23.7.2008 | 00:30
Ótrúlega létt
Fékk niðurstöður í dag, vorum bæði undrandi; ég og minn læknir. Engin merki um sjúkdóminn! Einhverjar breytingar á blóðprufum sem komu mér ekki á óvart. Ætluðum varla að trúa okkar eigin augum, einkennin hafa svo sannarlega gefið ástæðu til að óttast annað. Enn liggur ekki fyrir skýring á öllum verkjunum, þyngdartapinu og slappleikanum. Við höldum áfram að skoða þau mál. Verkjastillingin gengur þokkalega, fæ enn slæm köst en almennt betri. Sigurður mun halda áfram að fylgjast með gangi mála sem er mikill léttir. Það verður hægt að grípa í taumana strax ef þörf er á.
Það voru því góðar fréttir sem ég gat fært krökkunum. Við höfðum öll, hvert fyrir sig, búið okkur undir slæmar fréttir þó við reyndum að ,,peppa" hvort annað upp. Vorum eins og þrjár Pllýönur. Þeim er alla vega létt ekki síður en móðurinni.
Nú er bara að halda áfram og finna orsakir og meðhöndla þær. Einhvern veginn mun auðveldara að kljást við málin þegar þau liggja fyrir, óvissan er alltaf nagandi. Þó búið að útiloka martröðina þannig að eftirleikurinn verður léttari. Ég geri mér grein fyrir því að ég þarf að lifa með ákveðnum verkjum eftir lungnaskurðinn það sem eftir er, gigtarskömm sækir í rifbeinin og fleira í þeim dúr. Get vel sætt mig við þá verki og lært að lifa með þeim, á meðan ég veit af hverju þeir stafa. Hver sem ástæðan er fyrir barlóminum núna, ætti að vera auðveldara að meðhöndla hann en krabbameinið.
Ég er því ótrúlega heppin, það fer að styttast í 2 ár frá greiningu sem er kraftaverk miðað við útlit í fyrstu, staðsetningu og tegundina. Það hafa ekki allir verið jafnheppnir og ég. Nú vil ég komast til botns á þessu öllu saman og fara að njóta lífsins og lifa því lifandi. Mér skal takast að komast frá þessum barlómi og byggja mig upp! Ekkert me, he með það. Þrælaði mér í fyrsta göngutúrinn í kvöld í langan tíma, var auðvitað höktandi í taumi hjá Kötunni líkt og Lafðin en það hafðist og var fyllilega þess virði. Nú er bara að halda áfram.
Ég hef sjaldan þurft eins mikið á því að halda að endurheimta baráttuþrekið, ekki síst það andlega sem hefur verið í lamasessi um nokkurt skeið út af ástandi síðustu vikna. Víða sótt að og höggin ófá, ósveigjanleikinn og harkan gríðaleg svo ekki sé minnst á spurningu um siðferði sumra. Slíkar aðstæður kalla ekki á uppgjöf af minni hálfu, síður en svo. Slakt heilsufar getur haft áhrif en ég mun seiglast þetta áfram.
Ég kemst alltaf af. Það þýðir ekki
að maður sé óbugandi hetja heldur
heill í stuðningi við sjálfan sig
og hafi viljann til að sigra.
(Linda Ronstadt)
Athugasemdir
´Æ elsku Guðrún Jóna mín,þú ert svo sannarlega Einstök kona elskan mín og það er mikil forréttindi að fá að deila þessu með þér,ekki er þetta auðvelt elskan mín,en engar fréttir eru góðar fréttirég vona svo sannarlega að allt muni þetta skírast og að allt gangi vel hjá þér elsku vinkona mín,megi allar góðar vættir umvefja þig og vernda um ár og dagaog góða nóttina elsku vina mín
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 23.7.2008 kl. 00:58
Til hamingju með þetta Gunna mín. Nú er þér óhætt að trúa því og treysta að óhræsis krabbinn er ekki á ferð og hefur verið gerður útlægur. Upp á fætur, ganga , fara í ræktina og auka þolið og þrekið. Nota tímann þér til góðs. Hver veit nema verkirnir hverfi við hreyfinguna og þjálfunina? Ég vildi svo sannarlega að fleiri fengju svo góðar fréttir sem þú í dag.
Katrín, 23.7.2008 kl. 00:58
Frábært.............Þú veist að það tekur langan tíma að ná upp þreki....eftir stóra aðgerð og síðan fótbrot.. Og makamissi. Það hefur verið mikið álag á þér....bæði líkamlega og andlega. Þetta hverfur ekkert á einni nóttu. Gefðu sjálfri þér smágrið....þú þarft hvíld...þú þarft endurhæfingu og ég vildi geta sent þig í frí á sólarströnd....smábjór og afslöppun
Hólmdís Hjartardóttir, 23.7.2008 kl. 01:56
Gott að heyra að útkoman var góð. Gangi þér sem best að byggja upp þrekið, bæði líkamlega og andlega.
Aðalsteinn Baldursson, 23.7.2008 kl. 05:48
Þetta eru góðar fréttir. Ég tek undir með hj.fr. hér að ofan: í slökunarfrí með þig kona.
Sigrún Jónsdóttir, 23.7.2008 kl. 07:36
Þetta voru svo sannarlega góðar fréttir, Guðrún Jóna.
Mitt ráð til þín - óvenjulegt og undarlegt - prófaðu að sleppa því að horfa á fréttir í einn mánuð. Renndu bara yfir það helsta á netinu. Þetta hefur reynst mér hvað best til að öðlast hugarró á erfiðum tímabilum í lífinu. Fréttir eru streituvaldur og maður getur hvort eð er litlu breytt í afleitum efnahagsmálum og heimsófriði. Notaðu fréttatímann til að setja rólega tónlist á "fóninn", kveiktu á kertum, lestu góða bók eða farðu í freyðibað og ekki gleyma að brosa....
...og svo vona ég innilega að verkirnir hverfi, svo þú fáir notið lífsins til fulls.
Anna Einarsdóttir, 23.7.2008 kl. 09:11
Þetta eru alveg frábærar og dásamlegar fréttir. Kær kveðja til ykkar Pollýannanna þriggja.
Ragnheiður , 23.7.2008 kl. 10:00
Þetta voru frábærar fréttir Guðrún mín mikið gladdi það mig að lesa þessa færslu frá þér í hreinskilni sagt þá hafði ég miklar áhyggjur af þér mín kæra. En nú er bara að byggja sig upp og treysti ég þér sko alveg til að takast á við það
Góðar og hlýjar kveðjur af Skaganum og gangi þér vel mín kæra og til lukku með þessar fréttir
Sigþóra (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 12:32
Takk öll sömul, þið eruð frábær
Það er mikið til í því sem þið ráðleggið mér, ég mun svo sannarlega fara eftir því. Sólarströnd er ofarlega í mínum huga og kaldur bjór en honum hef ég ekki komið niður svo mánuðum skiptir.
Ég skal komast yfir þetta!
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 23.7.2008 kl. 12:54
Sæl Guðrún Jóna
Gott að heyra að heilsan er betri. Vil minna þig á að 25 ár eru síðan við útskrifuðumst úr HSÍ A-holl 1983. Við ætlum að hittast í haust en mig vantar netfangið þitt.
Kveðja, Anna Soffía - hollsystir.
Anna Soffía Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 19:30
Blessuð Anna Soffía.
Frábært að ,,heyra frá þér", takk fyrir innlitið
Rosalega líður tíminn hratt! Komin 25 ár, úff. Við höfum hins vegar ekki elst neitt, - eða hvað
best er að senda mér póst á gjg1@hi.is
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 24.7.2008 kl. 13:24
Búin að senda í það
Ragnheiður , 24.7.2008 kl. 19:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.