Færsluflokkur: Bloggar

Stutt og laggott

Það kom að því sem mig grunaði. Komin með sýkingu í hundsbitin síðan á sunnudag. Lét kíkja á skurðina í gær, fékk stífkrampasprautu en engin sýklalyfin.  Átti að bíða og sjá til, fannst það nokkuð bratt en doktorinn hefur síðasta orðið. Rokin upp í hita, með köldu og alles í kvöld og bólgan litlu minni í hendinni.  Það kemur sér vel að eiga ráð undir hverju rifi, nú sem oft áður.  Whistling

Styttist í þjóðhátíð, krakkarnir fara til Eyja á morgun og við Sigrún, stútungskellingarnar, mætum á svæðið á fimmtudag ef allt gengur eftir.  Ekkert smá mál, fá pössun fyrir tíkurnar hér og þar og vinna fram á síðustu stundu.  Það er meira mál að koma þeim fyrir en ungabörnum.  En hvað gerir maður ekki fyrir þjóðhátíð?  Þetta verður hins vegar trúlega mín síðasta en hef ekki farið í 7 ár. Ég sem mátti ekki missa af einni hér áður fyrr.  Búin að redda regngalla sem ekki mun veita af ef spáin gengur eftir.  En það er engin þjóðhátíð nema að það rigni og blási, svo einfalt er þaðW00t

Snemma í háttinn með hitalækkandi á náttborðið þetta kvöldið. Eins gott að rífa sýkinguna úr sér með hraði og hlaða batteríin til að standa sig. Til Eyja hef ég ekki komið í 6 ár. Vinir og vandamenn munu gæta bús og véla á meðan, ekki mun veita af á þessum verstu og síðustu tímum.


Þroskinn

Þroskinn er merkilegt hugtak og fyrirbrigði. Við erum stöðugt að þroskast frá blautu barnsbeini, rekum okkur á og gerum mistök.  Flestir rísa aftur upp á fæturna, reyna aftur og læra af reynslunni.

Öll göngum við í gegnum ákveðin þroskastig en mishratt og misjafnlega getur tekist til í þeim efnum. Við göngum öll í gegnum æskuna og unglingsárin, fyrstu ástina, námið og val á ævistarfi og maka, misfljótt reyndar. Ég þekki fáa sem hafa gengið í gegnum þau þroskastig án þess að gera einhver mistök eða verða einhvern tíman fyrir vonbrigðum. Slík reynsla er hluti af þroskanum og lífinu.  Hver man ekki eftir fyrstu ástarsorginni þegar allt virtist glatað, enginn gæti fyllt í skarðið og "lífið búið"! Þegar tímar líða, brosum við út í annað og sjáum að sem betur fer var það ekki svo. Lífið heldur áfram og úr rætist í þeim efnum.

Þyrnirnir eru mismargir og hvassir á leið okkar, öll stingum við okkur einhvern tímann, sum okkar jafnvel aftur og aftur.  Fyrr eða síðar rötum við rétta leið, þyrnirnir færri og við reynslunni ríkari. auðnast það hins vegar ekki, stinga sig sífellt á sömu þyrnunum enda alltaf á sömu slóðinni. Hugtakið "Brennt barn forðast eldinn" nær einhvern veginn ekki þar í gegn. Oft er erfitt að vera sá aðili sem horfir upp á slíkt og geta ekkert aðhafst.  Sumir ná ekki að læra af reynslunni.

Vonbrigði, tap og ósigrar í einhverri mynd eru hluti af tilverunni. Það er hins vegar í okkar valdi hvernig við tökum á slíkri reynslu og vinnum okkur út úr henni.  Mín lífsýn og skoðun er sú að við lendum í mótlæti og erfiðleikum, á það að vera markmiðið að vinna sig út úr þeim og nýta þá reynslu sem við fáum til að byggja okkur enn frekar upp.  Okkur er eðlislægt að staldra við og "sleikja sárin" um stund, hvert okkar á sinn hátt, en flestir rísa upp og halda áfram, sársaukinn og vonbrigðin minnka með tíð og tíma. Ný markmið, áhugamál og jafnvel vinir taka við og lífið fær nýjan tilgang, alla vega hjá sumum.  Sjálfstraust okkar minnkar í flestum tilfellum þegar við gerum mistökin og rekum okkur á en við byggjum það upp aftur og það verður sterkara en ella.

Til eru þeir sem festast í vonbrigðunum, eigin sársauka og mótlæti.  Þeir einblína eingöngu á það sem miður fór, skilja lítt í ranglæti heimsins og spyrja í sífellu "af hverju ég, hvað gerði ég"? Þeim tekst etv. smátt og smátt að koma sér upp úr þessu fari og líta á tilveruna bjartari augum eftir því sem frá líður. Sumum tekst það ekki, festast í eigin volæði, sjá allt svart.  Eru hræddir og óöryggir, þora ekki að takast á við ný verkefni og markmið en eru engu að síður ósáttir við núverandi stöðu og líðan. Auðvelt getur verið að hafa áhrif á slíka einstaklinga, móta skoðanir þeirra og hugsanir enda stefnan óljós og markmiðin óskýr. Fyrr en varir verða þeir stefnulausir, áttavilltir, vita ekki í hvorn fótinn á að stíga, verða háðir öðrum og sjálfstraustið brotið.  Þroskinn staðnar og framþróun verður lítil, ef einhver.

Þegar við lendum í áföllum, göngum við í gegnum sorgarferlið í einhverri mynd, mismikið og mishratt. Reynslan og þroskinn auðvelda okkur oft ferlið og við komumst í gegnum það með góðra manna hjálp. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við og vinna út frá þeim. Það er enginn sem segir að við eigum að ganga í gegnum slíka reynslu ein þó sumir kjósi það fremur. Fjölskyldan, vinir og fagfólk eru aðilar sem við getum leitað til sem geta veitt okkur stuðning og auðveldað okkur gönguna. Margir kostir eru þar í stöðunni sem vert er að hafa í huga.

Í öllu falli er það mín skoðun að í öllum vonbrigðum og mótlæti felast ákveðin ný tækifæri, við þurfum einungis að koma auga á þau og nýta okkur þau.  Það tekur okkur hins vegar mislangan tíma eins og gengur. Það að festast í þeim vonbrigðunum, sársauka og neikvæðu reynslu sem hendir okkur hverju sinni er það sama og að skrifa upp á stöðnun, skert sjálfstraust og óhamingju.  Lífið heldur nefnilega áfram, hvað sem tautar og raular en það er ekki endalaust . Það skiptir okkur máli að vera hamingjusöm og sátt við okkur sjálf.  Það er undir okkur sjálf komið að miklu leyti, það er háð því hvernig við kjósum að vinna úr mótlætinu og hvernig við viljum þroskast.  Hver sem skaðvaldurinn er hverju sinni, þá berum við sjálf ábygð á því hvernig framhaldið verður, a.m.k í flestum tilfellum. Það er ekki hægt að kenna öðrum um allt.

Það er svo annar handleggur hvað við getum lagt á sína nánustu þegar áföll og mótlæti steðja, það standa ekki allir undir því álagi.  Íhugunarefni sem ég þarf að greinilega að skoða betur.

 


Svefnpurka

Þá fór þessi dagur í það sama og í gær, svefnSleeping 

Ótrúlega erfitt að færa sig úr rúmi yfir í sófann til að halda áfram að sofa þar. Reif mig upp seinni partinn til að þrífa aðeins í kringum mig. Geri aðrir betur!  Ég er auðvitað alveg "mögnuð" kona og held að það sé leitun að annarri eins.  Það fara ekki margir í skóna mínaHalo

Var satt best að segja mjög glöð að sólin skyldi ekki heiðra okkur með nærveru sinni í dag, lmórallinn væri enn verri en hún er, hefði hún skinið.

Vona að batteríin séu full hlaðin eftir þessa helgina, orkueyðslan hjá mér var nánast engin enda aukakílóin farin að setjast á sína fyrri staði.

Spennandi vika framundan og Eiríksstaðahátíðin um helgina. Þýðir ekkert annað en að mæta.  Hitti Sigga Bö á miðvikudag þannig að boltinn fer að fara á fleygiferð. Veit ekki ennþá hvernig rannsóknaplanið verður en til stendur að skoða allt gaumgæfilega.  Er nokkuð viss um að allt komi vel út, verð trúlega skömmuð fyrir að hafa farið að vinna en þá er bara að taka því. Storka samt ekki örlögunum með því að vera of sigurviss og tek því sem höndum ber, hver sem niðurstaðan verður.Blush

 


Vinnudagur 1

Var komin upp um kl.06 og þá býsna hress. Heldur framlægri eftir því sem leið á daginn en fékk krakkana til að grilla undir kvöldið. Það var eins og við manninn mælt, gjörsamlega sprungin á því yfir fréttunum og slokknaði á mér líkt og kertaljósi. Ný skriðin úr sófanum, ekki í formi. GrrrrrrrrrrrrrrSick

Er nú satt best að segja ansi nærri því að gefast upp á sumarvinnunni, finn að ég þarf lengri tíma til endurhæfingar. Hef litið á vinnuna sem eins konar endurhæfingu en dagarnir of langir býst ég við. Líst ekki á þetta og tek því fremur illa.Devil Ætti kannski að athuga með styttri vinnudaga??? Úff, ég veit ekki. Hlutirnir virðast seint ætla að ganga snuðrulaust hjá mér eins og hjá venjulegu fólki.  Verð stundum þreytt á því.

Vissi svo sem að ég var að fara of snemma af stað en hvað gerir maður ekki þegar öll sund virðast lokuð? Ég reyni í það minnst að klóra í bakkann, mér er það eðlislægt og fellur það ekki vel að þurfa að gefast upp.  Best að sjá aðeins til, verð að sætta mig við að geta ekki nýtt mér góða veðrið á virkum dögum. Verst hvað erfitt er að einbeita sér að sjónvarpinu, það er ekkert spennandi í þvíCrying Poppið klikkar þó ekki. Sjáum til hvað morgudagurinn ber í skauti sér, einn dagur í einu og áfram pínulitlu skrefin. "Ég skal, get og vil" stendur einhvers staðar.......................


Hress og kát

Dauðfegin að hafa tekið ákvörðun um að sleppa ferðalögum um helgina. Vaknaði eldhress í morgun og verkjalaus. Loksins  Grin Nú fer þetta allt að koma, það er ég handviss um, þarf einungis að gæta mín og hvíla mig nóg.

Krakkarnir komnir heim, þutkeyrðir eftir hlöðuballið, gjörsamlega búnir á þvíBlush

Var að skoða fundagerðir sveitarstjórnar Dalabyggðar. Get ekki stillt mig um að brosa út í annað. Er reyndar hneyksluð. Formaður byggðaráðs víkur af fundi þegar fjallað er um málefni Hestamannafélagsins Glaðs enda stjórnarmaður og því báðum megin við borðið. Varamaður kemur í hans stað, veit ekki betur en að hann sé á kafi í hestamannafélaginu.  Til hvers voru menn að skipta út manni??   Whistling 

Ekki tók nú betur við þegar ég fletti betur, Dvalarheimilið Silfurtún sem sýnir hallarekstur ár eftir ár, komið undir stjórn byggðaráðs.  Bíddu nú við, er ekki formaður byggðaráðs jafnframt starfsmaður stofnunarinnar? Ég veit ekki betur en að í gildi séu samningar við hann sem lækni heimilisins. Hvað segja stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlögin við þessu?  Ég tek það djúpt í árina að flokka þetta undir misbeitingu valdsW00t  Ekki hefur þessi misbeiting valds bætt stöðu heimilisins enda spurning um færni þeirra sem halda um stjórnvölinn og hverra hagsmuna sé gætt. Formaður byggðaráðs fer alla vega með eins konar alræði á þeim vettvangi.

Svo virðist sem sumir sveitarstjórnarmenn hiki ekki við að notfæra sér aðstöðu sína og oft finnst manni eigin hagsmunir vera meira áberandi en hagsmunir sveitarfélagsins. Spilling heitir þetta á mannamáli.  Menn verða að fara vera gagnrýnni og fylgjast betur með. Ekki hefur ástandið lagast þó nýjir menn hafi tekið við, þvert á móti eru sveitarstjórnar- og stjórnsýslulögin teygð og toguð í allar áttir eftir hentugleikum hvers og eins.  Sé ekki betur en að það ástand sem menn gagnrýndu sem mest í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári, hafi tekið á sig ljótari mynd.  Mér finnst verðugt verkefni að skrifa bókina um "sveitarstjórnarlíf í Dölum" og rifja upp síðasta áratug eða svo,með megináherslu á síðustu 5 árinShocking


Nýtt blogg

Finnst hálf þreytandi að vinna með blogg.is og ætla því að prófa mig áfram á nýjum vettvangi.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband