Helgi - enn og aftur

Mér finnst vikan rétt byrjuð en komin helgi. Tíminn æðir áfram á hraða ljóssins, í bókstaflegri merkingu. Mér finnst eiginlega nóg um. Hef svo sem sagt það marg oft áður en alltaf jafn undrandi.  Öðru vísi mér áður brá þegar ég gat vart beðið eftir að vikan liði. Nýtti hvert tækifæri til að skemmta mér og náttúrlega öðrum. 

Helgarnar bjóða upp á samveru með fjölskyldunni, skemmtanir, ferðalög og önnur skemmtilegheit. Alla vega hjá fólki sem vinnur hefðbundna dagvinnu.  Margir flykkjast upp í sumarbústað, aðrir hendast af stað með hjólhýsi, fellihýsi og hvað eina í eftirdragi og elta góða veðrið. Sumir nota helgarnar til að hitta vini og kunningja eða til að lesa góða bók og svo lengi má telja,

Helgar eru ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér, hafa oft verið kvíðvænlegar. Mér finnst þær fremur viðburðasnauðar og einmannalegar, satt best að segja. Eru lengi að líða enda ekki margt um að vera, sérstaklega á veturna. Flestir hafa nóg með sjálfa sig og sína enda oft erfitt að hitta á fólk um helgar. Sjónvarpsdagskráin er oft afspyrnu slök, sérstaklega á laugardagskvöldum hvernig sem á því stendur. Oft heyri ég ekki í neinum frá föstudegi til mánudags, hvað þá að ég hitti einhvern. Öðruvísi en úti á landi, finnst mér. Það hefur komið sér vel að vera á kafi í vinnu og námi þannig að ég hef yfirleitt nóg fyrir stafni en langar stundum að breyta til.

Ég lagði upp með háleitar hugmyndir og plön varðandi þetta sumar. Krakkarnir heima og nú skyldum við gera eitthvað skemmtilegt saman. Bæði vinna þau vaktavinnu þannig að önnur hver helgi er frátekin í vinnu. Aðalatriðið að reyna að stilla vaktir þannig að þau ættu fríhelgar á sama tíma. Ekki gengur það eftir að öllu leyti og svo má ekki gleyma því að þau eiga bæði vini og vandamenn sem þau þurfa og langar til að sinna.

Bév.... fótbrotið skemmir hressilega fyrir mér þetta sumarið, er ekki ferðafær hvert sem er og get ekki gengið neinar vegalengdir.  Sit áfram uppi með verki og ónot undir rifjaboganum sem eru komnir til að vera og hamla mér enn frekar. Er eiginlega fúl yfir þessu, finnst þetta hábölvað ástand.   Get svo sem ekkert gert til að breyta því þannig að það stoðar lítt að sýta það sem er en ofboðslega getur mér leiðst þetta, ég get ekki sagt annað.

Goslokahátíðin þessa helgina, langaði ekkert smá að fara en það var ekki raunhæfur kostur. Katan farin til Eyja, mikið fjör og mikið stuð

eins og vera ber.  Finnst alveg frábær hvað krakkarnir halda tryggð við Eyjarnar enda bjuggum við þar samtals í 11 ár. Tengsl þeirra hafa ekki rofnað.

Það er einmitt á helgum sem þessum sem ég sit og velti fyrir mér hvar ég er, hvert ég vil stefna og hvernig.  Ég veit með vissu að borgarlífið á ekki við mig, er landsbyggðatútta í útlegð. Eitthvað sem ég kaus ekki sjálf. Mér finnst ég því vera ,,munaðarlaus", finn mig ekki ennþá og á ,,hvergi heima", ennþá. Er orðin hálf leið á því ástandi, satt best að segja.

Það virðist lengra á milli vina og ættingja á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar og lífsmynstrið allt annað. Hraðinn og vinnuálag mikið, mikill tími fer í að komast til og frá vinnu þannig að eðlilega vill fólk slappa af þegar kemur að helgum. Nándin er mun meiri úti á landi sem getur verið bæði jákvætt og  neikvætt. Tíminn nýtist betur, maður ræktar betur vinagarð sinn og nýtur útivista í meira mæli. Á þessum tíma vildi ég vera á kafi í heyskap og sem mest úti í náttúrunni, svo ekki sé minnst á útreiðatúra. 

Leitin af sjálfri mér virðist ætla að dragast á langinn. Hef vissulega tekið ýmsar ákvarðanir, sumar hafa gengið eftir, aðrar ekki.  Hef því mætt nýjum krossgötum þegar ég hef farið í gegnum önnur. Enn eru ýmiss mál sem slá mig jafnharðan niður þegar ég rís upp, held samt áfram, ekkert annað í stöðunni. Einhvern tíma lýkur þeim málum og ég verð ,,frjáls" og laus við fortíðadrauga og óvildarmenn.  Það kemur alltaf að kaflaskiptum. Það hefur verið á brattan á sækja síðustu tvö árin í þeim efnum, ég hef bognað en ekki brotnað. Oft hefur það tekið á enda til þess ætlast en ég klára þau mál sem eftir standa og hlakka til að fá frið.

Það stoðar lítt að horfa stöðugt um öxl, aðalatriðið er að spila sem best úr þeim spilum sem maður er með hverju sinni. Hef nóg að gera á næstunni svo fremi sem heilsan leyfir. Ef ekki þá verður það sólbað, takk fyrir, gangi spáin eftir.

 

Tíminn og ég gegn hverjum

öðrum tveimur sem er.

(Spænskur málsháttur)

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Lífið í Reykjavík er ekkert sambærilegt við lífið úti á landi.  Fæ sjálf kviður reglulega. Dæturnar ekki endilega sammála....tómir sveitalubbar úti á landi. Á heimili foreldra minna hefur alltaf verið stöðugur gestagangur....alltaf er verið að líta inn, hér er það ekki svoleiðis. Og sjálf er ég með afbrigðum löt að fara í heimsóknir en vildi samt hafa meira líf í kringum mig. Stundum verður maður að sparka í rassinn á sjálfum sér Guðrún  a. m. k ég.   En sólbað og bók er ekki amalegt!!

Hólmdís Hjartardóttir, 5.7.2008 kl. 01:24

2 Smámynd: Þröstur Unnar

Nándin við fólk, skepnur og náttúru er allt öðruvísi og meiri fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Ég verð miklu meira einmana í Rvík, þó þar sé krökkt af lífi, heldur en einn á ferð á landsbyggðinni.

Þröstur Unnar, 5.7.2008 kl. 11:27

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Það er einmitt málið, maður er fjandi einmanna í stórborginni. Hefði seint trúað því að ég myndi upplifa það, alin upp í Garðabænum og sótti nám og vinnu til Reykajvíkur þar til ég flutti út á land. Ég er hreinlega ekki að finna mig í borginni, er bókstaflega týnd. Vond tilfinning

Sparka oft í botninn Hólmdís, dugar ekki alltaf til.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 5.7.2008 kl. 21:21

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sigrún Jónsdóttir, 5.7.2008 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband