Helgin liðin - aftur og nýbúin

En önnur helgin liðin, tíminn heldur áfram að líða á ógnarhraða. Katan kom heim aðfaranótt laugardags og var sótt af vinkonum sínum, svona ,,suprise" sem hitti vel í mark. Var býsna brött þrátt fyrir svefnlitla nótt fyrir brottför og 19 klst. ferðalag. Við mægður fórum ekki í koju fyrr en seint á 4 tímanum þá nóttina.

Í gær tók við óvissuferð hjá skvísunni sem vinkonur Kötunnar skipulögðu, mikið fjör og mikið gaman og mín í essinu sínu. Greinilega gott að vera komin heim, orkuboltinn hefur engu gleymt. Skyggir nokkuð á að Hafsteinn er enn úti og það við þessar aðstæður en enn sem komið er, hafa íbúarnir á Komlossy sloppið við óvænta næturgesti. Hrollur í þeim öllum samt og þeir halda hópinn á næturnar.  

Laugardagskvöldið silaðist áfram á hraða snigilsins, merkilega, skelfilega leiðinleg sjónvarpsdagskrá að vanda á því kvöldi. Unglingamyndir á stöð 1 og 2 fram eftir öllu kvöldi og endursýnt efni á Skjá 1. Mér finnst og hefur fundist laugardagskvöldin kvíðvænleg. Trúlega merki um hækkandi aldur. Einkennilegt að vera ekki á kafi í verkefnum eða vinnu eins og oftast hefur verið. Verð að fara að finna mér handavinnu eða eitthvað þangað til ég kemst allra ferða minna. Tíminn ætlar bókstaflega aldrei að líða. Þessi upplifun markast fyrst og fremst af laugardagskvöldunum, svo einkennilegt sem það er. Hjá mér ættu öll kvöld að vera eins á meðan ég geri ekki neitt en sem sé, laugardagskvöldin eru verst.

Við vorum harla rólegar mæðgurnar í dag, Katan að jafna sig eftir ferðina og ég eins og vant er með lítið úthald. Veðrið hálfleiðinlegt en lét mig hafa það að kíkja út í garð en staldraði stutt við. Höfum því dólað okkur og haft það yfirmáta notalegt.  Veikindi eins bróður míns hafa skyggt nokkuð á daginn og valdið nokkru eirðaleysi en fréttir kvöldsins góðar, ástandið á uppleið og allt lítur út fyrir að fara vel. Höggin í alvarlegri kantinum orðin þrjú í systkinahópnum á tiltölulega skömmum tíma, sennilega verður nú hlé á. Fátt bítur á bræðurna enda býsna harðir af sér. Það kemur sér vel nú. Ég er ekki mjög ánægð með heilbrigðisþjónustuna frekar en fyrri daginn, það er ansi margt sem betur má fara í þeim efnum. Crying

Framundan er skoðun hjá bæklunalækninum á miðvikudag, fæ vonandi einhverjar línur um framhaldið þá. Teknar myndir og statusinn metinn. Hef mátt tylla í síðan á miðvikudag og geri það óspart upp að verkjaþröskuldi en hreyfigetan ansi snautleg.  Úthaldið líkt og hjá  gamalmenni ennþá en allt á réttri leið. Hefði gjarnan viljað flýtimeðferð í þeim efnum. Ég er greinilega ekki að yngjast, svo mikið er víst. Það hefur gengið illa að komast að hjá sjúkraþjálfara, fékk einn tíma, síðan duttu niður 2 og löng bið í næsta. Sýnist ég fara í gegnum þetta án þeirrar aðstoðar. Álagið greinilega gríðalegt hjá þeirri stétt.  Vöðvarýrnun stjarnfræðileg, hefði seint trúað því hversu hröð  og mikil hún er en hreyfigetan hins vegar ágæt í hnjáliðnum. Frúin fer varla í pils þetta sumarið, nema þá kannski ökklasítt. Tounge

Katan fer austur á fimmtudag og verður þar næsta mánuðinn, þangað til ætlum við að nota tíman vel. Hún er nokkuð þreytt eftir törnina, get rétt ímyndað mér hvernig Hafsteinn verður eftir sínar 10 vikur þegar hann mætir á svæðið og beint í vinnu.  Hún fær nú samt að snuddast í kringum þá gömlu  og einhver blóm verða sett niður ef veður leyfir. Þyrftum svo sannarlega að reyna að nálgast Lafðina, er enn rög að fara það langa leið með alla mína bólgu og bjúg en það er aldrei að vita hvað við getum mæðgurnar. 

Styttist vonandi í að ég fái heimild til að hreyfa mig meira og þá fer þetta allt að koma.  Er orðin ansi ,, markeruð" af 9 vikna einangrun og inniveru. Mikill munur þó að finna aukna sjálfsbjargargetu og frelsistilfinningu. Það sem tilfinnalega vantar á er úthald og  matarlyst. Ég get þó miklu meira í dag en ég gerði fyrir viku þannig að allt er á réttri leið. Nokkur óvissa um framtíðina plagar mig, vil vita lengra en niður á tærnar á mér en smátt og smátt hljóta málin að skýrast. 

Mikið rosalega kann ég að meta tvo jafnfljóta eftir þessa reynslu og mun verða duglegri að nota þá en ég hef gert.  Nú er bara að krossa fingur. Það er styttra eftir en búið er og það sem meira er; það er komið líf í húsið.Smile

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

það verður allt á uppleið héðan í frá

Hólmdís Hjartardóttir, 2.6.2008 kl. 01:12

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Njóttu sumarsins Guðrún mín

Sigrún Jónsdóttir, 2.6.2008 kl. 09:38

3 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

kvitt

Georg Eiður Arnarson, 2.6.2008 kl. 20:22

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og bestu kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 3.6.2008 kl. 16:36

5 Smámynd: Ragnheiður

Já þetta er nú mun betra fyrst hún er komin, vont að vera ein og svona slæm til heilsunnar.

Vonandi heldur þetta bara allt áfram í rétta átt, bæði með þig og bróður

Ragnheiður , 3.6.2008 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband