Áskorun til allra

Birti hér með áskorun frá Hólmdísi bloggvinkonu og tek heilshugar undir með henni:

,,Sameinumst um aðgerðir til að lækka matarverð. Sjá blogg mitt ;uppreisn;. Það eina sem við þurfum að gera er að mæta ekki í ákveðnar verslanir á tilteknum tímabilum. Þetta verða þögul mótmæli en skír skilaboð. Kynnið þessar hugmyndir sem víðast. Ég trúi því staðfastlega að við getum haft áhrif með því að mynda nægilega stóra hreyfingu. Annars góðan sunnudag."

 

Sjá nánar: http://holmdish.blog.is/blog/holmdish/

 

 Nú verður þjóðin að standa saman, engin spurningWizard

 


Nýtt hlutverk

Nú er ég að máta nýja hlutverkið mitt sem felst í að gera nákvæmlega ekkert. Einstaka pallapúl á milli hæða og hopp í minn hjartfólgna sófa. Eins gott að ég var búin að skipta þeim hvíta út, hann var búinn eftir veikindin í fyrra. Djúp dæld í honum og hið svokallaða ekta leður búið á slitflötum eftir botninn minn. Núverandi sófi er svartur sem er mikill kostur og mér sýnist slitfletir ætla að þola skrokkinn minn, ennþá.

Sigrún systir kom eins og hvítur stormsveipur í dag, í orðsins fyllstu merkingu. Á þessa líka forlátu vél; ,,Rainbow" og djöflaðist um á öllum þremur hæðum í leit af ryki, skít og hundahárum.  Fékk nóg að gera, margfyllti vélina og aldrei séð annað eins. Aðallega hár og ló. Blessunin mín hún Perla og læðan hún Ísafold Katrínardætur, fara óstjórnlega úr hárum með skelfilegum afleiðingum. Nema hvað að nú get ég dregið mig upp á rassinum upp stigan án þess að verða kafloðin á botninum.  Á takmarkað magn af pokabuxum til að klæðast í og þvottavélin uppi á 3. hæð þannig að ég sé fram á bjartari tíma í þeim efnum og betra loft. Pokabuxurnar allar svartar þannig að ekki þarf að spyrja að útlitinu á þeim eftir pallapúlið mitt. En Sigga mín, ástarþakkir fyrir migHeart

Ég varð náttúrlega svo dauðþreytt við að gera ekkert nema að fylgjast með systur að ég varð að leggja mig smá eftir að þrekvirkinu var lokið. Bara búin á því. Hef í raun nákvæmlega ekkert úthald, sit við tölvuna örstutta stund og verð síðan að skakklappast af stað þar sem mér tekst að safna ógrynni af bjúg á fótinn og þreytuverki. Endalaust þreytt, þreytt og þreytt. Er farin að halda að ég hafi lækkað meira í blóði en þegar mældist um daginn þegar magasárið var að angra mig. Ekki ólíklegt. Spurning hvort maður ætti að voga sér að hringja á blessaða deildina til að fá niðurstöður, forvitnast og leita skýringa. Var orðin lág í járnbúskap o.fl. fyrir.  

Senn liðin vika frá óhappinu, rúmar 2 vikur  þangað til ég fer í saumatöku og tékk. Hefði átt að mæta eftir 2 vikur en ekki 3 en sérfræðingurinn í fríi og best að hann fylgi mér eftir. Eiturklár nánungi er mér sagt, ég sá hann aldrei. Reyni að taka einn dag í einu núna, finnst skelfileg tilhugsun að hanga hér innandyra næstu vikurnar og geta ekki unnið almennilega. Hef næg verkefni en þarf að finna leið til að sitja lengur við. Gipsumbúirnar örugglega mörg kíló.

Viðurkenni að þetta nýja hlutverk er með því leiðinlegra sem ég hef tekist á hendur um ævina. Þarf heldur betur að passa mig á því að pompa ekki niður andlega. Finnst svakaleg reynsla að vera háð öðrum, fékk reyndar smjörþefinn af því þegar ég barðist við veikindin í fyrra og þurfti að stóla á Kötuna mína. Sem betur fer er ástandið ekki eins slæmt núna og allt annars eðlis. Tíminn á eftir að fljúga áfram og fyrr en varir fæ ég að stíga smá í fótinn og verð þá meira sjálfbjarga. Þangað til verð ég að sætta mig við skert úthald, sófan, sjónvarpsgláp og poppát. Setja upp sólgleraugu þegar sólin skín og muna að það kemur vor eftir þetta vor. Ég lifi þetta af eins og annað.Cool

Mér sýnist af nægu að taka þegar kemur að pólitíkinni. Einset mér það að vera vakandi yfir fréttunum á næstunni. Mér sýnist fjör vera að færast í leikinn 


Þróun heilbrigðisþjónustunnar

Hef verið þungt hugsi síðustu dagana eftir nýjustu reynslu mína af heilbrigðiskerfinu og þjónustu þeirri sem boðið er upp á í okkar hátæknisjúkrahúsi; LSH. Hafði ýmislegt um þau mál að segja þegar ég gekk í gegnum skurðaðgerðina og síðar lyfjameðferðina.  Nokkuð hefur bæst við síðan þá.

Ég hnaut um þá frétt í einhverju dagblaðanna um daginn að nú væri svo komið að ráða þyrfti leikara inn á LSH til að tryggja að þeir nemar sem stunda sitt verk-og starfsnám fái viðeigandi kennslu. Þeir sjúklingar sem þangað koma eru ýmist útskrifaðir það hratt heim að ekkert svigrúm gefst til kennslu eða að þeir hreinlega fá ekki inni á hátæknisjúkrahúsinu. Fara í sínar aðgerðir og meferð stofum úti í bæ, utan sjúkahúsa. Afleiðingin getur aldrei verið önnur en sú að dýrmæt þekking og reynsla tapast og það heilbrigðisstarfsfólk sem starfar innan stofnana í dag  er ekki í stakk búið að veita viðeigandi mefðerð, hjúkrun og aðra þjónustu. Fáir eftir af reyndum starfsmönum með þá þekkigu og reynslu og tækifæri einfaldlega ekki til staðar til að viðhalda færninni. 

Hvort heldur sem þessi frétt hafi verið sönn eður ei þá finnst mér hún geta staðist, ekki síst eftir  síðustu uppákomu mína.

Ég mætti á slysa-og bráðamóttökuna í Fossvoginum um kl. 17.30 sl. þriðjudag. Hafði sem sé dottið og lent með hægri fót undir mér auk þess að slá honum utan í eldhúsinnréttinguna. Mér var það strax ljóst í upphafi að trúlega væri ég brotin og taldi ég sköflunginn hafa farið í sundur. Vonaði innilega að einungis væri um að ræða mikið mar inn í vöðvan en eftir að hafa beðið af mér versta sársaukan ákvað ég að ég þyrfti líklega að láta kíkja á þetta, því miður. Sá sæng mína útbreidda. Hugleiddi um stund að hringja í 112 en þar sem ég þyrfti hvort eð er að gera ráðstafanir með tíkurnar, skríða niður stigan og opna, fannst mér eins gott að hringja á leigubíl. Ekki eins dramatísk. Hafði mg út, hoppandi á annarri löppinni og með aðstoð bílstjórans. Bað hann um að redda mér stól þegar í Fossvoginn var komið enda treysti ég mér ekki til að hoppa meira, eitthvað dinglaði svakalega í fætinum við hvert hopp. 

Ung stúlka skráði mig, móttökuritari minnir mig að hún hafi kynnt sig. Skráningin tók um 10 mín, helsta áhyggjuefnið var að ég var skráð á heilsugæslunni á Akranesi en með búsetu hér. Mikið tafs og vesen. Á endanum sagði ég, heyrðu mín kæra, ég er nokkuð viss um að ég sé brotin, í öllu falli er ég með það mikla verki; er löng bið? Horfði í kringum mig, við vorum 8 einstaklingar að bíða. Nei, einhver bið en vissi ekki hve löng.

Í stuttu máli, beið ég í þessum hjólastól í rúmar 3 klst. Gat lítið hreyft mig, best að láta fótinn hanga. Fékk skýringu löngu síðar, hnéð var úr lið.  Þegar ég var loks kölluð inn, var ekki laust við að tárin streymdu, ég var bókstaflega að drepast í fætinum. Lenti í flöskuháls 2 og áður en hj.fr. yfirgaf mig, sagðist ég varla geta harkað af mér öllu lengur. Ég fékk 2 verkjatöflur. Við tók bið eftir að fá lækni til að líta á mig, síðan að fá  uppáskrifaða röntgen beiðni, og síðan önnur bið eftir ,,sendli" sem átti að keyra mig í röntgen. Gott og vel, var komin þangað upp úr kl. 21.30, hafðist með hörmungum og tilheyrandi óhljóðum að leggja fót og hné þannig að ég væri myndafær. Verkjatöflurnar höfðu auðvitað ekkert að segja. En mikið var ég dugleg, kepptust geislafræðingarnir að segja við mig.Smile

Flöskuháls 3 tók við, var parkerað við hornið á gipsherberginu, heyrði útundan mér að bæklunarlæknirinn á vaktinni væri í aðgerð. Bið til kl. 23. W00t Ég vissi hvað þetta þýddi.  Ok, nú fékk mín nóg, kallaði á næsta hjúkrunarfræðing og bað um svör. Um kl. 22.30 var mér ljóst að hnéð var úr lið, liðbönd slitin, liðfletirnir í smalli  og sköflungurinn mölbrotin. Spurning um aðgerð þá um nóttina eða einhvern tíman á morgun. Það þyrfti að negla. Ég vældi, var verkjuð og bað um verkjastillingu. Í stað hennar freistuðust 4 hj.fr. til að stinga mig og ná blóðsýni, alls 8 stungur, hafðist í þeirri síðustu. Þær væru ekki vanar að gefast upp og kalla á lækni, þetta skyldi hafast. Varnirnar brostnar, ég búin að hringja til Keflavíkur og biðja um aðstoð. Hringdi auk þess í krakkana, ekkert aprílgabb, því miður.

Næsta skrefið var að fara í sneiðmynd, þurfti að kortleggja brotið betur m.t.t aðgerðar. Ok, hugsaði ég með mér, nú hlýt ég að fá eitthvað almennilegt við bév. verkjunum. Nei, í sneiðina fór ég, verkjuð. Niður aftur og skömmu síðar mætti svæfingin. Klukkan orðin 23 og stefnt að aðgerð hið fyrsta. Var dauðfegin, þá tæki þetta fyrr af. Náði að stynja upp fyrri sjúkdómssögu. Ekki spennandi að svæfa mig. Henst með mig í Röntgen mynd af lungum, enn lítt hreyfanleg og nánast grenjandi. Þetta hafðist. Mænudeyfing sett á planið og ég bókstaflega ,,terrified". Gat ekki hugsað mér að vera vakandi en vá, hvað þýddi að væla yfir því, skynsamlegasti kosturinn í stöðunni.

Á slaginu 23.30 var ég sótt til að rúlla mér upp á skurðstofu, fékk þá loksins 2 mg af Morfíni í æð, náði þannig að hálfsitja á bekknum á leiðinni, enn með hljóðum. Úps, það gleymdist að setja á mig þrýstingsumbúði, datt upp úr einum hj.fr. Hef sjaldan verið jafn fegin og þegar ég mætti svæfinga- og skurðstofu teyminu, verjastillt med det samme, vá ég sveif. Gat lagst út af og það sem meira var, ég treysti þessu fólki fullkomnlega. 

Man svo sem ósköp lítið eftir aðgerðinni, hlutaði á menn spjalla og bölva þessu broti, það var slæmt eins og þegar lá fyrir. Svæfinga-og skurðstofuteymið vann fumlaust, sýndi mikla hlýju og  nærgætni. Allt var eins og best var á kosið. Þegar henni lauk, lenti ég á vöknun, gekk illa að verkjastilla mig þannig að ég mátti dúsa þar um nóttina. Eins gott því þar mátti fólk vera að því að sinna manni. Mér var hins vegar lífsins ómögulegt að liggja endalaust, bað um að fá að sitja í stól smá stund. Nei, það var ekki hægt, sjúkraþjálfari yrði að taka mig fram ú.  Slíkt væri ekki í verkahring hj.fr. Úff, gott og vel, þetta hlyti að reddast þegar ég kæmi niður á deild. En þar fékk ég þau svör að enginn tími væri til að sinna mér fyrr en morgunvaktin mætti, allt á fullu, ég yrði að bíða. Ég mátti þess vegna pissa í rúmið. Í koppinn gat ég alls ekki pissað þrátt fyrir mikla viðleitni.

Þegar hér var komið við sögu, sprakk mín á því. Ítrekaði beiðni um að fá að fara í stól á eigin ábyrgð, ég þyrfti á W.C og hringja í krakkana sem engar upplýsingar fengu um mömmu sína, þrátt fyrir að hringja að utan. Ég skyldi bjarga mér sjálf, þyrfti aðstoð við vökvan sem ég var með og fá eitt stykki hjólastól. Ég fékk synjun. 

Ekkert annað að gera í stöðunni en að bjarga sér sjálf sem og ég gerði. Losaði mig sjálf við vökvan, hoppaði fram á gang og fann þar hjólastól. Fór í peysu enda skítkalt, lagði af stað til minna erinda og var þá kallað á eftir mér; ,,þú gleymdir dótinu þínu". Greinilegt að starfsfólk er vant því að sjúklingar útskrifi sig sjálfir. Ég var hins vegar ekki á heimleið - ekki strax. 

Það þarf náttúrlega ekki að spyrja hvernig viðhorf starfsmanna var eftir þetta. Ég var a.m.k. ekki talin í þörf fyrir aðhlynningu eða aðstoð við persónulegt hreinlæti,  úrræði vegna ógleði og blóþrýstingsfalls eftir mænudeyfinguna, verkjastillingu þrátt fyrir erfiða nótt né nokkuð annað. Helst ekki yrt á frúnna. Ég var ábyggilega ,,erfiður sjúklingur" og bölvuð frekja. Held því að ég hafi ekki verið síður kát þegar kom að útskrift ca 10 tímum eftir aðgerð. 

Útskrifuð með 2 hækjur sem ég þurfti að kaupa, lyfseðil upp á parkódín og endurkomu tíma eftir 3 vikur.  Bannað að stíga í fót næstu 6 vikurnar, engin gigtarlyf til að halda mér gangandi á hækjunum. Aldrei spurð út í aðstæður heima fyrir, bjargráð, stuðning, o.s.frv. Bý ein á 3 hæðum, get hafst við á miðhæðinni. 13 þrep í hvorum stiga og W.C á 1. og 3 hæð. 

Þarna fór margt úrskeiðis. Þrisvar mátti ég endursendast upp hæðir til að fara í myndgreiningarannsóknir sem allar voru staðsettar á sömu hæðinni. Þrýstingsumbúðir sem hefðu haldið við liðinn, gleymdust, verkjastilling var ekki á dagskrá. Slösuð dýr fá skilvirkari meðferð, það þekki ég af eigin raun. Börn mín fengu engar upplýsingar, aðrar en þær sem ég gat veitt þeim. 

Áherslur hjúkrunar hafa breyst gríðalega  frá því sem var, get eiginlega ekki sagt að ég hafi orðið vör við neina hjúkrun á slysamóttöku eða legudeild. Aðstæður mínar komu engum við, ég þarf að kanna bjargráð sjálf. Get sótt um á Rauðakross hótelinu en þar er langur biðlisti. Á ekki rétt á hjálpartækjum heima þar sem ég er einugis fótbrotin. Á etv. rétt á heimilishjálp en það kemur í ljós eftir helgi. Ef það gengur upp, þarf ég ekki að þrífa mest sjálf.

Til að komast klakklaust í gegnum slíka ummönnun kallar á sterk bein. Það þýðir ekki fyrir hundveikt fólk að ætla sér að komast í gegnum slíkar hrakfarir óskaddað. Eitthvað stórkostlegt er að innan LSH, svo djúpstæður er vandinn að að starfsmenn margir hverjir hafa gleymt því af hverju þeir völdu þessi störf; hjúkrun og ummönnun. Sjúklingurinn er ,,álag", enginn tími til að sinna honum, helst að losna við hann sem fyrst. Innan og saman um liggja aldraðir sjúklingar sem geta ekki verið einir heima en löngu búnir að fá þá meðferð sem hátæknisjúkrahúsið getur veitt þeim. Þeir liggja þarna mánuðum saman, sagði ein gömul kona mér sem ekki treysti sér heim. ,,Við höfum ekki tíma" klingdi hvað eftir annað í eyru mér og tel ég mig nokkuð sjálfbjarga fyrir. Bið ekki oft um aðstoð, einungis í neyð.  Ekki allir standa svo vel að vígi og eiga þeir samúð mína alla.

Ég ætla svo sem ekki að fullyrða að svona sé málum komið innan allra deilda LSH en á sumum þeirra er ástandið greinilega óviðunandi og réttur sjúklingsins fótum troðinn. Það sem ég tel brýnast í erfiðri stöðu er að setja á fót embætti talsmanns sjúklinga og innleiða strangt gæðaeftirlit þar sem starfsemi og þjónustan er tekin út reglulega af hlutlausum aðilum. Miðað við það ástand sem ég upplifiði, er ljóst að einhverjir stjórnendur og slæður þyrftu að fjúka.

Kannski eina leiðin verði sú að einkavæða allt batteríið til að tryggja samkeppni og þar með viðunandi þjónustu. Eins og staðan er í dag, fær LSH falleinkunn hjá mér, það ætti að loka búllunni á meðan endurbætur fara fram. Svonefnd kragasjúkrahús sinna sínum skjólstæðíngum enn á mannsæmandi hátt. Þangað mætti leita í auknum mæli.

Ég er alla vega dauðfegin að vera komin heim, stend við það að inn á LSH fer ég ekki með meðvitund á við óbreytt ástand. Ef fram fer sem horfir, verða engir sjúklingar til að leggjast inn á LSH og áður en langt um líður, fást leikarar ekki heldur til þess að vera æfingadúkkur fyrir þá sem eiga að vera í starfs- og verkámi.

Hvernig mér gengur svo að höndla næstu vikur, verður að koma í ljós en ég held að mér sé óhætt að fullyrða að þar sem ég komst í gegnum þessa reynslu, kemst ég í gegnum allt. 

 

 


Rólegt

Allt rólegt á vígstöðvunum og engin frekari óhöpp (ennþá) W00t

Geri ekkert annað en að hafa það yfirmáta náðugt eins og vera ber.

latur köttur

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Sniglast í tölvuna af og til, ekkert að mér í hausnum eða höndum en fer mér hægt enda nægur tími

lazy worker

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á móti kemur náttúrlega að eitthvað safnast uppworkaholic1

 

 

 

 

 

 

 

 Hins vegar er enginn er ómissandiW00t

Hef notið fullrar þjónustu, Heiðrún færði minni dýrindis mat í gærkvöldi. Er auðvitað búin að finna mér leið til að draga úr stigaferðum, hendi lyklum bara niður gluggan þegar einhver þarf að komast inn. Hámark letinnar en það er auðvelt að venjast góðu, var að spá í að sækja um enn meiri lúxus, fengi ég einn slíkan, þarf ég ekkert að gera

lyftari


Tvisvar verður gamall maður barn

Þetta máltæki kemur upp í huga mér þessa dagana og á svo sannarlega vel við. 

Fyrst er það stiginn

skriðið upp stigan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Næst er að læra á hækjurnar

Á hækjum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Valið stendur svo á milli:

barnagöngugrind

 

 

 

 

 

eða:

nurmi_neo göngugrind

 

 

 

 

 

 

 

 

Best væri nú samt að vera með vængi, þá kemst ég allra ferða minna:

Winged Elegance_thumb

 

 

 

 

 

 

 

 

En græði pottþétt flotta vöðva:

vöðvastælt


,,Aldrei að segja aldrei"

Var illþyrmilega minnt á þessi orð í gær. Hef lýst því fjálglega að á slysa- og bráðamóttköku LSH færi ég ekki nema meðvitundarlítil og á börum. Neyddist sem sé til að éta þau orð ofan í mig í gær.

Ég fékk nefnilega þá ranghugmynd að nú væri komið vor og að gluggar skyldu þrifnir enda ekki vanþörf á. Var auk þess með gardínur fyirr annan eldhúsgluggan tilbúnar sem átti eftir að hengja upp þannig að ég réðst í hörkuframkvæmdir um kaffileytið í gær. Ég er náttúrlega ekki þekkt fyrir annað en brussuskap og ótrúlega lífseiga óheillastjörnu og klikkaði ekkert á því fremur en endranær.

Flaug á hausinn, mölbraut á mér hægri fótlegg og hnjáliðurinn í mask.Öll liðbönd slitin. Neyddist þ.a.l. að skríða niður stigan hjá mér og koma mér upp á slysó með taxa þar sem við tók maraþon bið, að vanda, frá kl. 17.30. Reyndist auðvitað ekki í forgangi, verkjastillt kl. 23.30 þegar mér var trillað upp á skurðstofu. Hímdi eins og hver annar aumingji á biðstofunni til kl. 20.30, tókst að næla mér í hjólastól sem bókstaflega bjargaði lífi mínu. Gekk illa að hoppa á öðrum fæti. Hálsbólgur og eyrnarbólgur í forgangi á því heimilinu en eitthvað slæddist sjúkrabíll af og til á móttökuna.

Brotið neglt í nótt sem sé,  og því tjaslað saman sem hægt var að tjasla. Var rækilega minnt á að ég er ekki tvítug lengur. Ekki þýddi að svæfa þá gömlu, fór í mænudeyfingu og fékk í alla staði frábæra þjónustu og ummönnun á skurðstofunni. Og það sem meira var, ég var verkjastillt enda ekki nokkur lífisins leið að hreyfa bév löppina til eins eða neins.

Reynsla mín og upplifun á slysó og legudeild efni í heila bók. ,,Mátti vera í sólahring" ef ég vildi en fljót að pilla mér heim hið snarasta um leið og ástand leyfði. Meira um það síðar.

Hoppa sem sé á hækjum, stíg ekki í fótinn næstu vikurnar og í gipsi upp í nára. Háð öðrum með allar bjargir,hef notið þvílíkrar aðstoðar Söru, systurdóttur minnar og Gunnars Brynjólfs. Næ að koma mér niður stigana á hækjunum en rög við að hoppa upp þannig að mín skríður á rassinum eins og lítið barn. Er haldin þeirri þráhyggju að ég muni detta.

Bölva mikið að búa á 3 hæðum en þetta kemur til með að blessast. Tíkurnar keyrðar akút vestur í Borganes þar sem Lóa tók á móti þeim og fór með vestur. Þar verðar þær um stundarsakir, alla vega. Ekki veit ég hvar ég væri ef þeirra nyti ekki við. Ég er enn og aftur minnt á hvað ég á góða að.

Erfitt fyrir krakkana að halda sér við námið, vildu auðvitað koma beint heim en þetta er nú ekki hundrað í hættunni, brot er ekki alvarlegur sjúkdómur og grær.  Verð komin með massíva upphandleggsvöðva áður en langt um líður, löngu orðið tímabært að fara í einhverja líkamsrækt. Get ekki hugsað mér að krakkarnir fari að missa úr skóla til þess eins að þjóna mér. Námið of strembið til að þau geti leyft sér að missa úr. Þetta gæti verið verra, eins gott að aðsvif var ekki ástæðan fyrir fallinu, þá hefði maður verið að kljást við allt annað.

Maður á sem sé ,,aldrei að segja aldrei" og ég neyðist til að éta fyrri orð mín ofan í mig. Var reynda bent á að ég hefði fengið skjótari þjónustu ef ég hefði hringt í 112. Sjálfsbjargarviðleitnin borgar sig alla vega ekki í þessum efnum. En satt best að segja þá held að ég muni láta fyrri orð standa og fari ekki með öðrum hætti í gegnum slysa- og bráðamóttöku LSH en á börum, jafnvel þó ég verði einungis með litla skrámu. Það er eitthvað stórkostlegt að kerfinu á þeim bænum, svo mikið að að starfsólk virðist vera búið að fá nóg og gefast upp. Það hefur hins vegar lítið upp á sig að skjóta sendiboðan, vandinn er djúpstæðari en svo. Meira um það síðar en réttur fótur var alla vega negldur.Shocking

Eldhúsgardínurnar fóru upp, mitt fyrsta verk að ljúka því þegar heim var komið.  Rosalega gott að vera komin heim í heiðardalinn. Búin að uppgötva áður óþekkta vöðva, nú verður tekið á því Cool

Þigg það hins vegar að losna undan eilífðaróheillastjörnunniWhistling

 

 


Er botinum náð?

Geir Haarde virðist telja að botninum sér náð í efnahagsmálum þjóðarinnar. Krónan styrktist í dag og hlutabréf hækkuðu. Ég er einhvern veginn efins um að hann hafi rétt fyrir sér, sá ágæti maður. Verður hins vegar að blása í brjóst Íslendinga á erfiðum tímum.

Margt hefur flogið í gegnum huga mér síðustu dagana, einkum um stöðu bankana. Minnug þess þegar Búaðarbankinn og Landsbankinn voru ríkisbankar. Seldir á slikk fyrir nokkrum árum og hver er staða þeirra í dag? Verðmæti þeirra margfaldast, veltan skiptir hundruðum milljarða á ári enda að fjárfesta á alþjóðlegum vettvangi, bak og fyrir. Einungis brotabrot af þeirra tekjum koma til vegna innlendra viðskipta við landan sem bjóðast reyndar ekki sömu kjör og erlendir viðskiptavinir. Ný auðmannsstétt hefur bólgnað út, stjarnfræðileg mánaðarlaun stjórnenda, laun fyrir stjórnarsetu skiptir hudruðum þúsunda og almennir starfsmenn mjög vel launaðir. Bankastarfsmaður með stúdentspróf með hærri laun en hjúkrunarfræðingar, svo dæmi sé tekið. Velgengni bankanna hefur verið með ólíkindum og ekki laust við að ég sé sannfærð um að þjóðin eigi framúrskarandi fjárfesta innan sinna raða.

Íslensk fyrirtæki hafa mörg hver verið í sömu þróun, vöxtur þeirra lygasögu líkust, alþjóðavæðingin með ólíkindum.  Árangurinn ótrúlegur, veltan skiptir hundruðum milljarða á þeim vettvangi einnig. Mörg þeirra eru enn með höfuðstöðvar hér á landi en hafa flutt starfsemi sína að milku leyti enda rekstrarskilyrði þar hagstæðara. Framleiðslukostnaður lægri, stærðarhagkvæmni auðveldari o.s.frv. Sérfræðiþekking íslenskra starfsmanna ,,flutt út" eins og hver önnur útflutningsvara. Þær upphæðir sem um er að ræða þegar kemur að tekjum og rekstri eru svo háar að flestir Íslendingar hafa einungis lesið um slíkar tölur í bókum. Mörg fyrirtækjanna orðnir risar á sínu sviði og með þeim stærstu í heimi. Íslensku fjárfestarnir og fyrirtækjaeigendur eru að fá tugi milljóna króna mánaðarlán.

Það sem ég velti fyrir mér er einfaldlega sú spurning; í hverju er velgengni íslenskra banka, fyrirtækja og fjárfesta fólgin? Ég á ekkert eitt svar við því en velti ýmsum möguleikum upp. Fyrir það fyrsta tel ég að við eigum mjög færa fjárfesta og viðskiptamenn meðal þjóðarinnar,ég held að enginn vafi leiki á því enda margir mjög vel menntaðir og með víðtæka reynslu erlendis frá og heima fyrir. Algjör sprengja hefur verið í þessari stétt.  En þessi skýring nægir ekki til að útskýra alla velgengnina. Því hlýt ég að velta fyrir mér rekstrarumhverfinu. Fyrirtækjaskattar eru einungis 18% og stefnir í að þeir lækki niður í 15%. Rekstrarkotnaður og vinnuafl er hins vegar dýr og markaðurinn er mjög lítill  þannig að bankar og fyrirtæki leita út fyrir landsteinana., Þar eru vaxtarmöguleikarnir, markaðir stærri og hagstæðara rekstrarumhverfi, ódýrara vinnuafl býst ég við o.s.frv.

Þó einungis brotabrot af hagnaði bankanna komi til vegna viðskipta innanlands eru vaxtakjör landans há þannig að bankarnir fá vel fyrir sinn snúð. Stjórnvöld hafa verið iðin við að styðja við bakið á þeim sem hafa farið í útrás með ýmsum hætti og jákvæðri kynningu. Allt hjálpast að enda viðskiptatengsl sem og önnur tengsl mjög dýrmæt. En skyldi þetta skýra velgengnina?

Samráð í einni eða annarri mynd hefur tíðkast lengi hér á landi, upp komst um samráð olíufélaganna en ég fæ ekki betur en að það standi enn yfir, sbr. Krónan og Bónus, olíufélögin, bankarnir o.s.frv. Nokkuð er á slíku samráði að græða, svo mikið er víst en skýrir það alla velgengnina? 

Það hefur vakið athygli mína lengi að íslensk fyrirtæki og bankarnir hafa í auknum mæli viljað  gera upp hagnað sinn í evrum. Bera fyrir sig þá ástæðu að stór hluti viðskipta fari fram í evrum og því sé eðlilegt að reksturinn sé það einnig. Þau hafa löngum þrýst á stjónrvöld að taka upp evruna sem gjaldmiðil, mörg þeirra hafa hótað því að flytja alla starfsemi sína úr landi, verði það ekki gert. 

Vangaveltur mínar tengjast óneitanlega þeirri stöðu sem nú er komin upp og stjórnvöld loks farin að tjá sig opinberlega um. Það að einhverjir séu með samantekin ráð um að gera atlögu að krónunni og skemmdaverk á fjárfestingum íslenskra fjárfesta er áhyggjuefni. Ekki síst þar sem sumir telji að innlendir aðilar komi þar að málum. 

Gæti það verið að menn ætli sér að þvinga hér upptöku evrunnar og inngöngu í ESB? Efnahgslegt umhverfi í landinu býður svo sannarlega upp á það.  Staðan er viðkvæm, verðlagshækkanir, minnkandi kaupmáttur og stefnir í óðaverðbólgu. Allir bankar hafa lokað á útlán til viðskiptavina eftir að hafa nánast gengið á menn úti á götu og boðið þeim lán á ,,hagstæðum" kjörum. Gæti það verið að einhverjir séu beinlínis og markvisst að skapa þessar aðstæður til að undirbúa jarðveginn fyrir nýjum gjaldmiðli og aðild að ESB? 

Ef  svo er, hverjir hagnast mest á þeim aðgerðum? Stórt er spurt en minna um svör. Hvað varðar aðild að ESB tel ég hana glapræði við núverandi skilyrði fyrir inngöngu. Við erum þegar í bullandi vandræðum vegna kvótans sem er á fárra manna höndum sem og skerðingar hans. Ég eiginlega skil ekki þessa ESB ástríðu Samfylkingarmanna og fleiri. Sjá menn ekki hverjar afleiðingarnar hafa verið hjá öðrum þjóðum? Dugar ekki að rýna í reynslu þeirra?  Hverjir hagnast á því að ganga inn í bandalagið?  

Það var ansi fróðlegt að fylgjast með umfjöllun sjónvarpsins um áhrif aðildar í ESB fyrir hinar ýmsu borgir í Bretlandi, sbr. Lowestoft sem er orðin draugaborg, allur kvóti farinn og menn fá hungurlús til að moða úr. Sjáum við ekki þessa þróun í dag í okkar sjávarbyggðum? SKyldi vera markvisst að skapa þær aðstæður? Aðlaga landan?

Finnskir bædur eru ekki allt of spenntir eftir reynslu sína innan ESB, bændum snarfækkað og kjörin versnað. Það má vera að margt jákvætt sé við aðild að bandalaginu fyrir íslenska þjóð en allt blaður um tafarlausa inngöngu er ábyrgðaleysi. Það þarf opna umræðu þar sem allir kostir og gallar eru settir fram og síðan á það að vera þjóðin sjálf sem kýs um það hvort við göngum inn í bandalagið eður ei.  Sú þjóðaratkvæðageiðsla á ekki að fara fram við núverandi aðstæður og því í raun ekkert að marka skoðanakannanir í þessum efnum. Forsendur liggja ekki til grundvallar. 

Þvingunaraðgerðir skila aldrei varanlegum árangri, hverjir sem eiga í hlut að máli. Reynist grunur margra um að ýmsir innlendir og erlendir aðilar séu að skapa skilyrði fyrir slíkum aðgðerðum til að koma landinu inn í bandalagið, getum við farið að tala opinberlega um mafíu hér á landi. Hverjir skyldu skipa þann hóp? Ninja


Verðlagshækkanir

Eins og við var að búast dynja verðlagshækkanir á landanum þessa dagana. Sumir taka forskot á sæluna og hækka gamlar birgðir í gríð og erg. Heyrist ekki hljóð úr horni frá Neytendasamtökunum né öðrum vegna þessa enda viðtekin venja að markaðurinn nýti sér aðstæður sem þessar. Landinn þekkir ekkert annað. Um leið og fregnir verðhækkun verður á eldsneyti úti í heimi berast hafa olíufélögin hækkað verðið á sínum ,,gömlu" birgðum, athugasemdalaust.

Ég get ekki sagt að ég sé undrandi á hækkun á verði til bænda, tel þá hækkun vera löngu tímabæra. Bændur hafa búið við óbreytt verð á sínum framleiðsluvörum um alllangt skeið enda verið krafa þjóðfélagsins að svo sé. Svo virðist sem það gleymist í umræðunni og við aðrar verðlagshækkanir að bændur þurfi að lifa af sinni vinnu, líkt og aðrir. Að reka lítil bú í dag, þýðir að bóndinn borgar með því og vinnur utan þess til að skrimta. 

13% hækkun á mjölkurvörum er því ekki mikil sé miðað við verðlagshækkanir á öðrum vörum en vissulega kemur sú hækkun við heimili landsins enda ekki í skrefum heldur í einu lagi. Öll aðföng bænda til rekstur hafa snarhækkað þannig að það hlaut að koma að einhverri leiðréttingu. Ríkið hefði hins vegar mátt taka meira á sig.

Mér skilst að kílóverð á kjúklingabringum eigi að fara upp í 2000 kr. á næstunni og slaga þar með upp í verð á nautakjöti. Fiskur er munaðarvara og hefur verið lengi. Gott ef kílóverðið út úr fiskbúð sé ekki svipað og á lambakjöti.  Líklega hækkar hann einnig á næstunni þó ekki sé hægt að rekja þá hækkun til hækkaðs verð á aðföngum. Þjóðin ætti að fara að snúa sér að fiskeldi í vaxandi mæli, þá verður kannski hægt að leyfa sér að kaupa nýjan fisk út úr búð.

En ég sé sæng okkar út breidda þegar kemur að rekstri heimilanna í landinu; kjöt á borðum á sunnudögum, naglasúpa og slátur til skiptis hina dagana.Sick

Hún var athyglisverð kenningin sem seðlabankastjóri lagði fram um stöðu krónunnar á ársfundi Seðlabankans en Davíð telur að óprúttnir, erlendir fjárfestar séu markvisst að gera atlögu að krónunni og þar með efnahag þjóðarinnar. Vissulega lítar margir erlendir fjárfestar á þessa litlu þjóð úti á ballarhafi hornauga vegna mikilla fjárfestinga og alþjóðavæðingar einstakra fjárfesta hér á landi. Margur á erlendum vettvangi hefur látið neikvæð ummæli falla í garð ,,síðhærða stráksins" frá Baugi sem hefur náttúrlega verið í gríðalegri útrás síðustu ár og náð að yfirtaka mörg fyrirtæki á erlendum vettvangi. Einhverjum kann að svíða það en hann er að ná fantagóðum árangri.

Hins vegar er það grafalvarlegt mál ef stjórnvöld gruna slíkar aðgerðir sem Davíð er að lýsa en þegja yfir þeim grun. Þjóðin í uppnámi yfir gengi krónunnar og aðgerðarleysi stjórnvalda. Trúlega hefði verið skynsamlegt að upplýsa þjóðina fyrr, við erum nefnilega ekki heimsk og myndum væntanlega standa saman í baráttuaðgerðum gegn því óþveraplotti sem stjórnvöld eru að halda fram að gæti verið í gangi. Þetta er ekki einkamál stjórnvalda enda snertir það afkomu okkar allra.

Enn heyrist ekkert í Samfylkingarmönnum, eru enn á fullu að bjarga heiminum og kynna árangur í útrás íslenskra fyrirtækja í því skyni að önnur efnahagskerfi geti lært af okkur. Það er svo sem góðra gjalda vert en kosningarloforðin þeirra láta standa á sér. Löng grein frá Jóhönnu, félagsmálaráðherra í Mbl. í dag um stöðu mála hjá öryrkjum en lítt bitastæð og augljóst að hvorki aldraðir né öryrkjar eiga að vera í samfloti við aðrar þjóðfélagshópa. Hróplegt misræmi við stefnu flokksins. Rosalega eru stólarnir mikilvægir fyrir flokkinn og verðmætir flokksmönnum.Shocking

Héðan er annars allt á rólegum nótum. Daglegt líf og nætur í föstum skorðum. Næturnar einkennast af 3 plús 2 eða 3 plús 1 sem felst í því að ég næ að sofa 3 tíma í senn, vakna þá við verkina, vaki í 1-2 tíma á meðan þau úrræði sem ég hef, eru að virka, næ að sofna þá aftur og þannig er hringrásin. Ef ég þarf að vakna í býtið á morgnana, verða 3 tímarnir að duga í nætursvefninn. Bæti mér upp svefnleysið seinni part dags og svona heldur þetta áfram. Síðasta nótt var ekkert öðruvísi en aðrar nema að ég glápti á hrollvekju kl. 4 í nótt á meðan verkirnir voru að hjaðna. Ekki mjög skynsamlegt, mæli ekki með því enda hálf myrkfælin undir morgun. Eyddi lunganum úr deginum við að bæta mér upp svefninn en komst á fínt skrið þegar leið á kvöldið.

Öllu má venjast, engin spurning. Er hætt að kippa mér upp við þetta ástand, tek því eins og það er. Eitthvað hefur seytlað frá magasárinu en er í rénum núna. Matseðillinn aðeins fjölbreyttari og felur í sér orðið meira en Prins polo. Harðfiskur þolist ágætlega, brauðsneið með osti og melónur þannig að allt er þetta í áttina. Heilmikið sparast í matarinnkaupum þannig að það eru jákvæðir punktar þar.

Reikna með því að þetta verði týpísk helgi og mín komin á gott skrið á morgun. Vonandi fer að hlýna því mig er farið að langa að hreyfa mig meira og brjóta upp hefðbundið mynstur. Er orðin pínu leið á þeirri stöðnun sem er á mínu lífi, flestir dagar eins, vinna og nám. Langar að fara að brydda upp á einhverju nýju. Sé fyrir mér sól og sumar í hyllingum, vildi helst vera úti á sólarströnd þessa dagana að gera nákvæmlega ekkert nema að láta mér líða vel.  Sá dagur mun komaCool

Búin að marka næstu skref og farin að skipuleggja lengra fram í tíma en til þriggja mánaða í senn. Lít á mig sem læknaða af krabbameininu og get loks leyft mér að plana í samræmi við það.  Er hætt að bíða á græna ljósinu. Hvert stefnan verður tekin, verður að koma í ljós. Prófa mig áfram og sé hvernig gengur. Léttir að vera lögð af staðWhistling

 

  

 


Fátt og smátt

Allt við það sama í þessum herbúðum. Fékk þó þær gleðilegu fréttir að ekki greinast nein merki um krabbmein hjá mér, hvorki í lunga, lifur né annars staðar. Brenglaðar blóðprufur enn og merki um sýkingu einhvers staðar. Hún er hins vegar ekki fundin ennþá.  Smámál miðað við það sem það gæti hafa verið, þannig að nú er bara að bíta á jaxlinn og sjá hvort ástandið haldi ekki áfram að skána. Tilraunir til fæðuinntektar enn afdrífaríkar þannig að ég mun hægjia á mér í þeim efnum í bili. Er ekki á fullri orku, svaf í 4 tíma seinni partinn og fram og kvöld. Rétt náði að klóra mig í gegnum dagsverkið. Geri aðrir beturLoL

Hef hætt mér áfram út í umræður á blogginu um innflytjendamálin en verð að viðurkenna að það er ekki þess virði. Sumir eru einfaldlega liðamótalausir tréhestar og sjá einungis hlutina í svörtu og hvítu. Þýðir ekkert að rökræða við þá. Slíkir menn eru þó hættulegir, komist þeir til valda og það er áhyggjuefni.  Ekki hægt að skrifa allt á unggæðishátt og sterkar hugsjónir. Menn geta blindast og gleymt sér í offorsinu sem kann ekki góðri lukku að stýra. Ekki vænleg leið til árangurs að vaða yfir fólk á skítugum skónum og ,,æla yfir það", eins og unga fólkið orðar það. Sick

Hins vegar vona ég að ráðamenn þjóðarinnar vakni til lífsins og fari að viðurkenna þann vanda sem upp er kominn í þjóðfélaginu varðandi glæpi. Hann er þó ekki einungis bundinn við innflytjendur en vissulega hafa sumir hverjir breytt áherslum og litað ástandið hressilega síðustu misserin. 

Ekki blæs byrlega fyrir okkur þjóðinni þessa dagana. Núverandi ríkisstjórn segist þó sátt og hlutirnir í lagi. Engin ástæða til að örvænta. Einhvern veginn tekst ráðamönnum ekki að sannfæra mig í þessum efnum. Framundan áframhaldandi hækkanir. Fæ ekki séð að kaupmáttur launa haldist óbreyttur. Var það ekki eitt af skilyrðum fyrir þeim kjarasamningum sem gerðir voru í vetur? 

Lengi getur vont versnað, svo mikið er víst. Við erum rétt að þreifa á toppi ísjakans, grunar mig. Þó eru allar kistur ríkissjóðs fullar. Einhverjir sitja eins og Jóakim frændi á þeim en hver skyldi  hagnast mest?

Nýskipuð lyfjanefnd undir forystu Pétur Blöndals hlýtur að fara að skila áliti og tillögum um breytta hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Var að taka sama lauslega kostnað minn vegna gigtarlyfja en ég hef leyst út ógrynni af fjölmörgum tegundum undanfarnar vikur, í því skyni að finna ,,rétta" lyfið. Sá kostnaður slagar upp í 70 þús krónur. Pakkningarnar rofnar en meiri hluti af skammtinum enn í pakkningunum uppi í skáp þannig að úrvalið er mikið. Get sem sé ekki notað lyfin. Verð að viðurkenna að mér finnst ansi hart að fara með lagerinn í næsta apótek til að láta eyða honum. En hver skyldi kostnaðurinn verða af sömu lyfjum og skömmtum eftir fyrirhugaða breytingu? Það verður fróðlegt að sjá.

Meira um lyf, gerði litla könnun á verði á algengu verkjalyfi um daginn. 20 stk í töfluformi, kosta 460 kr.  í apóteki utan höfuðborgarsvæðisins en 280 kr. í sömu lyfjakeðju í höfuðborginni. Sama lyf, magn og skammtur en í formi stíla, kostar 2.400 kr. rúmar. Hverfandi munur var á verði gigtarlyfs á milli þessara apóteka og enginn munur á lyfjaformum, þ.e. sama verð á töflum og stílum. Ótrúlegt en dagsatt. Meira um það síðar.


Páskalamb

Mér tókst að komast í feitt í gær, boðin í mat til bróður og mágkonu. Dýrindis sjávaréttasúpa með rjóma, páskalamb a la Systa og súkkulaðisúrínukaka að hætti húsmóðurinnar. Gat því miður ekki þegið hvítt og rautt með matnum, lifi við þá fötlun að geta ekki drukkið létt vín án þess að veikjast.

En hvað sem öðru líður, þá gekk allt stórslysalaust fyrir sig, ég hámaði í mig eins og hefði ekki séð mat í marga mánuði og gerði öllu góð skil. Það sem meira var, mér varð ekki illt. Verkirnir komu seinna en svo sannarlega þess virði og því auðveldara að umbera þá. Ég hlýt að geta sagt að ástandið fari batnandi þó hægt sé og orsakir ekki að fullu kunnar enn. 

Frábært að hitta famelíuna, miðlungurinn skrapp heim frá Norge með sína litlu famelíu þannig að mér gafst kostur á að hitta þau í kaupbæti. Dáist að bróður, tekur sinni lyfjamerð með þvílíkri jákvæðni og æðruleysi, þau reyndar öll fjölskyldan. Ég hef sjaldan fyrirhitt jafn jákvæðan einstakling í baráttunni við bév.... vágestinn. Ég er líka sannfærð um að hann hefur þetta með glans og það háglans.

Páskafríið sem sé búið og alvara lífsins tekur við á morgun. Frídagarnir fóru allir í verkefnavinnu en auðvitað lúrði ég inn á milli. Afkastaði engu af því sem ég ætlaði í hreingerniga- og skipulagsmálum en það kemur dagur eftir þennan dag. Eitt er víst að rykið og skíturinn fara ekki langt. 

Gærkvöldið fékk mig til að hugsa út í það sem ég er að gera þessa dagana. Allt of mikil vinna og  nám, eyði öllum mínum frítíma í verkefnavinnu. Til hvers spyrja margir og skal mig ekki undra. Ástæðan er hins vegar sú að ég hef mikla þörf fyrir að læra, gera betur og verða hæfari. Auðvitað leynist innst inni sú von að allar gráðurnar auðveldi mér með störf sem ég sækist eftir í náinni framtíð. Ég verð hins vegar að horfa kalt á stöðuna. Þátttaka mín í sveitarstjórnarmálum  hefur verið og verður mér dýrkeypt um ókomna tið. Til þess var ætlast og það ætlunarverk hefur tekist. 

Kristin trú boðar kærleik og fyrirgefningu. Menn eiga að rísa upp og bjóða hinn vangan eftir hvert kjaftshögg og umfram allt fyrirgefa. Ég hlýt að vera mjög ,,ókristin" manneskja því ég á mjög langt í land  með að fyrirgefa böðlum mínum. Það sama á við þá sem auðvelduðu þeim ætlunarverk sitt, ýmist með aðgerðarleysi eða beinni íhlutun. Ekki það að ég er ekki að velta þessum málum fyrir mér á hverjum degi en það koma upp stundir sem mér finnst ósanngjarnt að hljóta þau örlög sem sjúkir og illgjarnir menn ætla manni og geta lítt aðhafst. Það virðist ekki skipta neinu þó maður hafi verið saklaus. Gjaldið verður maður að greiða og sá tollur er hár. Sé ekki fyrir endan á því í náinni framtíð.

Ég hef ekki trú á því að fyrirgefning verði á mínum lista fyrr en allir hlutaðeigandi hafa fengið makleg málagjöld, hvaðan sem þau koma. Kannski ,,andinn" komi yfir mér einn góðan veðurdaginn, það er aldrei að vita. En þangað til, læt ég böðlana ekki eitra daglegt líf.

En ég þar sem sé að fara að rækta eigin garð betur og hugsa betur um mig og mína. Gef mér aldrei tíma til að heimsækja vini og vandamenn. Alltaf að flýta mér enda bíður yfirleitt haugur af verkefnum eftir mér í tölvunni, bæði vegna vinnu og náms. Lífið þýtur áfram og maður gleymir að lifa því lifandi. Það gengur einfaldlega ekki upp og því ekki seinna vænna en að fara að taka á þeim málum.W00t

Er enn að blanda mér í umræðuna hjá FF, nú síðast hjá formanni ungra. Þvílíkur hrokið í þeim unga manni, mér rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds. Get tekið undir það að málefni innflytjenda eru í ólestri en hvernig má annað vera miðað við stefnuleysi stjórnvalda og frjálst flæði inn í landið? Hins vegar eru skrif eins og þau sem liggja eftir þennan unga mann, ástæðan fyrir því að hvorki ég né margur annar, getur hugsað sér að ganga til liðs við flokkinn sem annars hefur margt til brunns að bera. Mér sýnist vera kominn tími á vorhreingerningar og tiltektir á þeim bænumWhistling

Ég er ansi hrædd um að mínir krakkar myndu flosna hið snarasta upp í Ungverjalandi, væru þeir eins þenkjandi og sumir í þessum málum. Mig skal ekki undra þó flokkurinn tapi fylgi og nái ekki að stækka. Innri átök og valdabarátta virðist tilheyra öllu flokkum enda vilja margir ráða. Þeir fara hins vegar misfínt í þau. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband