Pistill formanns BHM

Rakst á eftirfarandi pistil formanns BHM á heimasíðu bandalagsins;  http://bhm.is/Pistlarformanns/

Hann er að vísu ekki dagsettur en ég sé ekki betur en að núverandi formaður sé höfundurinn. 

,,Hvers vegna ekki krónutöluhækkun í samningum háskólamanna?"

prosent,,Hækkun launa um fasta krónutölu hefur tvenns konar áhrif á launaröðun. Annars vegar beinir hún hlutfallslega meiri hækkunum í neðri rimar launataflna og skekkir hins vegar innbyrðis afstöðu milli launaflokka.

Ef rifjað er upp vinnulag við síðustu kjarasamninga sem aðildarfélög BHM gerðu við ríkið, var meginmarkmið þeirra að hækka þá lægst launuðu. Á þeim tíma var helsta markmið BHM-félaga að hífa lægstu launatölur þessa svokallaða hátekjufólks upp fyrir 200 þúsund krónurnar.  Það kostaði talsvert átak.

Síðustu samningar miðuðu ekki síður að því að samræma launaumhverfið; skapa nýtt og heildstætt kerfi. 

Því voru ólíkir faghópar mátaðir inn í einsleitan ramma í nafni einföldunar og gegnsæis.

Í dag bregður svo við að afurð þessarar samræmingar er að mati stjórnvalda tilbúin til niðurrifs.  Á þeim mjög svo skamma tíma sem væntanlegum samningum er ætlað að gilda stendur til að gjörbylta launaumhverfinu. 

Framkvæmdin er kölluð krónutöluhækkun og sögð þjóna þeim tilgangi að hækka lægstu launin mest.

Háskólamenn spyrja:  Til hvers?

Til þess að endurtaka leikinn frá því síðast? Til þess að færa botn launatöflunnar enn nær toppi hennar?

Kerfið sem háskólamenn í ríkisþjónustu starfa nú eftir, einkennist meðal annars af því að  launabil á milli nýútskrifaðra einstaklinga, reyndra starfsmanna og yfirmanna er lítið.  Flestir þessir launamenn raðast á svipaðan stað innan launatöflunnar og viðbótarmenntun, reynsla og aukin ábyrgð í starfi hafa takmörkuð áhrif á launakjör.

Með meðvitaðri bjögun launatöflunnar og frekari samþjöppun launa, væri verið að viðhalda þróun sem ekki stenst skoðun af hálfu háskólamanna.

Slíkt gera heldur ekki stjórnvöld sem vilja meta menntun að verðleikum til launa. 

Háskólamenn túlka því krónutöluhækkun sem ógnun við stöðu sína á opinberum vinnumarkaði. 

Áður en lengra er haldið, er rétt er að halda tvennu til haga:

  • Laun nýútskrifaðra háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna eru allt of lág.
  • Ákveðnir hópar innan BHM eru tiltakanlega lágt launaðir.

Aðildarfélög BHM hafa óskað eftir leiðréttingum á þessum skekkjum í yfirstandandi kjarasamningum.

Miðað við efnahagsástandið í landinu í dag má það ljóst vera að stakkurinn í komandi kjarasamningum verður þröngur.

Háskólamenn gera þó þá kröfu að fá sjálfir að ráða sniði hins þrönga stakks sem þeim verður ætlað að klæðast, í þeirri von að hann hefti ekki vöxt til framtíðar.

Að mati aðildarfélaga BHM er ótækt að hækka allar tölur núgildandi launataflna um fasta krónutölu.  Síðustu samningar voru framlag þessa hóps til slíkrar framkvæmdar og því fara háskólamenn fram á prósentuhækkun launa."

 Annar pistill formannsins sem ber yfirskriftina; ,,Menntun skal meta að verðleikum til launa", er í sama dúr.

Svo mörg voru þau orð. Ég hlýt að spyrja; hvað gerðist hjá forystu BHM? Hún sótti umboð til félagsmanna til að semja um bættari kjör en brást. Leggja átti áherslu á vægi menntunar og laun reyndra í starfi. Í mínum huga er trúverðugleikinn horfinn.

Haft er eftir formanni samningarnefndar ríkisins að aldrei hafi staðið til að semja um annað en aðrir hafa fengið. Það stóð ekki til að una því og semja um sömu kjör af hálfu BHM.  

Það verður fróðlegt að fylgjast með atkvæðagreiðslu félagsmanna um þennan samning. Skyldu menn láta óánægju sína í ljós með því að nýta ekki rétt sinn líkt og gerst hefur í öðrum stéttarfélögum??


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Góðir og þarfir pistlar. Sjálfur veit ég ekki hvað gerðist í karphúsinu. Að minnsta kosti er niðurstaðan óvænt og sérkennileg. Hér er sjálfsagt um einhverja meðvirkni að ræða. Þar að auki eru samningamenn ríkisins ekkert lamb að leika sér við. Spurningin er hvort baklandið var nægjanlega virkt eða virkjað. Það mun koma í ljós í væntanlegum atkvæðagreiðslum.

Gunnar Skúli Ármannsson, 29.6.2008 kl. 21:41

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Góð úttekt hjá þér Guðrún mín.  Mér finnst ferlega skrýtið að fylgjast með hverri uppgjöfinni á fætur annarri hjá forystu flestra launþegahreyfinga og átta mig ekki alveg á þessari stöðu.  Ég vona að hjúkrunarfræðingar standi fast á sínu og hvet þá til samstöðu.

Sigrún Jónsdóttir, 29.6.2008 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband