Um daginn og veginn

Lífið er smám saman að færast í eðlilegri skorður. Orðin býsna flink við að tylla í tærnar og koma mér á milli staða. Finnst alveg skelfilega hallærislegt að skjögra með hækjurnar og á það til að ,,gleyma" þeim svona af og til. Fæ svo sem að kenna á því síðar en fyllilega þess virði að vera pínu ,,smartari" en kjaga óneitanlega eins og gæs ennþá.

Lafði Díana er komin heim til síns heima. Kom úr sveitinni í kvöld, fékk far með einum af mínum bestu vinum. Lafðin er búin að vera í sveitinni síðan 1. apríl hjá vinafólki mínu. Það er ekki sjálfgefið að taka að sér annarra manna dýr, hvað þá Lafðina sem þýðist ekki hvern sem er, dyntótt og stundum ,,grumpy".  Vinir eru ekki á hverju strái og í seinni tíð hef ég valið mér þá fáa þó kunningjar séu fleiri. Þessir vinir mínir eiga í mér hvert bein, svo mikið er víst enda ævinlega staðið við bakið á mér í gegnum súrt og sætt.Heart

Varð að skutla Slaufu í pössun til Keflavíkur þar sem blóðug slagsmál hafa verið á milli þeirra tveggja.  Lafðin verður að fá að vera drottningin á heimilinu fyrstu dagana eftir heimkomuna enda að verða 11 ára í ágúst og hefur ráðið hér ríkjum allan þannt tíma.  Ótrúlegt pússluspil en ekkert annað en að taka á því og virða goggunaröðina.  Sigrún sys tók Slaufuna í 1-2 daga og síðan hefst aðlögunarprócessinn. Ekki veit ég hvor var ánægðari með heimkomuna, Lafðin eða eigandinn.

Úthaldið smám saman að aukast, 4 tímar í tannlæknastól í morgun sem kallaði auðvitað á sófakúr eftir kaffi, síðan brunað til Keflavíkur og þaðan áleiðis upp í Kjós til að sækja Lafðina.  Á náttúrlega uber bágt núna, búin á því og sófamatur en sátt við dagsverkið.

Ég fann fyrir miklum létti um leið og ég kom út fyrir bæjarmörkin, gróðurinn ótrúlega fallegur og mikið af blómstrandi lúpínu alls staðar sem mér finnst meiri háttar fallegar þó umdeildar séu. Það grípur mig sérstök tilfinning um leið og ég er komin úr fyrir borgina, alveg sama í hvaða átt. Er greinilega orðin rótgróin landsbyggðatútta. Hefði ekki haft á móti því að keyra lengra í norðuráttina, hef ofboðslega heimþrá. Vorið búið að vera slæmt í þeim efnum, finnst handónýtt að vera ekki í minni sveit og í sauðburði. Heyskapur fram undan og ekki síður vond tilfinning að vera fjarri góðu gamni. Er eiginlega handónýt í sálartrinu þegar kemur að þessum málum. Ekki það að ég hafi það slæmt hér, ég á bara ekki ,,heima" hér, svo einfalt er það.

Fékk óvenjulega sendingu í pósti í dag, litla bók sem ber titilinn ,,Kjarkur og von" eftir Helen Exley. Sagan á bak við þá sendingu er sérstök og bíður betri tíma en sendingin var óvænt. Hún hitti hins vegar beint í mark.  Mjög heilræði og spakmæli sem ugglaust munu auðvelda manni eitt og annað. Hef reyndar fengið send heilræði úr þessari bók á blogginu mínu og man hvað mér fannst þau eiga vel við.

Hlutirnir hafa ekki verið að ganga sem skyldi síðustu vikur og mánuði. Er svo sem ekki óvön því og ætla mér ekki að dvelja um of við það, lífið heldur áfram þó það sé ekki alltaf eftir óskum manns.  Veggirnir og hindranirnar á hverju strái og væntingar verða að engu. Ekkert annað að gera en að byrja aftur, breyta kúrs og finna nýjan farveg. Verð stundum gröm út í böðla mína, hef ekki legið á því en staldra stutt við gremjuna enda gerir hún lífið enn erfiðara.

Strangt til tekið eru aðeins tvær leiðir

í lífinu; leið fórnarlambsins

eða hins sókndjarfa bardagamanns.

Viltu eiga frumkvæðið eða bregðast við?

Ef þú leikur ekki þinn leik við lífið

leikur það sér að þér   (Merle Shain)

 

Orð að sönnu og rétt að hafa að leiðarljósi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

kvitt

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 15.6.2008 kl. 08:55

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Spakmæli eru eins og sælgæti orðanna. 

Anna Einarsdóttir, 15.6.2008 kl. 10:04

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

.  Mér finnst alltaf gaman að stúdera spakmæli, endilega deila einhverjum með okkur í næstu færslum.

Sigrún Jónsdóttir, 15.6.2008 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband