5.4.2008 | 21:34
Þróun heilbrigðisþjónustunnar
Hef verið þungt hugsi síðustu dagana eftir nýjustu reynslu mína af heilbrigðiskerfinu og þjónustu þeirri sem boðið er upp á í okkar hátæknisjúkrahúsi; LSH. Hafði ýmislegt um þau mál að segja þegar ég gekk í gegnum skurðaðgerðina og síðar lyfjameðferðina. Nokkuð hefur bæst við síðan þá.
Ég hnaut um þá frétt í einhverju dagblaðanna um daginn að nú væri svo komið að ráða þyrfti leikara inn á LSH til að tryggja að þeir nemar sem stunda sitt verk-og starfsnám fái viðeigandi kennslu. Þeir sjúklingar sem þangað koma eru ýmist útskrifaðir það hratt heim að ekkert svigrúm gefst til kennslu eða að þeir hreinlega fá ekki inni á hátæknisjúkrahúsinu. Fara í sínar aðgerðir og meferð stofum úti í bæ, utan sjúkahúsa. Afleiðingin getur aldrei verið önnur en sú að dýrmæt þekking og reynsla tapast og það heilbrigðisstarfsfólk sem starfar innan stofnana í dag er ekki í stakk búið að veita viðeigandi mefðerð, hjúkrun og aðra þjónustu. Fáir eftir af reyndum starfsmönum með þá þekkigu og reynslu og tækifæri einfaldlega ekki til staðar til að viðhalda færninni.
Hvort heldur sem þessi frétt hafi verið sönn eður ei þá finnst mér hún geta staðist, ekki síst eftir síðustu uppákomu mína.
Ég mætti á slysa-og bráðamóttökuna í Fossvoginum um kl. 17.30 sl. þriðjudag. Hafði sem sé dottið og lent með hægri fót undir mér auk þess að slá honum utan í eldhúsinnréttinguna. Mér var það strax ljóst í upphafi að trúlega væri ég brotin og taldi ég sköflunginn hafa farið í sundur. Vonaði innilega að einungis væri um að ræða mikið mar inn í vöðvan en eftir að hafa beðið af mér versta sársaukan ákvað ég að ég þyrfti líklega að láta kíkja á þetta, því miður. Sá sæng mína útbreidda. Hugleiddi um stund að hringja í 112 en þar sem ég þyrfti hvort eð er að gera ráðstafanir með tíkurnar, skríða niður stigan og opna, fannst mér eins gott að hringja á leigubíl. Ekki eins dramatísk. Hafði mg út, hoppandi á annarri löppinni og með aðstoð bílstjórans. Bað hann um að redda mér stól þegar í Fossvoginn var komið enda treysti ég mér ekki til að hoppa meira, eitthvað dinglaði svakalega í fætinum við hvert hopp.
Ung stúlka skráði mig, móttökuritari minnir mig að hún hafi kynnt sig. Skráningin tók um 10 mín, helsta áhyggjuefnið var að ég var skráð á heilsugæslunni á Akranesi en með búsetu hér. Mikið tafs og vesen. Á endanum sagði ég, heyrðu mín kæra, ég er nokkuð viss um að ég sé brotin, í öllu falli er ég með það mikla verki; er löng bið? Horfði í kringum mig, við vorum 8 einstaklingar að bíða. Nei, einhver bið en vissi ekki hve löng.
Í stuttu máli, beið ég í þessum hjólastól í rúmar 3 klst. Gat lítið hreyft mig, best að láta fótinn hanga. Fékk skýringu löngu síðar, hnéð var úr lið. Þegar ég var loks kölluð inn, var ekki laust við að tárin streymdu, ég var bókstaflega að drepast í fætinum. Lenti í flöskuháls 2 og áður en hj.fr. yfirgaf mig, sagðist ég varla geta harkað af mér öllu lengur. Ég fékk 2 verkjatöflur. Við tók bið eftir að fá lækni til að líta á mig, síðan að fá uppáskrifaða röntgen beiðni, og síðan önnur bið eftir ,,sendli" sem átti að keyra mig í röntgen. Gott og vel, var komin þangað upp úr kl. 21.30, hafðist með hörmungum og tilheyrandi óhljóðum að leggja fót og hné þannig að ég væri myndafær. Verkjatöflurnar höfðu auðvitað ekkert að segja. En mikið var ég dugleg, kepptust geislafræðingarnir að segja við mig.
Flöskuháls 3 tók við, var parkerað við hornið á gipsherberginu, heyrði útundan mér að bæklunarlæknirinn á vaktinni væri í aðgerð. Bið til kl. 23. Ég vissi hvað þetta þýddi. Ok, nú fékk mín nóg, kallaði á næsta hjúkrunarfræðing og bað um svör. Um kl. 22.30 var mér ljóst að hnéð var úr lið, liðbönd slitin, liðfletirnir í smalli og sköflungurinn mölbrotin. Spurning um aðgerð þá um nóttina eða einhvern tíman á morgun. Það þyrfti að negla. Ég vældi, var verkjuð og bað um verkjastillingu. Í stað hennar freistuðust 4 hj.fr. til að stinga mig og ná blóðsýni, alls 8 stungur, hafðist í þeirri síðustu. Þær væru ekki vanar að gefast upp og kalla á lækni, þetta skyldi hafast. Varnirnar brostnar, ég búin að hringja til Keflavíkur og biðja um aðstoð. Hringdi auk þess í krakkana, ekkert aprílgabb, því miður.
Næsta skrefið var að fara í sneiðmynd, þurfti að kortleggja brotið betur m.t.t aðgerðar. Ok, hugsaði ég með mér, nú hlýt ég að fá eitthvað almennilegt við bév. verkjunum. Nei, í sneiðina fór ég, verkjuð. Niður aftur og skömmu síðar mætti svæfingin. Klukkan orðin 23 og stefnt að aðgerð hið fyrsta. Var dauðfegin, þá tæki þetta fyrr af. Náði að stynja upp fyrri sjúkdómssögu. Ekki spennandi að svæfa mig. Henst með mig í Röntgen mynd af lungum, enn lítt hreyfanleg og nánast grenjandi. Þetta hafðist. Mænudeyfing sett á planið og ég bókstaflega ,,terrified". Gat ekki hugsað mér að vera vakandi en vá, hvað þýddi að væla yfir því, skynsamlegasti kosturinn í stöðunni.
Á slaginu 23.30 var ég sótt til að rúlla mér upp á skurðstofu, fékk þá loksins 2 mg af Morfíni í æð, náði þannig að hálfsitja á bekknum á leiðinni, enn með hljóðum. Úps, það gleymdist að setja á mig þrýstingsumbúði, datt upp úr einum hj.fr. Hef sjaldan verið jafn fegin og þegar ég mætti svæfinga- og skurðstofu teyminu, verjastillt med det samme, vá ég sveif. Gat lagst út af og það sem meira var, ég treysti þessu fólki fullkomnlega.
Man svo sem ósköp lítið eftir aðgerðinni, hlutaði á menn spjalla og bölva þessu broti, það var slæmt eins og þegar lá fyrir. Svæfinga-og skurðstofuteymið vann fumlaust, sýndi mikla hlýju og nærgætni. Allt var eins og best var á kosið. Þegar henni lauk, lenti ég á vöknun, gekk illa að verkjastilla mig þannig að ég mátti dúsa þar um nóttina. Eins gott því þar mátti fólk vera að því að sinna manni. Mér var hins vegar lífsins ómögulegt að liggja endalaust, bað um að fá að sitja í stól smá stund. Nei, það var ekki hægt, sjúkraþjálfari yrði að taka mig fram ú. Slíkt væri ekki í verkahring hj.fr. Úff, gott og vel, þetta hlyti að reddast þegar ég kæmi niður á deild. En þar fékk ég þau svör að enginn tími væri til að sinna mér fyrr en morgunvaktin mætti, allt á fullu, ég yrði að bíða. Ég mátti þess vegna pissa í rúmið. Í koppinn gat ég alls ekki pissað þrátt fyrir mikla viðleitni.
Þegar hér var komið við sögu, sprakk mín á því. Ítrekaði beiðni um að fá að fara í stól á eigin ábyrgð, ég þyrfti á W.C og hringja í krakkana sem engar upplýsingar fengu um mömmu sína, þrátt fyrir að hringja að utan. Ég skyldi bjarga mér sjálf, þyrfti aðstoð við vökvan sem ég var með og fá eitt stykki hjólastól. Ég fékk synjun.
Ekkert annað að gera í stöðunni en að bjarga sér sjálf sem og ég gerði. Losaði mig sjálf við vökvan, hoppaði fram á gang og fann þar hjólastól. Fór í peysu enda skítkalt, lagði af stað til minna erinda og var þá kallað á eftir mér; ,,þú gleymdir dótinu þínu". Greinilegt að starfsfólk er vant því að sjúklingar útskrifi sig sjálfir. Ég var hins vegar ekki á heimleið - ekki strax.
Það þarf náttúrlega ekki að spyrja hvernig viðhorf starfsmanna var eftir þetta. Ég var a.m.k. ekki talin í þörf fyrir aðhlynningu eða aðstoð við persónulegt hreinlæti, úrræði vegna ógleði og blóþrýstingsfalls eftir mænudeyfinguna, verkjastillingu þrátt fyrir erfiða nótt né nokkuð annað. Helst ekki yrt á frúnna. Ég var ábyggilega ,,erfiður sjúklingur" og bölvuð frekja. Held því að ég hafi ekki verið síður kát þegar kom að útskrift ca 10 tímum eftir aðgerð.
Útskrifuð með 2 hækjur sem ég þurfti að kaupa, lyfseðil upp á parkódín og endurkomu tíma eftir 3 vikur. Bannað að stíga í fót næstu 6 vikurnar, engin gigtarlyf til að halda mér gangandi á hækjunum. Aldrei spurð út í aðstæður heima fyrir, bjargráð, stuðning, o.s.frv. Bý ein á 3 hæðum, get hafst við á miðhæðinni. 13 þrep í hvorum stiga og W.C á 1. og 3 hæð.
Þarna fór margt úrskeiðis. Þrisvar mátti ég endursendast upp hæðir til að fara í myndgreiningarannsóknir sem allar voru staðsettar á sömu hæðinni. Þrýstingsumbúðir sem hefðu haldið við liðinn, gleymdust, verkjastilling var ekki á dagskrá. Slösuð dýr fá skilvirkari meðferð, það þekki ég af eigin raun. Börn mín fengu engar upplýsingar, aðrar en þær sem ég gat veitt þeim.
Áherslur hjúkrunar hafa breyst gríðalega frá því sem var, get eiginlega ekki sagt að ég hafi orðið vör við neina hjúkrun á slysamóttöku eða legudeild. Aðstæður mínar komu engum við, ég þarf að kanna bjargráð sjálf. Get sótt um á Rauðakross hótelinu en þar er langur biðlisti. Á ekki rétt á hjálpartækjum heima þar sem ég er einugis fótbrotin. Á etv. rétt á heimilishjálp en það kemur í ljós eftir helgi. Ef það gengur upp, þarf ég ekki að þrífa mest sjálf.
Til að komast klakklaust í gegnum slíka ummönnun kallar á sterk bein. Það þýðir ekki fyrir hundveikt fólk að ætla sér að komast í gegnum slíkar hrakfarir óskaddað. Eitthvað stórkostlegt er að innan LSH, svo djúpstæður er vandinn að að starfsmenn margir hverjir hafa gleymt því af hverju þeir völdu þessi störf; hjúkrun og ummönnun. Sjúklingurinn er ,,álag", enginn tími til að sinna honum, helst að losna við hann sem fyrst. Innan og saman um liggja aldraðir sjúklingar sem geta ekki verið einir heima en löngu búnir að fá þá meðferð sem hátæknisjúkrahúsið getur veitt þeim. Þeir liggja þarna mánuðum saman, sagði ein gömul kona mér sem ekki treysti sér heim. ,,Við höfum ekki tíma" klingdi hvað eftir annað í eyru mér og tel ég mig nokkuð sjálfbjarga fyrir. Bið ekki oft um aðstoð, einungis í neyð. Ekki allir standa svo vel að vígi og eiga þeir samúð mína alla.
Ég ætla svo sem ekki að fullyrða að svona sé málum komið innan allra deilda LSH en á sumum þeirra er ástandið greinilega óviðunandi og réttur sjúklingsins fótum troðinn. Það sem ég tel brýnast í erfiðri stöðu er að setja á fót embætti talsmanns sjúklinga og innleiða strangt gæðaeftirlit þar sem starfsemi og þjónustan er tekin út reglulega af hlutlausum aðilum. Miðað við það ástand sem ég upplifiði, er ljóst að einhverjir stjórnendur og slæður þyrftu að fjúka.
Kannski eina leiðin verði sú að einkavæða allt batteríið til að tryggja samkeppni og þar með viðunandi þjónustu. Eins og staðan er í dag, fær LSH falleinkunn hjá mér, það ætti að loka búllunni á meðan endurbætur fara fram. Svonefnd kragasjúkrahús sinna sínum skjólstæðíngum enn á mannsæmandi hátt. Þangað mætti leita í auknum mæli.
Ég er alla vega dauðfegin að vera komin heim, stend við það að inn á LSH fer ég ekki með meðvitund á við óbreytt ástand. Ef fram fer sem horfir, verða engir sjúklingar til að leggjast inn á LSH og áður en langt um líður, fást leikarar ekki heldur til þess að vera æfingadúkkur fyrir þá sem eiga að vera í starfs- og verkámi.
Hvernig mér gengur svo að höndla næstu vikur, verður að koma í ljós en ég held að mér sé óhætt að fullyrða að þar sem ég komst í gegnum þessa reynslu, kemst ég í gegnum allt.
Athugasemdir
Þetta er nú meiri lýsingin. Sem betur fer fékk ég góða þjónustu þegar ég brotnaði. en þurfti að liggja á gangi yfir nótt. Gangi þér vel. En það er sorglegt að þjónustunni hrakar og er ástæðan án vafa mannekla.
Hólmdís Hjartardóttir, 5.4.2008 kl. 21:45
Þetta hefur verið vægast sagt skelfilegt. Ég ætla bara rétt að vona okkar allra vegna að þú hafir bara lent á "slæmri vakt", þar sem allt hefur farið úrskeiðis, sem gat farið úrskeiðis.
Ég vona að líðanin sé betri og að þú sért að fá aðstoð og aðhlynningu .
Sigrún Jónsdóttir, 5.4.2008 kl. 23:50
Það var sárt að lesa þetta elsku Guðrún Jóna mín og þvílíkar móttökur sem þú hefur fengið,þetta er bara til skammar, ég á bara ekki til eitt aukaekið orð yfir þessuþví miður,en vonandi líður þér betur elskan mín og að verkirnir eru minni,veit að þetta er ans...... sárt .
knús knús og bestu óskir um góðan bata
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 6.4.2008 kl. 01:10
Búin að bíða spennt eftir þessari færslu síðustu daga og tjá mig um þetta mál!
Þar sem að ég varð að mestu vitni af þessari, vægast sagt, ömurlegri lífsreynslu þinni frænka góð þá get ég tekið heils hugar undir þetta allt saman. Þjónustan á LSH er því miður ekki eitthvað til að hrópa húrra fyrir og þar er greinilega eitthvað mikið að! Það er alveg augljóst að ríkisvöld þurfa að fara að horfast í augu við staðreyndir og taka sig saman í andlitinu því að þetta er ekki mönnum bjóðandi, hvorki sjúklingum né starfsfólki innan heilbrigðisgeirans.
Þarna varð ég í fyrsta sinn vitni af hörkunni í henni frænku minni með eigin augum og sannfærð um það að fyrst að þú náðir að yfirstíga þessa reynslu þá nærðu að yfirstíga allt annað sem á vegi þínum verður!
Knús úr Kefló
Sara Björg (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 01:21
Þú getur rétt ímyndað þér hvernig hefði farið Sara mín, hefði þín ekki notið við. Þúsund þakkir fyrir að standa við hliðina á gömlu frænku þinni. Það var ekki auðveld reynsla fyrir þig.
Það sem sjúklingar þurfa í dag eru sterkir aðstandendur sem berjast fyrir hagsmunum ættingja sinna.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 6.4.2008 kl. 07:49
Þetta er alveg hræðilegt, mér er bara illt eftir lesturinn, ég lenti sjálf í því í janúar að vera flutt með sjúkrabíl uppá bráðamóttöku og hef reynt eins og ég best get að gleyma þeim degi. Við lesturinn á færslunni þinni rifjaðist allt upp og ég er vægast sagt í sjokki yfir þinni reynslu og minni eigin. Ég er ennþá í dagsstatus inná spítala og fyrir stuttu síðan spurði ég hátt og snjallt yfir allt og alla hvort það væri ekki til einhver umboðs/talsmaður sjúklinga, starfsfólkið talar ekki sama tungumál og ég og ég þarf túlk, daginn eftir ákvað læknirinn að senda mig í höfuðmyndatöku ....
Ég á svo erfitt með að skrifa um þetta, fer bara öll að skjálfa ...
Það eiga ekki allir sterka aðstandendur til að berjast fyrir sig.
Vona svo sannarlega að þú fáir mikla aðstoð heim til þín því að þú þarft hana, engin spurning! Þú ert með símanúmerið mitt og þú mátt hringja hvenær sem er ef það er eitthvað sem ég gæti gert fyrir þig!
Maddý (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 09:53
smá viðbót ...
Ég var á fyrirlestri um daginn þar sem talaði læknir, hann er yfirlæknir á ákveðnu sviði, hann er líka formaður í sínu sérgreinarfélagi ..... hann hefur mikið þurft að eltast við heilbrigðisráðherra sem virðist ekki hafa mikinn tíma og þegar næst í hann þá er hann alltaf svo reiður ..... þetta fannst mér merkilegt að heyra ....!!!!
Maddý (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 10:01
Það er grafalvarlegt mál og segir sína sögu, ef fólk þarf áfallahjálp eftir að fara í gegnum kerfið á LSH. Sjúklingar þurfa öflugan talsmann og aðstandendur verða að fylgja honum eftir, líkt og forledrar gera á barnadeildum.
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 6.4.2008 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.