22.8.2008 | 23:52
Þungar ásakanir
Ólafur F, fyrrum borgarstjóri er með þungar ásakanir á hendur Sjálfstæðismönnum. Ég get að mörgu leyti skilið og fallist á þær. Valhallarmenn notuðu Ólaf eins og hverja aðra tusku til að sprengja þáverandi meirihluta upp. Hef alla trú á því að Sjálfstæðismenn hafi hugsað sér að tjalda til einnar nætur í þessu samstarfi strax í upphafi. Voru ákveðnir í að nota tíman, þyrla upp moldviðri, róta upp jarðveginum og gera hann móttæilegri fyrir enn annan meirihlutann og þá með Framsóknarmönnum.
En þó Sjálfstæðismenn séu oft á tíðum klókir og svífast í raun einskins til að koma sínum árum vel fyrir borð eru þeir ekki einu leikendurnir á sviðinu. Ólafur F. tók þátt í farsanum og seldi sig ódýrt. Gaf skít í baklandið sitt og treysti á vináttu og hlýhug fyrrum flokksbræðra sinna sem höfðu áður fórnað honum grimmt, án þess að hiksta. Gamlir fjendur féllust í faðma, lögðu til hliðar gamlar væringar og persónuleg særindi. Gulrótin fyrir Ólaf var borgarstjórastóllinn í 1 ár, einhverjar milljónir í að viðhalda ímynd friðaðra húsa og að setja flugvallarmálin í saltpækil um hríð. Á móti fengu Sjáfstæðismenn dýrmætan tíma til að hressa upp á ímynd sína, sameinast um nýtt borgarstjóraefni og stíga í vænginn vð Framóknarmenn á bak við tjöldin.
Eins og vera ber í góðri ,,strategiu", leið hins vegar ekki langur tími þar til kurr og óánægjuraddir fóru að berast úr herbúðum Sjálfstæðismanna sem vilja flugvöllinn í burt og hressa upp á ímynd Reykjavíkurborgar með nútímalegri byggingum. Óánægjan magnaðist og hafði tilætluð áhrif á kjósendur sem fóru að ókyrrast. Ólafur haggaðist ekki, vitnaði í loforð og drengskaparheit Vilhjálms og Kjartans. Hélt ótrauður áfram að fullvissa kjósendur um að samstarfið væri í himnalagi. Virtist okkuð einráður í störfum sínum, t.d. í ráðningamálum sem reyndist kjörið bitbein fyrir Sjálfstæðismen sem þögðu þó þunnu hljóði á borgarstjórnarfundum og samþykktu ráðningar Ólafs, eins og við mátti búast. Þögðu þar til þeim hentaði að koma á ókyrrð og leiðindi.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Sjálfstæðismenn fara illa með félaga sinn og ugglaust ekki það síðasta ef Ólafur heldur áfram í pólítíkinni. Mér finnst það eiginlega ekki síður slæmt en vinnubrögð Sjálfstæðismanna sem eru ekki ný af nálinni. Ólafur F er sjálfur reynslubolti í pólitík og ætti að hafa lært af reynslunni. Hann kaus engu að síður að ganga til samstarfs við þann flokk sem ítrkekað hefur svikið hann sem og kjósendur hans sem hann sækir umboð sitt til. Ég veit eiginlega ekki hvort er verra; skítlegt eðli sem öllum er kunnugt um eða það að gera sömu mistökin ítrekað. Í báðum tilvikum snýst þetta um eigin hagsmuni og metnað í pólitíkinni, kjósendur og íbúar borgarinnar skipta engu máli. Þangað sækja þó stjórnmálamenn umboð og vald sitt.
Hvað segir þetta okkur? Fyrir mér er þetta einfalt; kjósendur hafa ,,gullfiskaminni" þegar kemur að pólitík og kosningum. Margir kjósendur telja sig skuldbundna til að sýna ,,sínum flokk" hollustu sem nær út yfir gröf og dauða, jafnvel þó sá flokkur hafi misboðið trausti þeirra, oftar en einu sinni eða tvisvar. Þetta segir mér líka að hugsanlega vilja kjósendur atburðarrás sem þessa, valdaplott og óhreinlyndi. Mönnum virðist alla vega ekki brugðið við hverja hallarbyltinguna á fætur annari. Það sýnir sig þegar talið er upp úr kjörkössum á 4 ára fresti. Ábyrgð kjósenda er því all nokkur.
Mér hefur virst sem enginn og þá meina ég enginn kjörinn fulltrúi hafi sýnt áhuga á því að fylgja eftir kosningaloforðum og hagsmunamálum Reykvíkinga eftir. Allir virðast hafa dottið ofan í þann pytt að reyna að skara eld að sinni köku og sinna persónulegum hagsmunamálum. Enda allt í lagi, þeir hafa komist upp með það kjörtímabil eftir kjörtímabil. Það er ekkert öðruvísi núna. Sumir kjósa að láta á sér bera en aðrir læðast líkt og músin.
Ólafur F. gerir ítrekað sömu mistökin með Sjálfstæðismönnum sem hafa þó hætt hann og spottað, gert lítið úr honum. Í raun beitt hvaða ráðum sem er til að gera hann ótrúverðuglegan. Hann hefur tekið þátt í því sjálfur í undir því yfirskyni að heiðarleiki og traust ríkti í samningum þeirra á milli. Ábyrgð hans gagnvart kjósendum er því all nokkur. Honum er þó engin vorkunn. Sterkur stjórnmálamaður lærir af mistökunum og sýnir meiri klókindi.
Það er sama hversu marga hringi ég fer með þann farsa sem hefur einkennt borgarstjórnarmálin þetta kjörtímabil, niðurstaðan er alltaf sú sama. Enginn af kjörnum fulltrúm borgarstjórnar Reykjavíkur hefur sýnt að hann sé starfi sínu vaxinn og skiptir þá engu máli hvoru megin borðs þeir hafa verið og eru. Allir hafa tekið þátt í pólitísku plotti og hallarbyltingum og staðið í þeirri trú að þeir séu klókari en hinir. Öllum hefur mistekist þar sem upp hefur komist um þá alla og slóðin liggur eftir hvern og einn. Engin nógu klókur, einungis misbláeygðir.
Niðurstaðan eftir hverja hringferðina á fætur annari er alltaf sú sama; það á að skipta út öllum kjörnum fulltrúum Reykjavíkurborgar í næstu kosningum. Enginn núverandi borgarfulltrúi hefur sýnt að hann sé þess traust verður sem hafa borgarbúar sýnt með atkvæði sínu.
Oft hef ég haft skoðanir á embættismannakerfi hins opinbera go ekki alltaf sátt við það vald sem embættismenn hafa. Í fyrsta skipti hef ég samúð með opinberum starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Starfsskilyrðin hljóta að vera hrikaleg, menn vita aldrei hvað morgundagurinn felur í sér og hverjir verða við völd í næstu viku.
Það segir sig sjálft að kostnaðurinn við eilíf meirihluta- og borgarstjóraskipti er gríðalegur. Kjósendur hafa ekkert um það að segja fyrr en í næstu kosningum - en þá er hætt við að minnið bresti. Ég get ekki sagt að ég sé stolt af því að teljast til kjósenda Reykjavíkurborgar eins og pólitíkinni er háttað hér í dag. Prísa mig sæla yfir því að mitt atkvæði fór í annað sveitarfélag fyrir 2 árum þannig að ábyrgð mín er nákvæmlega engin. Ég tók ekki þátt í þessari hringavitleysu.
Það verður erfitt að sannfæra mig eftir tæp 2 ár, fari svo að ég verði búsett í höfuðborginni. En hvað sem mínum vangaveltum líður varðandi Óalf F. og aðra borgarfulltrúa þá á enginn maður skilið þá útreið sem Ólafur F. hefur fengið meðal ,,félaga sinna", borgarbúa og ekki síst fjölmiðlamanna sem hafa oft verið það rætnir að maður getur ekki stillt sig um að velta fyrir sér fyrir hverja þeir skrifa sinn boðskap. Þeir geta vart talist hlutlausir í fréttaflutning sínum um þennan eina mann.Ég get því verið sammála fráfarandi borgarstjóra um það að þetta er einelti í sinni grófustu mynd.
Svik, lygi og pólitísk slátrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það var tími til kominn að einhver uppþornaður á bak við eyrun tjáði sig ...Ég er svo hjartanlega sammála þér.
Guðrún Magnea Helgadóttir, 23.8.2008 kl. 00:17
Svona fer þegar menn eru farnir að líta pólitíkina með augum bókstafstrúarmannsins. Pólitík er lífið sjálft, þar eru hæðir og lægðir, sólskín og él. Að múlbinda sig alla ævi við einn stjórnmálaflokk sýnir ekki tryggð heldur ótta við að leyfa eigin samvisku og sannfæringu ráða. Bráðum er ég búin að fara hringinn líkt og lífið...og mér finnst það bara fínt.
Katrín, 23.8.2008 kl. 00:17
Elsku elskulegust ég vil nú bara kvitta hér undir komu mína til þín og senda þér handfylli af ást´og hlýju og ósk um góðan morgundagég kveikti á kertaljós handa mínum nánustu og þar var mér líka hugsað til þín og hér er ljós til þín
Og svo ÁFRAM ÍSLAND
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.8.2008 kl. 20:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.