Nú skil ég

Hann er langur ,,fattarinn" á mér. Búin að velta því fyrir mér mánuðum saman hver tilgangur Sjálfstæðismanna hafi verið með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Tvö óskyld ráðuneyti sameinuð.  Yfirstrumpur sami ráðherran og hefur staðið að því að útrýma hefðbundnum sjávarútvegi í meira en áratug. Mér hefur það verið með öllu óskiljanlegt hvaða hvatir hafa legið þarna að baki en í morgun kveiknaði á perunni: Það á að útrýma íslenskum landbúnaði, a.m.k. í núverandi mynd. Þá verður engin þörf fyrir sérstakt landbúnaðarráðuneyti.

Fór að kveikja á perunni þegar ráðherra boðaði nýtt frumvarp um óheftan flutning á hráu kjöti svo fremi sem afurðin uppfyllti staðla ESB. Reyndi mikið að finna eitthvað jákvætt við þá breytingu enda með fóbíu fyrir kamphylobakter og salmonellu.  Ráðherran telur einu jákvæðu áhrifin við breytinguna vera þau að óheftur innflutningur muni auka samkeppnina hér á landi sem væri til góða. Engin breyting á tollum þannig að ef kjötverð lækkar til neytenda, kemur sú lækkun einungis til vegna samkeppninnar.  Gott og vel en ég var ekki alveg að kaupa þetta.

Mér fannst týran af perunni heldur dauf með þessi rök. Hún breyttist hins vegar í 100 W peru þegar ég las um fyrirætlan ráðherrans um að fækka héraðsdýralæknum úr 16 í 6, stækka sem sé héruðin, skikka dýralækna til að sinna eftirliti og leggja af allan einkarekstur.  Þetta hljómar ansi þokukennt í fyrstu, hvaða eftirliti eiga héraðsdýralæknar að sinna?  Búið að úrelda flest sláturhús í landinu, einungis nokkur starfandi og það ekki í öllum landsfjórðungum. Ég fæ ekki séð að þeir dýralæknar sem ráðherran gerir ráð fyrir, hafi næg verkefni allt árið um kring. Hvað með eftirlit og meðferð á skepnum á fjár- og kúabúum? 

Sem fyrrum landsbyggðatútta tel ég mig þekkja nokkuð til dýralæknishéraða, bæði fyrir vestan og norðan. Um er að ræða feiki stór og víðfeðm héruð, erfið yfirferðar og langar vegalengdir. Stöðug sólahringsvakt dýralækna sem sinna veikum og slösuðum skepnum allan sólahringinn, allt árið um kring. Sinna auk þess bólusetningum og heilbrigðiserftirliti svo ekki sé minnst á blessaðan sauðburðinn svo fátt eitt sé nefnt af þeirra skyldustörfum.

Síðustu árin hefur verið mjög erfitt að manna héruðin, ekki síst vegna þessa álags. Nánast útilokað að fá afleysara nema með þeim hætti að næsti héraðsdýralæknir bæti við sig nágrannahéraðinu, tímabundið. Það segir sig sjálft að starfið er gríðalega erfitt og álagið mikið. Bændur vilja að sjálfsögðu þjónustu og þó það einkenni þá marga að draga það eins lengi og hægt er að kalla til dýralækni þar sem þeim hefur fundist þjónustan dýr, miðað við lágar tekjur búanna, hefur átt sér hugafarsbreyting síðasta áratuginn þannig að minna er um að skepnunum sé lógað heima í útuhúsi af bóndanum sjálfum.  Lagt meira upp úr því að bjarga þeim skepnum sem þeir hafa ræktað upp og eru stoltir af.

Dýralæknar hafa í auknum mæli stofnað eigin fyrirtæki og dýraspítala enda ekki allra að vinna fremur vanþakklát starf úti í héraði sem seint verður talist fjölskylduvænt. Þeir þrífast ágætlega enda mikið um gæludýr og hestamennskan í algleymingi.  Mikið meira en nóg að gera og vantar virkilega fjölgun í stéttina.

Það þarf ekki að stíga í vitið til að átta sig á því hvað er hér á ferðinni. Það á sem sé að fækka búum enda engin ástæða til annars með þau fáu sláturhús sem eftir eru. Þannig skapast réttlæting fyrir þeirri ákvörðun að fækka héraðsdýralæknum og skikka þá til að vinna einungis sem opinberir ríkisstarfsmenn. Innflutt kjöt kemur í staðinn fyrir það innlenda. 

Það hlaut að vera skýring á sameiningu ráðuneytanna, sjávarútvegsráðherra beitt fyrir klárnum og dregur vagninn enda með breitt bak eftir að hafa innleitt hrun sjávarútvegsins og byggðanna. Honum munar ekkert um að bæta öðrum skítverkum á sig. Ávinningurinn verður þéttari byggð og stærri byggðakjarnar, sveitirnar leggjast af, einungis stóru búin í hverjum landsfjórðungi koma til með að lifa af og blómstra. Ofgnótt af rými fyrir sumarbústaðabyggðir skapast fyrir örþreytta og stressaða viðskiptajöfra og borgarbörnin. Svolítið rómantískur blær á þessari framtíðarsýn - eða hvað?

Ég hlýt að velta því fyrir mér hverjir höfundar af þessari útrýmingastefnu ríkisstjórnarinnar séu. Eru það viðskiptajöfrarnir eða embættismannaklíkan? Eða er þetta afrakstur úr hugmyndavinnu fjármála-, forætis-, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra okkar?

Ég hef löngum haldið því fram að það sé stórhættulegt þegar vanhæfir og grunnhyggnir menn komast til valda. Ekki síst á landsbyggðinni þar sem nálægðin er mikil og klíkuskapurinn er mikill.  Ástandið er greinilega ekkert skárra í stærri byggðum, það sást best með klúðri Sjálfstæðismanna í borginni. Í landsmálunum erum við að sjá það í auknum mæli að menn eru orðnir svo forhertir og öryggir í krafti síns valds og umboðs til kjósenda, að þeir svitna ekki þó hvert hneykslið og spillimálið komi upp á yfirborðið. Þeim finnst hvers kyns spilling, klíkuráðningar og óhóflegur stuðningur við einkavæðigu á auðlindum þjóðarinnar vera hið eina rétta og sjálfsagt mál. 

Samfylkingarmenn sem hvað harðast gagnrýndu íhaldið í síðustu ríkisstjórn, stíga nú ölduna með Sjálfstæðismönnum þegjandi og hljóðalaust. Stólarnir gríðalega verðmætir. Hafa selt skrattanum ömmu sína. Það heyrist reyndar boffs úr horni VG en það einkennist fyrst og fremst af sveitarómantík 20. aldarinnar þar sem sjálfsþurftarbúskapurinn og nægjusemin eru sett á stall. Ekki heyrst múkk í okkar gamla landbúnaráðherra  eftir að Bandormurinn var kynntur og þar með taldar þessar breytingar á embættum dýralækna.

Í mínum huga er enginn vafi hver hvatinn er að baki óheftum innflutningi og fækkun dýralæknishéraða. Það á að útrýma landbúnaðinum í núverandi mynd, gera stóru  framleiðendurna enn stærri og losa sig við þá litlu. Yfirstrumpur sjávar- og landbúnaðarráðuneytis annað hvort treystir því að fólk sjái ekki í gegnum þessi áform eða telur sig öruggan um að komast upp með þau, hvað sem tautar og raular. Hann og flokkur hans hefur komist upp með ansi margt hingað til.

En ég hef trú á því að hvorki bændur né dýralæknar láti snúa á sig og þvinga sig með þeim hætti sem ríkisstjórn áformar nú. Ég hef þá trú að fólk sé búið að fá nóg og miklu meira en það og komi til með að sýna óánægju sína í verki í auknu mæli. Er ansi hrædd um að það dugi ekki til að forsætisráðherra reiðist og urri  opinberlega framan í almenning og segji honum að hlýða.  Hvorki bændur né dýralæknar eiga né munu sætta sig við þau örlög sem þeim eru ætluð og koma fram í Bandorminum. Þeir eru eldri en tvævetur. Nú er lag fyrir stjórnarandstöðuna að varpa skýru ljósi á þessi mál. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég held að sjálfstæðismenn séu að fara með okkur "bakdyramegin" inn í ESB!

Sigrún Jónsdóttir, 9.4.2008 kl. 10:03

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Heldurðu að fattarinn hafi brotnað líka?

Hólmdís Hjartardóttir, 9.4.2008 kl. 13:54

3 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Guðrún á þing , ekki spurning.

Georg Eiður Arnarson, 9.4.2008 kl. 18:10

4 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Góður Georg, þú ert auðvitað langbestur
Sammála þér Sigrún, eitthvert makk er í gangi, eitthvað verða Sjálfstæðismenn að greiða fyrir stjórnarsamstarfið

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 9.4.2008 kl. 20:42

5 identicon

Heil og sæl; Guðrún Jóna og aðrir skrifarar !

Um leið; og ég þakka þér; ályktun þína, á minni síðu, fyrir stundu, Guðrún mín, vil ég þakka þér, þessa afbragðs góðu færzlu.

Með beztu kveðjum, / Óskar Helgi Helgason  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 22:55

6 identicon

Sæl Guðrún Jóna,

Get tekið undir margt í þessum pistli.

Kveðja,

Kári Lár. 

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 00:46

7 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Takk fyrir commentin kæru bloggfélagar. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessum málum. Menn ætla sér að verða lunknir og ,,læða" málum í gegn, er ég hrædd um.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 10.4.2008 kl. 22:53

8 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég er sammála flestu í þessum pistli.  Spillingin, embættisveitingarnar, gróðafíknin, skammsýnin.... er yfirgengileg í stjórn þessa lands.  Ef heldur fram sem horfir, verður Ísland ekki svipur hjá sjón eftir örfá ár.  Þögn Samfylkingarinnar veldur mér verulegum vonbrigðum og er ég algerlega ósammála mörgum þar innanborðs, sem vilja innflutning á kjöti.  Gerist það, er hætt við að við Íslendingar verðum ósjálfbjarga í matvælaframleiðslu og bjóðum auk þess hættunni heim á ýmis konar vandræðum, s.s. sýktu kjöti.  Pólitískar stöðuveitingar Sjálfstæðisflokksins undanfarin 17 ár hafa orðið til þess að í öllum helstu embættum dómsmála, sitja sjálfstæðismenn.  Hversu lýðræðislegt er það ?  Skattakerfið er auk þess handónýtt og til þess fallið að þeir ríku verða ríkari.  Þorri landsmanna greiðir 37% skatt meðan fjármagnseigendur greiða 10%  Af hverju ekki flatur 15% skattur ?  Endalaus óstjórn !

Mín skoðun - hörð og óvægin - er sú að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa gert landinu óbætanlegan skaða í sinni valdatíð.

Anna Einarsdóttir, 13.4.2008 kl. 11:43

9 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Tek heils hugar undir þessi orð þín Anna, einkum og sér í lagi þau síðustu

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 14.4.2008 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband