Gat verið verra

Þá liggja næstu 4 vikur fyrir, fæ að tylla í fótinn eftir 3 vikur, alla vega styttra eftir en búið er. Á að byrja í sjúkraþjálfun til að hreyfa hnéð, ekki talin geta ráðið við það sjálf. Leita með rauðum ljósum að sjúkraþjálafara á lausu. Fréttir dagsins gátu verið verri. Ný beinmyndun hafin við liðfletina sem er mjög jákvætt.  Fékk að sjá myndir í fyrsta skiptið. Úff, beinið mölbrotið frá liðhaus, reyndar bæði og niður eftir sköflungsbeininu, hafi ég skilið þetta rétt. Brá dálítið að sjá þetta á myndinni. Lítið rætt um framhald umfram næstu 4 vikurnar, þetta verður bara að fá að gróa, einhvern veginn. Það hefst með tíð og tímaWink

Losnaði við gipsið og fékk þessa líka forlátu spelku með fjöldan allan af frönsku rennilásum og ,,liðamótun", aldrei séð slíka fyrr. Nær eins hátt og gipsið en mikið mýkri, léttari og eftirgefanlegri. Seljandinn kom brunandi alla leið úr Hafnafirði til að færa mér hana til að ég þyrfti ekki að taka leigubíl þangað. Lá eins og prímadonna á bekk með kaffi og með því á meðan ég beið.  Yndislegt að  koma á endurkomuna, þar ganga hlutirnir, fumlaust og áreynslulaust eins og smurð vél. Engir flöskuhálsar. Öllum virðist líða vel í sínu starfi og viðmótið framúrskarandi. Það væri lærdómsríkt fyrir einhverja stjórnendurna að eyða þar einum eða tveim dögum og læra hvernig hlutirnir eiga og geta gengið fyrir sig. Ég bókstaflega dáist af kollegum mínum og öðru starfsfólki á deildinni. InLove

Þurfti að koma við í Orkuhúsinu á heimleið í eina rannsókn, klöngraðist þar upp tröppur og brekkur.  Hönnun andyris og húsnæðis einungis með gangandi fólk og hjólastóla í huga og þá með fylgdarmanni því fáir ná að keyra sig sjálfir upp allan hallan þarna.  Hef reyndar rekist á ótrúlegustu hindranir síðustu vikur, bæði í verslunum og á ýmsum stöðum sem gera fötluðum mjög erfitt fyrir. Hef þakkað fyrir að vera ,,fötluð" tímabundið og mun örugglega sýna þeim hóp meiri skilning en áður. Hef sjálf lent í því að krakki klifraði yfir fótinn á mér í ákafa sínum til að nálgast pulsupakka, verið beðin um að víkja og jafnvel ýtt til hliðar í verslunum og þar fram eftir götunum. Jafnvel lent í því að þurfa að hökta langar leiðir úr stæði þar sem frískir einstaklingar taka frá stæði fatlaðra til að spara sér sporin. Í öllu falli athyglisverð reynsla. 

Mér hefur verið tíðrætt um það hversu hratt tíminn líður. Fékk póst í dag sem minnti mig enn frekar á þá staðreynd.  Boðsbréf frá Háskóla Íslands og hamingjuóskir með 25 ára útskriftarafmæli. Finnst ótrúlegt að það séu 25 ár síðan ég fékk mitt prófskírteini sem hjúkrunarfræðingur. Á næsta ári eru 30 ár síðan ég lauk stúdentsprófi. Mér finnst þessir atburðir ekki svo íkja langt síðan.

Hef yfirleitt notið þess að starfa sem hjúkrunarfræðingur, verið mín hugsjón en einnig haft gaman af kennslu. Hef bætt við meiri menntun í kennslufræðum og á meistarastigi til að auka færni mína og starfsmöguleika.  Þegar ég lít í launasumslagið blasir sú sorglega staðreynd við að öll sú menntun sem ég hef bætt við mig, skilar sér ekki í hærri launum. Það gerir 25 ára starfsreynsla ekki heldur Í raun grátlegt að sjá hver staðan er en fleiri áhrifaþættir koma þar að málum veit ég. 

Ég geri mér ekki almennilega grein fyrir því hvað hefur farið úrskeiðis í launaþróun minna stétta. Ugglaust eru þar margir samverkandi þættir að verki. Ég hef ekki tekið mér sumarfrí þessi 25 ár frá því ég útskrifaðist nema til þess eins að starfa annars staðar. Hef alltaf þurft að gera það enda alið upp mín börn að stórum hluta ein. Hef unnið allt að 180% vinnu á 2-3 stöðum til að ná endum saman, ekki síst eftir að ég gafst upp á að vinna eingöngu vaktavinnu. Var orði þreytt á því að senda börnin frá mér önnur hver jól og áramót, geta ekki sofið á daginn eftir næturvaktir o.s.frv. 

Mér finnst þó eins og síðustu 6-8 árin hafi verið þyngri í þessum efnum, launaskrið í mörgum stéttum en ekki meðal hjúkrunarfræðinga og framhaldsskólakennara þannig að við erum komin langt aftur úr. Kaupmáttur launa minnkað og efnahagsástandið fer versnandi. Forysta þessara stétta er ekki öfundsverð að semja við þessa aðstæður. Stéttirnar búnar að fá nóg, krefjast leiðréttingar og lítil von til að ríkið sé reiðubúið til að ljá máls á þeim kröfum. Það blæs ekki byrlega og ljóst að það tekur tíma að fá leiðréttingu á þeim launamismun sem hefur myndast á milli sambærilegra stétta. En við getum líka kennt sjálfum okkur um, það hefur vantað samstöðu og slagkraft í okkur til að berjast gegn þessum launamismun. Það er ekki nóg að forystan berjist, við verðum að gera það líka og vera samstíga. 

Í fyrsta skipti á ævi minni hef ég alvarlega íhugað það að flytja úr landi og starfa erlendis. Ég held nefnilega að grasið sé raunverulega grænna hinum megin, að sú hugsun sé ekki einungis hyllingar. Ég hugsa að margur sé sammála mér í því að sennilega hafa tímar ekki verið jafn dökkir hér á landi síðan á 7. áratugnum þegar kemur að efnahagslegri stöðu okkar. Það er hins vegar feikinóg af peningum í þjóðfélaginu, þeir eru á fárra manna höndum. Þeir sem slysast í að mennta sig á öðrum sviðum en viðskiptum og fjármálum, verða að sætta sig við það að sitja eftir. Fæstir fá  sneið af velmegunarkökunni.

Það er hins vegar von fyrir suma í einkavæðingastefnu stjórnvalda. Þar liggja fjármunir, fjárfestingar og gróði. Einkareknar lækna- og rannsóknarstofur hafa sprottið upp eins og gorkúlur um allt höfuðborgarsvæðið, aðgerðir framkvæmdar víða þannig að sá geiri blómstrar. Mér þætti fróðlegt að sjá tölur um það hversu hátt hlutfall aðgerða fer fram á einkareknum skurðstofum úti í bæ, miðað við aðgerðir inni á sjúkrahúsunum. Hversu hátt hlutfall skyldi það vera í raun? 40% eða 70%??

Eins og ég hef stundum sagt; ,,if you can´t beat them, join them" þannig að ef fólk ætlar sér að starfa innan heilbrigðisgeirans þarf það að hugsa sinn gang í auknum mæli. Það kæmi mér ekki á óvart ef LSH verði einkavæddur, Pétur Blöndal mun leggja ýmislegt á sig til að komast hjá starfsmannalögunum úr því honum tókst ekki að afnema þau. Of mikil andstaða meðal fagstéttanna en Pétur mun ásamt fulltrúum atvinnulífsins finna einhverjar leiðir. Hefur auðvitað stuðning allrar ríkisstjórnarinnar til þess. Það er fátt sem getur stöðvað Sjálfstæðismenn í sinni stefnu núna. Þannig er það einfaldlega. Einungis spurning hvað þeir verða snöggir að afgreiða mál og frumvörp úr þingi

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katan

Því miður myndi ég ekki mæla með að þú komir hingað að vinna... kannski 300 kr á tímann! haha..

En NB... laun Ungverja eru ekki há og ég hef oft velt því fyrir mér hvernig þeir lifa af.... Afsláttamiðar eru mjöög algengir.. Svo komst ég að því að setja barn á leikskóla kostar 2500 kr íslenskar á mánuði ........ again.. tvöþúsund og fimmhundruð!! 

Katan , 8.5.2008 kl. 06:27

2 Smámynd: Sigrún Óskars

Þessar 3 vikur verða nú vonandi fljótar að líða og svo hefst bara uppbyggingin með sjúkraþjálfara og Pollýönnu. Þekki því miður engan sjúkraþjálfara en vona að þú finnir einn góðan.

Launin okkar eru sér kapituli. Ég hef þá trú að við getum staðið saman og hækkað hjá okkur launin (fæ ég bjartsýnisverðlaunin?). Hjúkrunarfélagið er að brýna fyrir okkur að ráða okkur ekki í vinnu og taka bara við þeim launum sem að okkur er rétt, heldur semja um launin sjálf og hafa þannig áhrif. Fara reglulega í "framgang" - ég hef t.d. alltaf fengið launahækkun þegar ég fer í framgang. Við erum líka sofandi á verðinum og höldum að það þýði ekki að biðja um meira kaup. En það þarf að hækka kaupið okkar svo um munar og starfsreynsla þarf að vera meira metin, eins kvöld og næturvinna, jól og svo videre... Sko, ég gæti haldið endalaust áfram um þetta málefni - hætti hér.

Bestu kveðjur Guðrún og farðu varlega með þig.

Sigrún Óskars, 8.5.2008 kl. 16:51

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Til hamingju með nýja fót"dressið".  Launastefna stjórnvalda hefur verið ömurleg í langan tíma og það virðist engra breytinga vera að vænta, þrátt fyrir að megin kosningaloforð fyrir síðustu alþingiskosningar hafi verið að bæta kjör uppeldis- og umönnunarstétta.  Bara fagurgali eins og fyrri daginn.

Sigrún Jónsdóttir, 8.5.2008 kl. 21:17

4 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús á þig elsku Guðrún Jóna mín

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 8.5.2008 kl. 21:48

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

ooh þetta með launin

Hólmdís Hjartardóttir, 10.5.2008 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband