1.10.2008 | 01:27
Dösuð
Það er ekki laus við að ég sé dösuð, líkt og öll þjóðin virðist vera eftir fréttir síðustu sólahringana. Seðlabankinn búinn að taka ákvarðanir fyrir Alþingi varðandi Glittni og samsæriskenningar um að með þeim gjörningum sé Davíð Oddsson að ná fram hefndum við Jón Ásgeir hjá Bónus. Háværar raddir eru uppi um að sagan sé ekki öll sögð enn, að meira sé í vændum, t.d. samruni Landsbanka og Glittnis. Menn stunda leynifundi í húmi nætur, hafa trúlega vanmetið fjölmiðlavaktina sem virðist, aldrei slíku vant, vera ágætlega vakandi. Spurning um hvort og hver annast upplýsingaflæði þar á milli. Ekkert kemur á óvart lengur, alla vega í þeim efnum.
Ég hef svo sem ekki misst svefn vegna atburða síðustu daga í íslensku efnahagslífi en hugur minn er óneitanlega hjá þeim fjölmörgu sem missa sparnað sinn og sjá á eftir fjárfestingum sínum út um gluggan. Slík reynsla hlýtur að vera ólýsanleg og erfið öllum, þó sumir séu meira bólstraðir en aðrir. Áhrifin eru víðtæk, ekki einungis gagnvart einstaklingum heldur og einnig samfélaginu öllu. En hver græðir? Þegar stórt er spurt, er fátt um svör og enn ekki hægt að sjá það fyrir.
Mér koma hins vegar viðbrögð Samfylkingamanna mjög á óvart. Ef ég hef skilið fréttaflutning rétt, þá fengu froystumenn flokksins ekki að vera með í þeim leik sem fór fram í skjóli nætur síðustu sólahringana. Þingmenn flokksins hafa lýst því yfir að sjálfsagt hafi þetta verið eini raunhæfi möguleikinn í stöðunni gagnvart efnahagslegu lífi hér á landi. Formaður Samfylkingarinnar er af eðlilegum ástæðum afsökuð, þegar kemur að yfirlýsingum en ekki heyrist mikið í varaformanni og ráðherrum flokksins. Vangaveltur eru uppi um hvort að gjörningur ríkisstjórnar hafi verið löglegur. Svör við því liggja ekki enn fyrir en þau rök sem hafa heyrst í dag þess efnis að svo sé ekki, eru mjög sannfærandi.
Ég hef verið hugsi yfir fleiri atburðum en þessu fjármálavafstri Seðlabankans að undanförnu. Ber þar hæst að nefna málin innan Frjálslynda flokksins. Þó að ég tengist þeim flokki ekki beint né sé ötull fylgismaður hans, ligg ég ekki á því að hafa stutt Kristinn í gegnum tíðina. Átök innan flokksins hófust fyrir tæpum 2 árum þegar Jón M. vildi inngöngu í flokkinn en Margtét Sverris lagðist gegn því, ekki síst vegna hatramrar afstöðu Jóns í málefnum innflytjenda. Þjóðin þekki þá sögu alla, flokkurinn klofnaði, Margrét ákvað að bjóða sig gegn sitjandi varaformanni en laut lægra haldi og yfirgaf flokkinn ásamt stuðningmönnum sínum. Klofinn og í sárum gekk FF til kosninga og tapaði all nokkru fylgi. Fengu þó 2 þingmenn í Norðvestur kjördæmi sem ætti að vera áreiðanlegur mælikvarði á styrkleika þeirra frambjóðenda sem þar voru í kjöri. Annar þeirra var Kristinn og voru einhverjir innan FF ekki sáttir við inngöngu hans í flokkinn. 2 sitjandi þingmenn misstu sæti sín, Sigurjón Þórðar og Magnús Þór en 2 nýjir komu inn; Jón M og Grétar Mar. Þá sögu þekkja allir.
Síðustu mánuðir hafa einkennst af ótrúlegu skítkasti og hatrömmum deilum af hálfu Jóns armsins inna FF í garð Kristins H. Deilurnar virðist lítið vera uppi á borðum innan flokksins heldur leiddar fram á stærra svið í fjölmiðlum. Deilurnar hafa, á yfirborðinu, snúist um það hvort Jóns-armurinn taki of djúpt í árina í málefnum innflytjenda en margir telja svo hafa verið, þ.á.m. Kristinn. Rótin á deilunum er his vegar í raun barátta um völd og togstreitu. Mér virðast deilurnar snúast í raun um það að Sigurjón er fúll yfir því að hafa ekki fenigð stöðu framkvæmdarstjóra sem formaðurinn hafði þó lofað fyrir kosningar, næði hann ekki inn á þing. Nú Magnús var ekki síður svekktur að komast ekki inn á þing, fékk starf hjá flokknum og formanninum. Síðan voru menn ráðnir til ýmissa verka hjá flokknum og fór Jón M þá í fýlu yfir því að hafa ekki haft neitt vægi í þeim ráðningum.Hvað eftir annað og sérstaklega upp á síðkastið hefur Jón kvartað yfir því að formaðurinn stæði sig ekki sem skyldi, vægi flokksmanna í Reykjavík og á höfuðvorgarsvæðinu væri of lítið o.s.frv. Sigurjón, Magnús og Viðar hjá ungum FF, hafa verið sérstakir hirðsveinar Jóns og breitt út boskapinn. Grétar Mar sá eini sem heldur sig utan við opinbera umræðu, alla vega ennþá.
Um þessi ágreiningsefni hafa innbirðis deilur innan FF snúist. Þeim hefur þó verið hleypt inn á allt annan farveg og á yfirborðinu snúist um einn mann sem bæði ku vera óalandi og óferjandi. Klappstýrur úr röðum Jóns armsins virðast hafa það eitt fyrir stafni að heimsækja bloggsíður til að breiða út boðskapinn um þann einstakling og hefur hvergi verið til sparað í lýsingum. Það hefur verið fróðleg lesning að fara yfir öll þau ummæli sem Kristinn hefur fengið frá eigin flokksfélögum. Mörg þeirra erog Kristinn og þurft að sitja undir jafn miklu níðskrifum og hann. Kannski Jónas frá Hriflu?
Mér er það óskliljanlegt með öllu að sjá það út hvernig sá hópur manna sem lagst hefur gegn Kristni, ætlar sé að ná inn auknu fylgi flokks með því að beina fjölmiðlaumræðunn að rógherferð og níðskrifum um einn flokksmann umfram aðra. Slíkar uppákomur þurrka út allan trúverðugleika, bæði gagnvart þeim einstaklingum sem slíka háttsemi stundar og gagnvart flokknum sem heild. Hvaða skilaboð er þessi hópur að senda út til kjósenda? Að þeir megi ekki fylgja eftir opinberri stefnu flokksins? Að einungis útvaldir séu sumum þóknanlegir? Stjórnmálamenn með skítlegt eðli og haga sér í samræmi við það, uppskera alltaf. Kjósendur nýta ekki atkæði sitt aftur til þeirra sem fara illa með umboð sitt. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er hlutdræg í umfjöllun minni en veit að hún er rétt hvað varðar rógburð og níðskrif þar sem ég styðst við það sem menn skilja eftir sig á bloggsíðum, bæði sínum eigin og annarra.
Mikill er máttur Kristins, á því er enginn vafi. En að menn óttuðust hann eins og raun ber vitni þannig að allt sé lagt í sölurnar til að ryðja honum frá svo Jón M komist nær formannsstólnu, kom mér kannski svolítið á óvart. Menn skulu hins vegar ekki verða undrandi á því að næstur verður formaðurinn sem fær útreið og verður látinn flúka. Sigurjón og Magnús verða þar næstir, annað hvort gert bandalag við þá eða þeir látnir fara. En ætli Frjálslyndi flokkurinn verði yfir höfuð til í næstu kosningum? Trúlega ekki ef menn halda áfram á þessari braut.
Það verður fróðlegt að fylgjast með störfum Alþingis og framvindu þessara mála á næstu dögum. Aþingi verður sett á morgun með pompi og pragt og ballið byrjar. Hvaða afstöðu mun þingið taka gagnvart Seðlabankanum og Glittni? Hvernig verður skipan alþingismanna?
Er annars búin að hafa það náðug í dag, gerði það viljandi. Svaf þegar mér sýndist, horfi á sjónvarpið þegar mér datt í hug og vafraði á netinu þegar ég nennti. Gaf mér tíma til næðis og hugsana. Ef allt gengur upp, liggja mínar niðurstöður og framhaldið fyrir á morgun, þ.e. minn dómsdagur. En slíkar staðreyndir fölna í samanburði við það sem dynur yfir þjóðina þessa dagana. Vonandi fer allt á sem besta veg.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
deili þessum hugsunum með þér
Hólmdís Hjartardóttir, 1.10.2008 kl. 01:33
Vel skrifað og jú ég er líka hugsi yfir öllu ofansögðu. Vona að niðurstöður þínar verði góðar.
Sigrún Jónsdóttir, 1.10.2008 kl. 07:32
Sæl frænka!
Ætli það sé ekki best að nálgast þig á blogginu þessa dagana :)
Hugsa til þín og vona að niðurstöðurnar verði góðar.
Er komin með nýtt símanúmer 8467767. Endilega láttu heyra í þér við tækifæri, er farin að langa í "Gunnuspjall" :)
Erum líka komin með nýja heimsíðu ;)
Bestu kveðjur úr Kefló
Sara Björg Pétursdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 13:01
Knús á þig elskulegust og farðu nú vel með þig mín elskulegust
Maður kemst af án fólks en maður þarf að eiga vin
(kínverskur málsháttur)
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 1.10.2008 kl. 20:02
Kveðja til þín.
Þröstur Unnar, 2.10.2008 kl. 20:09
litla/stóra systir
Katrín, 2.10.2008 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.