Af hverju er ég ekki hissa?

Las í morgun þá frétt að gjaldtaka mun hækka hjá gigtveikum skjólstæðingum LSH og telur stofnunin sig fá um 4-5 milljónir á ári í tekjur af þeirri breytingu. Af hverju kemur þetta ekki á óvart?? Þetta er einungis byrjunin. Fleiri sjúklingahópar munu fylgja. 

Pétursnefndin er nú að störfum og ef að líkum lætur og miðað við fyrri yfirlýsingar Péturs Blöndals, þá verður  gjaldtaka skjólstæðinga með hina ýmsu sjúkdóma ,,réttlátari. Greiðsluþak skjólstæðinga er nú  21 þús á ári og eftir þá upphæð greiða þeir 50% af uppsettu verði þjónustunnar. NB! þá gildir það reyndar ekki um alla þjónustu. Suma þarf að greiða að fullu, t.d. þjónustu sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga o.fl.

Ekki man ég nákvæmlega krónutölur frá því í morgun en mig minnir að fyrir þjónustuna og sérfræðing þurfa gigtveikir að borga meira en 9.000 kr. fyrir hverja heimsókn þar til aflsáttarkortið tekur gildi og síðan 50% eftir það.  Kannski ekki himinháar upphæðir en þegar viðkomandi þarf að sækja þjónustuna oft, er fljótt að safnast upp. Í ofanálag bætist við sjúkraþjálfun, lyfjakostnaður o.s.frv. 

Í kjölfarið muni fleiri ,,sjúkdómahópar" fylgja og ef að líkum lætur verða sértekjur LSH sem og fleiri stofnana farnar að slaga upp í hallan sem hefur safnast síðustu ár. Sjúklingar hafa nefnilega ekki alltaf val, sum þjónusta er einungis veitt á viðkomandi stofnunum.  Það ríkir nefnilega í besta falli fákeppni í bransanum.

Fyrir aldraða og öryrkja, hjartveika, krabbameinsjúka o.fl. sem þurfa að sækja sína meðferð  jafnvel daglega eða vikulega þá verður þetta stór pakki. Fyrir þá sem lifa við hungurmörkin, eiga rétt fyrir húsnæði, hita og rafmagni og lyfjum, þá er þessi pakki ,,too much!". Hvernig má annað vera? Margföldunartöfluna kunna flestir og það eru 365 dagar á ári og 52 vikur eða hvað?

Einkavæðing hefur mjög verið í umræðunni seinni árin á þá ævinlega með þeim formerkjum að ríkið myndi kaupa þjónustuna af öðrum aðilum þannig að ríkið sæi hagræðingu í því fyrirkomulagi. Þeir stjórnmálaflokkar sem mest hafa mælt fyrir þessu breytta rekstrarfyrirkomulagi hafa sett það á oddinn að það fyrirkomulag myndi ekki þýða aukna gjaldtöku fyrir skjólstæðinga heilbrigðisþjónustunnar.  Hvað er að gerast nú og hefur í reynd verið að gerast smátt og smátt undanfarin ár? Jú, þátttaka sjúklings í gjaldtökunni hefur sífellt verið að aukast.  Það sem meira er; hún á eftir að aukast til muna, því miður. Það hefur verið yfirlýst stefna Péturs Blöndals í ljósvökunum um árabil. Íslendingar eiga næga peninga, þeir þurfa hins vegar að læra að spara. Hann telur það ,,sanngirni" að allir greiði fyrir veitta þjónustu. Það má satt vera en þá verða skattar að lækka og við að fá tækifæri til að spara fyrir heilbrigðisþjónustunni og kaupa okkur sjúkratryggingu. Í öllu falli að hafa val. Það vill svo til að það er ákveðin einokun í þjónustunni.

Mín spá er sú að afleiðingarnar verði þær að almenningur muni leita seinna og síður til  lækna vegna hinna ýmsu krankleika sem þýðir veikari einstaklingar sem koma inn í heilbrigðisþjónustuna og enn meiri kostnaður fyrir þjóðarskútuna þegar upp er staðið. Það þarf ekki að spyrja hvaða áhrif þessi þróun hefur á sjúklingana sem munu ,,þrauka lengur", vera þjáðari og hve lífsgæðin munu minnka. Hrakspá, ég veit en núverandi stefna er keimlík þeirri sem Bandaríkjamenn fóru eftir og geta ekki með neinu móti komið sér út úr, þrátt fyrir mikla viðleitni, hvort heldur sem það var Clinton stjórnin eða aðrir.

Íslensk stjórnvöld hafa ætíð verið iðin við að apa eftir kerfum annarra og helst að taka upp þau kerfi sem hafa algjörlega brugðist öðrum þjóðum. Á það bæði við mennta- og heilbrigðiskerfið.  Erum við svona treg eða telja ráðamenn að við getum breytt vatni í vín???W00t

4-5 milljónir á ári í sértekjur stofnunar sem veltir milljörðum á ári er ekki dropi í hafið. Gæti orðið það þegar búið er að taka alla sjúklingahópa fyrir og allir greiða í topp. Er um að ræða þrýstitæki af hálfu ráðamanna eða standast hrakspár um að áður en langt um líður verður íslenskt heilbrigðiskerfið eins og í BNA? 

 

 


Heilsufar iðnaðarráðherra o.fl.

Ekki laust við að ég sé farin að hafa áhyggjur af andlegri heilsu iðnaðarráðherra síðustu dagana. Ráðherran fer offari, bæði í skrifum sínum og í fjölmiðlum og eru ummælin slík að hver og einn hlýtur að staldra við og velta fyrir sér heilbrigði hans.W00t

Ráðherran hefur verið hamingjusamasti maður í heimi, að eigin sögn, brosandi út í eyru hvenær sem er og hvar sem er. Bloggar á næturnar og þá helst um samferðamenn sína sem hann skýtur fast á. Svo fast að það jaðrar við níði. Líkir Gísla Marteini við dautt hross sem allir munu beita svipu sinni á, svo dæmi sé nefnt. Í öllu falli hróplegt misræmi á milli hinnar miklu hamingju ráðherrans og innri hugsana um nánungan sem hann gefur lausan tauminn. Kannski hin mikla hamingja hans endurspegli nákvæmlega hans innri mann.

Í öllu falli minnir ráðherran mig á ungling á bullandi gelgjustigi sem er fullur af andúð og mótþróa gagnvart öllu og öllum. Hamast á ritvellinum, hæðir og spottar samferðarmenn sína með skáldlegu ívafi. Hann yrði örugglega góður rithöfundur, ætti kannski að snúa sér að þeim vettvangi. 

Það verður seint sagt að hógværð, siðprýði og kurteisi einkenni ráðherran Shocking

Hef verið innpökkuð í bómul í dag, ælupest í öllu sínu veldi þannig að afrakstur dagsins er rýr. Heldur að hressast, eins gott enda langur dagur á morgun. Veðurspáin ekki allt of spennandi en allt hefst þetta með varkárninni og þolinmæðinni.

 


Söknuður

Ekki laust við smá söknuð en það er að koma vor, tra, la, la

Gvöð hvað þau eru sætust

 

 

 

 Myndin tekin af systkinunum á ágúst í fyrraHeart

 

 

 

 

Hver veit hvað gerist með hækkandi sólWhistling


Samningar

Sé það eftir lestur Moggans í morgun að menn halda ekki vatni yfir nýgerðum kjarasamningum. Á það bæði við verkalýðsforystuna, Samtök atvinnulífsins og stjórnmálamenn. Meira að segja Valgerður Sverris og Guðjón Arnar eru ánægð. Ég er bókstaflega kjaftstoppShocking

Ég er búin að lesa helstu samingatriðin aftur og aftur yfir, með jákvæðu hugafari. En, sorry, ég sé ekki yfir hverju menn eru svona kampakátir. Vissulega má segja að í hluta af samningnum megi greina að  ákveðinu áfangamarkmiði sé náð, t.d.með hækkun persónuaflsláttar en hækkunin svo snautleg að hún nær trúlega ekki hefðbundinni vísitöluhækkun, hvað þá hækkun á neysluverði.

Í stutt máli finnst mér menn hafi samið af sér, samningarnir eru fyrst og fremst til að mæta kröfum Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar sem kallar eftir stöðugleika. Þó kostnaðurinn við samningana sé talinn nema um 20 milljarða þá hlýt ég að spyrja, líkt og aðrir, hvert er hlutfall lækkunar á fyrirtækjaskattinum af þeirri upphæð.

Ég fórna höndum ef þetta er það sem koma skal í komandi kjarasamningum minna stéttafélaga. Ef ég skoða laun hjúkrunarfræðinga sem dæmi þá er ljóst að við höfum dregist hrikalaega langt aftur úr öðrum stéttum auk þess sem launaviðmiðun er algjörlega á skjön við aðrar sambærilegar stéttir.  Sjúkraliðar með framhaldsmenntun í öldrun, sem er á framhaldsskólastigi, slaga upp í laun mín. Hef ég um 25 ára starfsreynslu auk framahldssnám á háskólastigi. Þeirra laun eru hærri en mín sem starfandi framhaldsskólakennari. Ég er með kennsluréttindanám á háskólastigi. Ég er ekki að segja að sjúkraliðar eigi sín laun ekki skilið en hvað hefur gerst í minni stétt? Eintaklingur með stúdentspróf sem fær starf í banka er með hærri grunnlaun en hjúkrunarrfræðingar eftir 4 ára háskólanám.  Það sama gildir þegar kennaralaun eru borin saman við umrætt nám á framhaldsskólastigi.

Sjálf tók ég  þátt í kjarasamningum fyrir 11 árum þar sem m.a. framvindukerfið var tekið upp. Það hefur aldrei skilað mér neinu. Þó hafði ég tröllatrú á því kerfi á sínum tíma.  Það hefur brugðist, ekki einungis innan minnar stéttar heldur og allra ríkisstarfsmanna.

Ef að líkum lætur, gefa nýgerðir kjarasamningar með aðkomu ríkisstjórnar, tóninn að þeim kjarasamningum sem framundan er. Ég sé enga ástæðu til bjartsýni, síður en svo. Kjarabætur ná ekki að vega upp á móti hækkun á neysluverði og vísitölu síðustu ára. Ef mín stétt á vel við að una, dugar ekki rúmlega 20% hækkun. Ég skil vel að tryggja þurfi stöðugleika í þjóðarbúskapnum en ef ég lít á stöðuna blákalt þá hefur hagnaður ríkissjóðs sjaldan verið meiri. Af hverju skyldi það vera? Tengist það etv. þeirri staðreynd að launum hefur verið haldið niðri í mörg ár og skattalækkanir ekki í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda árum saman. Skattleysismörk standa í raun í stað, ár eftir ár.

Það má kannski til sanns vegar færa að einhverjar félagslegar úrbætur felist í nýgerðum samningum. Launþegar hafa barsist fyrir þeim áratugum saman þannig að kannski má segja að smásigrarnir liggi þar. Þeir vega hins vegar ekki nógu þungt til að réttlæta þessa snautlegu samninga, að mínu mati.

Ég treysti því að forystan í mínum stéttarfélögum hafi allar klær úti og gefi ekki eftir í komandi kjarasamningum. Hjúkrunarfræðingar hafa t.d. barist fyrir því að 80% vaktavinna jafngildi 100% starfi allt frá því að ég man eftir í kringum 1980. Við höfum aldrei náð því markmiði á tæplega 30 árum. Við höfum ekki náð sama vaktarálagi og ófaglærðar stéttir í ummönnunargeiranum sem og sjúkraliðar. Grunnröðun er ekki í neinu samræmi við nám og ábyrgð.

Ég trúi ekki öðru en að mín stéttarfélög berjist fyrir betri samningum, kjarbaráttan verður hörð en ég er þess fullviss að flestir séu tilbúnir að leggja mikið á sig til að ná fram sanngjarnari kjörum og eðlilegu mati á störf okkar með réttmætu mati og verðmiða á þau. 

Þeir samningar sem nú liggja fyrir, fá falleinkun hjá mér. Ég á erfitt með að trúa því að stjórnarandstaðan sé ánægð með þá. Samfylkingin sýnir enn annan viðsnúninginn og er kampakát. Ekkert nýtt í stöðunni á þeim bæ.  Er ekki í lagi? Ég fæ hroll, bókstaflega W00t


Þung vika

Vikan búin að vera býsna þung. Erfiðar hugsanir og mikið álag. Ekkert sem á að koma mér á óvart, vissi af álaginu og öllum tilfinningapakkanum sem myndi gera vart við sig. Var þó svolítið hissa hvað þessi tími tók á. Maginn gaf sig formlega með miklum látum í nótt og í dag. Hlaut að koma að því hugsaði ég með mér þegar allt fór af stað í nótt. Einkennilegt hvað næturnar verða fyrir barðinu alltaf, hef einhvern tíman sagt þetta áður. Í öllu falli fór þessi dagur fyrir lítiðSickSleeping

Ég verð að viðurkenna að ég á langt í land í sorgarferlinu, heilmikil vinna eftir. Sjálfsásakanirnar verstar og nagandi óvissa. Íþyngjandi spurningar. Hefði ég getað afstýrt ósköpunum? Ég kem aldrei til með að fá að vita það. Mér finnst það vond tilfinning. Hef alltaf átt erfitt með að sætta mig við að fá ekki að vita allt sem mér finnst skipta máli.  Eftir á að hyggja veit ég ekki hvernig við fórum í gegnum ferlið í fyrra. Stuðningur systkina minna, fjölskyldna þeirra og vina fleytti okkur ansi langt. Trúlega hefur ákveðinn dofi verið til staðar fyrstu vikurnar eftir andlátið. Var auk þess að berjast í lyfjameðferðinni. Það er eins og sársaukinn sé meiri núna að mörgu leyti, ég sé allt ljóslifandi fyrir mér, allt rifjast upp. 

Hef tekið eftir því að daginn er farið að lengja, þvílíkur munur. Farið að birta um 9 leytið á morgnana. Vorið verður komið áður en maður veit af.  Ég hlakka ekki lítið til. Finn að það er kominn framkvæmdarhugur í mig. Langar að fara að þrífa, mála, breyta og brasa. Af nógu er að taka í þeim efnum. Svo ekki sé minnst á garðinn og lóðina. Listinn sem sé langur, mér á ekki eftir að leiðast. Tounge

Strax farin að hugsa um sumarið. Tryggvi, bloggvinur minn, hefur verið ötull að minna mig á hrossin mín. Auðvitað á ég að taka þau suður. Það yrði frábært ef það gengi upp að finna laus pláss fyrir þau.  Það hefur reyndar aðeins haldið aftur af mér að vera ekki búin að ákveða hvar ég vil búa. Mér gengur hægt að taka ákvörðun um þau málefni. Hef engan áhuga á höfðuborginni, vil vera í ,,sveitinni", í öllu falli nær náttúrunni og kyrrðinni. Hafa nóg pláss fyrir mig og hundana og geta hleypt þeim út, öðruvísi en í spotta. 

Allt tekur tíma og góðir hlutir gerast hægt, stendur einhvers staðar. Þó mér liggi á að framkvæma sem mest og ljúka sem flestu þá ætla ég ekki að flýta mér við ákvörðun um næstu skref í mínu lífi. Mér dugar að taka einn dag í einu í þeim efnum.  Finnst ótrúlegt að ég skuli hafa sloppið eins vel og raun ber vitni og er farin að leyfa mér að horfa fram í tíman og láta mig dreyma. Það hefur skipt sköpum að eiga góða að. Þar hef ég verið heppnari en margur.

Þeir standa okkur næst
sem skilja hvað lífið er okkur,
geta sett sig í okkar spor,
tengst okkur í sigrum og ósigrum,
og brjóta álög einmanaleikans.
(Henry Alonzo 

Horfi bjartsýn fram á veginn.  Eins og dóttir mín orðar það á heimasíðu sinni: lífið er eins skemmtilegt og þú vilt hafa það Wink

cat-smile


Týpískur dagur

Klassískur dagur fyrir Brazelíuna, byrjaði illa. Sofnaði fremur seint í gærkvöldi, vaknaði enn seinna í morgun. Hrökk upp með andfælum um kl. 08.30 í stað 06.15.  Mikill handargangur í öskjunni og ég auðvitað með hjartslátt í kokinu. Mætti 2 klst. of seint.  Dagurinn fór í að jafna sig, lagaðist heldur þegar ég var búin að kaupa súkkulaðimola og fá mér kaffi eftir hádegið.

Búin að vera í spreng með verkefnavinnu á nokkrum vígstöðvum, skilafrestur rann út í kvöld á einu og hefði þurft að vera í hópvinnu í kvöld. Aldrei náðist í mig til að mæta á vinnufund, gleymdi gemsanum í sloppvasa mínum. Klassískt. Ekki það að ég er á því að fundi eigi að boða til  með fyrirvara. Hef verið í basli með að koma umræddum hópi saman. Allt virðist þó vera að smella á síðustu metrunum, skilafrestur á föstudag þannig að það er ekki seinna að vænna.

Sé fram á bjartari tíð og jafnara álag á næstu vikum, búið að vera ansi skrautlegar vikur upp á síðkastið. Er greinilega farin að eldast, finn verulega fyrir fylgikvillum of mikils álags. Líður eins og 67 ára þessa dagana. Páskarnir verða notaðir í ,,chill" og fegurðarblunda. Engin spurning.

 

gömul kona

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vekjaraklukkan verður stillt á hæsta í fyrramálið! Bíð spennt eftir helginni, meira að segja laugardagskvöldinuBlush

 


12. febrúar

Dagur sem ég hef kviðið fyrir, dagur sem breytti öllu. Komið ár síðan að vonirnar um bjarta framtíðina brustu og allt varð svart um stund. Sársaukinn ekki minnkað mikið en ég hef reynt að horfa fram á við. Lífið heldur áfram þó ég hefði kosið að spóla til baka og setja það á ,,hold" 

Við áföll hefur maður tvo kosti, annað hvort að láta áfallið veikja sig og bíða ósigur eða að rísa upp og halda áfram í viðleiti til að byggja sig upp og ,,sigra". Við völdum síðari kostin, uppbyggingin mjakast áfra, tökum stundum nokkur skref afturá bak en oftast hænuskref áfram. Þessi dagur hafðist eins og allt annað.  Enn er spurningum ósvarað, ég veit að sum svörin fæ ég aldrei. Verð að lifa með því. 

 

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

 

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

útfararkross

 

 

 


Hetjurnar

Svolítið einkennilegt að kíkja á bloggið. Allar hetjurnar sem riðu á vaðið með bloggi sínu um sjúkdóma og líðan þeirra búnar að kveðja. Ekki laust við söknuð enda sterkir karekterar og bloggsamskiptin oft náin enda áttum við oft sameiginleg vandamál. Mér finnst ég svolítið ,,ein eftir"  og spyr mig oft; af hverju þær en ekki ég???? Er auðvitað fegin að fá að vera hér og alls ekki að kvarta en mér finnst lífið stundum óréttlátt eins og mörgum. 

Ekki það að ég hef eignast fjölmarga nýja bloggvini sem sannarlega hafa jákvæð áhrif á tilveruna. Ég fæ ótrúlega mikið út úr því að kíkja á síður þeirra og kemst yfirleitt í gott skap. Mér finnst gaman að lesa um ólíkar skoðanir og áherslur fólks, slíkt ýtir við manni og fær mann til að hugsa, endurmeta og stundum til að skipta um skoðun. Pólitíkin auðvitað í uppáhaldiWink Fyrir mig sem fer lítið út meðal fólks utan vinnu skiptir bloggið miklu máli. Það að geta kíkt á það hvar sem er, hvenær sem er eru forréttindi. 

Talandi um pólitíkina þá er ég búin að fá upp í kok af henni hér í Reykjavíkinni. Endalaus langavitleysa og augljóst að enginn ætlar sér að axla ábyrgð. Er farin að vona að nýji meirihlutinn haldi, einfaldlega til að koma einhverjum stöðugleika á borgarmálin. Hef nú samt grun um að ekki séu öll kurl komin til grafar ennþá.  Málin eru víðar í ólestri en í sveitinni, á því er enginn vafi.Whistling

Þessi vika verður væntanlega fljót að líða, stafli af verkefnum sem þarf ýmist að vinna eða fara yfir auk ýmislegs annars. Þarf ekki að kvarta yfir því að leiðast. Trúlega kemur til með að vanta eittherjar klukkustundir í sólahringinn. Er hálf feginn, erfiður tími. Á morgun er liðið ár síðan að Guðjón fór og satt best að segja rifna sárin upp og sársaukinn fer af stað á ný. Ég verð auðvitað að læra að lifa með missinum og sorginni. Mér finnst mér hafa tekist það nokkuð vel en sumir tímar eru erfiðari en aðrir. Svo einfalt er það. Veit þó að margur hefur það erfiðara en ég. 


Home alone

Orðin ein heima í kotinu með tíkurnar. Hafsteinn nýkominn til Debrecen eftir strangt ferðalag og allt gekk vel.

Hef setið við tölvuna meira og minna í allan dag að vinna upp gamlar syndir. Þurfti að sjálfsögðu minn þyrnirósasvefn eins og vera ber þannig að ekki er hægt að segja annað en að ég hafi hvílst vel þessa helgina.

Nú er að aðlagast breyttum aðstæðum á ný, setja stefnuna á Debrecen með vorinu. Þangað til hef ég myndirnar af ungunum mínum sem eru auðvitað langlottastir.

sætust systkynin

 

Katan og Haffinn á þjóðhátíð, hvar annars staðar!

 

 

 

 

 

 

Veit að tíminn verður fljótur að líðaWink

 


Enn og aftur brottför

Ungarnir mínir týnast úr hreiðrinu aftur smátt og smátt. Katan fór fyrir viku og eftir nokkra klukkutíma leggur Haffinn af stað. Sælan búin í bili. Búið að vera frábær tími sem hefur liðið allt of hratt. Við náðum ekki að gera það sem var á áætluninni, heimsóknir urðu af skornum skammti enda margt sem gerðist á örskömmum tíma. Við gerum bara betur næst, er hætt að stressa mig á því þó eitthvað verði að bíða. Veikindi hafa og sett nokkurt strik í reikninginn.

Er auðvitað pínu aum yfir því að missa krakkana út aftur en á móti kemur að ég er stolt af því sem þeir eru að gera og mjög sátt. Það verður tómlegt í kofanum, alla vega svona fyrst um sinn en ég hef meira en nóg að gera þannig að ég örvænti ekki. Mér mun ekki leiðast um of, nema á laugardagskvöldum. Þau eru einfaldlega ,,drep" leiðinleg.  Pinch

Mér finnst það forréttindi að fá að sjá krakkana þroskast og verða sjálfstæða einstaklinga sem geta staðið á eigin fótum. Eitt af markmiðum mínum síðasta árið hefur einmitt verið það að sjá að þau geti tekist á við verkefni lífsins án þess að vera endilega í skjóli mínu. Það að þau ,,vaxi" frá mér á meðan ég er enn hér, er takmark út af fyrir sig. Fyrir 18 mán. hugsaði ég ekki einu sinni út í svona mál, fannst sjálfsagt að ég yrði hér til eilífðarnóns, ekkert öðruvísi þankagangur en hjá öðrum. Nú veit ég betur, tími okkar er takmarkaður og það þarf að fara vel með hann. Ég er hins vegar ekkert á förum á næstunni, það er ekki það. Mér liggur hins vegar kannski meira á en mörgum öðrum, á eftir að gera ótal hluti.  Wizard

Kannski ætla ég mér of mikið, ég veit það ekki. Mér finnst það ekki. Forgangsröðunin er önnur, því er ekki að leyna. Eitt af því sem hefur breyst er það ég mér finnst algjör óþarfi að finna til og vera verkjuð.  Vil að mér líði vel á meðan ég er ofan jarðar og ég sé engan akk í því að harka eitthvað sérstaklega af mér. Ég hef líkt og aðrir Íslendingar harkað af mér í gegnum tíðina og mun gera það áfram á flestum sviðum. Ég ætla hins vegar ekki að vera með einhverja sjálfspíningarhvöt. 

Ég sé ekki heldur ástæðu til að dvelja við aðstæður sem ég er ekki sátt við né láta yfir mig ganga óviðeigandi framkomu.  Ég get alveg leitt hjá mér þá sem eru þreyttir, illa stemmdir og láta það bitna á öðrum, t.d. mér. Ég get líka valið að umgangast ekki slíka einstaklinga. Þeir hafa nefnilega alltaf ákveðin áhrif á mann og draga aðra niður með sér. Í ,,gamla lífinu" lét ég ansi margt yfir mig ganga og þraukaði lengur en heilbrigt var við aðstæður sem ekki er mönnum bjóðandi. Í ,,nýja lífi" mínu eru áherslubreytingar hvað þetta varðar. Er hins vegar ekki enn búin að ákveða hvert ég stefni, er enn að læra á kompásinn og gengur það ágætlega.Undecided

Heilsan er svona upp og niður. Gærdagurinn var reyndar einn sá besti um all langt skeið, þrátt fyrir týpíska verkjanótt. Þessi dagur hins vegar síðri. Ég má reikna með að þurfa að vinna uppsagnarfrestinn sem óhjákvæmilega fylgir uppsögninni á veikindapakkanum. Í raun  hef ég sagt veikindum stríð á hendur. Er reyndar ekki enn búin að kaupa mér kort á líkamsræktarstöð eða í jóga.  Blómafrævlarnir ekki enn komnir inn í hús en allt er þetta í vinnslu og stendur til bóta.

Þorrablótinu fyrir vestan var frestað vegna veðurs og var ég fegin. Bæði út af veðurspá, brottör Haffa og ekki síst vegna tímasetningarinnar sem var óheppileg að mörgu leyti. Stutt í dánardægur Guðjóns og erfiður tími framundan. Sárin rifna upp.

Vona að Haffinn fái sæmilegt ferðaveður, ekki lítur það vel út hér á landi, flughálka á Reykjanesbrautinni og farþegar hafa þurft að kúldrast inni í vél í fleiri klukkutíma.  Ég yrði laglega biluð ef það kæmi fyrir mig. Næ varla andanum á meðan vélin er á lofti sérstaklega ef loftræstingin er af skornum skammti. Hvað þá ef vélin er kyrrstæð og búið að drepa á öllum hreyflum.  Það yrði tilefni til að ræsa út NeyðarlínunaSick Í öllu falli er flugið hans Haffa enn á áætlun og vonandi kemst hann á réttum tíma. Hefur þó nokkurn tíma til að hlaupa upp á í Köben, biðin þar 8-9 klst. þannig að það er ekki hundrað í hættunni þó fluginu seinki eitthvað.

Sjáum hvað setur, í öllu falli kominn tími á ræs, Haffi lagði sig í 1-2 klst. ég þorði ekki að sofna enda erfitt að vekja mig eftir stuttan svefn. Ég bæti mér það upp á morgun, á því er enginn vafiWink Hef meiri áhyggjur af Haffanum sem á framundan sólahringsferðalagW00t


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband