Allt að gerast

Hitti minn lækni í dag, var eins og hefði verið skrúfað frá krana þegar ég komst í tæri við hann. Var eins og blaðra sem þurfti að tæma lofti úr. Veit ekki hvað hann hefur hugsað en í öllu falli tók hann mér vel eins og alltaf. Honum fannst ég orðin ansi skökk enda er það ekki svo að maður fer í þær stellingar sem manni líður best í? Þarf hins vegar að vinna í þeim málum, ljótt að vera svona og ekki mjög ,,kvenlegt".

Vissi fyrirfram af rannsóknum en hann ákvað að allur pakkinn yrði tekinn í þetta sinnið þannig að framundan er meira en ég átti von á. Rannsóknirnar verða keyrðar í gegn í þessari viku, hugsanlega fram í þær næstu þannig að svör ættu að liggja fyrir mánudag eða þriðjudag.  Verkirnir hafa farið stigvaxandi upp á síðkastið og því ekki eftir neinu að bíða að finna orsakirnar. Það verður léttir að vita hvað maður er að kljást við. Nú prófum við nýja verkjalyfjameðferð og sjáum hvað setur á næstu dögum. 

Tók krakkana með mér í þetta sinnið, hef ekki gert það áður. Fannst eðlilegt  að þau fengju aðeins að fylgjast með enda þau búin að vera áhyggjufull, hafa ekki séð mig svona verkjaða fyrr. Þó að ástandið þurfi alls ekki að þýða að allt sé komið á versta veg, blundar sá grunur alltaf í manni. Ákveðnar tilfinningar og minningar fara í gang þegar kemur að hefðbundnu tékki, það þekkjum við öll sem höfum greinst með þennan fjanda og er eðlilegt ferli. Ég geri mér grein fyrir því að málin líta ekkert allt of vel út núna en ég er alls ekki svartsýn um að eðlilegar skýringar liggi að baki þessu hábölvaða heilsufari og verkjum. Hef að sjálfsögðu mínar kenningar um orsakir sem ég vona að reynist réttar. Tounge En hver sem skýringin kemur til með að verða er ekkert annað en að taka á því og gera sitt besta.  Þarf að hugsa um fleiri en sjálfa mig, ástandið hefur farið illa í krakkana og því mikilvægt að komast til botns í málin, okkar allra vegna.

Sé alltaf betur og betur hversu mikils virði það er að eiga gott og náið trúnaðarsamband við sinn lækni. Hef ekki verið dugleg í gegnum tíðina að leita til lækna, finnst það alltaf svolítið happadrætti enda þeir misjafnir eins og aðrir. Hef þó látið mig hafa það að tala við nokkra síðustu vikur en enginn einhvern veginn tilbúinn að taka á málum og ,,gera eitthvað", vísað í minn sérfræðing. Vandamálin hafa því setið eftir óleyst og versnað.  Skiljanlegt að sumu leyti en sum vandamál heyra etv. ekki undir krabbameinslækni og svo fara menn einnig í sín frí eins og gengur. EKki alltaf hægt að fresta málum þar til sumar- og vetrarfríium lýkur. En ég gæti ekki verið heppnari með minn sérfræðing í dag. Alltaf gott að leita til hans og hann farinn að þekkja mig sem er mikils virði. 

Ég hef einu sinni hafnað lækni og það var í upphafi greiningarinnar haustið 2006. Lenti hjá mjög færum sérfræðing en ég gat ekki talað við hann né myndað trúnaðarsambad við hann. Veit þó að sá læknir er mjög fær á sínu sviði og vinsæll af mörgum. En við erum misjöfn og þannig er þetta bara. Gagnkvæm virðing og góð samskipti eru lykilatriði á milli sjúklings og aðstandenda annars vegar  og heilbrigðisstarfsmanna hins vegar.

Törnin byrjar hjá mér í fyrramálið og síðan verður þetta tekið með trukki. Ég er farin að sjóast í þessu ferli, rannsóknirnar taka auðvitað sumar á eins og gengur og sumar tímafrekari en aðrar en þetta venst ótrúlega þannig að ég er ekkert kvíðin. Sigurður ætlar að halda vel utan um sjúklinginn og vera í tíðu sambandi sem mér finnst gríðalegt öryggi því ekki er víst að sú meðferð sem lagt var upp með í dag komi til með að skila tilætluðum árangri. Ég þarf þá alla vega ekki að bíða dögum saman eftir að önnur úrræði verða reynd. 

Veit að ég fæ vængi um leið og verkirnir minnka, get þá kannski haldið áfram og sinnt þeimm brýnu verkefnum sem bíða mín. Hef nákvæmlega ekkert gert síðustu vikurnar annað en að standa mína pligt, farið hratt versnandi. Sé það í hyllingum að fá lengri nætursvefn en 2-3 klst. í senn. Vá, hvað það verður æðislegt!

Ekkert annað að gera en að takast á við þau verkefni sem bíða núna, því fyrr, því betra.Nú verður keyrt áfram á fullu ,,stími" Cool

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Knús á þig Guðrún mín og gangi þér vel í komandi rannsóknum.  Það er vonandi að komist verði til botns í þessu veikindaferli þínu og að úrlausnir séu handan við hornið

Sigrún Jónsdóttir, 16.7.2008 kl. 01:10

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Kerla mín óska þer alls hins besta....gangi þér vel í gegnum þessar ransóknir

Hólmdís Hjartardóttir, 16.7.2008 kl. 01:22

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

RANNSÓKNIR

Hólmdís Hjartardóttir, 16.7.2008 kl. 01:36

4 Smámynd: Sporðdrekinn

Gangi þér vel

Sporðdrekinn, 16.7.2008 kl. 03:28

5 Smámynd: Ragnheiður

Ég er hér og ég vildi senda þér styrk og stuðning en vegna vondra frétta í morgunsárið er ég hálforðlaus.

Vonandi verður allt í besta lagi og niðurstaða úr rannsóknum fín.

Ragnheiður , 16.7.2008 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband