5.6.2008 | 00:05
Sælan búin í bili
Haffi náði pófinu í morgun, mikill léttir að vera búinn með það. Þá eru 4 próf eftir og rúmar 3 vikur þangað til hann kemur heim. Katan er að fara austur til pabba síns í morgun, verður þar í tæpan mánuð og kemur til að vinna þar en snýr aftur suður á bóginn í byrjun júlí. Skil vel að hún skuli vilja vera hjá föður sínum, stjúpu og systkinum enda tækifærin ekki mörg eftir að hún hóf nám sitt. Tíminn líður á ógnarhraða og krakkarnir stækka að sama skapi. Mikilvægt að rækta fjölskylduböndin.
Fékk þokkalega skoðun í morgun hjá doktornum mínum sem mér finnst hreint út sagt frábær eins og allt starfsfólk á Endurkomudeildinni. Brjálað að gera og fullt út að dyrum en allir með bros á vör, enginn asi heldur gengu allir hratt og fumlaust til sinna starfa. Ber ótakmarkaða virðingu fyrir starfsfólki deildarinnar sem og starfseminni sem þar fer fram. Er mest hissa hvernig hægt er að sinna þeim fjölda sem þar fer í gegn á degi hverjum í þessu litla, þrönga húsnæði. Andrúmsloftið svo notalegt að maður finnur ekki fyrir þrengslunum, fær sér kaffi og hefur það náðugt. Allt er smurt.
Brotið er sem sé ekki gróið ennþá en á réttri leið. Brotalínur ennþá sýnilegar en beinmyndun til staðar. Má nú stíga í fótinn upp að sársaukamörkum þannig að það styttist í að mín taki sporið. Það neikvæða er að það er orðin gríðaleg vöðvarýrnun, sérstaklega á lærinu, allir vöðvar horfnir. Sjúkraþjálfunin hefur verið skrikkjótt, fæ tíma með löngu millibili, allt að tæpar 3 ikur hafa liðið á milli. Það er einfaldlega ekki nógu gott og því fór sem fór. Ekkert annað að gera en að reyna að snúa við þróuninni. Lærið eins og kjúklingaleggur. Ekki mjög smart.
Ég ræddi við doktorinn um mitt hrikalega lélega úthald sem er ekkert í orðsins fyllstu merkingu. Sagðist jafnvel vera farin að halda það að eitthvað misjafnt væri á ferðinni en hann fullvissaði mig um að orsökina væri að finna í slysinu og áfallinu sem skrokkurinn varð fyrir, hreyfingaleysinu og því sem fylgir. Allir aðrir vöðvar hafa rýrnað líkt og lærvöðvarnir en þó ekki eins mikið. Það sem ekki er notað, rýrnar og hverfur. Svo einfalt er það. Hann vill sem sé vinda kvæðinu í kross og ráðlagði mér að fara á líkamsræktastöð og hefja almenna þjálfun undir leiðsögn. Það mun ég gera enda held ég að ég muni leggja allt á mig til að koma mér upp úr þessu ástandi. Er þó þekkt fyrir að vera mjög lítið fyrir alls kyns líkamsræktarbrölt í gegnum tíðina. Nú er að nýta tækifærið og breyta því.
Vinna er ekki inni í myndinni næstu 2-3 vikurnar skv. læknisráði en ég vil gjarnan byrja fyrr, rólega að vísu til að tapa ekki endanlega geðheilsunni. Mér er farið að leiðast eiginn félagsskapur svo um munar. Komin með upp í kok á sjálfri mér, hreinlega verð að fara komast innan um fólk aftur. Fer bara varlega og þreifa mig áfram. Bakka þá út ef það gengur ekki en ég hef alla trú á því að þetta verði í lagi. Þarf að styðjast við hækjurnar um hríð en spelkuna þarf ég ekki að nota nema þegar mikið álag er á mér eða ég mikið úti við. Hún veitir góðan stuðning og vernd gegn hnjaski. Það verður mikill munur að geta klæðst öðrum fatnaði en íþróttabuxum og inniskóm. Ekki mjög töff klæðnaður utan heimilis.
Er því nokkuð sátt með niðurstöður þó vissulega hefði verið ánægjulegra að sjá gróandan kominn lengra á veg en ég verð að horfast í augu við þá staðreynd að ég er ekki tvítug lengur og yngist ekki.
Sælan búin í bili en kemur inn með fullum þunga eftir rúmar 3 vikur. Tíminn er fljótur að líða, ekki síst þegar tilhlökkunin er mikil.
Athugasemdir
Æi er Kata bara strax flogin? það er synd en hún kemur aftur áður en þú veist af og sonurinn líka. Farðu vel með.þig.
Hólmdís Hjartardóttir, 5.6.2008 kl. 00:14
Gott að heyra af Haffa, til lukku með drenginn Til hamingju, Haffi Haltu einbeitingunni og drífðu þig svo heim á klakann !
Gott að gróandinn er byrjaður, nú er bara að byggja sig upp og lyfta lóðum og alles sjáumst fljótlega verð í bandi.
Sigrún (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 00:39
Takk fyrir það Hólmdís. Skvísan kemur aftur í júlí, verður á Dropanum í júlí og ágúst og finnst vont að vita að þar sé ekki þig ekki lengur að finna.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 5.6.2008 kl. 00:41
Knús knús og bestu kveðjur
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 5.6.2008 kl. 19:33
iss þetta er svo fljótt að líða =) verð komin eins og eldingin aftur! =) og þá kannski með smá stoppi heima í mat! haha:)
Katan , 5.6.2008 kl. 19:50
Guðrún mín er ekki Reykjalundur eitthvað sem þú ættir að athuga?
Taktu þessu samt rólega og góðan bata
Sigrún Jónsdóttir, 6.6.2008 kl. 00:17
Það er svo einkennilegt Sigrún, að mér hefur ekki staðið til boða nein endurhæfing, hvorki eftir brottnám lungans né núna. Virðist ekki vera rétti candindatinn ??
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 6.6.2008 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.