6.4.2008 | 23:01
Nýtt hlutverk
Nú er ég að máta nýja hlutverkið mitt sem felst í að gera nákvæmlega ekkert. Einstaka pallapúl á milli hæða og hopp í minn hjartfólgna sófa. Eins gott að ég var búin að skipta þeim hvíta út, hann var búinn eftir veikindin í fyrra. Djúp dæld í honum og hið svokallaða ekta leður búið á slitflötum eftir botninn minn. Núverandi sófi er svartur sem er mikill kostur og mér sýnist slitfletir ætla að þola skrokkinn minn, ennþá.
Sigrún systir kom eins og hvítur stormsveipur í dag, í orðsins fyllstu merkingu. Á þessa líka forlátu vél; ,,Rainbow" og djöflaðist um á öllum þremur hæðum í leit af ryki, skít og hundahárum. Fékk nóg að gera, margfyllti vélina og aldrei séð annað eins. Aðallega hár og ló. Blessunin mín hún Perla og læðan hún Ísafold Katrínardætur, fara óstjórnlega úr hárum með skelfilegum afleiðingum. Nema hvað að nú get ég dregið mig upp á rassinum upp stigan án þess að verða kafloðin á botninum. Á takmarkað magn af pokabuxum til að klæðast í og þvottavélin uppi á 3. hæð þannig að ég sé fram á bjartari tíma í þeim efnum og betra loft. Pokabuxurnar allar svartar þannig að ekki þarf að spyrja að útlitinu á þeim eftir pallapúlið mitt. En Sigga mín, ástarþakkir fyrir mig
Ég varð náttúrlega svo dauðþreytt við að gera ekkert nema að fylgjast með systur að ég varð að leggja mig smá eftir að þrekvirkinu var lokið. Bara búin á því. Hef í raun nákvæmlega ekkert úthald, sit við tölvuna örstutta stund og verð síðan að skakklappast af stað þar sem mér tekst að safna ógrynni af bjúg á fótinn og þreytuverki. Endalaust þreytt, þreytt og þreytt. Er farin að halda að ég hafi lækkað meira í blóði en þegar mældist um daginn þegar magasárið var að angra mig. Ekki ólíklegt. Spurning hvort maður ætti að voga sér að hringja á blessaða deildina til að fá niðurstöður, forvitnast og leita skýringa. Var orðin lág í járnbúskap o.fl. fyrir.
Senn liðin vika frá óhappinu, rúmar 2 vikur þangað til ég fer í saumatöku og tékk. Hefði átt að mæta eftir 2 vikur en ekki 3 en sérfræðingurinn í fríi og best að hann fylgi mér eftir. Eiturklár nánungi er mér sagt, ég sá hann aldrei. Reyni að taka einn dag í einu núna, finnst skelfileg tilhugsun að hanga hér innandyra næstu vikurnar og geta ekki unnið almennilega. Hef næg verkefni en þarf að finna leið til að sitja lengur við. Gipsumbúirnar örugglega mörg kíló.
Viðurkenni að þetta nýja hlutverk er með því leiðinlegra sem ég hef tekist á hendur um ævina. Þarf heldur betur að passa mig á því að pompa ekki niður andlega. Finnst svakaleg reynsla að vera háð öðrum, fékk reyndar smjörþefinn af því þegar ég barðist við veikindin í fyrra og þurfti að stóla á Kötuna mína. Sem betur fer er ástandið ekki eins slæmt núna og allt annars eðlis. Tíminn á eftir að fljúga áfram og fyrr en varir fæ ég að stíga smá í fótinn og verð þá meira sjálfbjarga. Þangað til verð ég að sætta mig við skert úthald, sófan, sjónvarpsgláp og poppát. Setja upp sólgleraugu þegar sólin skín og muna að það kemur vor eftir þetta vor. Ég lifi þetta af eins og annað.
Mér sýnist af nægu að taka þegar kemur að pólitíkinni. Einset mér það að vera vakandi yfir fréttunum á næstunni. Mér sýnist fjör vera að færast í leikinn
Athugasemdir
Þeeetta keeeemur. En ég finn til með þér.
Sigrún Jónsdóttir, 6.4.2008 kl. 23:40
Veit ekki hvort þetta er viðeigandi, en sakar ekki að láta það flakka....
"Snúði andlitinu mót sólu og þú sérð ekki skuggana"
Þetta er eitt það besta sem að nokkur maður getur lifað eftir...
það sem er liðið er liðið og við getum ekki breytt neinu varðandi það framar, það eina sem við getum gert er að sætta okkur við það sem hefur gerst og lifað með því.
Bjartsýni og hæfilegt kæruleysi er kostur tel ég, þegar eitthvað er í fortíðinni sem að nagar mann öðru hvoru.. og að horfa alltaf fram á veginn en ekki alltaf vera að líta um öxl til að athuga hvort að fortíðin sé að bíta mann í rassgatið...
Láttu þér batna vinkona.
Gummi (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 00:05
Ég notaði skrifborðsstól sem hjólastól. þú verður að setja þig í þær stellingar að þú sért í fríi. Svo þegar þú mátt stíga í verðurðu eins og kálfur að vori....Ég hef aldrei farið á fleiri böll en þegar ég var Gypsy Queen..
Hólmdís Hjartardóttir, 7.4.2008 kl. 00:18
Þið eruð náttúrlega langflottust. Er alveg viss um að ég verði eins og kálfur á vori Hólmdís, ætla sko ekki að láta böllin fram hjá mér fara í sumar. Nú skal tekið á því
Þetta var flott hjá þér Gummi. Ertu sá Gummi sem ég held
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 7.4.2008 kl. 01:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.