18.6.2008 | 19:59
Vonbrigði :(
Var að fá nýjan kjarasamning Félags framhaldssólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum í tölvupósti sem samþykktur var í fyrrakvöld. Þvílík vonbrigði, mig skal ekki undra þó hann hafi ekki verið sendur út á þjóðhátíðardaginn.
Samið um sömu krónutöluhækkun og aðildarfélög BSRB fengu. Fátt annað markvert í samningum, veikindadögum vegna barna yngri en 13 ára fjölgað um 2. Reyndar talað um 4% hækkun vegna tímabundins álags við breytinguna á framhaldskólalögunum sem óhjákvæmilega fylgir. Desemberuppbót hækkar um einhverjar krónur. Þar með er innihaldið upptalið. Eini ljósi punkturinn er tímalengd samningsins en hann nær fram í marslok á næsta ári.
Ég hefði haldið að einmitt vegna þeirra breytinga sem framundan eru, væri lag að ná betri samningum. Enginn vill hefja haustönnina með verkföllum. En nei, þetta samþykkti forystan. Enn á eftir að greiða atkvæði um samninginn og fróðlegt verður að sjá hver vilji félagsmanna er í þessum efnum.
Mig skal ekki undra þó hvergi sé minnst einu orði á samninginn í fjölmiðlum. Hann er snautlegur og því lítill akkur í því að leka honum út. Gáði til vonar og vara hvort félagsmenn væru beðnir um að þegja yfir þessum samning og væru bundnir trúnaði, fann ekkert slíkt ákvæði þannig að ég læt þetta flakka.
Ekkert kemur fram í aðsendum gögnum hverjar forsendur forystunnar væru við samþykkt þessa kjarasamnings, ekkert haldbært til að réttlæta samninginn. Hvað gerðist? Ég er orðlaus.
Vonbrigðin eru gríðaleg og hef ég grun um að fleiri séu á sömu skoðun og ég. Ég get ekki annað verið en stolt af hinu stéttarfélagi mínu; F.Í.H. sem hefur gripið til aðgerða til að koma til móts við vilja félagsmanna sinna. Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um yfirvinnubann sem lýkur 22. júní nk. Ég trúi ekki öðru en að stéttin sýni samstöðu og taki þátt í atkvæðagreiðslunni.
Við sem tilheyrum stéttarfélögum höfum atkvæðarétt. Það er bæði synd og leitt þegar menn ákveða að nýta ekki rétt sinn. Oft virðast menn einmitt ekki greiða atkvæði til að sýna í verki andstöðu sína en það er einfaldlega ekki rétta leiðin. Mér er enn minnistætt þegar samningur við aðildafélög BSRB var samþykktur með 33.4% greiddum atkvæðum. Rúm 66% félagsmanna kaus að nýta ekki rétt sinn. Það er mikið nær að fella samninga sem maður er ósáttur við en að sitja hjá, það eru einu skilaboðin sem eru réttlát, skýr og öllum skiljanleg.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:30 | Facebook
Athugasemdir
Fólk sem ekki nýtir sinn rétt og situr frekar óánægt út í horni er ekki að nýta sína möguleika til að hafa áhrif á sitt líf og afkomu. Leiðinlegt að heyra hversu slæmur þessi samningur er.
Ragnheiður , 18.6.2008 kl. 21:35
Og þetta eru að mestu hluta, ef ekki öllum, konur sem nýta ekki sinn rétt!!!
Eru þær svo undrandi að ekkert gengur í að jafna kjör kynjanna.!!!
Ja sveiattan...og fussum svei
Katrín, 20.6.2008 kl. 00:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.