8.8.2008 | 04:21
Ekki aldeilis búið
Svo virðist sem hrakförum mínum sé ekki enn lokið. Er eiginlega búin að vera hundveik frá heimkomu, með versnandi verki, ógleði og lystarleysi. Komst reyndar að því að ég fékk ekki uppáskrifuð rétt lyf fyrir útskrfit en þau áhrif hefðu fyrst og fremst miðað við verkjastillinguna. Rétt lyf hefðu gert mér vistina bærilegri síðustu sólahringana en alls ekki tekið á þeim vanda sem hefur verið í uppsiglingu.
Ég var alls ekki orðin verkjastillt við útskrift og svo fór sem fór, mér versnaði. Smátt og smátt og síðan jukust öll einkenni skyndlega í gærkvöld, ný bættust við og náðu hámarki seinni partinn í dag þegar ég varð að játa mig sigraða og setjast á börurnar, enn og aftur. Leiðin lá á Hringbrautina og var mín ekki par kát með ástandið. Fann fyrir miklum létti þegar upp var staðið enda unnið hratt og fumlaus og ég verkjastillt á örfáum mínútum. Síðan hófst uppvinnslan og til að gera langa sögu stutta reynist vandamálið nú vera bráð sýking í hægra nýra. Fylgikvilli sem má alltaf gera ráða fyrir. Gott að fá skýringuna, þoli illa að kljást við það óþekkta og eyða of miklu púðri það sem enginn veit hvað er.
Fékk sýklalyf í æð og baðst undan innlögn. Held áfram á töflumeðferð heima. Allir gangar og deildar innan LSH eru undirlagðir af rúmum og fárveiku fólki. Ég kaus að fara heim svo fremi sem það strýddi ekki gegn ráðlagðri meðferð. Gat einfaldlega ekki hugsað mér að liggja inni á einhverri setustofunni eða á gangi með kúabjöllu um hálsinn. Starfsfólk deildanna gjörsamlega á útopnu frá því það mætir til vinnu og kemst heim. Álagið yfirgengilegt á hvern og einn. Við aðstæður sem þessar þurfa sjúklingar að vera mjög ,,hraustir".
Ég finn heldur betur fyrir breytingum og stuðningi krakkanna í þessum veikindum, nú eru það Hafsteinn og Katrín sem taka ráðin af þeirri gömlu - ekki öfugt. Svolítið einkennileg staða. Bæði hafa þau tekið sem sé fram fyrir hendurnar á mér og haft samband við ,,mína deild" vegna versnunar á ástandi. Ég veit að þeim er nokkuð brugðið yfir því hversu rýr uppskeran af þeirri viðleitni reyndist vera.
Þessi vika hefur farið fyrir lítið, ekkert geta aðhafst hér heima, krakkarnir hafa þurft að sjá um alla hluti og sinna þeirri gömlu. Hafði stefnt að því að freista þess að sækja seinni hluta af sumarnáminu á Bifröst eftir helgi en verð að bíða aðeins og sjá til hvernig framvindan verður. Magarsárið á réttri leið skv. rannsóknarniðustöðum, er hundlág í blóði ennþá þannig að nokkuð vantar upp á. Hitt er svo annað mál að líkaminn er ótrúega fljótur að jafna sig þegar hann fær rétta meðferð. Sé hvernig málin þróast næstu dagana.
Orðið ískyggilega stutt í að Hafsteinn fari út. Enn liggur nokkur óvissa uppi á borðum varðandi rannsóknarniðurstöður sem komu fram í síðustu viku. Var búin að fá þau skilaboð frá mínum lækni fyrir ca mánuði að ég væri ,,hrein" en skv. sneiðmyndum af brjóstholi sem teknar voru á LSH í síðustu viku, eru einhverjar breytingar sem þykja ,,grunsamlegar".Ekki var talað um slíkar breytingar skv. niðurstöðum sömu rannsókna fyrir 3-4vikum síðan sem fóru fram í Domus Medica. Minn læknir í sumarfríi þannig að málið er í höndum annars á meðan. Vænti þess að fá einhver svör fljótlega, ekki ólíklegt að það þurfi að taka sýni eða rannsaka betur með einum eða öðrum hætti. Leyfi mér þó að vonast eftir kraftaverki í þeim efnum, er með ólæknandi nálarfóbíu og get einfaldlega ekki hugsað mér ástungu eða berkjuspeglun Það var þó harkan í Hafsteini og Kötunni sem tryggði að þessi mál eru til skoðunar nú. Brjóstholið tilheyrir ekki kviðarholinu og þar með ekki því ,,sviði" sem ég fékk mína þjónustu frá í síðustu innlögn. Við þurfum að fá þessi mál á hreint áður en Haffinn fer út til að taka sín 2 haustpróf í næstu viku.
Er sem sé heldur að braggast enda sit ég eins og ráðherra og blogga út í nóttina. Fyrsta nóttin í lengri, lengri tíma sem ég hef náð að sofa lengur en 1-2 klst. í senn. Lá meira að segja út af fyrri part nætur og teygði vel úr báðum fótum sem er þvílíkur lúxus fyrir mig. Ekki á stanslausu iði, get setið við tölvuna án þess að vera með hljóðum. Mér er því að batna, á því er enginn vafi en ekki aldeilis laus við þessi veikindi strax. Get þó ekki alveg ímyndað mér hvað ætti næst að koma upp á, finnst ég vera búin að koma ansi víða við.
Er ekki sagt að ,,allt er þegar þrennt er"? Magasárið í febrúar, brotið í apríl og nú þessar uppákomur. Ég hefði haldið það. Alla vega nóg komið í bili. Hef mikinn áhuga á því að snúa mér að einhverju öðru áhugaverðara verkefni en veikindum og þjónustunni í heilbrigðisgeiranum. Meira um það síðar..............
Mæting á göngudeild í fyrramálið út af verkjameðferð eftir lungnaskurðinn. Vona að ástand leyfir það að ég skrönglist niður á Hringbrautina. Er mjög þakklát fyrir að komast að í slíka mefðerð þó hún kalli á óteljandi nálarstungur, tilgangurinn er jú sá að deyfa verkina sem koma til vegna taugaskemmda og því til þess vinnandi að reyna. Væntingar um árangur blendnar, orðinn ansi langur tími frá aðgerð og skemmdir varanlegar. Á móti kemur hins vegar sú staðreynd að það er löngu kominn tími á að mitt lukkuhjól snúist við, ,,minn tími hlýtur að vera kominn".
Athugasemdir
Æ elsku Guðrún Jóna mín,ekki eru þetta góðar fréttirég er eiginlega orðlausvona svo innilega elskan mín að þér fari nú að líða beturég sendi þér hlýjar kveðjur og skal kveikja þér kerti um von að þér fari nú að batna elskan mín.
knús knús og stór faðmur af ást og hlýju
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 8.8.2008 kl. 08:46
úff........það sem er á þig lagt....gangi þér vel...gott að vita af krökkunumhjá þér
Hólmdís Hjartardóttir, 8.8.2008 kl. 11:40
Ég tek undir með Hólmdísi, gott að vita af krökkunum hjá þér.
Sigrún Jónsdóttir, 8.8.2008 kl. 11:45
Já það er sannarlega gott að krakkarnir eru heima, ég sem var að vonast til að þetta væri að verða búið, þetta veikindabasl.
Kærar þakkir fyrir hlýjar og uppbyggilegar athugasemdir mín megin.
Ragnheiður , 8.8.2008 kl. 12:56
Mikið óska ég þess að þinn tími sé kominn á betri heilsu. Það er afleitt að eitt taki við af öðru og síðan enn annað. Bestu batakveðjur.
Anna Einarsdóttir, 8.8.2008 kl. 13:09
Þetta er skelfilegt ástand en mikið er gott að verkurinn er að minka. Þú ert heppin að eiga góð börn þér til stuðnings. 'Eg veit ekki hvað ég hefði gert án barnanna minna þegar ég gekk í gegnum mín veikindi á sl. ári. Hjálp þeirra var og er ómetanleg. Gangi allt vel hjá þér og ég vona svo innilega að fljótlega birti til hjá þér. Sendi þér hlýja strauma.
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 8.8.2008 kl. 16:08
Jú allt er þegar þrennt er! Nú hlýtur að fara birta til. Gangi þér vel, Guðrún og ég sendi þér hlýjar kveðjur .
Sigrún Óskars, 9.8.2008 kl. 10:25
Tek undir með öllum hér á undan mér. Sendi þér mínar bestu kveðjur.
Inga (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 11:59
Georg Eiður Arnarson, 9.8.2008 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.