og etv. vikur á milli F.Í.H og samningarnefndar ríkisins.

Aðrar fréttir helgarinnar ekki síður dapurlegar, hver bílveltan á fætur annarri með alvarlegum afleiðingum.  Erfitt hjá mörgum núna. Napurt að fylgjast með fréttunum. 

Stöðugar fréttir af ölvunar- og hraðakstri í netfjölmiðlum, enn aðrar fréttir af drykkju og læti.  Vopnaskak og vinnuslys í ofanálag. Enn nokkuð eftir af sumarinu og margar helgar eftir enn.  Það er eins og slysaalda sé að ganga yfir.  Áldósir á víðavangi eftir tónleikana í gærkvöldi sem haldnir voru til verndar íslenskri náttúru.  Gargandi mótsög þar.

Hef lítið gert síðasta sólahringinn annað en að dorma og kíkja á netið þegar vakandi. Reynt að horfa á einn og einn þátt, er með ofnæmi fyrir boltanum.  Er greinilega með síðbúna flensu, verið satt best að segja sófamatur í allan dag og ekki vogað mér út fyrir hússins dyr í norðaustanáttina. Barkahósti, kvef, beinverkir og hiti, týpískt ástand fyrir janúar/febrúar mánuði en ekki júnílok. Leyfi mér að vona að ástandið sé heldur að skána núna síðla kvölds.

Þakka fyrir að Hafsteinn kom heill á húfi frá Eyjum í kvöld, ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Það líður ekki sú helgi sem er laus við slys af einhverju tagi. Lífið að komast í fastar skorður, krakkarnir báðir að fara sinna verknámi eða vinnu. Get ekki sagt að ég hafi staðið mitt neitt glymrandi vel í húsmóðursstörfum en stefni á að bæta það með batnandi heilsufari.

Ekkert annað að gera en að henda sér snemma í koju og vona að framundan sé hlýrra veður og lát á slysum og vítaverðum akstri. Þurfa Íslendingar ekki að hugsa sinn gang í þeim efnum????? Ekki laust við að manni langi að stinga hausnum djúpt ofan í sandinn.

 

 


Það haustar snemma

Það ætlar að hausta snemma í ár. Norðanáttin á fullu, hífandi rok hér fyrir sunnan og við frostmark fyrir norðan og austan.  Þurrkar á suðurlandinu.  Sumarblómin á góðri leið með að verða að engu, þar fer fé fyrir lítið. Ágætis gluggaveður svo fremi sem gluggar eru ekki opnir. 

Við mægður gerðum heiðarlega tilraun að vera úti við fyrri partinn, gáfumst fljótlega upp og var ég þó í ullarpeysu. Það dugði ekki til, komin með ljótan barkahósta og slen.

Ég velti óneitanlega fyrir mér  veðrarbreytingum síðustu ára. Engin eiginleg skil á milli árstíða, þær renna saman. Hætt að kippa mér upp við hlýindi í nóvember eða slyddu júnílok. Það ætti enginn að vera undrandi á ferðum ísbjarna hér, þeir hljóta að elta veðrið eða hvað?W00t

Ekki laust við að ég staldri við auglýsingar um sólarlandaferðir þessa dagana, hagstæð kjör fyrir þá sem eru tilbúnir að ,,stökkva út". Er alltaf að verða skotnari í þeirri hugmynd að búa annars staðar en hér á landi, bæði út af lífskjörum og veðráttu. Áherslur breytast greinilega með aldrinum. Meira að segja Danmörk kemur oft upp í huga mér en lengst af hafa Norðurlöndin ekki heillað mín. Best væri náttúrlega að búa á Spáni eða Kanaríeyjum en litlar líkur á almennilegum atvinnuskilyrðum.

Margt sem mælir með því að íhuga aðra kosti en Ísland. Er greinilega komin með nóg í bili. Það er skítkalt og skrokkurinn finnur vel fyrir því.

flensa

 


Hætt í fýlu

Ákvað í morgun að ég nennti ekki að vera lengur í fýlu. Hún bætir ekki fótskömmina né þau mistök sem ég gerði með iðnaðarmanninn. Er ekki annars í tísku að vera í gallabuxum undir pilsum og kjólum?LoL

Fjandi lét ég  iðnaðarmanninn plata mig illa, slík reynsla kemur óorði á stéttina en ég þykist vita að flestir séu heiðarlegir. En svona plat er ansi kostnaðarsamt, hm........ Skriflegur samningur næst, búin að læra fyrir lífstíð.

Sótti Kötuna út á völl upp úr hádegi, mikil gleði í herbúðum. Haffinn úti í Eyjum, árshátíð hjá VKP með stæl.  Auðvitað áttum við Katan okkar ,,quality time" í  sófanum eins og vera ber með sjónvarpið á um stund. Gerði heiðarlega tilraun til að norpa úti í sólinni í rokinu en gafst fljótlega upp. Þóttist þó sinna garðvinnu að einhverju leyti en engar komu freknurnar.

Hellti mér út í gardínusaum,  verkefni sem hefur beðið ærið lengi og þær komnar upp, slysalaust. Nokkrar eftir þó, stefni að því að klára þær á næstu dögumTounge

Er ákveðin í að nota sumarið vel til framkvæmda og tiltekta sem hafa beðið allt of lengi, þræla krökkunum út eins og ég mögulega get áður en þau halda út aftur í ágúst. Stefni að því að skríða á botninum eftir beðum og  moldvarpast á morgun, stinga niður blómum hér og þar. Illgresið reiti ég upp og losa mig snarlega við það. 

Ég forðast að horfa aftur á bak eða áfram

og reyni að horfa bara upp á við.

(CHarlotte Bronté) 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband