Færsluflokkur: Bloggar

Klukk, klukk

Ég var klukkuð af bloggvinkonum mínum; Sigrúnu Jóns og Sigrúnu Óskars og verð hér með við þeirri áskorun. EKki endilega létt verk og kom á óvart, komst að ýmsu um sjálfa mig sem mætti lagaWhistling

Hér kemur niðurstaðan:

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:

Fiskvinnsla

Kokkur á sjó 

Hjúkrun

Kennsla

Ætti kannski að nýta menntunina í viðskiptafræðum, trúlega hagkvæmara eða hvað??

Fjórar kvikmyndir sem ég held upp á:

Gaukshreiðrið

Pearl Harbor

Titanic

Braveheart

 Vá hvað ég er dramtísk!

dramaticskies.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Garðabær

Vestmannaeyjar

Húsavík

Búðardalur   

bu_ardalur_2.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Hm, ég hef ekki enn búið á Austfjörðum.........

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Bolungarvík

Akureyri

Kanarí

Krít

Þarf að endurskoða sumarleyfi og önnur frí, áratugir síðan ég hef heimsótt staði innanlands

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

www.hi.is

www.kristinn.is

www.hjukrun.is

www.bifrost.is

workaholicoffice.jpg

 

 

 

Á bólakafi í vinnu og námi, þarf að poppa þetta eitthvað upp

 

 

Fjórar bækur sem ég les oft:

Mannauðsstjórnun. (Human Resource Management) eftir Torrington, Hall og Taylor)

Stjórnun og stefnumótun.   (Corporate Strategy) (Lynch, R. (2006).

Secret - Leyndarmálið

Móti hækkandi sól. Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Vá, rosalega er þetta þurrpumpulegt, Snýst allt um vinnu og nám.  Úff!!! Nörd?

nord.jpg

 

 

 

 

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:

Hjá ungunum í Debrecen í Ungverjalandi

haffi_og_kata_2_669674.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Í minni fyrrum heimabyggð

Vestmannaeyjum

Í  vinnunni

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka

Katan.blog.is

Katagunn.blog.is

Lindalinnet.blog.is

Husmodirin.blog.is

Gangi ykkur vel............................Tounge

 i_got_you_669681.gif

 

 

 

 


Home sweet home

Lent á klakanum og skriðin inn í kofa eftir 24 klst. vöku. Að sjálfsögðu seinkun á vélinni sem dróst úr því að vera 1 klst. upp í 5-6 klst., er of ryðguð til að muna það. Efni í heila færslu að velta fyrir sér framkomu við farþega og rétt þeirra í aðstæðum sem þessum, skilst að fyritækið sem annast flug fyrir ÚRval/Utsýn og Plúsferðir sé komið í greiðluþrot með tilheyrandi afleiðinum. Fátt á gera í stöðunni annað en að kyngja þeim hundsbita en ég mun seint kyngja því að þurfa að sætta mig við algjöran skort á upplýsingaflæði til farþega, illan aðbúnað, matarleysi og erfiðar aðstæður klukkutímum saman. Ekki hósti, stuna né andvarp frá farastjórum sem voru stútungskerlingar á mínu reki og þar yfir, einungis þögn, vandræðaleg bros, flótti og feluleikur.

Farþegahópurinn var margbreytilegur og margur hefur  átt erfitt  síðusta hálfa sólahringinn. Nokkuð stór hópur þroskaheftra var meðal farþega, einhverfur drengur, nokkrir rígfullorðnir í hjólastólum, urmull af litlum börnum með foreldrum sínum og síðan öll flóran sem endurspeglar okkur mannfólkið. Svo má náttúrlega ekki gleyma ,,Brazelíunni", henni mér, með tilheyrandi sérþörfum og dyntum.

Vélin sem fengin var í snarhasti í gegnum Iceland Express er trúlega á mínum aldri, merkt Italy/Polsk. Maður hafði á tilfinningunni að ýmsir hlutar hennar hengu saman af gömlum vana, alls staðar hökti í henni, brak og brestir á ólíklegustu stöðum. Sætin upp á ,,gamla mátan", erfitt að halla þeim og hönnuð fyrir einstaklinga í kjörþyngd. Þeir sem ekki uppfylltu það skilyrði urðu að láta sér duga að ,,sitja á gírstönginni", alveg eins og í den.   Flugið minnti í stumáli á ökuferðir um Kambana forðum daga þegar bifreiðar óku um ,,þvottabretti" á 20-30 km. hraða. Allt hristist og skalf og ,,vegurinnn" ansi holóttur. Einhverjir supu hveljur á leiðinni, þ.á.m. ég.

Það sem mér fannst kannski verst við flugið var sú staðreynd að ekki var til nægur matur til að bjóða farþegum til kaups. Öll höfðum við beðið á flugvellinum á Krít í fleiri klukkutíma sem taldi einn kaffi- og samlokubar með vafasömu áleggi. Þessi eini staður þjónustaði alla farþega til og frá eyjunni. Kaffið mátti skera með hníf og gaffli, farþegum ráðlagt að fara ekki alla leið í gegnum öryggishliðið fyrr en rétt fyrir brottför sem var á óræðum tíma (sem ekkert okkar vissi hver yrði) enda ekkert við að vera þegar komið var að hliðunum, að undanskyldum enn minni kaffi- og samlokubar og fremur óálitlegum sætum úr harðplasti af einhverri gerð. Menn voru því orðnir ansi langeygir eftir hressingu þegar út í vél var komið og eftir enn aðra töfina, í þetta sinn í klukkustund til viðbótar.

Flugfreyjan upplýsti pöpulinn að því miður væri ekki nóg til af mat til að bjóða til sölu í samræmi við góða þjónustu flugfélagsins. Freyjan vonaðist til þess að sem flestir svæfu á leiðinni, það myndi draga úr óþægindum. Varð mér nóg um að heyra þessa tilkynningu og ekki skánaði skapið mitt þegar mér varð á að horfa upp á einn farastjóran og ektamann hennar (by the way; bæði yfir kjörþyngd), panta tvöfaldan skammt af pizzum og samlokum, vitandi að fyrir aftan þau var full vél af fólki, ekki síst öldruðum, fötluðum og börnum og að ekki yrði nóg fyrir alla. Þau voru eins og ég, heppin að fá að sitja framarlega í vélinni en þar var mínum sérþörfum mætt.  Ég missti alla vega lystina og snéri mér að svefni hinna réttlátu af fremsta megni.

Í heildina var ferðin yndisleg, var passlega löng, var búin að fá nóg af hitanum síðustu 2 dagana sem varla fór undir 35°C.  Held að ég hafi hreinlega fengið sólsting á laugardaginn  með tilheyrandi......Whistling.  Ekki var mikið um ferðalög né skoðunarferðir, ég var að mestu leyti á sama blettinum en krakkarnir meira hreyfanlegir. Þeir voru skelfilega treg á að kanna næturlífið, hafðist reyndar einu sinni alla ferðina. Frúin var fjarri góðu gamni en mér var það mikils virði að þau skylda drífa sig og anda aðeins. Ég átti marga góða daga þar sem mér leið vel en einnig nokkra vonda daga sem voru töff. Ég komst í gegnum þá en kýs að gleyma þeim. Verst var að finna að mín líðan hafði áhrif á krakkana, eðlilega.

Haffinn og Katan komin til Debrecen, fluttu í nýtt, glæsilegt húsnæði á meðan dvöl þeirra stóð á Krít sem er mjög rúmgott. Ég hugsa mér gott til glóðarinnar í náinni framtíð. Allt gekk að óskum hjá þeim og við Heiða komnar í okkar kot um hánótt.   Mér tókst að koma óbrotin á áfangastað og í heilu lagi. Bitin hér og þar af árasagjörnum fiskum og pöddum, en ekkertalvarlegt. Tókst meira að segja að ná mér í lit þannig að ,,Skipasundargráminn" er minna áberandi en ella.

Framundan alvara lífsins, enn og aftur. Enn er leitað svara, menn ættu loksins að vera komnir úr sumafríum og mér lofað að rannsóknum verði keyrðar i gegn með hraði. Ligg ekki á því að vera ósátt við framgang mála fram til þessa, fleiri mánuðir sem hafa farið í veikindi af ýmsum toga sem hafa kippt mér út úr atvinnulífinu og gert mér lífið virkilega leitt. Úr því verður bætt á næstu dögum og botn fenginn í allt þetta bév.... bras! Er komin með upp í kok af krankleika og heilbrigðiskerfinu. Kannski það standi til bóta eftir samþykkt frumvarpsins í dag - eða hvað??

En vá!  Hvað það er gott að vera komin heim, jafnvlel þó eitthvað hafi farist fyrir með tæmingu á ísskápnum W00t Sef á því í nótt Tounge

 

 


Yfirmáta rólegt

Það hefur verið ansi rólegt yfir minni litlu famelíu sem spókar sig nú í sólinni. Nánast engir Íslendingar í nánasta umhverfi og hitinn fer upp í 35°C á daginn (a.m.k.!) þannig að driftinn er lítil. Daglegt líf snýst um að þola við á sólbekknum, úða í sig vökva og brjóta heilann um það allan daginn hvað við ætlum að borða í kvöldmat og hvar. Lífið snýst því um fátt annað en sólbrúnku, sólbruna, vökva og næringu.  Vissulega laumast áhyggjur og ýmsar hugsanir að mér þegar ég ligg á sólbekknum. 'Ýmiss mál sem bíða úrlausna og nokkur óvissa er um hvernig fari sækja á hugan en ég var ákveðin að reyna að skilja þau eftir heima þennan stutta tíma sem ég yrði fjarri. Það  hefur að mestu leyti gengið eftir.

Þar sem lífið snýst um mat og aftur mat, get ég stært mig af því að vera farin að borða aftur, reyndar eins og fugl sem kroppar í matinn er stöðugar, daglegar framfarir. Svipað og gerðist þegar ég fór út eftir lyfjameðferðina og andlát Guðjóns. Hitinn virðist gera kraftaverk.  Er talsvert úthaldsmeiri nú en fyrir viku síðan, geng lengri vegaleiðir án þess að þurfa að hafa súrefniskút í eftirdragi og blæs minna úr nös.Verkjaköstum hefur fækkað, sjaldan fleiri en 1-2 á sólahring. Ég náði sögulegum árangri þegar mér tókst að liggja út af á sólbekknum og síðar í rúmi en það hef ég ekki getað gert síðan í byrjun nóvember.  Gríðaleg framför þar, að mínu mati og algjör lúxus!

Eins og við var að búast lenti mín í smá óhappi í gær. Var reyndar farin að undrast yfir því að hafa sloppið ótrúlega vel þessa vikuna. Óhöppin voru reyndar tvö hvert af öðru spaugilegra. Hafði safnað í mig kjarki til að vaða út í sjóinn þegar ég hnaut í eins konar holu í sandinum og hringsnérist með stæl í einhverja hringi og síðan á bólakaf. Lenti að sjálfsögðu á hægra hnénu, mér til skelfingar. Slapp ótrúlega vel, víravirkið í hnénu hélt og ég jafnaði mig fljótt. Mér skilst að í þessum hringsnúning mínum hafi ég sýnt einstæða og áður óþekkta€ listræna hæfileika sem vöktu ómælda athygli strandverja. Stolt mitt var hins vegar sært og beið hnekki.

Í seinna óhappinu komu fleiri að málum, leigubílstjori keyrði yfir mig, rétt si sona!  Litla fameilían var á leið í dinner og hafði pantað leigubíl til að komast á leiðarenda. Þegar ég var búin að koma öðrum fætinum og afturendanum upp í bílinn,  ákvað bílstjórinn að leggja af stað. Hægri fótur enn fyrir utan. Það þarf ekki að spyrja hvernig fór, hann ók yfir hæl og rist. Þrátt fyrir hávær öskur frá minni, hugðist maðurinn halda áfram. Gaf sig á endanum og sá hvers kyns var. Ég held ég hafi sjaldan séð eins hræddan mann áður.  Krossaði sig bak og fyrir, hljóp marga hringi í kringum bílinn, signdi og kallaði hástöfum; ,,hospital, hospital".  Það þarf ekki að koma neinum á óvart þegar ég afþakkaði það góða boð hið snarasta heldur snéri mér að því að reyna að meta áverkan. Steig í fótinn og þar sem það gekk, héldum við okkar striki. Þegar við komum á áfangastða  aftók bílstjórinn með öllu greiðslu fyrir túrinn og virtist manna sælastur þegar hann losnaði við okkur úr bílnum. Hélt dinnerinn út en nóttin var erfið og gekk illa að stíga í fótinn sem var orðinn fjórfaldur. Gamalkunnug upplifun. Er búin að vera ágæt í dag þannig að ég slapp furðuvel. Bíð þó eftir þriðja slysinu.  Allt er þegar þrennt er, stendur einhvers staðar. 

Annars hefur litla famelían það gott, við höfum verið yfirmáta róleg, ekkert ferðast um heldur haldið okkur við sundaluagabarminn eða ströndina og notið samvista hvort við annað. Mér hefur gengið bölvanlega að fá krakkana til að kíkja á næturlífið, finnst ótækt að ungt fólk skulu ekki njóta þess í ræmur að skemmta sér. Þau hafa kosið að dunda sér með þeirri gömlu og farið snemma í koju. Heilsufarið hefur farið batnandi á allan hátt, minni verkir, aukin næringarinntekt og úthald og lengri nætursvefn. Liðverkirí lágmarki í hitanum. Andlega líðanin mun betri og ég full bjartsýni á köflum til að takast á við erfið verkefni og vandamál þegar heim er komið.

Við stefnum áfram á rólegheit, Hafinn ætlar reyndar að hreyfa sig aðeins um svæðið á meðan Katan ,,passar" þá  gömlu  W00t   Hún tekur ekki annað í mál og er þrjóskari  en ....... Við ætlum að halda áfram að njóta þessara samverustunda og hafa gaman af. Það er löngu orðið tímabært að huga að Pina Colada og öðru ,,gleðlyfi" og með óbreyttu áframhaldi verður það sú gamla sem dansar Zorba uppi á borðum.  Í öllu falli er litla famelían lánsöm að fá þetta tækifæri.


Í sól og sumaryl

Er komin út í sól og sumaryl skv. læknisráði. Við Katan flugum út sl. miðvikudag og komust á áfangastað heilar á höldnu eftir 10 tíma ferðalag með öllu. Ég verð að viðurkenna að frúin var ansi þrekuð þegar þangað var komin en er öll að koma til. Hafsteinn lauk prófum á þriðjudag og kom á svæðið á fimmtudagsmörgun eftir langt nætuferðalag.

Höfum það mjög rólegt og notarlegt, erum staðráðin í því að hafa það þannig.  Áreitið nánast ekkert ef undanskyldnar eru byggingaframkvæmdir í umhverfinu. Get varla sagt að ég hafi kveikt á tölvu fyrr en nú og þá rétt til að kíkja á fréttir.

Það er eins og við manninn mælt að þegar ég er komin í hitan, snarminnka öll hvimleið einkenni og vanlíðan. Er óneitanlega betri af verkjum.  Við stefnum að því að njóta hverrar mínútu í rólegheitum, engar skoðunarferðir eða annað brölt fyrirhugað. Hef svo sem ekki verið neinn sérstakur félagsskapur fyrir krakkana, sérstaklega á kvöldin en þarf að ýta krökkunum út á næturlífið. Sumarið fór fyrir lítið þegar kom að áætlunum og samverustundum þannig að nú verður það bætt upp áður en skólinn hefst hjá þeim á fullu.

Hitti minn lækni sl. þriðjudag sem var ekki of kátur með ástandið. Mig undrar það svo sem ekki eftir allt sem á undan er gengið. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki tvítug lengur þannig að það tekur tíma að jafna sig eftir sýkingar o.þ.h. Hef alla trú á því að ég muni koma til á næstu dögum. Fer síðan í tékk aftur eftir heimkomu og vonandi í framhaldi af því; í vinnu!

Sem sagt; rólegt á vígstöðvunum, en áhyggjufull yfir innbrotahrinu í Seljahverfinu. Vona að við sleppum, ekki það að það sé mikið af verðmætum hlutum á heimilinu en nóg af persónulegum eigum sem maður heldur upp á. Kötturin varla mikill ,,varðhundur" í sér en sem betur fer er hússins gætt.


Allt að koma

Ég leyfi mér að vona að heilsufarið sé á uppleið, hægt og bítandi þannig að það styttist í að frúin komist til vinnu. Á svolítið í land ennþá, eðlilega en líðanin mun betri og verkjaköstin færri. Verkjateymi LSH er greinilega að vinna kraftaverk. Öll nýju lyfin virðast vera að virka, eina neikvæða við þau eru kostnaðurinn sem ætlar að ganga frá manni. 

Ég hitti minn sérfræðing á morgun þar sem farið verður yfir stöðuna. Hef enga ástæðu til að ætla annað en að ástandið sé á réttri leið, þó ég hefði viljað sjá hlutina gerast hraðar. Er reyndar búin að ákveða að þetta sé síðasti veikindapakkinn.

Það styttist í að Katan fari út.  Haffinn búinn að vera í prófum og gengið vel, klárar vonandi síðasta prófið í fyrramálið. Er þá formlega kominn á 4. árið. Meiningin er síðan að litla famelían fari saman í stutt frí, svo fremi sem ég fæ fararleyfi.  Hef ekki trú á öðru. Þrái ekkert heitara en annað umhverfi, sól og hita.

Blendnar tilfinningar fylgja brotttför krakkanna, bæði gleði og tilhlökkun yfir því að byrja í náminu á ný og síðan svolítil sorg vegna brottfararinnar, eðlilega. Það tekur alltaf smá tíma að aðlagast því að vera fjarri að heiman og svo hitt að vera einn. Viðbrigðin alltaf nokkur en mesta furða hversu fljótt maður aðlagast, ekki síst þegar maður hefur nóg fyrir stafni. Það mun verða nóg að gera hjá okur öllum, á því er enginn vafi.

Ekki laust við smá spenning vegna morgundagsins enda tilhlökkun að vita hvenær ég má fara vinna. Menn hafa talað um miðjan sept. vonandi gengur það eftir. Get ekki beðið, satt best að segja.  Framundan námið í vetur, dett ekki út þó ég hafi ekki komist upp á Bifröst í sumarskólan. Verð að taka þau námskeið síðar. Huggun að vita að ég er ekki sú eina sem þannig er háttað um. 

Haustið leggst ágætlega í mig, minn uppáhaldstími.  Breytingar verða á mínum högum sem ég vona að verði til góðs. Ýmiss mál sem hafa setið á hakanum eru komin í góðan farveg, vona ég þannig að kannski sé ég fram á að þeim ljúki þegar líður á haustið.  Ástandið ætti þá að verða stabilla og minni óvissa framundan svo ekki sé minnst á áhyggjur og kvíða. Það verður ljúft þegar allt er komið í eðlilegt ástand. Margt hefur valdið því að þessi mál hafi dregist á langinn sem hefur verið íþyngjandi, vægast sagt en meira um það seinna.

Kannski ég upplifi það á haustmánuðum hvernig það er að lifa ,,eðlilegu" lífiTounge

 


Vikan senn á enda

Ég einfaldlega skil ekki hversu vikan er fljót að líða, síðasta helgi ný liðin og framundan sú næsta. Ég bjó mig undir það að  tíminn myndi sniglast á áfram í veikindastússi mínu enda fátt eitt við að vera. En það er öðru nær, tíminn flýgur þrátt fyrir aðgerðarleysi og skort á hlutverkum.

Ekki það að það væsi um mig, er ekki að gera neitt af viti. Verkjaköstin heldur færri ef eitthvað er og ég almennt betri inn á milli þeirra. Finnst úthaldið vera smátt og smátt að koma, hef jafnvel upplifað ástandið betra en í marga, marga mánuði að sumu leyti. Daglegt líf snýst um verkjastillingu og einfaldari  heimilisstörf. Mér þykir náttúrlega mikið til þess koma þegar mér tekst að moppa stofugólfið eða setja í eina vél eða svo. Verð aðvitað sveitt og másandi við hverja viðleitni en þeim mun ánægðari með afraksturinn. Einkennilegt hvað veikindi breyta forgangsröðuninni hjá manni.

Ég get þó ekki leynt því að mér hundleiðist þetta ástand og eilíf veikindi. Hef verið að kljást við þessi veikindi, meira og minna síðan um miðjan nóvember í fyrra eða í 9 mánuði. Mér finnst komið nóg. Á það til að ergja mig á því að hafa ekki fengið rétta greiningu í vetur og þar með rétta meðferð mun fyrr og áður en allt fór í óefni. Get hins vegar ekki breytt því sem liðið er þannig að það hefur lítið upp á sig að dvelja um of við slíkar hugsanir sem óhjákvæmlega eru neikvæðar.Það væri hræsni að halda því fram að ég sætti mig við orðinn  hlut og tæki þessu öllu með jafnaðargeði. Ég á mína slæmu stundir líkt og aðrir.  Þær eru þó færri en þær góðu þannig að ég kemst yfir þetta allt saman.

Það sem fer verst í mig er sú staðreynd að vera ekki vinnufær. Það að geta ekki sinnt sínum daglegu störfum og pligt er eins og  kippa undan mér fótunum. Tilverugrundvöllurinn raskast heldur betur og er ég ekkert öðruvísi en aðrir í þeim efnum. Þetta er ekki eins og að fá flensu sem leggur mann í rúmið í einhverja daga. Veikindi hjá mér virðast eilífðarverkefni sem aldrei virðist ætla að taka á enda. Þegar einu lýkur, tekur annað við.  Þannig er ógjörningur að plana fram í tíman, hvað þá að treysta á mann sem starfskraft. Það þoli ég illa.  Þegar starfsþrekið er ekkert, skapast of mikið svigrúm til neikvæðra hugsanna, erfiðra minninga og pirrings yfir eigin bjargleysi. Allt er í hægagír og smásigrarnir svo litlir að maður myndi ekki taka eftir þeim undir venjulegum kringumstæðum.

Ég hef þá trú að ástandið sé á réttri leið en veit að það mun taka einhvern tíma til að endurheimta fyrra úthald sem var kannski ekki til að hrópa húrra yfir en dugði mér ágætlega. Flesta daga finn ég að ég sé á uppleið, suma dagana finn ég bakslag en það er þó allt eðililegt.  Þá verð í pirruð, svo einfalt er það.

Haffinn að taka próf í fyrramálið, vonandi gengur honum vel. Ef ekki, er  alltaf möguleiki á því að taka það aftur en kostar mun meira álag þegar að því kæmi. Ég hef alla trú á því að hann hafi þetta drengurinn en heppni spilar þar mjög ríkt inn í.  Katan flýgur út um miðja næstu viku þannig að sumarsælunni er að ljúka hér í Engjaselinu. Búið að vera góður tími fyrir utan bév.. veikindin sem hafa heldur betur sett strik í reikninginn hjá okkur öllum.

Vonandi styttist í að ég megi fara að vinna, reikna með því eftir 2-3 vikur ef fer sem fram horfir. Skýrist vonandi í næstu viku. Verð þeirri stundu fegnust þegar að því kemur. Fóturinn er að verða eins góður og hægt er að hugsa sér, býst ég við. Þarf greinilega að vera með spelku til frambúðar enda hnjáliðurinn skrollandi laus og því auðvelt að lenda í einhverju hnjaski. Verð að sætta mig við það þar til annað kemur í ljós. Gerfiliður inni í myndinni en örugglega ekki á næstunni þar sem ég get vel skrölt á fætinum eins og hann er. Biðlistar langir og forgangsröðun ræður eðlilega för undir þeim kringumstæðum. Auk þessa er ég ,,of ung" til að lenda ofarlega á listanum. Ég er fyllilega sátt við það,myndi ekki með nokkru móti nenna að standa í aðgerð og tilheyrandi bataferli strax. Því lengur sem sú bið verður og því lengur sem ástand mitt bið, því betra að bíða eftir þeim process. Get ekki hugsað mér að íhuga það ferli á næstu mánuðum og árum, hvað þá meir. Ég mun hökta á þessum lið eins lengi og stætt er.

Er búin að panta sól þessa helgina, sýnist þó veðurspár boða annað, þ.e rigningu. Var búin að panta Kötuna til að aðstoða mig við að ljúka að bera á sólpall og skjólveggi áður en hún fer út. Ekki mikið eftir en alltaf betra að hafa annan með sér í slík verk. Kvíði þó engu þessa helgina, hún mun líða ógnahratt líkt og aðrar þetta sumarið, þrátt fyrir blóðleiðinlega sjónvarpsdagskrá á öllum stöðvum. Það verður kominn mánudagur áður en ég næ að sú mér við og skiptir þá engu máli hvort mér hafi leiðst eður ei.W00t

 

 

 

 


Rólegt á vígstöðvunum

Enn eitt laugardagskvöldið runnið upp, finnst það síðasta vera nýliðið. Er alltaf jafn undrandi á því hversu hratt vikan líður, þrátt fyrir aumingjaskap og volæði heima fyrir. Það er ekki svo að maður sé að drukkna í álagi og verkefnum eða því um líku sem veldur því að tíminn æði áfram. Hann gerir það samt engu að síður.

Þetta kvöldið fór í fegðurarblund, við eldhúsborðið.  Hafði gert heiðarlega tilraun til að kíkja á námsefni en entist greinilega ekki mjög lengi við það.  Sjónvarpsdagskráin lítt spennandi þannig að þessi kostur virtist vænlegastur. Leiddist ekki mikið en man hve augnlokin  þyngdust við lesturinn.Sleeping

Frumburðinn situr við prófestur úti í Debrecen í 38°C hita. Lætur vel af sér en auðvitað tekur á að komast í gírinn aftur. Heimasætan er að fá sér snúning á öldurhúsum borgarinnar, hress og kát að vanda. Allt í lukkunnar standi hjá þeim báðum. Þau hafa staðið sig ótrúlega í gegnum veikindin mín vel þessar síðustu vikur og ótrúlegustu uppákomur, orðin býsna sjóuð, satt best að segja. 

Heilsan hefur verið smátt og smátt að skríða saman, úthaldið að aukast og verkjaköstum að fækka. Komin á ótal tegundir lyfja sem m.a. eiga að slá á taugaverki og ,,draugaverki". Fæ einnig undralyf við gigt.  Þau virðast vera að skila tilætluðum árangri þannig að minni orka fer í verkjaköstin, þvílíkur munur en kostar sitt! Er búin að fara x 2 til sérfræðingsins í verkjameðferð og fá blokkdeyfingar, sú seinni bar greinilega árangur. Maginn smátt og smátt að koma til, er farin að finna til svengdar af og til en það hefur ekki gerst í marga mánuði. Þarf þó að passa mig að borða líkt og fuglinn, kroppa lítilega í matinn og hætta tímanlega til að fá ekki verki. Er smátt og smátt að læra inn á þetta. Nætusvefninn er smám saman að lengjast, er komin upp í 4 tíma samfelldan svefn á góðri nóttu. Þvílíkur munur!W00t Er farin að vera meira á rólinu, aðeins kíkt út fyrir en ekki farin  að keyra neitt að ráði ennþá, hyggst breyta því snarlega í næstu viku enda fátt eitt eins hamlandi og að vera örðum háð með allar bjargir, urr......

Fór í sneiðmynd af brjóstholi og kvið í gær og á von á niðurstöðum á mánudag. Þá verður væntanlega úr því skorið í hverju misræmi á milli rannsóknaniðurstaða er fólgið. Er ekki á þeim buxunum að sjúkdómurinn hafi tekið sig upp aftur en auðvitað veit ég það ekki. Mér finnst það einhvern veginn ekki en geri mér grein fyrir því að afneitun og aðrar væntingar geta spilað inn í þá tilfinningu mína. Ekkert annað en að gera en að hinkra og sjá til, taka því sem höndum ber þegar að því kemur. 

Systursonur minn liggur á sjúkrahúsi vestur á Ísafirði eftir að hafa lent í bílveltu með félögum sínum, sveigðu bílinn undan kríum. Ótrúleg mildi að ekki fór ver, strákarnir 3 meiddust allir en engin alvarlega eða lífshættulega. Systursonur minn fór þó einna verst út úr slysinu var grunaður um mjaðmagrindarbrot auk þess sem hann fékk blæðingar í kviðarholið. Gat farið miklu ver þannig að drengirnir voru heppnir. Sendi þeim öllum baráttukveðjur.

Það er því fremur tíðindalaust af okkar vígstöðvunm, erum líkt og aðrir borgarbúar, að jafna okkur á því pólitíska klúðri sem dynur yfir borgarbúa á nokkurra vikna og mánaða fresti. Ég held að ég reyni ekki að spá í framhaldið í þetta skiptið, það segir sig eiginlega sjálft. Málin þróast eins og farsi í skáldsögu en ansi er ég hrædd um að aðalleikararnir séu að syngja sitt síðasta á þessum vettvang. Er ekki of bjartsýn fyrir hönd Ólafs F. sem ætlar að hella sér út í kosningaundirbúning og  hyggst bjóða fram eftir 2 ár með það markmið að ná góðum árangir og tryggja að hans rödd og málefni fái hljómgrunn meðal borgarbúa. Er reyndar svartsýn fyrir hönd allra þeirra 15 kjörinna fulltrúa semeiga sæti í borgarstjórn, tel að allir hafi látið eigin hagsmunamál hafa forgang og gleymt því að þeir voru kjörnir af íbúum og eru fulltrúar þeirra. Er enginn þeirra undanskilin þó vissulega hafi þeir verið misgrófir. 

Það má því margt breytast næstu 2 árin til að borgarbúar hafi eitthvert val þegar kemur að framboðslistum. Ætli Ómar Ragnars og Margrét Sverris fái ekki bullandi hljómgrunn á þessum síðustu og verstu tímum, þó Stuðmaðurinn gæti dregið þau nokkuð niður. Ég veit ekki hversu spennandi það verður að fylgjast með borgarpólitíkinni fram að næstu kosningum. Ég myndi ekki kippa mér upp við enn önnur meirihlutaskiptin þó mér virðist sem Óskari og Hönnu Birnu sé full alvara þetta skiptið. Það sem mun reynast þeim fjötur um fót er samstöðuleysi, valdabarátta og innri ágreiningur innan þeirra eigin raða sem aldrei kann góðri lukku að stýra.  Segir það ekki allt sem segja þarf.........   Þó er aldrei að vita, mönnum hefur hingað til tekist að viðhalda spennunni og koma okkur á sífellt á óvart, gjarnan meira en síðast. Er það ekki þannig í öllum krassandi spennusögum ........Hvað skyldi morgundagurinn bera í skauti sér....Whistling

 

 


Til fyrirmyndar ljósmæður!

Samstaða ljósmæðrastéttarinnar er til fyrirmyndar. Um 90% atkvæðabærra félagsmanna nýttu sér atkvæðarétt sinn og kusu. 98-99% þeirra sem greiddu atkvæði, styðja verkfallsaðgerðir. Framúrskarandi árangur.

Staðan er augljós, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður eru búnin að fá upp í kok. Nú verður ekki látið staðar numið fyrr en búið er að leiðrétta laun þessara stétta og meta störf okkar að verðleikum. Hef trú á því að ljósmæður njóti almennt stuðnings í kröfugerðum þeirra og tel víst að enn meiri harka eigi eftir að koma í kröfur stéttanna í vor. 

Frétti í kvöld að 23 ára stúlka sem keyrir út fyrir coce ásamt að sinna fleiri verkefnum, raðast eftir 2 ára starf nokkuð hærra í grunnlaunum en ég sem hjúkrunarfræðingur eftir 25 ára starfsreynslu og 10 ára reynslu sem framhaldskólakennari. Ég get unnt stúlkunni  þau laun og tel hana vel að þeim komin en rosalega er mikil mótsögn þarna á ferðW00t


mbl.is Ljósmæður boða verkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrek

Finnst ég hafa náð miklum árangri í dag. Hitti minn sérfræðing í verkjateymi LSH sem deyfði mig hér og þar á milli rifja á aðgerðasvæðinu en þar hafa verkirnir verið oft verstir síðustu 9 mánuðina. Fannst hrikalegt að finna nálina urga og surga á milli rifjanna en er harðákveðin í því að láta mig hafa hvað sem er til að ná betri líðan. Er með þvílíka nálarfóbíu að það hálfa væri nóg þannig að þessi dagur telst til afreka hjá mér.

Hefði þurft að vera búin að fá meðferð sem þessa fyrir löngu síðan, vissi hreinlega ekki af þessum möguleika fyrr en nú. Er ugglaust orðið fullseint að breyta þeim skemmdum sem þegar eru komnar en full ástæða til að ætla að hægt verði að vinna eitthvað með þessa taugaverki í náinni framtíð. Ég myndi standa úti á túni og bíta gras ef mér  yrði sagt að það myndi bæta ástandið enda til mikiils að vinna.

Fékk enn önnur ný lyf, mér reiknast til að lyfjakostnaðurinn sé kominn yfir 300 þús það sem af er af þessu ári. Hrópleg mótsögn við yfirlýsta stefnu Péturs Blöndal og Sjálfstæðismanna. Allt er heimilt í pólitíkinni - eða hvaðWhistling Held áfram að bryðja það sem að mér er rétt til að fá mig betri, það skal hafast, svo einfalt er það, a.m.k. á meðan ég hef efni á því að leysa út lyfin.  Ekki sjálfgefið fremur en annað í dag.  Shocking

Styttist heldur betur í brottför Haffans, fer út aðfaranótt fimmtudags. Sumarið hér heima búið. Crying Úti bíða hans 2 próf sem hann á eftir að taka. Kata verður lengur heima eða til ca 27 ágúst. Pínu hnútur  í maganum en hugga mig við það hvehratt tíminn líður. Þrátt fyrir veikindi, barlóm og aumingjaskap í allt sumar, hefur tíminn flogið á ógnarhraða.  

Nýti hverja einustu mínútu þar til þau fara, hef fengið að njóta þeirra á meðan það versta hefur verið að ganga yfir hjá mér sem er ekki sjálfgefið. Mikið á þau lagt en þau kvarta ekki, síður en svo. Ég græt hins vegar pínu í mínu hjarta yfir því að hafa ekki getað látið drauma rætast, drauma um veiðferðir, útilegur, grill, göngutúra, skólavist og önnur skemmtilegheit í sumar.  Það verður fróðlegt að vita hvar ég verð stödd að ári liðnu, enn er framtíðin hulin ráðgáta og ég pikkföst á grænu ljósunum.Whistling

 


Smátt og smátt

Held að ástandið sé hægt og bítandi að skána. Verulega slæm síðastu sólarhingana, ekkert beit á verkina og fátt í stöðunni annað en að bryðja verkjalyf eins og Tópaz og krossleggja fingur um að sú stund komi að þau slái ögn á verkina. Síðan gengið um gólf eða reynt að hnipra sig saman, ýmist kaldsvitnað eða hríðskolfið.

Fannst ástandið erfitt í nóv-febrúar sl. en sé það nú að það jafnast á við paradís, samanborðið við núverandi ástand. Það á ekki að koma mér á óvart hversu slæmt ástandið hefur verið, með sprungið magasár, sýkingar hér og þar og lífhimnubólgu til að krydda ástandið aðeins. Það kemur hins vegar á óvart hversu veikt fólk er þegar það er útskrifað af sjúkrahúsi. Ég hef átt í fullu fangi með að komast í gegnum þessa daga þó ég sé ýmsu vön, hafi einhverja þekkingu á ástandinu og kalli ekki allt á ömmu mína. Ég get ekki ímyndað mér hvernig fólk kemst í gegnum slík veikindi í heimahúsum, án innlits eða eftirlits frá heilbrigðiskerfinu. Oftar en ekki hefu verið tilefni fyrir verkjalyfjagjöf í stunguformi enda töflur lengur að virka og ýmislegt getur hindrað verkun þeirra. Sjálf hef ég þurft að bíða eftir verkun í allt að 4 klst., gjörsamlega á á orginu. Þær klukkustundir hafa verið helvíti, satt best að segja. Fannst mér nóg um að bíða eftir verkjastillingu í 1 1/2 klst. á meðan ég var inniliggjandi en eftir á að hyggja er það ekki tiltökumál miðað við eftirleikinn.

Ég á auðvitað ekkert að vera undrandi yfir því hversu fljótt sjúklingar eru útskrifaðir af stóru sjúkrahúsunum eins og LSH sem þjónar allri landsbyggðinni. Nú stendur yfir tímabil sumarlokana og aðhalds á öllum sjúkrastofnunum landsins sem þýðir einfaldlega færri legupláss og færra starfsfólk. Minni sjúkarhúsin senda sjúklinga frá sér, ýmist til Reykjavíkur eða FSA, burtséð frá því hvort hagkvæmara sé að meðhöndla þá heima í héraði.  Hver sólahringur á bráðasjúkrahúsi er margfalt dýrari en sólarhringur á jaðarsjúkrahúsunu. Öllum er gert að spara og draga saman seglin, hvað sem tautar og raular. LSH sem hátæknisjúkrahús getur ekki neitað að taka við sjúklingum sem þangað þurfa að leita. Á sama tíma er því gert að spara og aftur spara. Slíkur sparnaður getur aldrei annað en bitnað á gæðum þjónustunnar. 

Þann tíma sem ég þáði þjónustu LSH var yfirfullt á öllum göngum, skúmaskotum, setustofum og sjúkrastofum. Ég kynntist þessu öllu auk þess sem ég deildi 4 manna stofu á tímabili, með 3 einstaklingum af báðum kynjum. Áttu þó aðeins eitt sameiginlegt en það var þvagleggur og ,,vandamál í kviðarholi"! Heimsóknartímarnir gátu verið æði skrautlegir, ekki síst þegar stofan fyllti 17 manns fyrir utan innskrifaða.  Kliðurinn gat verið eins og í fuglageri enda voru hinir einstaklingarnir komnir vel við aldur, heyrðu illa og áttu það til að taka sín  sólól á næturnar á milli hrotanna, eins og gengur. 

Starfsfólkið hafði ekki undan því að sinna sínum sjúklingum þannig að margt skolaðist til og ,,gleymdist". Það kom fyrir að þráðurinn væri stuttur á milli starfsmanna og sjúklinga sem er mjög skiljanlegt undir skilyrðum sem þessum. Oftar en ekki komust starfsmenn ekki í mat né kaffi. Haldið endalaust áfram en alltaf að elta ,,skottið af sjálfum sér" þar sem verkefnin voru mun fleiri en starfsfólkið annaði og söfnuðust þar af leiðandi upp.  Kjörnar aðstæður til að verkferlar skili sér ekki og að sjúklingar ,,gleymist". 'Eg er ekki viss um að ég treysti mér til að starfa við álag og aðstæður sem þessar. Það að geta ekki staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til manns í starfi hefur eyðileggjandi áhrif á hvern þann sem í því lendir, ekki síst ef kröfurnar eru óraunhæfar og útilokað að standa undir þeim. 

Alfeiðingin á þeim vítahring sem árlega skapast í sjúkrahústengdri þjónustu er augljós. Sjúkingar eru sendir fyrr heim en ella, mun veikari en almennt þykir við hæfi. Sökum plássleysis eru þeir innskrifaðir veikari en áður. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum til að bæta heilbrigðisþjónustuna og fjölga úrræðum og er það vel. Af hverju í ósköpunum er ekki búið að byggja upp sterkt stuðningsnet af hálfu heilsugæslustöðvanna og annarra aðila til að sinna því veika fólki sem er útskrifað heim? Það gefur auga leið að það úrræði er mun kostnaðarminna í framkvæmd en legupláss á hátæknisjúkrahúsi,legutíminn myndi styttast og hugsanlega myndi innlögnum fækka.

Það er æði margt sem betur má fara í starfsemi LSH og ugglaust fleiri heilbrigðistofnana. Ábyrgðin er þó fyrst og síðast í höndum ráðherra og stjórnmálamanna. Formaður heilbrigðisnefndar er heilbrigðisstarfsmaður með áralanga reynslu af réttindamálum sem formaður síns stéttarfélags. Maður skyldi ætla að sú reynsla, þekking og skilningur á málaflokknum myndi skila sér í bættari þjónustu og starfsaumhverfi en það er öðru nær. Ekki er að merkja neina tilfinningu fyrir málaflokknum aðra en þá er lýtur að gerð þjónustusamninga og samninga um einkaframkvæmd. Annað er ekki að skynja í stefnu Sjálfstæðismanna í heilbrigðisþjónustunni.

Það kemur mér fyrst og síðast á óvart í raun, hversu góð þjónustan er á LSH miðað við aðstæður og þá reynslu sem ég hef upplifað. Mikið vantar upp á, henni er ábótavant,  bæði gagnvart skjólstæðingum og starfsmönnum en ég get ekki annað en dáðst að því hvernig starfsfólki tekst að halda þjónustunni gangandi.  Það erfiða hlutverk hefur hins vegar tekið mikinn toll, viðmót og framkoma er eftir því, þreyta og pirringur allsráðandi enda hvernig myndi manni sjálfum líða eftir að hafa unnið vakt eftir vakt, án þess að ljúka þeim verkefnum sem bíða manns?

Það verður kvíðvænlegt að fylgjast með framvindu heilbrigðisþjónustunnar eftir því sem líður á kjörtímabilið. Menn eru ekki hálfnaðir enn.  W00t

Ég á hins vegar langt í land ennþá.............


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband