Ekki búið enn

Svo virðist sem skjálftavirkni sé linnulítil ennþá fyrir austan. Greinilega ekki búið enn, vona þó að skjálftarnir fari ekki upp fyrir 4 á Richter, nóg er þetta samt. Þvílíkt álag á íbúum þessa svæða. Einhvern veginn finnst mér meira eigi eftir að koma í ljós en vona að mér skjátlist í þeim efnum.

Stór dagur á morgun, Haffi að fara í viðamikið próf í meinafræði kl. 07.15 á staðartíma. Prófið fjórþætt, bóklegt, krufning og verklegt og munnlegt. Þrepaskipt þannig að ef hann nær fyrsta hlutanum, heldur hann áfram og svo koll af kolli. Ef ekki, þá sendur heim til að lesa meira. Efnið gríðalegt, krakkarnir búnir að vera að lesa í 5-6 vikur undir þetta próf þannig að mikið er í húfi.  Sendi þér sterka strauma yfir línuna Haffi minn og bíð spennt eftir að heyra frá þér, með öndina í hálsinum. Ef allt gengur upp á morgun ætti áætlun að standast þannig að hann komi heim um næstu mánaðarmót. 

Katan dugleg að snudda með þeirri gömlu, hefur keyrt mig út um allar trissur svo ég geti útréttað. Náði loksins að afskrá bíl sem var sóttur af Vöku fyrir ári og mulinn mélinu smærra í kjölfarið. Hef verið að greiða tryggingar af bílnum engu að síður. Ævintýraleg uppákoma þar sem loks er búið að leiðrétta. Fór í mitt tryggingafélag og fyllti úr skýrslur út af slysinu, mér skilst á sérfræðingnum að brotið teljist sem meiriháttar sem og ég reyndar vissi. Afleiðingarnar varanlegar að hans sögn. Nú er að sjá hvernig afgreiðsla mála verður. Mér finnst smáa letrið vernda tryggingafélögin ansi oft.

Fannst óþægilegt að skrifa undir upplýst samþykki sem gefur tryggingafélaginu heimild til að afla allra heilsufarslegra gagna um mig. Það virðist ekki einungis ná til þessa slyss heldur í framtíðinni einnig og þá víðtæk heimild sem nær yfir fleiri þætti en þetta brot. Hins vegar getur maður víst afturkallað það hvenær sem er. Ekki það að það er sjálfsagt að tryggingafélagið fái öll gögn um þetta slys en ég er ekki alveg tilbúin að leyfa starfsmönnum þess að grúska í öllum persónulegum og heilsufarslegum upplýsingum sem til eru um mig. Það má vera að þetta sé þröngsýni en mér finnst þetta eiginlega óþarfi og mun víðtækara en þörf er á. Hefði viljað takamarka þetta upplýsta samþykki við þetta tiltekna slys og punktur og basta. 

Allt á réttri leið hjá bróður, mikill léttir. Hann var heppinn.  Reyndar gengur mjög vel hjá þeim báðum enda kalla þeir ekki allt á ömmu sína. Er að læra af þeim daglega, í bókstaflegri merkingu. Viðhorf og jákvæðni skipta öllu máli í erfiðri baráttu. Þeir hafa nóg af bjartsýni og baráttuvilja báðir tveir.

Bíð spennt eftir niðurstöðum morgundagsins. Kostur að fá þær strax í stað þess að bíða í einhverja daga. Er farin að skakklappast meira en áður og finn mikinn mun, úthaldið kemur smátt og smátt. Finn einnig mikinn mun á sálartetrinu eftir að Katan kom heim, líf í húsinu og hún dugleg að skottast með mig. Ansi margt hefur setið á hakanum síðustu 9 vikurnar. Get ekki beðið eftir því að komast í vinnu og vera innan um fólk. Verð örugglega ekki beysin fyrst um sinn miðað við líkamlegan status í dag en að fenginni reynslu veit ég að þetta kemur fljótt. Þarf trúlega að byrja rólega. Það verður skondin sjón engu að síður á meðan ég þarf að styðjast við hækjurnar. Ég skemmti þá einhverjum á meðan Tounge

En svo ég sleppi öllu gamni þá vona ég að íbúar á skjálftasvæðinu fái frið í nótt. Sumir spá því að skjálftarnir færist vestar sem þýðir jafnvel Reykjanesskaginn. Vona að sú spá rætist ekki.


mbl.is Fjöldi eftirskjálfta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Hann rúllar þessu upp strákurinn. Ég vissi að þú myndir hressast við að fá Kötu heim. Fínar fréttir af bróður.

Vonandi hefurðu samt ekki rétt fyrir þér með skjálftasvæðið, þetta er alveg komið nóg

Ragnheiður , 3.6.2008 kl. 23:29

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 3.6.2008 kl. 23:29

3 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og bestu kveðjuryfir til þín elsku Guðrún Jóna mín

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 4.6.2008 kl. 00:23

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Vona að allt gangi upp hjá Haffa þínum.  Njóttu þess að hafa Kötu heima

Sigrún Jónsdóttir, 4.6.2008 kl. 00:45

5 Smámynd: Sigrún Óskars

Hvar geta tryggingafélögin fengið upplýsingar um heilsufar þitt? Ég bara spyr.

kveðjur frá mér.

Sigrún Óskars, 4.6.2008 kl. 22:37

6 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir kveðjurnar öll sömul.

Ég er ekki hissa þó þú spyrjir Sigrún en með upplýstu samþykki manns geta tryggingafélögin farið fram á að fá heilsufarsupplýsingar skilst mér, bæði úr journölum og rafrænni skráningu. Er þá gangurinn að kalla á eftir þeim en hvernig ferlið virkar nákvæmlega er ég ekki viss um. Mér finnst þetta svona heldur óþægilegt, sjálfsagt að tryggingafélögin fái þau gögn er lúta að umræddu slysi/veikindum en ekkert umfram það. 

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 4.6.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband