15.4.2008 | 01:17
Staða bankanna
Núverandi forsætisráðherra er á þeirri skoðun að einkavæðinga bankanna, þ.e Lansbankans og Búnaðarbankans, hafi verið eitt mesta framfaraspor sem stigið hefur verið í íslenskri stjórnmálasögu. Kappsmál Sjálfstæðismanna sem Halldór Ásgrímsson studdi með ráð og dáð. Bankarnir seldir á slikk, kaupendur fjársterkir aðilar. Hin íslenska útrás hófst og margir hafa hagnast síðan.
Bankarnir bókstafleg blómstruðu, tekjur þeirra jukust margfalt ár frá ári og gera enn. Til varð ný auðmannssétt viðskiptajöfra og bankamanna og landinn fór að sjá svimandi tölur þegar kom að launum fyrir stjórnarsetu og bankastjórastarfið. Gróði bankanna hefur verið stjarnfræðilegur en ekki er hægt að segja að sá gróði hafi nýst viðskiptavinum þeirra. Þvert á móti hefur vaxtakostnaður þeirra aukist svo um munar og fer enn hækkandi.
Í dag senda bankarnir ákall til Seðlabankans þess efnis að koma þeim til bjargar í erfiðri stöðu, allt að fara í kaldakol. Nú á að taka upp evruna hið snarasta til að bjarga bönkunum frá glötun. Seðlabankinn spáir 30% lækkun á húsnæðisverði á næstu 3 árum. Bankarnir og fasteignasalarnir stuðluðu að gríðalegri hækkun fasteignaverðs og fjármagn beinlínis flæddi inn á borð til allra sem vildu taka lán. Í dag er allt lok, lok og læs, enginn fær lán og stefnir í gjaldþrot meðal landsmanna. Ástandið hjá bönkunum hlýtur að vera hrikalegt - eða hvað?
Mér varð á að rýna aðeins í tölur sem teknar voru upp úr ársskýrslu Kaupþings um daginn. Ekki er þar að sjá að menn séu að sigla þar að feigðarósi. Hagnaður ársins 2007 jókst um 53% frá árinu á undan og nam um 80.1 billjón króna (ISK) eða 915 milljón evra og kom til fyrst og fremst vegna mikilla hækkunnar á vaxtatekjum bankans. Arðsemi eigin fjár nam um 23,5% sem verður að kallast harla gott eða hvað? Heildareignir bankans á síðasta ári námu 5,3 trilljón króna (ISK) eða sem nemur 58,3 billjón evra () og jukust um 35,8% á milli ára. (Heimild: ársskýrsla Exista. 2007)
Satt best að segja datt af mér andlitið við lestur á þessum tölum og árangri Kaupþings. Aðrir bankar eru líklega með svipaðar hagnaðartölur. Bankamenn og aðrir úr fjármálageiranum standa á orginu dag eftir dag, á fundi eftir fundi, í kapp við hvorn annan og jarma um kreppu, veikingu krónunnar og ég veit ekki hvað og hvað. Margir aðilar á fjármálamarkaðinum hóta að flytja höfuðstöðvar úr landi til að flýja fyrirtækjaskattana og forðast gengisfellingu krónunnar.
Hvernig bregðast stjórnvöld við þessum mikla vanda bankanna og annarra fjármálastofnana? Jú, lækka fyritækjaskattinn niður í 15% til að stinga upp í þá einhverri dúsu og eru síðan búin að vera á einhverju flippi erlendist svo vikum skiptir. Seðlabankinn máttlaus, getur ekkert gert til að halda verðbólgunni niðri né hafa áhrif á þá efnahagsþrónun sem seðlabankastjóri mótaði fyrir nokkrum árum.
Engin viðbrögð né aðgerðir til handa almenningi sem blæðir fyrir útrásina, sukkið og offjárfestingar viðskiptajöfranna og bankanna. Búið að færa kvótan upp í hendurnar á örfáum aðilum sem nýta hann eins og þeim sýnist enda allari fjárfestar og í kapphlaupi við útrásina miklu. Nýgerðir kjarasamaningar sem stjórnvöld voru stolt af þó ,,dýrir" væru fyrir þjóðarbúið, eru farnir til fjandans, kaupmátturinn löngu farinn í vaskinn ásamt þeirri hungurlús sem hækkun launa nam.
Á hverjum degi mætir þjóðin verðhækkunum á neysluvörum og eldsneyti. Útlansvextir bankanna hækka sem og öll þjónusta. Samdráttur verður á atvinnumarkaðinum og menn herða sultarólina. Margir eru reyndar komnir í innsta gat í þeim efnum og ná ekki að herða ólina frekar. Það heyrist ekki mikið í þjóðinni vegna þessara erfiðu stöðu sem upp er komin. Þeir sem hafa hæst eru bankarnir, fjármálafyrirtækin og fasteignarsalarnir.
Sjálfstæðismenn hafa verið iðnir við kolan þegar kemur að einkavæðingu ríksifyrirtækjanna. Við sjáum nákvæmlega sömu þróunina og hjá bönkunum, þegar kemur að Símanum, þar hagnast með á tá og fingri og kunna ekki aura sinna tal. Þjónustan aldrei verið síðri né kostnaðarsamari. Mikil þrýstingur er á að einkavæða Íbúðalánasjóð, þar sjá bankarnir vaxtamöguleika hér á heimamarkaði og arðvænlegar tekjur. Byrjað er að einkavæða LSH og heilbrigðsþjónustuna, við eigum eftir að sjá mun meira af slíku á næstu vikum, trúi ég. Næsta skrefið verður að einkavæða orkufyrirtækin og aðrar náttúruauðlindir og þá hefur draumur Sjálfstæðismanna ræsts. Allt sem skiptir máli komið í hendur auðmanna, samkeppnin í algleymingi. Landsmenn borga.
Ekki bjart framunan í efnahagsmálum okkar einstaklinganna. Ráðherrar og þingmenn Samfylkingarinnar sem gagnrýndu hvað mest einkavæðingu og aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar sitja nú sem fastast aftur í sæti á Benzinum eða fremst í einkaþotunni, á ferð og flugi til að bjarga heiminum og svala persónulegum löngunum sínum. Láta gamla drauma rætast, eru ekkert að skipta sér af Geir og kompaní. Ríkisstjórnin því ekki starfhæf svo dögum og vikum skiptir en það virðist ekki skipta neinu máli. Allt gengur sinn vana gang.
Sumir telja að réttast væri að ríkisstjórnin segði af sér sem og stjórn Seðlabanka Íslands ásamt seðlabankastjórum. Ég er ekki svo viss um að það sé rétta leiðin. Ég óska engu stjórnmálaafli svo illt að taka við þjóðarskútunni eins og hún er í dag. Eðlilegast væri að þeir sem hafa skapað þessa stöðu, axli ábyrgðina og þrífi upp sinn eigin skít. Ég neita hins vegar að trúa því að þjóðin muni kjósa þessa hörmung yfir sig í næstu kosningum. Sjálfstæðismenn hljóta að veikjast og forystumenn Samfylkingarinnar látnir fjúka.
Það verður fróðlegt að fylgjast með afkomutölum bankanna, Símans og fleiri einkavæddra fyrirtækja í náinni framtíð - samhliða afkomu þjóðarinnar og heimilanna. Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með komandi kjarasamningum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:22 | Facebook
Athugasemdir
Í fréttum í kvöld fannst mér koma nokkuð skírt fram að einkavæða ætti fleiri svið á Landspítala.
Hólmdís Hjartardóttir, 15.4.2008 kl. 01:57
Góður pistill að venju
Kannski er best að bakka aðeins um stund og láta skellin koma, launafólk á skilið góða rassskellingu fyrir óframfærni og leti, fólk kýs sömu stefnuna og fagurgalann yfir sig aftur og aftur, engin hefur verið neyddur til að kjósa og allir geta mætt á fundi stjórnmála og verkalýðsfélaga til að gera breytingar, fjöldi fólks situr heima yfir kaffibolla og kvartar, sumir blogga, en fáir mæta á fundi og tjá sig.
Það er ekki fyrr en fólk hefur tapað atvinnunni, eigunum og sér að það er ekkert að missa lengur, sem fólk rís upp og mótmælir eða tekur virkan þátt.
Þar til fólk losar sig undan þrælshlekkjum kreditkorta og okurlána, er lítil von um virk mótmæli eða virka þátttöku, mánaðarlegu greiðslurnar verða áfram hlekkirnir sem þagga niður í fólki, og með hjálp frá ritstýrðum fjölmiðlum tekst að halda ró, en svona til vara er komin sérsveit til að beita.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 15.4.2008 kl. 09:14
Mjög góður pistill hjá þér Guðrún mín.
Það verður þröngvað upp á okkur einhverri "þjóðarsátt" í "ljósi aðstæðna" og síðan verður sami söngurinn kyrjaður á næstu atkvæðaveiðum og allir láta blekkjast.
Ég er ekki frá því að ráðamenn séu núna að taka út "ferðakvótann" sinn á meðan stjórnin lafir.
Sigrún Jónsdóttir, 15.4.2008 kl. 11:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.