30.5.2008 | 22:04
Þjófar að nóttu
Mikið búið að ganga á hjá krökkunum í Debrecen. Óprúttnir þjófar hafa verið á ferð í íbúðahúsum nemenda og skiptir þá engu máli hvort húsin eru 4 hæða eða á einni hæð. Þeir skríða alls staðar. Katan hefur verið að vakna af og til undanfarnar vikur við rjátl við gluggana hjá sér en þeir snúa beint að götunni og eru á jarðhæð. Mikil skelfing hefur gripið um sig, eðlilega en hingað til hafa þeir sem heimsótt hafa krakkana að næturlagi látið sig hverfa um leið og Hafsteinn og Kata gera vart við sig.
Í nótt keyrði um þverbak. Sá óprúttni byrjaði á því að hringja á dyrabjöllunni hjá krökkunum og þegar enginn svaraði klifraði hann eins og ,,Spiderman" upp á 4 hæð þar sem hann kom auga á opna glugga. Var á góðri leið þar inn þegar ein ung frökenin hljóðaði upp yfir sig og skellti glugganum á hann. Fór umsvifalaust upp á þak og lét sig hverfa. Virðist alla vega ekki vera í þeim hugleiðingum að skaða aðra, einungis að finna eitthvað bitastætt eins og tölvur. Hafsteinn, eini karlmaðurinn í hópnum vopnaður hnífi og Katan vopnuð tennisspöðum og fleiru lauslegu fóru upp á 4 hæð til að líta til með þeim stelpum sem þar búa. Allir sluppu ómeiddir en skelkaðir og enginn svefn þessa nóttina.
Skilaboð til krakkanna hafa verið þau að ekkert stoði a hringja á ungversku lögregluna. Leigusalar leggjast beinlínis gegn því. En eftir átakasama og svefnlausa nótt, hitti Hafsteinn einhvern Ungverja í morgunsárið og sagði honum frá þessum atburði næturinnar. Sá hinn sami brást æfur við, hringdi á lögregluna sem mætti galvösk og leitaði af fingraförum á svölum, við glugga og víða hjá krökkunum. Eigandinn lét lagfæra bilaða svalahurð ,,med det samme", gluggar voru þéttir og þjófavörn var sett upp. Auðvitað var þjófurinn löngu bak á burt en vonandi verður þetta til þess að hann láti ekki sjá sig í bráð. Í öllu falli var sviðið eins og í bíómynd og tilfinningin örugglega ekki góð.
Þeir eru allnokkrir Íslendingarnir sem búa í þessu húsi og verður að segjast eins og er að fáum þeirra er rótt þessa dagana. Gat ekki hitt á verri tíma, allir á kafi í próflestri þar sem hver mínúta er skipulögð. Vont að missa nætursvefninn. Hafsteinn orðinn einn eftir í íbúðinni sem er á jarðhæð og ekki rótt þó hann vilji ekki gera mikið úr málum. Katan fór í morgun og er væntanleg eftir miðnætti til landsins, svefnlítil blessunin.
Ekki laust við að sú gamla hafi áhyggjur af frumburðinum. Vont að vita af honum einum í íbúðinni þó það verði að teljast harla ólíklegt að menn geri aðra atlögu. Þó er aldrei að vita, þetta hefur verið að gerast af og til í rúman mánuð, skilst mér, en keyrði um þverbak síðustu nótt.
Erfiður tími framundan hjá Hafsteini, fyrirferðarmikil og þung próf, mikill hiti úti og lestur frá 08.00-23.00 alla daga, dugar vart til. Er ekki væntanlegur fyrr en undir mánaðarmótin næstu. Hrikalegt að geta ekki verið þarna úti, þó ekki nema til að veita honum móralskan stuðning. Ekki viss um að sá stuðningur sé endilega heppilegastur frá móður samt. Mér virðist ganga það hálfilla að átta mig á því að hann er floginn úr hreiðrinu
Vonandi verður í lagi í nótt. Vont að fá þau ekki bæði heim samtímis en þau eru á sitthvoru árinu og mun meira prófálag á 3ja ári en því fyrsta þannig að það er ekkert annað að gera en að sætta sig við stöðuna. Það verður líka tekið á því þegar prinsinn kemur heim. Ég hef aldrei farið eitt eða neitt með mínum börnum á sumrin enda aldrei tekið mér sumarfrí. Þau nutu þess hinns vegar að eiga yndislega ömmu og afa sem voru með þau í sumarbústað og á ferðalögum. Þetta sumarið fer ég með mínum ungum eitthvað út fyrir bæjarmörkin. Þau verða náttúrlega að vinna mikið og ég vonandi farin að vinna fljótlega þannig að það verða helgarnar sem verða nýttar.
Mér er loksins að takast það að átta mig á því að við eigum að lifa í núinu, ekki bíða til morguns það sem hægt er að gera í dag. Við höfum ekki endalausan tíma og ég vil fá sem mest út úr hverjum degi sem hægt er. Mér liggur nefnilega á, hef farið illa með tíman fram að þessu. Treysti á að æðri máttarvöld hafi ,,afkuklað" mig þannig að fljótlega geti ég farið að hverfa til eðlilegs lífs á ný. Maður finnur það vel þegar eitthvað bilar, þó ekki nema fótur, hvað maður er bjargalaus og háður öðrum. Ástand sem ég þoli illa. Vinnan er mér, líkt og flestum, það vítamín sem heldur mér gangandi. Samúð mín er því mikil gagnvart þeim sem ekki hafa tök á því að stunda vinnu sökum örorku. Er ansi hrædd um að mín myndi taka slíku ástandi óstinnt upp.
Athugasemdir
Úff ég skil alveg áhyggjur þínar af honum þarna úti. Svo er hitt auðvitað segin saga að við erum æfiráðnar mæður og höfum áhyggjur fram í dauðann af börnunum okkar.
Vonandi gengur allt að óskum hjá honum
Ragnheiður , 30.5.2008 kl. 22:08
vonum það besta en óþægilegt fyrir krakkana að eiga von á´"heimsókn" Gaman að Kata er komin heim.
Hólmdís Hjartardóttir, 31.5.2008 kl. 02:01
Til hamingju með að Katan sé komin heim. Vonandi verður þetta allt í lagi, þegar komin er upp þjófavörn og alles.
Sigrún Jónsdóttir, 31.5.2008 kl. 07:38
Til lukku með hana Kötu þína falleguKnús knús og bestu kveðjur
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 31.5.2008 kl. 08:20
Til hamingju med Kotu,og eg er sammala madur a bara ad lifa i nuinu
Ásta Björk Solis, 31.5.2008 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.